laugardagur, desember 30, 2017

Jólin 2017

Fjórðu jólin í Kögurselinu gengu sinn vanagang myndi ég segja.  Íþróttahús Breiðholtsskóla var heimsótt á aðfangadag, reyndar bara 3 af 4 karlmönnum fjölskyldunnar þar sem Ísak Máni hafði tognað á ökkla á meistaraflokksæfingu hjá ÍR tveimur dögum áður og lá heima.  Við komust að því að íþróttahúsið, eða a.m.k. salurinn sjálfur var lítið sem ekkert hitaður og því var skítakuldi á meðan við styttum okkur stundir fram að hápunkti aðfangadags.  Hápuntur þessarar íþróttastundar verður þó að teljast þegar við vorum í fótbolta með blakbolta og Loga Snæ tókst að sparka blöðrunni upp í höndina á mér.  Það sem gerði þennan annars saklausa atburð að einhverjum hápunkti er að í asnaskap mínum hafði ég ákveðið að spila hluta þessa leiks með gemsann minn í hendinni.  Þeirri sömu og Loga tókst að skjóta í.  Niðurstaða af þessum "hitting" var að ég missti símann úr hendinni og hann sveif í fallegum boga aftur fyrir mig og lenti í netinu á markinu, með viðkomu held ég í einhverju af burðarvirki marksins.  Við fyrstu skoðun var skjárinn alveg óbrotinn, sem mér fannst alveg ótrúlegt, en þegar ég kveikti á honum var skaðinn ljós.  Hluti skjásins var svartur og þegar leið á daginn smitaðst það út frá sér og tæplega sólarhring síðar var hann orðinn alveg svartur.

En við létum það nú ekki skemma stemminguna, maturinn var fínn og pakkaúthlutunin sömuleiðis.  Eins og undanfarin ár eru flíkur í aðalhlutverki en eitthvað af bókum kom þó líka úr pökkunum.  Helsti skellurinn var að körfuboltaskórnir sem við pöntuðum handa Ísaki Mána fyrir einhverju lifandislöngu frá Ástralíu voru enn ekki komnir.  Hann þurfti því að láta sér nægja útprentaða litmynd af þeim en ekki að hann hefði komist í þá þarna á aðfangardagskvöldi, a.m.k. ekki þann hægri.

Kvöldið endaði svo með kynningu á páskafríinu okkar en stefnan hefur verið tekin á Flórída í mars á næsta ári.  Ísak Máni hafði aðeins haft veður af þessu, enda ekki hægt að panta svona ferð nema að bera tímasetninguna undir hann, en önnur börn í fjölskyldunni vissu ekki neitt.  Ég var búinn að henda í eitthvað myndband sem ég var búinn að eyða ófáum klukkutímum undanfarnar vikur í að púsla saman, sambland af dóti tekið af YouTube og svo eitthvað sem ég var búinn að taka upp sjálfur en í þessu myndbandi tilkynnti ég s.s. að þessi ferð væri á dagskrá.  Gaman að því, og ég var nokkuð ánægður með niðurstöðuna, miðað við að þegar ég hóf þetta verkefni þá kunni ég ekkert á forritið en tókst að klóra mig framúr þessu.
Við ætlum að nota þessa ferð sem sambland af fermingar- og menntaskólaútskriftarfögnuði.   Ég fattaði svo reyndar að sá yngsti mun svo eiga 9 ára afmæli í þessari ferð.  Meira um þessa ferð síðar.

Prinsarnir á aðfangadag