laugardagur, apríl 30, 2011

KFC mótið 2011

Ég hefði getað sagt mér það að það væri ekki nóg að stilla vekjaraklukkuna á 07:00 í morgun í ljósi þess að klukkan 07:40 þurfti ég að vera mættur með tvo drengi, annan 7 ára og hinn 2ja ára á Víkingsvöllinn. Mér fannst bara glæpsamlegt að stilla vekjaraklukkuna á 06:eitthvað á laugardagsmorgni svo ég lét 07:00 duga. Ég verð svo að viðurkenna að ég dró andann djúpt inn þegar ég kíkti út um gluggann kl. 07:02, til að sjá hvort rigningarspáin frá því í gær væri að standast, en sá bara hvítt. Það var ekki að annað en að rífa liðið á lappir, reyndi samt að fara fínt í það svo menn yrðu ekki grömpí fram eftir morgni. Aftur fékk ég staðfestingu á því að 07:00 var alveg í síðasta lagi þegar ég leit á klukkuna kl. 07:36 og enginn kominn í útifötin. Þá var bara sett í fimmta gír og innan skekkjumarka náðist þetta.


Málið var að Logi Snær var að keppa á KFC móti Víkings og þar sem mamman og Ísak Máni fóru í sveitasæluna þessa helgina þá þurftum við hinir að mynda teymi sem færi á Víkingsvöllinn. Þessi ókristilega tímasetning var einvörðungu vegna þess að fyrsti leikur hjá drengnum hófst kl 08:00. Ég hefði alveg getað sé þetta fyrir mér að maður væri þarna chillandi á sumarjakkanum með sólgleraugu og Daði Steinn, álíka léttklæddur, skoppandi þarna í kring í sumarfíling. En það var víst eitthvað annað. Léttvæg snjókoma allan tímann sem varð stundum að hálfgerðri slyddu, allir kappklæddir í hlífarföt og stemmingin svona la-la. Logi Snær byrjaði mótið af miklum krafti en þegar tærnar fóru að kólna kárnaði gamanið. Fór það svo að það þurfti að mixa nýja sokka því þótt kit-búnaðurinn sem tekin var með á völlinn innihélt m.a. bleyjur, bossatuskur, snuddu, myndavél, banana, vínber, abt-mjólk, skyr, kókómjólk og hin ýmsu aukaútiföt þá gleymdust aukafótboltasokkar þegar sett var í fimmta gírinn þarna um morguninn. Hann spilaði því síðasta leikinn í ullarsokkum af Daða og sokkum af pabba sínum sem hafði farið í tvö pör. Menn voru því þokkalegir þegar einum KFC bita var slátrað ásamt nokkrum frönskum með medalíuna um hálsinn. En mikið var gott að skríða inn um dyrnar heima hjá sér þarna skömmu fyrir hádegi.


Spilalega gekk þetta fínt, tveir sigrar og tvö jafntefli og eitt mark hjá Loga Snæ. Hann var meira á sínum eigin vallarhelming því samkvæmt honum þá var þjálfarinn svo ánægður með hann í vörninni í fyrsta leiknum að hann var látinn spila megnið af mótinu þar.

sunnudagur, apríl 24, 2011

Gleðilega páska

Það sem er búið að innbyrða í dag er: Cheerios, páskaegg frá Nóa Síríus ásamt nammiinnihaldi, hamborgarahryggur ásamt meðlæti og svo enduðum við þetta á einum frostpinna. Enda finnur maður fyrir því að magastarfsemin er ekki alveg eins og hún á að vera ásamt því að það er einhver slikjuhúð komin á tennurnar.


Annars var þetta hefðbundið, þegar búið var að finna eggin var sest að snæðingi. Logi Snær borðar ekki súkkulaði en þurfti vitaskuld að fá egg, aðrir í fjölskyldunni nutu góðs af því súkkulaðiátleysi. Sérstaklega þeir sem leið eitthvað illa yfir stærðinni á græjunni sinni. Daði Steinn var svo frekar rólegri en ég hafði búist við en byrjaði af krafti og réðst á eggið.




Ég er ekki alveg að gúddera þetta veður samt. Drösluðum mannskapnum út í morgun svona til að menn yrðu ekki alveg heiladauðir inni í súkkulaðimettaða loftinu. Mér leist ekkert á stöðuna þegar hagélið hamraðist í andlitið á þeim yngsta honum til mikillar skelfingar. Á ekki að vera fjórði dagur sumars eða eitthvað álíka? Þetta er bara rugl.

miðvikudagur, apríl 20, 2011

Misstór númer

Ég kíkti í gær upp í Garðabæ á 4. leikinn í úrslitaseríunni hjá KR og Stjörnunni í körfunni. Logi Snær og Ísak Máni komu með mér og svo voru Villi og Rúnar Atli sömuleiðis á svæðinu. KR vann og þar með Íslandsmeistaratitilinn á sanngjarnan hátt enda með talsvert sterkara lið en Stjarnan. Ekkert við því að segja.

Þessu ótengt á flestan hátt en samt ekki alveg. Í starfi mínu er ég mikið í ferðinni í umferðinni og sé marga bíla, einhverjir af þeim eru með einkanúmer. Mér finnst meirihluti af þeim sem ég hef séð húmorslaus og hreinlega leiðinleg. Ég skal reyndar viðurkenna að þegar fjöldi stafa sem menn hafa úr að moða er bara 2-6 þá er búið að setja talsverðar skorður á sniðugheitin. Tilfinningabröltið var svolítið ríkjandi þarna 1996 þegar þetta byrjaði, t.d. voru gömlu R-númerin vinsæl. Þau sjást enn, þó aðallega á Subaru Foresterum og svipuðum tækjum sem eknir eru af eldri mönnum með hatta. Svo er þetta eiginnafnadæmi sem persónulega hefur aldrei skapað mér holdris, JÚLLI og BEGGA eru ekkert að gera neitt fyrir mig.

Mér hefur líka þótt hálfskrítið að sjá einkanúmer á druslum sem varla hanga saman nema bara af því að það er svo gott í ryðinu á þeim. Bílar sem hæplega væri hægt að selja fyrir andvirði einkanúmersins ef út í það væri farið. Mér finnst samt óþarfi að tengja einkanúmerin við eitthvað snobb en bílinn verður að vera svona í yfirmeðallagi útlítandi. Mitt mat.

Þá fór ég að hugsa um bílana sem bera íþróttafélagsnöfnin sem er annar kapítuli út af fyrir sig. Maður myndi varla tengja klúbbinn sinn við Opel Astra ´96 módelið með beygluðum stuðara og skrúfjárni í innanverðum glugganum sem hefur það verkefni að halda rúðunni upp. Varla. En svo er spurning hvort þeir bílar sem hafa þessi íþróttanúmer séu þverskurður af þeim viðhorfum sem við höfum til félaganna og tilheyrandi bæjarfélaga/hverfa? Þrátt fyrir að mér finnst að UMFG ætti helst heima á dökkblárri Subaru bifreið við Grundargötu 68 í Grundarfirði þá skilst mér að það bílnúmer sé vísun í minni klúbbinn með þessu sama nafni í Grindavík. Hef nú séð hann og það er einhver sæmilegasti jeppi, kannski ekki alveg kvótakóngurinn alla leið en alveg vel sæmilegur. VALUR er ekki alveg marktækt dæmi því ég man eftir því að það var eitthvað strákgrey frá Akranesi sem fékk sér þetta númer og féll inn í eiginnafnapakkann. Hann var ekki mikið íþróttasinnaður og ég held að hann hafi ekki alveg fattað þetta strax að sennilega væri ekki sterkur leikur að bera þetta númer upp á Skaga. ÍR númerið er á nýlegum bláum Skoda Octavia station og svo sá ég FYLKIR um daginn, svartur Hyundai Santa Fe, ekki alveg nýjasta sort en allt í lagi. Ég man nú ekki eftir fleirum í augnablikinu nema...

...KR. Sá hann beygja inn af Miklubraut inn á Hofsvallagötu um daginn. Kolsvartur Range Rover af nýrri gerðinni, a-la 2007.

Það er eitthvað við þennan klúbb sem ég er ekki alveg að kaupa en hvað veit ég? Ég er bara í Skoda station hverfinu.