miðvikudagur, janúar 31, 2007

Hreyfingarskýrsla janúarmánaðar

Eitthvað fékk þessi mánuður snubbóttann endi hvað limaburðahreyfingar mér til heilsubótar varðar. Samkvæmt opinberum tölum eru 31 dagur í janúar og af þeim stundaði ég annað hvort ræktina eða fótbolta í 15 af þeim dögum. Þetta er annar hvor dagur sem hefur farið í eitthvað sprikl og ætti það að teljast alveg frambærilegt. Mánuðurinn fór reyndar af stað með þvílíku starti að annað eins hefur varla sést. En tvær helgarferðir (Köben & Akureyri) ásamt einu stykki af hálsbólgu gerðu óneitanlega sitt til að draga meðaltalið niður.

Hananú, febrúar handan hornsins og eitt er ljóst að hann kemur ekki til með að byrja vel hvað þetta varðar því heilsan er ekki alveg að gera sig. En ég verð að ná a.m.k. 50% árangri það er á hreinu. Helst eitthvað rúmlega.

KOMA SVO...

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Svo sárt

Heyrði í útvarpinu áðan viðtal við einhvern læknir sem sagði að það gæti verið talsvert varhugavert fyrir hjartveika að horfa á og lifa sig inn í spennandi handboltaleiki eins og hafa verið í gangi síðastliðnu daga. Þótt maður átti von á spennu í dag í 8-liða úrslitunum á móti Dönum þá var maður ekki tilbúinn í þetta. Ég vona bara að hinir hjartveiku hafi verið að horfa á eitthvað allt annað.

Hvernig er hægt að leggja þetta á litla eylandið hérna norður í ballarhafi að falla út með þessum hætti fyrir gömlu kúgurunum, sem hafa alltaf litið á okkur sem auma sveitadurga með hor? 41-42 eftir framlengingu! Þeir skjóta sláinn inn, við stönginn út! Þetta er rétt sem Snorri Steinn sagði eftir leikinn, þrátt fyrir sín 15 mörk út 18 tilraunum þá sá hann bara ekkert jákvætt við þennan leik. Þú tapar í 8-liða úrslitum á HM með sigurmarki andstæðinganna á síðustu andartökum framlengingarinnar, þetta verður ekki mikið verra. Og fyrir helv... Dönum í þokkabót.

En við eigum þó þetta helv... land þeirra.

Veikindavæl

Tók þá meðvituðu ákvörðun um að vera heima lasinn í dag, enda lítið vit í öðru. Fann það þegar ég mætti í vinnuna í gær að það voru mistök, rúmið heima hjá mér hefði átt að vera eini staðurinn fyrir mig. Er skárri í dag, þó enn drulluaumur í hálsinum og lystaleysi í sögulegu hámarki. Drattaðist á lappir í morgun og fylgdi hinum fjölskyldumeðlimunum út úr húsi áður en ég tók tvöfalt heljarstökk með þrefaldri skrúfu upp í rúm aftur. Bjóst eiginlega ekki við að sofna neitt en man svo ekkert fyrr en kl 11:37 þegar ég opnaði augun aftur. Spratt fram úr rúminu, með nett samviskubit sem ég veit ekki alveg af hverju var að plaga mig en ég tel mér trú um að þessi svefn hafi verið eitthvað sem ég þurfti. Er svo bara búinn að vera taka því rólega, enda lítil stemming fyrir nokkru öðru.

Það er alltaf gaman að geta verið heima þegar Ísak Máni kemur heim úr skólanum, veit ekki alveg hvað það er, líklega bara það að geta tekið á móti honum. Ekki það að maður sé í einhverjum mössuðum húsfreyjuleik og taki á móti honum með nýbökuð skinkuhorn og heitt kakó.

Ætli maður smelli sér ekki í vinnuna á morgun, ekki nema batinn taki einhverja svakalega U-beygju. Það væri kannski best fyrir alla að maður myndi vera heima einn dag enn og ná þessu úr sér. Eða ekki.

sunnudagur, janúar 28, 2007

Höfuðstaður Norðurlands

Við Sigga vorum að koma frá Akureyri í dag. Ég hafði unnið gjafapakka á síðustu árshátið N&O sem innihélt flug norður og til baka, eina nótt á Hótel KEA og út að borða á Greifanum. Vitaskuld fyrir tvo. Þetta var búið að liggja inn í skáp í einhvern tíma en svo þegar við sáum að þetta var að renna út á dagsetningu ákváðum við bara að drífa okkur af stað. Rugl að láta þetta bara fuðra upp.

Ég hélt reyndar að þetta væri að renna okkur úr greipum því þegar ég hringdi í hótelið í byrjun janúar þá var mér sagt að hótelið væri lokað vegna framkvæmda en stefnt væri að opna það í lok janúar. Gildistími á gjafabréfinu á fluginu var til 9. febrúar þannig að mér leist ekki alveg nógu vel á blikuna. Ég hringdi því aftur núna um miðjan janúar og þá fékk ég þau svör að hótelið ætti að opna föstudaginn 26., sem var hið besta mál því við höfðum sett stefnuna á laugardaginn 27. Ég var því fullvissaður um að allir iðnaðarmenn og þessháttar yrðu farnir þá.

Ég hafði reyndar verið hálfsluppulegur á föstudeginu og svaf illa aðfaranótt laugardagsins, í svitabaði, aumur í hálsinum og dreymdi bara Pot núðlur af einhverjum ástæðum sem mér eru ekki kunnar. Maður var því frekar myglaður um morguninn og ljóst að kappinn var kominn með hálsbólgu. En það þýddi ekkert að væla yfir því, bara að herða sig upp og drífa sig af stað.

Drengirnir fóru til ömmu og afa í Mosó en við áttum flug norður í hádeginu. Byrjuðum að tjékka okkur inn og svoleiðis, ekki nokkkurn iðnaðarmann að sjá en maður fékk á tilfinninguna að það væri fámennt en góðmennt af gestum þarna. Enda við ekki á ferð á háannatíma í þessum bransa. Tókum svo röltið í miðbænum og dunduðum okkur þangað til handboltaleikurinn Ísland - Slóvenía byrjaði. Eftir ánægjulega sigur í Þýskaland fórum við á Greifann. Það var lítið annað að gera en að panta sér það dýrasta í kofanum svo grillaðar nautalundir urðu fyrir valinu. Þær stóðu alveg undir nafni, frábær máltíð. Ekki skemmdi eftirrétturinn fyrir, volg súkkulaðikaka með ís og rjóma, Sigga hélt sér við ísinn. Sökum eymsla í hálsinum var maður rosalega pen, tuggði vel og lengi og borðaði hægt, sem á vissan hátt var mjög fínt. Þetta var eins og svo margt annað í lífinu, gott og vont bæði í senn.

Á þessum tímapunkti var ég orðinn frekar slappur og í litlu ástandi til að kíkja á norðlenska næturlífið. Enda stakk Sigga upp á því þegar við komum aftur upp á hótel að hún myndi skokka niður í eldhús og næla sér í egg og beikon sem hægt væri að matreiða á bakinu á mér. Lá í svitabaði þá nótt í þvílíkri stemmingu.

Áttum svo flug til baka í hádeginu í dag. Í heild alveg sáttur en vitaskuld hefði ég viljað vera aðeins sprækari. Ég skil ekki samt þetta verð á flugi norður á Akureyri, tæplega 40.000 kall fyrir okkur tvö fram og tilbaka. Þetta er náttúrulega bara rán og ekkert skrítið að fólk fórni nokkrum þúsundköllum til viðbótar og fari frekar til Köben eða London. Ég hefði aldrei farið að borga þennan pening. En ekki mitt að kvarta, kallinn með frímiða í þetta skiptið.

föstudagur, janúar 26, 2007

Við Becks

David Beckham hefur verið talsvert í fréttunum síðustu vikur sökum félagaskipti sín frá Real Madrid yfir í LA Galaxy og sitt sýnist hverjum. Hafa hatursmenn hans verið ófeimnir að drulla yfir drenginn en hann hefur minn stuðning. Ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir það sem hann gerði fyrir Manchester United á sínum tíma og mér gæti ekki staðið meira á sama um ástæðunni fyrir þessum félagsskiptum. Vonandi nær hann eitthvað að vekja áhuga á fótbolta í Bandaríkjunum.

Það er nú bara þannig að við félagarnir eigum nokkuð sameiginlegt í lífinu:

-Við berum vitaskuld sama skírnarnafn.

-Við erum báðir fæddir í maí 1975.

-Frumburður okkar beggja voru drengir, fæddir 1999.

-So far eigum við báðir bara drengi.

-Við eigum báðir drengi sem eru fæddir 20. febrúar.

Reyndar verður að teljast að himinn og haf skilji okkur að í því sem merkilegra telst, þ.e. knattspyrnugeta og bankabókainnistæða en hver þarf það. Ég spila bara í minni utandeild á Íslandi og reyni bara reglulega að trappa niður yfirdráttinn.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Hvetjandi á brettinu

Maður er rosalega ánægður með handboltalandsliðið um þessar mundir eins og megnið af þjóðinni. Eins og maður var fúll eftir tapið á móti Úkraínu þá var maður í skýjunum eftir sigurinn á móti Frökkum. Fyrsti leikurinn í milliriðlinum í dag kl 16:30 við Túnis og það var tekinn ákvörðun um að drífa sig strax eftir vinnu niður í rækt og gerð tilraun til að horfa á leikinn af hlaupabrettinu. Var búinn að gera allt klárt, nýju 17.000 kr. íþróttaskórnir voru gerðir klárir í töskunni, sem kostuðu ekki "nema" 9.500 á útsölunni. Þetta eru fínustu Asics skór en svo skemmtilega vill til að konan á dömuútgáfuna af þessum skóm en hún reyndar borgaði tæpar 17.000 fyrir sína. Hún myndi segja að þetta væri enn eitt dæmið um naskni mína í fjármálum eins og dæmin hafa sannað síðustu mánuði.

Maður náði með herkjum tæki í ræktinni, margir voru áhugasamir um að slá tvær flugur í einu höggi, horfa á leikinn og léttast í leiðinni. Maður datt alveg inn í leikinn þarna á brettinu, dúndraði heyrnatólunum úr eyrunum í einum fagnaðarlátunum og þegar Guðjón Valur komst í hraðupphlaup og tók snögga færslu til vinstri þá var ég næstum því farinn til vinstri með honum, en það hefði vægast sagt endað illa. Hefði líklega farið beinustu leið og sagt upp kortinu í Hreyfingu ef ég hefði hrunið niður af brettinu þarna í beinni útsendingu.

Meira af sveitakonunni

Bara svona máli mínu til stuðnings hvað síðasta pistil varðaði þá fannst mér réttast að birta hérna færslu af síðunni hennar Jóhönnu. Lifið heil.

Já núna í þessum skrifuðum orðum þá erum við hjónakornin stödd á hótelherbergi við Leicester Square í London. Fyrir utan hótelið okkar er eitthvað voða stórt bíó og þar var einmitt frumsýning í kvöld á myndinni Dreamgirls. Mikið var um að vera í tengslum við þessa frumsýningu sem sagt rauður dregill, fréttamenn myndavélar og allur pakkinn bara, að maður minnist ekki á stjörnurnar sem mættu í fínu fötunum sínum. Jú jú við röltum út til að kikja á herleg heitin og sáum flottar stjörnur vinka okkur eins og td. Kelly Osborne, Beyoncé, Jamie Foxx, Danny Glover, Eddie Murphy, Britney Spears og margar fleiri......

Var ég með myndavél svona til að sanna mál mitt NEEEEEEIIIIIIIIIII !!!!!!!!!!!!!!!!!


Eftirfarandi samtal átti sér stað í Flugstöð Leifs Eiríkssonar föstudaginn 19.janúar

Jóhanna : Elli minn mundiru eftir að taka myndavélina úr bílnum

Elli: Ha nei, átti ég að gera það ?

Jóhanna: Nenniru að skokka eftir henni, við erum nú að fara til London

Elli: Nei eigilega ekki, við erum hvort sem er ekki með hleðslutækið ef á þarf að halda,

Jóhanna: Það er eins gott þá að við sjáum ekki eitthvað magnað

SAMTALI LOKIÐ EN ÓUPPGERT.................. GARG !!!!!!!!!

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Sveitakonan á mölinni

Fékk tvö símtöl í dag frá dreifbýlistúttunni systir minni sem er stödd í menningunni.

Símtal 1:
Hún var að keyra upp í Breiðholti og var orðin villt en samkvæmt viðbrögðum bílstjóranna sem hún var að mæta þá hélt hún að hún væri á vitlausum vegarhelming og væri að keyra á móti umferðinni.

Símtal 2:
Hún var að fara úr Smáralindinni og yfir í Kringluna og vissi ekki í hvaða átt hún átti að fara.

Hvað getur maður sagt?

mánudagur, janúar 15, 2007

Kominn heim frá Köben

Þá er kappinn kominn aftur á klakann eftir vel heppnaða ferð til Köben. Fórum eins og planið var út á föstudeginum og áttum flug rúmlega 14:00. Skítakuldi og skafrenningur þegar haldið var í hann en minn sýndi mikla takta og tók upp á því að fljúga á hausinn í hálkunni nánast við innganginn á flugstöðinni. Hruflað hné og olnbogi en fall er víst fararheill. Stóð svo við allar yfirlýsingar og verslaði mér ipod, silfraðan, 4GB, 18.900 kall og málið dautt. Næsta mál hvað hann varðar er að skoppa til Tomma frænda og versla mér líkamsræktarhylki, nýja tappa í eyrun, bíltengitæki með hleðslu og allt sem nauðsynlegt er til að vera hipp og kúlaður ipoddari.

Hvað um það, flugferðin út gekk vel og allur mannskapurinn smellti sér upp á hótel. Þegar búið var að skoða aðstæður var farið að éta á Hard Rock og smellt í sig ofurelduðum beikonborgara. Eftir var farið á pöbbarölt með tilheyrandi bjórdrykkju og þrammi. Endaði svo upp á hótel í lobbýinu að spila kana og Opalsnafs með því til klukkan 5 um morguninn, ekkert smáklikkaðir þessir Íslendingar! Það var því þokkalega myglaður Wíum sem mætti krumpaður í lobbýið fimm tímum seinna en þar hafði ég mælt mér mót við Ingu til að skiptast á sendingum og hún ætlaði aðeins að rölta með mér niður í bæ sem við og gerðum.

Laugardagurinn fór að mestu leyti í Strikið og nánasta umhverfi. Hópurinn fékk sér svo að éta á einhverjum ægilegum smurbrauðskofa, voða danskt eitthvað. Um kvöldið var svo farið fínt út að borða og nánari skoðun á dönsku næturlífi. Ég var entist nú ekki lengi enda kominn á fertugsaldurinn og þarf minn svefn.

Tékkað út af hótelinu á sunnudeginum og rölt niður í bæ. Allt lokað á Strikinu og hífandi rok. Lítið hægt að gera á meðan menn biðu eftir því að fara út á flugvöll en að hanga á einhverjum knæpum og sötra öl. Hópurinn skiptist á sögum frá gærkvöldinu og eins og eðlilegt er þá voru ævintýrin misathyglisverð. Svo var bara flugvöllurinn tekinn á þetta, ekkert eytt í þessari rándýru flughöfn, bara feginn að komast upp í vél.

Eitt fannst mér nú alveg hreint svaðalega fáránlegt, get bara ekki orða bundist. Þegar við komum heim til landsins var búið að snjóa og skafa alveg slatta. Við félagarnir vorum með bíl á þessu langtímabílastæði sem maður þarf að borga fyrir. Anyway, þegar við komum út úr flugstöðunni, klukkan að nálagst miðnætti og -6 stiga gaddur út, þá var búið að ryðja helstu "aðalgöturnar" á þessu blessaða bílastæði sem gerði það að verkum að fyrir aftan alla bílana var myndarlegur snjóbunki. Það var því lítið annað en að gera en að grafa sig út úr þessu, þreyttur, kaldur og hrakinn. Og fyrir þetta er maður að BORGA. Algjört rugl og rán. Þegar þetta er orðið yfirbyggt þá er ég tilbúinn að borga, ekki fyrr.

En heilt yfir var helgin góð en ég verð líklega að fara aftur þarna út. Það þýðir ekkert að fara aftur þegar tívolíið er lokað og svo á ég eftir að kíkja á hafmeyjuna frægu.

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Árið byrjar með látum

10 dagar búnir af árinu. Af þeim eru 8 dagar sem ég hef annað hvort farið í ræktina eða fótbolta enda get ég ekki sagt annað en skrokkurinn sé farinn að kalla á hvíld. Ég er líka að fara að veita honum hana, enda ekki tvítugur lengur. Engin rækt næstu fjóra daga enda Köben ferðin á föstudaginn og ég reikna ekki með að taka stuttubuxurnar með þangað, frekar regnstakkinn miðað við veðurfréttirnar. Það á að reyna að stunda ræktina af krafti næstu vikurnar, vona að það gangi eftir. Ef það gengur en líkamsformið batnar ekki þá gef ég bara skít í þetta og fer að éta snakk í morgunmat og egg og beikon áður en ég fer að sofa á kvöldin og allskonar viðbjóð þess á milli.

Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að ef planið mitt heldur þá þarf ég ekki að mæta aftur í ræktina ipodlaus. Ef ég get verið í ræktinni og hlustað á I don´t feel like dancin´ með Scissor Sisters og annað viðbjóð þá hlýt ég að vera talsvert öflugari með mína kjörtónlist í eyrunum.

mánudagur, janúar 08, 2007

Vinnan

Fór í vinnuna í dag eins og á venjulegum mánudegi. Það sem var óvenjulegt við þennan dag var að í lok dags var okkur boðið á Hótel Nordica þar sem okkur starfmönnunum voru sýndar myndir af væntanlegri nýbyggingu sem fyrirtækið er að fara að láta reisa og á að hýsa allar starfsemina. Massaflott af myndunum að dæma og meira pláss fyrir allt og alla, nokkuð sem flestir láta sér dreyma um í dag. Til glöggvunar má benda á það að síðan 1994 þegar um 20 starfsmenn voru á svæðinu hafa 9 fyrirtæki verið keypt og starfsmannafjöldinn er kominn í kringum 80. Þá var allt í einu húsi en núna eru við að tala um 4 hús á höfðuborgarsvæðinu og eitt á Akureyri. Allur mannskapurinn fór svo niður í Klettagarða 19 þar sem allir fengu skóflu í hönd og fyrsta skóflustungan var tekin, eða stungur réttara sagt. Get ekki sagt að ég hafi mikla reynslu í svona skóflustungum en það var nokkuð ljóst að -7 stiga frost eru ekki kjöraðstæður fyrir svona gjörning. En maður reyndi að krafla sig niður fyrir snjóinn og niður á smá möl svo þetta væri allt eftir bókinni. Nú geta stórtæku vinnuvélarnar tekið við og ekki veitir af, dagsetningin 30.12. 2007 er sett sem viðmið til innflutnings.

Það er bara eins gott að þeir banni ekki Cheeriosið, ég segi nú ekki meira.

sunnudagur, janúar 07, 2007

Skyndibitaætan ég

Mér skilst að loksins sé búið að opna Taco Bell hérna á Íslandi, í Hafnarfirði nánar tiltekið. Kynntist þessari menningu úti í USA sumarið 1996 og þótti mér þetta algjör snilld. Ég var alveg eyðilagður að enginn skildi sjá sóma sinn í því að opna svona stað hérna heima. Því skil ég ekki alveg af hverju ég er ekki æstari í að mæta á svæðið loksins þegar staðurinn opnar, hann opnaði núna 28. desember og ég sit enn heima. Á vissan hátt er ég pínu smeykur við þetta, við erum að tala um rúmlega 10 ára spenning sem gæti litið út fyrir að vera fáránlega heimskulegur ef ég verð svo fyrir vonbrigðum með staðinn. Það væri skelfilegt ef mér fyndist þetta svo hreinlega vont, en gæti reynt að réttlæta það með því að stemmingin hjá mér í dag er eflaust önnur en ´96.

Ég vil nú líka skrifa þetta áhugaleysi á annan reikning. Málið er að Ég-á-Íslandi er ekki sami og Ég-í-útlöndum, a.m.k. ekki hvað matarmenningu varðar. Ég vann í húsi við hliðina á McDonalds í einhver 3-4 ár og ég held að allan þann tíma hafi ég farið 3-4 sinnum þangað að éta í hádeginu. Hins vegar er ekki óalgengt að á ferðum mínum til Bretlandseyja þá fari ég einu sinni á dag á McDonalds. Það hlýtur eitthvað að tengjast stemmingunni, eða eitthvað.

Ég man líka að á tímabili hélt ég því fram að Burger King væri málið en McDonalds væri rusl. Segja þeir ekki að eldsteikt sé ekta? Var því alveg sáttur þegar sú keðja mætti á svæðið þótt það hafi ekki verið sami spenningurinn og með Taco Bell. En hvernig fór sú saga? Þann 18. febrúar 2004 opnaði fyrsti Burger King staðurinn á Íslandi og núna eru 3 staðir starfræktir á landinu en enn á ég eftir að fara á einhvern þeirra. Maður er náttúrulega þokkalega furðulegur.

Nú er bara spurning hvað maður gerir með Tacoið. Situr bara heima og hugsar til ársins ´96 eða peppar sig upp í það að mæta á svæðið? Ætli maður lifi ekki djarft og næli sér í burrito við tækifæri.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Stefnan sett á kóngsins Köben

Er að fara í helgarferð til Kaupmannahafnar eftir rétt rúma viku. Farið út á föstudagseftirmiðdegi og komið heim á sunnudagskvöldi. Vinnuferð, eða öllu heldur vinnan er að fara, meiri skemmtiferð en eitthvað annað. Maður kemur nú samt til með að reka nefið inn í eina eða tvær matvöruverslanir bara svona til að skoða, alltaf gaman að koma inn í nýjar matvöruverslanir.

Ég hef ekki orðið svo frægur að koma til Kaupmannahafnar þótt ég hafi einu sinni farið til Danmerkur þegar ég var 10 ára patti. Ég hef heldur ekki stundað svona helgarferðir en ég geri mér grein fyrir því að þetta verður fljótt að líða og ég ætla bara að fara þarna út og taka þessu létt og fylgja straumnum. Það verður nú væntalega tekið Strikið á þetta og eitthvað þessháttar, veit ekki hvort maður kemur heim með mynd af sér í fanginu á hafmeyjunni. Þetta kemur allt í ljós.

Eina sem ég ætla pottþétt að gera í þessari ferð er að láta loksins verða af því og kaupa mér iPod, það er alveg kominn tími á það. Var nánast búinn að láta slag standa þegar ég var í Manchester um mánaðarmótin nóv/okt síðastliðin en það var ekki á fjárhagsáætlun þá. Þetta er varla á fjárhagsáætlunin ennþá en ég verð að tækla það samt. Ég er búinn að hugsa svo mikið um þetta að ég er farinn að telja mér trú um að það verði allt annað líf að eiga iPod. Tengi ég þetta aðallega við ræktina, að þetta verði bara snilld að hafa sín eigin lög en þurfa ekki að hlusta á þessar misgáfulegu útvarpsstöðvar. Svo verður æðislegt að hafa tengja svona grip við bílgræjurnar, það er eiginlega langstærsti kosturinn við þessa græju og get ég varla beðið eftir því að hafa svoleiðis valmöguleika í bílnum.

Rock on.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Markaðsetning dauðans

Nú er jólahátíðin að renna sitt skeið á enda og timburmenn hennar væntanlegir á næstu vikum, vona svo sannarlega að menn hafi ekki farið yfir strikið bæði í fjárhagslegu og andlegu samhengi.

Ekki það að hugleiðingar mínar í dag tengist svo sem eitthvað jólunum, ekki nema þessi blessaða jólakúla sem ég fann hérna á netinu. Ég get bara ómögulega sætt mig við þessa jólakúlu. Mér finnst hún standa fyrir það sem ég þoli ekki. Ég þoli ekki þegar menn missa sjónar á því sem gerði það að verkum að þeir eru þar sem þeir eru í dag. Kannski klúðurslega orðað hjá mér en hvað um það. Allt í lagi ef menn þróast og breytast frá upprunanum, óþarfi að hjakka í sama farinu alla tíð en mér finnst að menn verði að muna hvaðan þeir komu.

Í þessu tilfelli leyfi ég mér að draga það í efa að þessir ágætu menn í þessu annars ágæta bandi þurfi að selja jólakúlur með logoinu sínu á til að láta fjárhaginn hjá sér vera réttu megin við núllið.

Ekki það að ég þekki það svo sem af eigin reynslu en skiptir í raun einhverju máli hvort þú átt ógeðslega mikið af peningum eða viðbjóðslega ógeðslega mikið af peningum?

Best að enda þetta á textabroti úr laginu Whiplash með Metallica frá árinu 1983, ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta eins langt frá merktum jólakúlum og barnasamfellum og hugsast getur. Raulist með ofurhröðu gítarriffi í huga.

The show is through the metal is gone
It is time to hit the road
Another town Another gig
Again we will explode
Hotel rooms and motorways
Life out here is raw
But we will never stop
We will never quit
cause we are Metallica


Vona bara að mínir menn gleymi þessu aldrei.

mánudagur, janúar 01, 2007

2007 mætt á svæðið

Þá er það komið, árið sem ég verð 32ja ára. Ekkert panic ástand hérna yfir því, ekki enn. Spurning hvernig stemmingin verður hjá mér í lok maí.

Ég eyddi öðrum áramótunum í röð (man ekki lengra aftur) bograndi yfir flugeldakassa. Það er alveg ljóst að maður missir af megninu af sprengjunum þegar maður er meira og minna með stjörnuljós í annarri og reyndi að hafa yfirumsjón yfir þeim flugeldum sem maður sjálfur er með. En þetta fylgir þessu víst. Vorum hjá Guðrúnu í Engjaselinu yfir áramótin, bara hefðbundið, nóg að borða og skaupið í kjölfarið.

Ísak Máni uppgötvaði nýja snilli á meðan hann var að drepa tímann í gær. SingStar í Playstation var alveg málið. Ég verð að viðurkenna að ég bjóst ekki við að þetta væri eitthvað fyrir hann sérstaklega vegna þess að þetta eru lög sem hann þekkir ekki. SingStar með íslenskum slögurum væri eitthvað hins vegar sem myndi steinliggja fyrir hann, það veit ég. Hvað um það, ég held að hann hafi keyrt Karma Chameleon með Culture Club örugglega í gegn á þriðja tug skipta þessa kvöldstund og m.a. í keppni við mömmu sína og pabba sinn. So far mitt eina performance í SingStar, vonandi ekki annað væntanlegt í bráð en hvað gerir maður ekki fyrir þessi blessuðu börn. Held að mömmu hans hafi fundið þetta æðislegt.



Logi Snær vakti mannskapinn svo í morgun kl. 11:02 sem að ég held að sé útsofunarmet á þessum bæ, a.m.k. í langan tíma. Mjög langan tíma. Skelltum okkur svo í Mosó í mat og spil en þessi dagur er búinn að líða áfram í hálfgerðu móki, svona eins og þessir blessuðu hátíðardagar gera stundum.