þriðjudagur, ágúst 31, 2010

Dagmamman - taka tvö

Þá má kannski segja að hið hefðbundna haustrútína sé að komast í gang. Öll frí að mestu lokið og allir komnir á sína staði ef svo má segja. Ísak Máni kominn í 6. bekk og Logi Snær búinn að færa sig upp um skólastig með tilheyrandi gleði. Daði Steinn er svo farinn úr öryggisneti heimilisins og kominn til dagmömmu. Sömu dagmömmu og Logi Snær var hjá. Aðlögunin gekk nokkuð vel en sá pakki lenti á mér. Reyndi að vera aðeins ábyrgari núna heldur en í síðustu aðlögun. Hún átti að lenda á mér en það varð eitthvað hálfendasleppt. Sagan af því er nokkuð góð þótt ég muni hana bara svona í grófum dráttum.

Við eru stödd á því herrans ári 2005, febrúar ef ég man rétt. Ég var búinn að fá grænt ljós á frí í vinnunni vegna dagmömmuaðlöguninnar hjá Loga Snæ sem var að skríða í eins árs aldur. Svo gerðist það að Tommi frændi hafði samband við mig en rómantíska, vikulanga, ferðin hans og Rúnu til London/Manchester var í uppnámi því Rúna komst ekki sökum veikinda. Ekki var hægt að fá allan pakkann endurgreiddan og því vantaði hann nýjan ferðafélaga. Mig minnir að ég hafi þurft að fá meira frí hjá vinnuveitandanum og að heimkoman hefði verið í miðri aðlögun, þ.e. Sigga þurfti að byrja aðlögunina og svo átti ég að taka við. Ég gleymi aldrei svipnum á yfirmanninum þegar ég útskýrði þessa brjáluðu hugmynd fyrir honum: „Dabbi minn, ef þú færð konuna þína til að samþykkja þetta þá ætla ég ekki að standa í vegi fyrir þér.“

Það varð úr að konan samþykkti það, að hleypa mér í rómatíska vikuferð til Bretlands með Tomma, á meðan ég átti í raun að vera að gera eitthvað allt annað. Helv... fínn túr, þvældumst um London og Manchester, fórum m.a. á Manchester - Portsmouth, tókum einhvern safnapakka á þetta og gistum á ansi hreint athyglisverðum hótelholum. Sögunni var þó hvergi nærri lokið þótt ferðinni hafi lokið. Við erum að tala um að í Englandi um mánaðarmótin febrúar/mars er ekkert endilega hlýtt úti og menn ekkert með föðurlandið með sér svona í útlöndum. Það fór líka svo að þegar heim var komið varð karlinn bara fárveikur. Mætti til dagmömmunnar, rétt nýlentur, ásamt Siggu til að sækja drenginn. Hafði aldrei talað við konuna en ég var alveg eins og rotta þarna á forstofugólfinu, illa sofinn með bullandi hita í svitabaði og kom varla upp orði. Fór heim og lá veikur, og þá meina ég veikur, í heila viku. Missti m.a. af árshátíðinni hjá vinnunni það árið.

Ekki öll vitleysan eins, en samt gaman að þessu.

miðvikudagur, ágúst 25, 2010

Í 1. bekk

Þá kom loksins að því að Logi Snær byrjaði í skólanum, fyrsti dagurinn í dag. Hann fór reyndar í viðtal til kennarans á mánudaginn en í dag byrjaði alvaran. Allt gekk þetta vel en það var ekki laust við það að það hafi verið þreyttur drengur sem lagðist á koddann í kvöld.

Eitthvað skildi hann þó ekki vesenið í pabba sínum í morgun sem þurfti endilega vera að þvo honum í framan og laga til hárið hans. Drengurinn lét þetta gullkorn flakka við það tilefni:
„Pabbi, ég þarf ekki að vera fínn á fyrsta skóladaginn, ég þarf bara að vera ég.“

Þetta er náttúrulega alveg priceless.

þriðjudagur, ágúst 24, 2010

Ekki nýr af nálinni

Ég er búinn að vera sprikla með 30+ ára liði Fylkis í sumar, svokallað Old-boys. Árangur liðsins mjög slappur, fyrsti sigurinn kom í kvöld í sjöundu tilraun sumarsins, en það hefur samt verið ágætisgleði í þessu og það skiptir víst ekki minna máli.

Svo var það um daginn að það var úrvalsdeildarleikur í beinni útsendingu í sjónvarpinu og Fylkir var að spila. Ég var inní eldhúsi þegar Logi Snær kemur úr stofunni.

Logi Snær: „Pabbi, liðið sem þú spilar með er að spila núna í sjónvarpinu, bara núna í alvörunni.“

Pabbinn: „Ef Fylkir er að spila núna og ég spila með Fylki, af hverju er ég þá ekki að spila?“

Logi Snær (hlær dátt): „Pabbi, þú ert ekki í Pepsi-deildinni, þú spilar bara með gömlu körlunum. Þetta eru nýju karlarnir.“

mánudagur, ágúst 23, 2010

Grænir fingur


Ísak Máni var með skika í skólagörðunum þetta sumarið, nokkuð sem við höfðum ekki reynt áður. Þessu fylgdi nokkur vinna, m.a. að vökva, reyta arfa og önnur tilfallandi verkefni. Það verður að viðurkennast að ég kom nú ekki mikið nálægt þessu, móðir hans var öflugari í að aðstoða drenginn enda þekki ég varla mun á einhverjum dýrindis kryddjurtum og hefðbundnum arfa. En ég þurfti að fara með honum til að ná í megnið af uppskerunni í síðustu viku, að undanskildum kartöflunum sem fyrrnefnd móðir var búin að redda. Mér til mikillar gleði fékk Ísak Máni góða aðstoð frá starfsmanni garðanna og því var ekki mikil mold sem endaði undir nöglunum á mér. Þegar heim var komið sá Ísak Máni um að skola uppskeruna, sem var nokkuð góð held ég bara.

Salatblað, einhver?

mánudagur, ágúst 16, 2010

Dagur 1 með pabba...

...því mamma er farin að vinna. Brauð og jógúrt er stórlega ofmetið kaffitíma-nasl. Spurning um að vera búinn að redda rjóma með kökunni á morgun.

sunnudagur, ágúst 15, 2010

Í ÍR-treyjunni í fyrsta sinn

Þá getur maður sagt að maður sé formlega farinn að endurupplifa sig. Logi Snær tók þátt í sínu fyrsta alvöru fótboltamóti í dag. 8. flokkur ÍR tók þátt í Atlantis-mótinu á vegum Aftureldingar en spilað var á Tungubökkum. Veðurspáin var ekki alveg nógu þurr þannig að það setti smá hnút í fullorðna fólkið í fjölskyldunni.


Mæting 08:50 í morgun sem small ótrúlega vel við dagskrána hans Ísaks Mána en hann var að fara í síðasta daginn í Úrvalsbúðir KKÍ, upp í Grafarvogi. Tveir leikir í röð hjá Loga Snæ í þokkalegu veðri og svo kom tæplega tveggja tíma bið í síðari tvo leikina. Sá tími nýttist í að skjótast eftir Ísaki og taka sér smá pásu upp í Bröttuhlíð. Veðrið var orðið heldur verra í síðari hlutanum en með réttum útbúnaði hafðist þetta allt saman.


Logi Snær var helsáttur enda fyrsta medalían í höfn, nokkuð sem hann er búinn að tala lengi um. Sigurhlutfallið var ekkert sérstakt en strákurinn setti þrjú mörk, eitt þeirra má sjá -HÉR- og skemmti sér vel, um það snýst þetta fyrst og fremst.

laugardagur, ágúst 14, 2010

Vinstri eða hægri, nema hvorttveggja sé

Er nýjasta guttinn örvhentur eða rétthentur, örvfættur eða réttfættur? Þetta eru pælingar sem koma upp á yfirborðið öðru hvoru hérna á heimilinu og var meira að segja efni í smá pistil -HÉRNA- í vor. Síðan þá hefur maður farið úr vinstri yfir til hægri og aftur til baka en er ekki miklu nær.

Strákurinn var í smástuði í dag og þá greip karlinn hreyfimyndavélina. Örvfættur eða réttfættur?

Myndbandið er -HÉRNA-

föstudagur, ágúst 13, 2010

mánudagur, ágúst 09, 2010

Olísmótið 2010

Selfoss var það um helgina sem var nú að líða. Ísak Máni var að keppa á Olísmótinu svokallaða og undirritaður tók að sér eitt af fararstjórarhlutverkunum, ekki hið fyrsta og væntanlega ekki hið síðasta. Reyndar má segja að maður hafi vaknað við vondan draum þegar þeir sem áttu drengi á eldra árinu fóru að ræða um það að þetta væri eiginlega síðasta mótið þeirra af þessu tagi. En þeir sem eru á eldra árinu fara upp í 4. flokk í haust og þá tekur við alvara lífsins, 11 manna bolti og engin svona smámót. Ísak Máni er á yngra árinu þannig að það er copy/paste hjá okkur að ári, Akureyri og svo væntanlega þetta mót líka. En allt líður þetta hraðar en maður gerir sér oft grein fyrir.

Fjölskyldan hélt af stað á föstudagsmorgni en planið var að Sigga yrði þarna með tvo yngstu drengina á föstudeginum en kæmi svo bara til að sjá leikina á sunnudeginum, tæki laugardaginn bara heima. Eftir að hyggja var það með betri ákvörðunum sem hægt var að taka. Þvílíku djö... úrhelli hef ég sjaldan lent í eins og á laugardeginum, drengirnir í hvítu ÍR treyjunum litu frekar út eins og keppendur í blautbolskeppni frekar en nokkru öðru og lyktin í salnum sem við höfðum til afnota var orðin frekar sveitt og úldin þegar leið á. Ég var nú ekki að sveifla myndavélinni við þessar aðstæður en stal hérna tveimur myndum af netinu sem fanga kannski aðeins stemminguna.




Fótboltalega séð gekk vel, eftir stutt hraðmót á föstudeginum var liðunum raðað í riðla. Ísak og co unnu fyrstu 4 leikina og áttu kappi við ÍBV í síðasta leik í hreinum úrslitaleik á sunnudeginum um sigurinn í riðlunum, gullmedalíu, bikar og síðast en ekki síst heiðurinn. Í stuttu máli tapaðist úrslitaleikurinn 2:0 og það voru þung skref hjá drengjunum af velli, sérstaklega í ljósi þess að það voru eingöngu verðlaun fyrir fyrsta sætið, engin silfurmedalía í boði. Fyrirliðinn var því heldur niðurlútur enda ekki á hverjum degi sem menn sjá glitta í bikar, tala nú ekki um akkúrat þegar menn bera fyrirliðabandið.


En flottur árangur enga síður. Flott veður á sunnudeginum og aðeins hægt að vera með myndavélina. Það hefði verið gaman að sjá þessa hörku aukaspyrnu hjá drengnum í netinu en markvörðurinn náði að verja. Menn skilja samt sáttir í leikslok og þannig á það að vera.