Við Sigga vorum að koma frá Akureyri í dag. Ég hafði unnið gjafapakka á síðustu árshátið N&O sem innihélt flug norður og til baka, eina nótt á Hótel KEA og út að borða á Greifanum. Vitaskuld fyrir tvo. Þetta var búið að liggja inn í skáp í einhvern tíma en svo þegar við sáum að þetta var að renna út á dagsetningu ákváðum við bara að drífa okkur af stað. Rugl að láta þetta bara fuðra upp.
Ég hélt reyndar að þetta væri að renna okkur úr greipum því þegar ég hringdi í hótelið í byrjun janúar þá var mér sagt að hótelið væri lokað vegna framkvæmda en stefnt væri að opna það í lok janúar. Gildistími á gjafabréfinu á fluginu var til 9. febrúar þannig að mér leist ekki alveg nógu vel á blikuna. Ég hringdi því aftur núna um miðjan janúar og þá fékk ég þau svör að hótelið ætti að opna föstudaginn 26., sem var hið besta mál því við höfðum sett stefnuna á laugardaginn 27. Ég var því fullvissaður um að allir iðnaðarmenn og þessháttar yrðu farnir þá.
Ég hafði reyndar verið hálfsluppulegur á föstudeginu og svaf illa aðfaranótt laugardagsins, í svitabaði, aumur í hálsinum og dreymdi bara Pot núðlur af einhverjum ástæðum sem mér eru ekki kunnar. Maður var því frekar myglaður um morguninn og ljóst að kappinn var kominn með hálsbólgu. En það þýddi ekkert að væla yfir því, bara að herða sig upp og drífa sig af stað.
Drengirnir fóru til ömmu og afa í Mosó en við áttum flug norður í hádeginu. Byrjuðum að tjékka okkur inn og svoleiðis, ekki nokkkurn iðnaðarmann að sjá en maður fékk á tilfinninguna að það væri fámennt en góðmennt af gestum þarna. Enda við ekki á ferð á háannatíma í þessum bransa. Tókum svo röltið í miðbænum og dunduðum okkur þangað til handboltaleikurinn Ísland - Slóvenía byrjaði. Eftir ánægjulega sigur í Þýskaland fórum við á Greifann. Það var lítið annað að gera en að panta sér það dýrasta í kofanum svo grillaðar nautalundir urðu fyrir valinu. Þær stóðu alveg undir nafni, frábær máltíð. Ekki skemmdi eftirrétturinn fyrir, volg súkkulaðikaka með ís og rjóma, Sigga hélt sér við ísinn. Sökum eymsla í hálsinum var maður rosalega pen, tuggði vel og lengi og borðaði hægt, sem á vissan hátt var mjög fínt. Þetta var eins og svo margt annað í lífinu, gott og vont bæði í senn.
Á þessum tímapunkti var ég orðinn frekar slappur og í litlu ástandi til að kíkja á norðlenska næturlífið. Enda stakk Sigga upp á því þegar við komum aftur upp á hótel að hún myndi skokka niður í eldhús og næla sér í egg og beikon sem hægt væri að matreiða á bakinu á mér. Lá í svitabaði þá nótt í þvílíkri stemmingu.
Áttum svo flug til baka í hádeginu í dag. Í heild alveg sáttur en vitaskuld hefði ég viljað vera aðeins sprækari. Ég skil ekki samt þetta verð á flugi norður á Akureyri, tæplega 40.000 kall fyrir okkur tvö fram og tilbaka. Þetta er náttúrulega bara rán og ekkert skrítið að fólk fórni nokkrum þúsundköllum til viðbótar og fari frekar til Köben eða London. Ég hefði aldrei farið að borga þennan pening. En ekki mitt að kvarta, kallinn með frímiða í þetta skiptið.
sunnudagur, janúar 28, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli