Ég er nú yfirleitt mjög opinn fyrir öllum tækninýjungum og þessháttar hlutum. En mikið lifandi skelfing er þetta DVD dæmi farið að fara í mínar fínustu. Þegar að þessi tækni hóf innreið sína var maður bara ágætlega sáttur og ég verslaði nokkra gullmola á DVD en ég hef aldrei dottið inn í þennan pakka að þurfa að kaupa allar mögulegar og ómögulegar myndir á DVD bara svona til að eiga heima í hillunni. Enda svo sem ekkert fanatískur kvikmyndaáhugamaður þótt ég sé yfirleitt opinn fyrir því að kíkja á góða mynd. Gæðin úr imbakassanum eru miklu betri á DVD-inu heldur en gamla VHS-ið, ég veit það en það er aðallega úr hverju tæknin er gerð sem fer svona í mig.
Heima hjá mér er það þannig að börnunum finnst spennandi að gera ýmislegt sjálf, t.d. að setja videóspólu í tækið og DVD-ið er þar engin undantekning. Vandamálið er það að sá sem hannaði geisladiskinn átti engin börn, staðreynd sem ég ætla að halda fram því börn og geisladiskar eiga ENGA samleið. Þegar Ísak Máni var lítill gat hann hnoðað Bubbi byggir videóspólunni í tækið alveg einn, þótt hann missti spóluna einu sinni í gólfið í leiðinni þá skipti það engu máli, alltaf hélt Bubbi áfram að lenda í sömu ævintýrum á skjánum. Sami heiðurssmiður í DVD formi í höndum Loga Snæs er ekki að eiga eins langa lífdaga þótt Logi Snær sé nú ekkert harðhentari en Ísak Máni var á sínum tíma. Endalaus barnagrátur þegar Bubbi höktir alltaf á sömu stöðunum, hvernig á maður að skilja þetta þegar maður er bara 2ja ára? Nei takk, ég held ég haldi í þessi gömlu VHS barnamyndbönd á meðan ég hef einhvern kost á því. Og svo þegar Star Wars gullið mitt er farið að hökta, þá er mér öllum lokið.
fimmtudagur, desember 21, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Bara að skella disknum undir vatnsbununa í eldhúsvaskinum og þurrka svo með viskustykki og pússa þar til þú speglast í disknum. Þetta hefur virkað hingað til með Bjarnaból og Söngvaborg...
Skrifa ummæli