þriðjudagur, janúar 30, 2007

Veikindavæl

Tók þá meðvituðu ákvörðun um að vera heima lasinn í dag, enda lítið vit í öðru. Fann það þegar ég mætti í vinnuna í gær að það voru mistök, rúmið heima hjá mér hefði átt að vera eini staðurinn fyrir mig. Er skárri í dag, þó enn drulluaumur í hálsinum og lystaleysi í sögulegu hámarki. Drattaðist á lappir í morgun og fylgdi hinum fjölskyldumeðlimunum út úr húsi áður en ég tók tvöfalt heljarstökk með þrefaldri skrúfu upp í rúm aftur. Bjóst eiginlega ekki við að sofna neitt en man svo ekkert fyrr en kl 11:37 þegar ég opnaði augun aftur. Spratt fram úr rúminu, með nett samviskubit sem ég veit ekki alveg af hverju var að plaga mig en ég tel mér trú um að þessi svefn hafi verið eitthvað sem ég þurfti. Er svo bara búinn að vera taka því rólega, enda lítil stemming fyrir nokkru öðru.

Það er alltaf gaman að geta verið heima þegar Ísak Máni kemur heim úr skólanum, veit ekki alveg hvað það er, líklega bara það að geta tekið á móti honum. Ekki það að maður sé í einhverjum mössuðum húsfreyjuleik og taki á móti honum með nýbökuð skinkuhorn og heitt kakó.

Ætli maður smelli sér ekki í vinnuna á morgun, ekki nema batinn taki einhverja svakalega U-beygju. Það væri kannski best fyrir alla að maður myndi vera heima einn dag enn og ná þessu úr sér. Eða ekki.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú hefðir nú getað lagað til í íbúðinni meðan þú varst á launum hjá mér við að passa börn.

Ég borga þér að sjálfsögðu eftir taxta barnapía sem er 112 kr m/vsk. á tímann. Svo náttúrulega spilar inní að þú ert ekki með barnapíunámskeið rauða krossins þannig að taxtinn lækkar niður í 74 kr m/vsk. miðað við að þú varst 2 tíma heima þá legg ég 148 kr inná reikninginn þinn. Þakkaðu mér bara fyrir seinna.

Þinn frændi... Þú veist hver. hehehe