föstudagur, júní 29, 2007

Byrjunin lofar góðu

Vika liðin af sumarfríinu og ekki verður sagt annað en að byrjunin lofi góðu, a.m.k. veðurlega séð. Alltaf svolítið lotterí þegar maður er búinn að ákveða að halda sér á skerinu góða í sumarfríinu hvernig veður maður fær. Ekki það skemmtilegasta að koma aftur til vinnu eftir 3ja-4ra vikna frí þar sem uppskeran var kannski 4 sólardaga og slatti af rigningu. Karlinn er svo brunninn á höfði og upphandleggjum eftir þessa viku að þetta er ekki fyndið, verð að fara kynna mér þessar sólarvarnir...

Sigga lét rífa úr sér saumana eftir uppskurðinn á hendinni og fékk nýtt gifs. Það eru fjórar vikur í viðbót með það, eitthvað sem við vissum nú svo sem alveg. Hún lét það nú ekki stoppa sig í að mæta í æfingaleik með ÍR drottningunum núna í kvöld en var vitaskuld ekki í marki. Maður reynir að hægja aðeins á þessari elsku en ég veit af eigin reynslu að það er erfitt að sitja svona hjá, sérstaklega í ljósi þess að hún var tiltölulega nýbyrjuð í drottningarboltanum og er að finna sig svona déskoti vel í því.

Eitthvað var lítið af okkur í Skagamótsþættinum á Sýn í kvöld, rétt sást glitta í Loga Snæ og faðir hans sparka á milli sín bolta og þar með var það upptalið.

Stefnan sett á Grundarfjörðinn um helgina, annars verður þetta vonandi bara svona áfram í sumarfríinu. Lykilorðin eru: Sól, sund, shake, Subway og svolítill fótbolti.

sunnudagur, júní 24, 2007

Sviðin jörð eftir Skagamótið

Kominn heim eftir að mörgu leyti erfiðasta Skagamót sem við höfum farið á. Síðasti leikurinn mótsins sem fram fór í morgun tapaðist og niðurstaða helgarinnar varð því einn sigur, eitt jafntefli og sex töp, næstneðsta sæti í þýsku deildinni. Ísak Máni var í marki í leik dagsins, eins og síðustu tveimur leikjum gærdagsins og stóð sig sem fyrr mjög vel. Hann kemur mér meira að segja stundum á óvart hvað hann er í raun sterkur á svellinu þegar á hólminn er komið.



Enn sem fyrr segir var þetta ansi erfitt að peppa upp mannskapinn þegar hver tapleikurinn rak annan, og drengnum mínum fannst þetta óheyrilega erfitt, sérstaklega í ljósi þess að ekki voru allir í liðinu búnir að æfa jafnlengi og minn maður og skilningur á leiknum var því mismikill meðal manna. Á svona stundum óskaði maður þess að geta skipt á sagnfræðiprófinu og sálfræðiprófi.

Flott veður allan tímann en eitthvað klikkaði undirritaður á derhúfunni og sólarárburðinum á meðan öllu stóð. Sit því hérna sjóðheitur í framan og verkjar allrosalega í sviðinn skallann, stundum er ekki nógu sniðugt að vera svona stuttklipptur.

laugardagur, júní 23, 2007

Skagamótið 2007, brúðkaup og Logi Snær heillar Gaupa

Nóg að gera þessa helgina, eins gott að karlinn er skriðinn i sumarfrí svo hægt sé að taka næstu viku í að ná sér eftir þetta.

Skagamót hið síðasta hjá Ísaki Mána hófst í gær. Kappinn í B-liði þetta árið og veðurspáin hin besta fyrir helgina. Sigga var ekki í fararstjórahlutverki þetta árið sökum handarmeiðsla enda nýkomin úr uppskurði vegna slitna liðbandsins. Ekki voru úrslitin eins og vonast var eftir, þrjú töp í jafnmörgum leikjum og þýska deildin (samsafn taparana) því framundan á laugardeginum. Ísak Máni var ekki alveg sáttur enda þriðjaSkagamótið hans og árangur síðustu tveggja hefur verið alveg ljómandi. Það bar þó til tíðinda að við Logi Snær vorum að sparka bolta okkar á milli á keppnissvæðinu þegar sjónvarpsmenn frá Sýn ber að garði en þeir eru að gera þátt um mótið. Fer þar fremstur meðal jafningja Guðjón Guðmundssson, Gaupi, ásamt sjónvarpstökumanni. Er honum starsýnt á Loga og Sigga er fljót að grípa hann og dásama knatttækni drengsins. Eftir að honum er tjáð aldur pilts kallar hann á tökumanninn og þeir taka smámyndbrot að Loga dúndra í boltann. Ekki fékk Gaupi neitt upp úr drengnum þegar hann gerði tilraun til að taka viðtal við hann, ekki nema kinkandi kollur. Bíður maður nú spenntur eftir þættinum um Skagamótið til að sjá hvort Loga verði haldið inni eða klipptur út.


Ekki gafst okkur mikill tími eftir að Ísak Máni kláraði síðasta leikinn heldur var brunað til Reykjavíkur, eftir að Loga var skutlað í pössun til Gullu, því næst á dagskrá var brúðkaup hjá Haraldi og Kristínu. Gifting í Hallgrímskirkju og veisla í safnarheimili Háteigskirkju, ljómandi partí það.

Klukkan hringdi kl 7:00 í morgun og enginn tími fyrir droll því fyrsti leikur hjá Ísaki Mána kl 9:00. Liðið var hálf brothætt eftir hörmungar gærdagsins og ekki gaf byrjun dagsins von um betri tíð. Tveir fyrstu leikirnir töpuðust frekar örugglega og sálarkreppa og óeining voru efst á baugi þegar hér var komið við sögu. Menn rifust um það hver átti að vera í marki, hver átti að vera frammi o.s.frv. En eftir krísufund með þjálfaranum og heilmikið pepp frá fyrirliða 3ja flokks ÍR sem staddur var á svæðinu í aðstoðarhlutverki hafðist 2:0 sigur á Víkingi í þriðja leik og 2:2 jafntefli við Ægir frá Þorlákshöfn í lokaleik dagsins gerði það að verkum að allt önnur og betri stemming var yfir hópnum.

Svo var reynt að hafa ofan af drengjunum m.a. með fjöruferð þar sem fyrrnefndur sjónvarpstökumaður Sýnar mætti og ekki minnkar það stemminguna fyrir þætti Sýnar sem verður sýndur 28. júní. Krossa ég nú fingur að annað hvort verði báðir drengirnir sýndir eða hvorugir, helst hið fyrrnefnda vitaskuld.



Lokadagur mótsins á morgun, einn leikur við Þrótt og svo grill og lokahóf áður en maður heldur heim á leið fljótlega eftir hádegið. Vonandi fær þetta allt farsælan endi, fyrir öllu að menn gangi sáttir frá borði.

mánudagur, júní 18, 2007

Þjóðhátíðardagurinn í fortíð og nútíð

Sunnudagur 17. júní 2007
Hefðbundinn 17. júní, farið niður í bæ um hádegisbilið í ok veðri sem varð að fínasta veðri þegar á leið. Hittum á Ingu og Gunna sem eru komin heim yfir sumarmánuðina frá landi Baunanna. Einnig voru Guðrún og Jökull á svæðinu og það var tekið hefðbundið miðbæjarrölt, hoppukastalar og candy floss, varla hægt að biðja um það betra. Hópurinn tvístraðist svo þegar á daginn leið en við fórum svo heim á leið og grilluðum ofan í okkur. Drengirnir voru svo hérna úti í garði að leika sér til kl 21:30.





Þriðjudagur 17. júní 1986
Ég vaknaði um kl 10 og fór í bæinn kl 3 með Erlu, Esther, Danna og Jóhönnu. Aldrei á ævi minnni hef ég séð svona mikið af fólki niðri í bæ. Ég og Danni fengum kúrekahatta og stafi en Jóhanna fékk bara staf. Síðan fengum við okkur öll ís en þegar við komum heim fór ég strax að horfa á leik Ítala og Frakka sem endaði 2:0 fyrir Frökkum. Ég fór út í fótbolta við Óla, sem býr í kjallaranum við hliðina. Óli var einn í liði en ég var með Jóhönnu og Magga, litla bróðir Óla í liði. Leikurinn fór 20:18 fyrir mínu liði. Sagt er að við höfum aldrei fengið eins gott veður á 17. júní eins og var í dag.

sunnudagur, júní 17, 2007

Af snillingum

Sem Barcelona stuðningsmaður þá ætti maður að vera brjálaður yfir þeirri staðreynd að Real Madrid varð Spánarmeistari núna í kvöld á lokadegi deildarinnar, á kostnað minna manna. En ég er ekki brjálaður, pínu svekktur m.a. vegna Eiðs Smára og allt það en hann hefur nú svo sem ekkert fengið að spila nein ósköp. En hvernig er annað hægt en að halla sér aftur í stólnum og brosa út í annað yfir meistara Beckham? Þvílíkur endir hjá karlinum, 4 ár og enginn titill en í síðast leiknum í Real Madrid búning klára þeir þetta og nánast allir voru búnir að afskrifa hann.

Svona gera bara snillingar.

föstudagur, júní 15, 2007

Boltaleikir í forstofunni

Ég vona að næstu 7 ár verði stórslysalaus hjá Ísak Mána og Daníel Degi sem var hérna í heimsókn áðan. Spegillinn lenti víst aftan á hausnum á Ísaki áður en hann lenti á gólfinu með tilheyrandi sjokki hjá mannskapnum en allir sluppu nú skrámulausir.

Minnir mig óneitanlega á atvik í bernskunni þegar ég braut spegill heima hjá Stebba Páls í Frostaskjólinu þegar við vorum í innanhúsfótbolta þar einu sinni sem oftar. Ég tel mig ekki vera mjög hjátrúafullan aðila en samt var þetta atvik alltaf í undirmeðvitundinni og ég var feginn þegar ég komast að þeirri niðurstöðu að nú væru a.m.k. liðin 7 ár frá atburðinum.

Kannski þetta atvik ýti manni loksins út í það að mála forstofuna og ganginn, minnir að það hafi verið eitt af þeim atriðum sem ég hafði á verkefnalistanum fyrir síðasta sumarfrí. Eitthvað þarf augljóslega að gera.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Stæðið á sínum stað

Við létum verða af því að kaupa nýtt hjól handa Ísaki Mána, gamla hjólið orðið fulllítið og afmæli drengsins á næsta leyti. Skref sem er víst óhjákvæmilegt en örugglega það erfiðasta á hjólaferlinum, úr eins gíra fótbremsuhjóli yfir í fullbúið gírahjól án fótbremsa. Ég var búinn að kíkja einn nettan hring til að sjá það sem í boði var en sem fyrr endar maður alltaf á gamla vinnustaðnum. Þeir voru búnir að blása til mikillar útsölu og því brjálað að gera þegar við komum rúmum hálftíma fyrir lokun. Lítið var um bílastæði sem snéru að versluninni og var mér starsýnt á bílastæðin hinum megin, þar sem einkastæði starfsmannanna eru. Horfði með girndaraugum á gamla stæðið mitt sem var laust en mér fannst bílnúmerið á skiltinu eitthvað kunnuglegt. Var svo ekki skrítið því þetta var sama skiltið og var búið til fyrir mig á sínum tíma. Ég lét ekki bjóða mér það tvisvar heldur lagði bara í stæðið "mitt", fór og verslaði eitt stykki hjól og allir sáttir. Ekki amalegt að hafa einkastæði fyrir utan verslun, þótt númerið stemmi ekki.



KT-291, Izusu Gemini árgerð 1989 hvítur að lit sem fór í brotajárn fyrir einhverjum árum og fékk ég 5.000 kr fyrir, ein ömurlegustu viðskipti sem ég hef átt. Veit ekki hvort gamli atvinnurekandinn sé að bíða eftir því að ég komi aftur, finnst sennilegra að um framtaksleysi í bílastæðismálum að hans hálfu sé að ræða.

Aðeins of seint

Frétt af fótbolta.net:

Framherji Man Utd í raðir Aftureldingar (Staðfest)

Afturelding úr Mosfellsbæ fékk gríðarlegan liðsstyrk í dag þegar enski framherjinn Aaron Burns gekk í raðir félagsins frá Manchester United. Burns hefur leikið með varaliði Manchester United en samningur hans við félagið var að renna út og var ekki endurnýjaður. Burns sem verður tvítugur 8. nóvember næstkomandi náði aldrei að leika með aðalliði Manchester United.

Hann sem er fæddur í Manchester og vakti athygli Manchester United er hann lék með svæðisliðinu Wythenshawe Amateurs í heimabæ sínum þá aðeins tíu ára gamall. Man Utd buðu honum þá sex vikna reynslu samning. Eftir aðeins þrjár af þessum sex vikum bauð Man Utd honum svo samning.

Síðan hefur hann verið hjá Manchester United og leikið með vara og unglingaliðum félagsins. Hann skoraði fyrstu þrennuna fyrir varaliðið í 5-2 sigri á Wigan Athletic í október í fyrrahaust, 2006.

Afturelding hafði verið að leita eftir framherja að undanförnu eftir að þeir seldu hinn efnilega Atla Heimisson á dögunum til ÍBV en Atli hóf feril sinn í Eyjum með því að skora gegn Aftureldingu í bikarleik.

Afturelding leikur í 2. deild þar sem þeir eru í 4. sæti með 7 stig eftir 4 leiki. Næsti leikur liðsins er gegn Magna á Grenivíkurvelli á laugardaginn klukkan 14:00. Burns verður orðinn löglegur í þeim leik en ljóst er að um stórt skref er fyrir hann að fara frá Manchester United í að leika í 2. deildinni á Íslandi.

Auk þess að hjálpa Aftureldingarmönnum í baráttunni um að komast upp í 1. deildina mun Aaron vera leiðbeinandi í Knattspyrnuskóla Aftureldingar í sumar.


Ég veit ég ætlaði ekki að tala meira um leikinn góða á móti Aftureldingu en ég gat bara ekki setið á mér. Af hverju var ekki búið að ganga frá þessu fyrir leikinn gegn Grundarfirði? Það hefðu þá verið góðar líkur á að maður hefði getað sagt að fyrrverandi leikmaður Manchester United hefði skorað hjá manni.

Stærsti leikur ferilsins hefði þar með nálgast nýjar hæðir.

K.R. hatrið er nánast algjört

KR tapaði fyrir toppliði FH í fótboltanum í kvöld. Þrátt fyrir að Valur sé í harðri toppbaráttu við FH þá gat ég ekki annað en glaðst nett yfir þessari útreið vesturbæjarliðsins, 6 leikir í deildinni og aðeins eitt stig komið í hús. Gleymi aldrei árinu 1999 þegar KR varð meistarar í fyrsta sinn í 31 ár á 100 ára afmæli félagsins, þetta sama ár féll Valur í fyrsta sinn í sögunni úr efstu deild. Drullan og viðbjóðurinn sem maður varð að þola frá stuðningsmönnum KR var þvílíkur að slíkur hroki hefur varla sést á byggðu bóli. Þetta er geymt en ekki gleymt og yrði ég fyrsti maðurinn til að þramma í gegnum vesturbæinn í fagurrauðri Valstreyju ef Valur yrði meistari í ár og KR færi niður, skammast mín ekkert fyrir það. Velti m.a. þeirri spurningu upp með sjálfum mér í hvaða hverfi á höfðuborgarsvæðinu ég gæti ómögulega búið í ljósi þess að drengirnir mínir yrðu að æfa fótbolta hjá viðkomandi hverfisklúbbi. Held ég geti nánast sætt mig við flest, veit reyndar ekki með Fram en KR gæti ég aldrei afborið.

Því miður held ég þó að þetta verði ekki raunin með niðurstöðu deildarinnar í sumar, FH-ingar líklega of sterkir fyrir önnur lið í deildinni og sennilega ná KR-ingar að girða sig í brók þegar á mót dregur. Sú staðreynd að vegna fjölgunar í deildinni á næsta tímabili fellur bara eitt lið niður, gæti líka bjargað KR. En ef ég þyrfti að velja milli meistaratitils til Vals eða fall handa KR þá myndi ég vitaskuld fá bikarinn á Hlíðarenda. Hatrið er bara nánast algjört, ekki algjört.

þriðjudagur, júní 12, 2007

Lausn á verðbólgu

Logi Snær fer á kostum núna sem fyrr. Hann er farinn að apa ótrúlegustu orð og frasa upp eftir allt og öllu. Núna er hann m.a. farinn að stríða okkur og segir svo "nei, djók" á eftir, ógeðslega fyndinn að honum finnst.

Svo vorum við að borða kvöldmatinn áðan og fréttirnar voru í útvarpinu. Svo heyrði ég allt í einu hann gala upp eftir fréttamanninum: "Verðbólga". Ógeðslega fyndinn að mér fannst. Svo sagði hann bara meðan hann var að borða: "Ég borða bara verðbólgu".

Ég ætti kannski að hafa samband við ráðamenn þjóðarinnar og leggja Loga Snæ fram sem lausn á verðbólgu?

laugardagur, júní 09, 2007

Það sem er að drífa á dagana

Ísak Máni var að spila á tónleikum um daginn en hann er búinn að vera að æfa píanó síðan á áramótum. Afraksturinn má sjá hér:



Duttum svo í einhverja steypu með herbergi drengjanna, ákveðin uppstokkun þar í gangi með herbergis- og rúmskipan. Þetta kostar smá smíðavinnu og dýnuinnkaup en lesendur þessarar síðu vita eflaust að ég er ekki smiður nr. 1 í þessari fjölskyldu. Konan var búin að peppa sig upp í þetta og því hægt að segja að málin hafi verið í góðum gír. Hún fór hinsvegar á fótboltaæfingu eins og venjan er fyrir helgi en kom heim ekki alveg í sama ástandi og hún fór í. Þetta þýðir einfaldlega að hér á heimilinu er ákveðið millibilsástand í framkvæmdum sem voru hafnar áður en þetta slys bar að. Reyndar er hún ekki brotin þannig að vonandi fara hjólin aftur að snúast um næstu helgi.



Ekki hægt að enda þetta án þess að tala um fótbolta. Ísak Máni var að keppa í dag á Bónusmóti Þróttar í Laugardalnum með ÍR-ingunum. Hann komst í A-liðið og spiluðu þeir fimm leiki en hann stóð í markinu í þremur leikjum. Þeir unnu 3 leiki og gerðu 2 jafntefli en það dugði til að vinna mótið og bikar í safnið. Logi Snær var vitaskuld á svæðinu og sýndi boltatakta.





þriðjudagur, júní 05, 2007

Bara fyrir Jóhönnu

Réðum þvílíkan snilling á myndavélina fyrir bikarleikinn okkar og ég held að það hafi verið hverrar krónu virði. Myndir af karlinum í stórræðum eru komnar á myndasíðuna, þvílík snilld.









Og nú er ég hættur að tala um þennan leik...

sunnudagur, júní 03, 2007

Chillað um helgina

Við Ísak Máni vorum einir í kotinu frá laugardagsmorgni til sunnudagskvölds en Sigga og Logi Snær fóru vestur. Henti rúmum 5.000 kalli út um gluggann í þennan jafnteflisleik við Liectenstein, tók upp á því að klippa drenginn í fyrsta sinn og ég fór sömuleiðis í fyrsta sinn á Burger King á Íslandi. Skítsæmilegur borgari en döpur þjónusta.













laugardagur, júní 02, 2007

10:1

Þá er bikarævintýrinu lokið, það fékk heldur betur hressilegan skell upp í Mosfellsbæ í gær. Töpuðum sem sagt 10:1 í leik þar sem var við ofurefli að etja eins og tölurnar bera með sér. Lentum í smá áfalli á leikdegi þegar kom í ljós að tveir af fjórum miðjumönnum liðsins, þar af fyrirliðinn, voru frá vegna meiðsla og veikinda. Menn voru samt ágætlega stemmdir og staðráðnir í að stríða liði Aftureldingar eins og hægt var. Byrjuðum á móti vindi og rigningu og framan af var leikplanið að virka, þeir náðu ekki að setja mark fyrr en á 20. mínútu og voru greinilega aðeins farnir að pirrast þegar að því kom. Menn misstu eitthvað aðeins móðinn við þetta og staðan í hálfleik var 4:0. Byrjuðum svo á að fá á okkur vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks sem þeir nýta og staðan orðin 5:0. Þarna var hætt að rigna og vind farinn að lægja. Þeir setja svo tvo til viðbótar áður en við náum að setja mark úr vítaspyrnu og staðan orðin 7:1, ég ætla samt ekki að segja að með því marki hafi við verið komnir aftur inn í leikinn. Þeir svara aftur um hæl, 8:1 og þannig var staðan þangað til 5 mínútur voru eftir. Á 85. mínutu skora þeir og komast í 9:1 og fá síðan aðra vítaspyrnu á 88. mínútu þannig að það leit út fyrir að þeir kæmust í tveggja stafa tölu, hugsun sem manni var meinilla við. Karlinn gerði sér lítið fyrir og varði vítið og var farinn að gæla við þá hugsun að við myndum halda þeim "bara" í 9 mörkum en á 93. mínútu settu þeir tíunda markið, við tókum miðju og leikurinn var flautaður af.



Eins og það ætti varla að skipta nokkru einasta máli hvort þú tapar leik með 8 eða 9 marka mun þá sveið þetta síðasta ógeðslega mikið, tala nú ekki um að hafa verið nánast með síðustu spyrnu leiksins. En svona er þetta bara, það er talsverður munur á því að æfa einu sinni í viku og spila í utandeildinni sem er ekki einu sinni byrjuð og að æfa 5-6 sinnum í viku og vera í toppbaráttunni í 2. deild. Þokkalega sáttur við minn hlut í leiknum, gerði engin stór mistök að ég held en ef þú færð á þig 10 mörk þá spáir maður óneitanlega í því hvar hefði mátt gera betur, maður er aldrei sáttur við að fá á sig mörk og hvað þá 10 kvikindi í einum og sama leiknum.

Við komumst á þann stað í keppninni sem við ætluðum okkur, fengum alvöru leik við alvöru lið og það þýðir ekkert að vera að hengja haus yfir því.

Það er alltaf næsta ár.