miðvikudagur, ágúst 29, 2012

Á botninum

Ég skrapp á völlinn síðastliðinn föstudag, Valbjarnarvöll nánar tiltekið, þar sem Þróttur tóku á móti ÍR.  Fyrsti leikur nýja þjálfarans eftir að sá gamli var látinn fara en það dugði ekki til, mínir menn með 0:1 tap og miðað við önnur úrslit sem voru í gangi eru menn allt í einu komnir kyrfilega í botnsætið.  Ískaldur raunveruleiki og ég er varla að trúa þessu en 6 tapleikir í röð eru víst ekki vænlegir til árangurs.  Held að þeir séu búnir að skora heil 2 mörk í þessum síðustu 6 leikjum og þar af var annað í boði andstæðinganna í formi sjálfsmarks.  Skil ekkert í mönnum að hafa ekki fengið gamla ÍR-inginn, Eið Smára, til að taka nokkra leiki fyrir gamla klúbbinn sinn, svona fyrst hann er að leita sér að liði.
4 leikir eftir og það fer að styttast í að menn þurfa að leggja inn feita pöntun hjá kraftaverkalínunni, fjandinn sjálfur.  Ég geri mér grein fyrir því að ÍR er ekki stærsta nafnið í boltanum en að ætla að spila í 2. deild á næsta ári, fjárinn...  Menn mokuðu sér upp úr þeirri deild hérna um árið með herkjum þegar fjölgað var í 1. deildinni ef ég man rétt, andsk... niðurgangur.
Ég hugsa svo með hryllingi að litli smáklúbburinn í póstnúmeri 111 er þarna í kjallarabaráttunni líka, það gæti farið svo að Breiðholtið eins og það leggur sig færi niður um deild, hönd í hönd.  Við erum að ræða um það að í lokaumferðinni er Leiknir - ÍR, leikur sem gæti skipt öllu máli.  Það næstversta sem gæti gerst í stöðunni væri að ÍR væri fallið fyrir þennan leik en Leiknir ekki og að þeir myndu svo bjarga sér.  Það allra versta, by-far, væri að lenda í einhverju úrslitaleik í efra-Breiðholti og tapa honum og falla.  Að falla niður í 2.deild í póstnúmeri 111 af öllum stöðum.  Shit, mér verður hreinlega óglatt af tilhugsunni.



En núna er ég farinn að mála framtíðina í kolsvörtum lit, við verðum bara að taka klisjuna á þetta og taka næsta leik.  Haukar á heimavelli á föstudaginn og þar verða menn að gjöra svo vel að bretta upp ermar.

Sem betur fer styttist í upphafið á körfuboltatímabilinu.  Ég ber trú til þess að þar muni geðheilsu minni verða bjargað.

þriðjudagur, ágúst 28, 2012

Endalok snuddunnar - lokakafli

Ég held að síðastu snuddunni sé allri lokið, vona að Daði Steinn sé búinn að leggja hana á hilluna eða hornið öllu heldur.  Af einhverjum ástæðum hefur þetta ekki orðið auðveldara með hverju eintakinu en ég fjallaði -HÉR- um endalok þessa fylgihlutar hjá Ísaki og Loga og svo nánar um endalokin hjá Loga -HÉR-.
Daði Steinn hefur notað snudduna lengst og það var smá vesen að losa hann við þetta.  Við tókum snudduna sem hann notaði í leikskólanum heim þegar hann fór í sumarfrí og stefndum á að koma ekki með hana aftur eftir frí.  Það gekk upp.  Við reyndum að skera á naflastrenginn þegar við vorum í Baulumýri í sumar en það var ekki alveg að virka.  Við ákváðum þó á "gleyma" þeim í Baulumýri en þegar heim var komið var Daði Steinn ekki sáttur og sem betur fer fyrir hann voru til varabirgðir heima sem hann var þó ásáttur við að nota bara þegar hann færi að sofa.
Sigga tók svo upp á því að ræða það að skila þeim sem eftir væru, í Húsdýragarðinum, við tækifæri.  Daði var alveg til umræðu um það og svo var látið reyna á það núna um helgina.  Hann tók sig til og hengdi þær á þar-til-gert horn án þess að vera mikið að velta því fyrir sér, mér fannst það ganga næstu því fullvel fyrir sig.  Hann er því búinn að fara að sofa núna í nokkrar nætur snuddulaus og án þess að vera nokkuð að biðja um gömlu vinkonuna.

Menn eru líklega bara tilbúnir þegar þeir eru tilbúnir.

Síðust tvær komnar á hornið

mánudagur, ágúst 20, 2012

Hver gerir hvað?

Daði Steinn:  "Pabbi, hver byggði húsið okkar?"
Pabbinn:  "Það voru einhverjir karla ... og konur."
Daði Steinn:  "Konur!"
Pabbinn:  "Já, konur.  Geta þær ekki byggt hús?"
Daði Steinn:  "Þær eru bara að elda kjöt."

Maður er greinilega ekki alveg með þetta uppeldi á hreinu.  Það væri kannski hægt að fyrirgefa manni ef þetta væri frumburðurinn en þetta er víst 3ja eintakið.  Ekki gott.

sunnudagur, ágúst 19, 2012

Að einhverju leyti menningarlegt

Maraþon og menningarnótt að baki.  Ekki það að ég hafi reimað á mig hlaupaskóna en Sigga tæklaði þetta, tók 10 km eins og í fyrra og bætti tímann sinn frá því þá um einhverja 1-2 mínútur held ég og náði þessu á ca 55 mínútum.  Ég varð fyrir svipuðum áhrifum og í fyrra, skemmtileg stemming og sjálfsagt gaman að taka þátt í þessu en ekki enn kveikt það mikið í mér að ég sé farinn að æfa fyrir þetta.  Maður er svo klikkað að ég þyrfti að gera eitthvað aðeins meira og öðruvísi en það sem telst normið.  Tæki þetta aldrei nema að fara hálft maraþon, það er bara þannig.  Spurning hvað maður gerir árið 2015, þegar maður verður kominn með fjóra tugi undir beltið og kominn í 40-49 ára flokkinn.
Sigga rétt fór heim til að skola af sér mesta svitann eftir hlaupið áður en hún hélt með Daða Stein ásamt Ingu og Heklu í Baulumýri til að sækja Loga Snæ sem hefur síðan á mánudag verið í sveitasælunni í brakandi blíðu, en þau komu svo öll heim í dag.  Við frumburðurinn voru því allt í einu einir og yfirgefnir í kotinu á menningardaginn sjálfan.  Ákváðum að kíkja aftur á miðbæinn um miðjan daginn, fórum eftir öllum helstu tilmælum og tókum smekkfullan strætisvagn niður í bæ.  Röltum aðeins um í blíðunni og tókum púls á stemmingunni án þess að vera búnir að gera eitthvað plan.  Við gengum bara á þá tóna sem okkur leist á og létum þetta ráðast.  Ís og Hlölli var sett á tankinn.  Skelltum okkur aftur heim fyrir kvöldmatarleytið í álíka þéttsettnum strætó og fyrr um daginn.  Vorum bara slakir heima um kvöldið, gengnir upp að hnjám nánast.
Skelltum okkur í sund í dag og reyndum að hafa ekki of mikið fyrir hlutunum, sem er stundum déskoti fínt.

laugardagur, ágúst 18, 2012

Boltafréttir

Svartur dagur í boltanum í gær.  Við Ísak Máni skelltum okkur til Voga við Vatnsleysuströnd til að sjá Grundarfjörð etja kappi við heimamenn í 3ju deildinni í tuðrusparki.  Sveitaliðið okkar er í bullandi toppbaráttu í sínum riðli og eigir von um að komast í úrslitakeppnina og tryggja sér með því sæti í 3ju deildinni hinni nýju, í stað þess að verða staðsettir í hinni nýju 4. deild næsta sumar. 
Ansi hreint hressandi að vera svona klikkaður í hausnum og nenna að taka einhverja bíltúra til að horfa á íslenskan 3ju deildar fótbolta en það skemmtilega við það, fyrir utan að horfa á hágæðabolta, er að maður er að koma á nýja staði.  Hafði aldrei komið til Voga, tók smá rúnt eftir leik og einhver bæjarhátíð að hefjast með gula, rauða og græna hverfinu, þeir eru líklega ekki nógu stórt bæjarfélag til að bæta því bláa við.  Fórum líka um daginn í Garðinn þannig að maður er alveg að taka landið og miðin á þetta.  Eða a.m.k. Suðurnesin.  Hvað um það, leikurinn tapaðist fyrir mína menn og baráttan heldur því áfram þegar tvær umferðir eru eftir.
Ég hef hins vegar verið mjög lítið á ferðinni á ÍR leikjum þetta sumarið.  Þeir voru að spila í gær austur á Egilsstöðum og gerði sér lítið fyrir og létu drulla yfir sig fyrir allan peninginn, 5:1 urðu víst lokatölur.  Hverfisklúbburinn því kominn í botnsætið og tveir síðustu leikir sem voru settir upp sem 6-stiga leikir í ljósi þessa að þeir voru við liðin í neðstu sætunum töpuðust samanlagt 1:9!  Ég hef verið talsmaður þess að menn fari hægt í gagnrýni, skítkast og leiðindi á veraldarvefnum en ég verð að halda því fram að núverandi skipstjóri sé á góðri leið með að sökkva dallinum og líklega væri best að fyrrverandi leikmaðurinn úr ensku úrvalsdeildinni sem á einhvern ótrúlegan hátt var fenginn til liðsins fyrir þetta sumar taki við stýrinu.  Ég nenni ekki að fara aftur í þennan 2. deildarpakka, með fullri virðingu, það yrði frekar vandræðalegt.

miðvikudagur, ágúst 08, 2012

Súkkulaðigæinn

Draumurinn um smá bling hjá Loga Snæ rættist í dag.  Einhverjir af félögunum með svona og hann var eitthvað búinn að óska eftir einu svona stykki.  Hann var ekkert að bakka með þetta og því var bara látið reyna á þetta og sjá hvernig þetta færi.  Drengurinn var alveg rólegur með þetta framan af en varð greinilega smá smeykur þegar hann var kominn í stólinn, búið að merkja skotmarkið og verkfærið komið á loft.  „Byssuskyttan“ gerði reyndar vel í að vera ekkert að flagga græjunni of mikið enda greinilega gert þetta áður.  Ég held að óttinn hafi eitthvað magnað upp sársaukann en töffarinn missti aðeins kúlið eftir þetta og bara sig illa, „ég ætla aldrei að gera þetta aftur“ kom uppúr honum hálfsnöktandi. En menn komust nú fljótlega yfir þetta versta, það er eins og þeir segja:  Beauty is pain...

Í bústað

Stoppuðum ekki lengi heima eftir Grundótúrinn, aftur var haldið vestur en núna hinumegin á nesið.  Fengum bústaðinn í Baulumýri lánaðan, eins og um þessa helgi verslunarmanna í fyrra líka.  Vorum lengur núna, fórum á miðvikudegi og vorum fram á sunnudag.  Þessi rjómablíða þegar við lögðum af stað, stoppuðum í sundi í Borgarnesi þar sem Daði Steinn tók eiginlega rennibrautarleiknina upp á næsta stig.  Hljóp hann sjálfur upp tröppurnar og lét sig flakka niður í hana sem telst líklega vera í miðju af styrkleika af þeim þremur möguleikum sem eru þar.  Niðri við brautarendann beið fulltrúi fjölskyldunnar og passaði að hann kæmist upp á bakkann aftur svo hann gæti farið aftur... og aftur... og aftur... og aftur. 
Ekki ský á himni á miðvikudegi og fimmtudegi.  Það var því léttklætt fólk sem spókaði sig á pallinum, hoppaði á trampolíninu, var í körfubolta, fór niður að strönd, kíkti í berjamó og sumir fóru í Hamraendalækinn eins og í fyrra nema núna var tekið aðeins dýpra í árina:


Fórum m.a. út að Hellnum og þaðan löbbuðu Sigga, Ísak Máni og Logi Snær yfir í Arnarstapa en við Daði Steinn fórnðum okkur í það að vera á bílnum.  Þess á milli var spilað Yatsy og horft á Ólympíuleikana, fínasti túr.  En eins og á þessum tímapunkti í fyrra þá er alvaran að detta aftur í gang.  Sem betur fer að einhverju leyti, það er víst ekki hægt að leika sér alla daga.

Logi Snær á leiðinni í gegnum gatið upp á toppinn á Hellnum
4/5 komnir upp
Ég bara góður niðri, það verður einhver að vera á myndavélinni