mánudagur, mars 29, 2010

Busy weekend

Helgin var nokkuð þétt, það verður bara að segjast. Brunaði heim eftir vinnu á föstudeginum enda von á fólki í mat til að fagna eins árs afmæli Daða Steins. Konan reyndar búin að gera megnið og græja. Slafrað í sig þessari dýrindis gúllassúpu en franska súkkulaðikakan þurfti að bíða því ég var búinn að lofa mér í æfingaleik með Grundó FC síðar um kvöldið. Maður var því fyrsti aðilinn sem fór úr afmælinu, jebbs, eins árs afmælið hjá manns eigin afkvæmi. Ísak Máni vildi reyndar koma með þannig að við létum okkur hverfa tveir en reyndar var partýið að leysast upp þegar við fórum, hvort við höfðum þau áhrif var ekki gott að segja. Eitthvað kom af dýrindisgjöfum, gjöfin frá Guðrúnu smellpassaði.

Sem sagt, leikur um kvöldið gegn utandeildarstórveldinu FC Hjörleif. Gekk nú ekki nógu vel, 6:3 tap og ekkert sérstök stemming. Karlinn gerði nú enga skandala af sér í leiknum en ef þú færð á þig 6 mörk þá hlýtur að vera einhversstaðar hægt að gera örlítið betur. Svona ef ég nota orðin hans Ísaks eftir leikinn: „Pabbi, þú áttir nú ekkert þinn besta leik í kvöld“. Tveir æfingaleikir komnir í hús hjá undirrituðum og 11 blöðrur í netinu. Ég held að saumakonan í Grundarfirði sé ekki byrjuð að bródera WÍUM á treyju nr. 1, það mál var aðeins sett á hold.

Laugardagurinn byrjaði nú bara á nettu chilli en Sigga fór með litla grís nr. 1 og 2 á Latabæjarhátíðina í Laugardalshöllina. Ég og litli grís nr. 3 héldum áfram að chilla. Þegar þau komu aftur hófst almennur undirbúningur á kvöldinu en árshátíð hjá N&O á dagskránni. Það var déskoti fín skemmtun en hjúin komin frekar snemma heim...

...enda kleinubakstur framundan á sunnudagsmorgninum. Sá elsti í fimm manna fjölskyldunni taldi öllum trú um að selja kleinur væri sniðugt fjáröflun fyrir tuðrusparksútgjöldum sumarsins hjá þeim þriðja elsta. Fimm manna fjölskyldan var því mætt snemma á sunnudeginum upp í Mosó í þeim erindagjörðum. Baksturinn gekk vel og upp úr hádegisbili var haldið í söluferð í Breiðholtið. Ísak Máni tók nokkrar götur í Breiðholtinu með Loga Snæ valhoppandi á eftir sér í skítakulda og karlinn fylgdi á eftir á bílnum með lagerinn. Salan gekk svona upp og ofan en það hafðist fyrir rest að selja alla pokana, nema þann síðasta en söluteymið féllst einróma á það að halda eftir síðasta pokanum enda kominn kaffitími. Þar sem söluteymið voru einnig stjórnarmenn og aðaleigendur þessarar útgerðar þá þurfti það mál ekki að fara neitt lengra.

Þegar síðustu kleinurnar voru að renna niður þá var kominn tími til að skunda upp í Seljaskóla til að sjá rimmu nr. 2 í úrslitakeppninni í körfu hjá ÍR og KR. Engin bullandi stemming, greinilegt var hvort liðið hafði lent í 1. sæti í deildinni og hvort í því 8. En það er alltaf næsta ár.

Ég er því ekki frá því að hafa verið smá lúinn þegar ég lagðist á koddann í gærkvöldi. En þessi vinnuvika er víst í styttra lagi út af páskunum þannig að maður á alveg að lifa það af. Reyndar var ég að fatta það að næsta fulla 5 daga vinnuvika hjá mér hefst mánudaginn 5. júlí. Jebb, karlinn er að fara með annan fótinn í frí næstu vikurnar, toppiði það.

föstudagur, mars 26, 2010

miðvikudagur, mars 24, 2010

Körfunni að ljúka í bili

Formlegt keppnistímabil hjá Ísaki Mána í körfunni endaði núna um helgina. Loksins á heimavelli og því stutt að fara. Léttgeggjaði pabbinn mætti með tösku fulla af græjum til að taka bæði hreyfimyndir og þessar í hefðbundnari kantinum. Leigði mér linsu (aftur!) svona til að prufa mig áfram en í þetta skipti varð 85mm f/1.8 græja frá Canon fyrir valinu, fyrir þá sem vilja vita.
Eftir upp og ofan árangur í vetur þá duttu úrslitin inn og 3 leikir sem allir unnust. Allir sáttir og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þýðir þetta að menn færast upp um „deild“ og byrja því næsta vetur á þéttari pakka. Sem hlýtur bara að teljast góðar fréttir.

Aðeins af myndunum. Góður slatti af myndum tókst alls ekki. Aðrar voru frambærilegri, tala nú ekki um þegar andstæðingurinn er gamall samherji úr fótboltanum:



Svo voru sumar sem við fyrstu sýn virtust hafa mistekist alveg rosalega en við nánari skoðun höfðu eitthvað við sig:

laugardagur, mars 20, 2010

Dagsetning í barnabókhaldið

Stórfjölskyldan fór í sund í dag. Fréttin í því er að þetta var í fyrsta sinn sem Daði Steinn fór í sund, 6 dögum fyrir 1 árs afmælið sitt. Veit ekki hvort maður er að verða kærulausari með hverju eintakinu.
Afslappaðri? Kannski, en líklega meira bara kærulausari, þetta er ekki nokkur frammistaða.

sunnudagur, mars 14, 2010

Saltkringla og flautukarfa

Lítil dæmisaga úr Breiðholtinu um það hvernig átrúnaðargoð verða til:

Ég og frumburðurinn fórum á körfuboltaleik á föstudaginn, skelltum okkur upp í Grafarvog til að sjá ÍR spila við Fjölnir. Gengi okkar manna verið frekar dapurt í vetur og fyrir þennan þriðja síðasta deildarleik vetursins var ljóst að allt þarf að ganga upp ætli menn sér að skríða inn í úrslitakeppnina og fall í 1. deildina var einnig tölfræðilegur möguleiki.

Klúbburinn hóf tímabilið útlendingslaust en fengu til sín Kana fljótlega eftir áramótin. Sá stóð ekki undir væntingum og var sendur heim fljótlega en nýr var kallaður til. Svo skemmtilega vill til að þjálfari meistaraflokks ÍR er einnig þjálfarinn hans Ísaks Mána og þegar Ísak fór á æfingu ekki fyrir löngu þá tilkynnti þjálfarinn honum að það væri kominn nýr gaur á æfingu. Þessi nýji var sem sagt nýji Kaninn, Robert Jarvis. Ísaki fannst ekki lítið sport að hafa þennan gaur á æfingu þótt hann væri víst bara að hanga þarna. Bauð Ísaki saltkringu þegar hann sat þarna á bekknum en í þann mund sendi þjálfarinn Ísak inná völlinn aftur, maulandi á saltkringlu sem var víst ekki alveg að gera sig. En að geta sagt þessa sögu þegar heim var komið eftir æfingu var alveg priceless.

En aftur að leiknum á föstudaginn, ÍR leiddi megnið af fyrri hálfleik en missti heimamennina framúr sér rétt fyrir hlé. Þeir héldu svo forystunni þangað til í blálokin en með lygilegum lokakafla þar sem við feðgarnir fengum tvær 3ja stiga körfur undir lokin frá saltkringlumanninum snerist dæmið við og eins stigs sigur staðreynd. Síðari þristurinn var flautakarfa takk fyrir.

Syni mínum finnst Robert Jarvis vera snillingur.

fimmtudagur, mars 04, 2010

Alvöru sambönd

7:38 Var enn hálfkrumpaður ofan í Cheerios skálinni þegar Ísak Máni, sem er á þessum tímapunkti að taka fréttanetrúntinn sinn fyrir skóla (nba.com og fótbolti.net), kallar á mömmu sína. Ég heyri nú ekki hvað þeim fer á milli en heyri það svo þegar ég er að fara út um dyrnar að hann var að segja mömmu sinni að það væri mynd af henni á fótbolti.net.

8:23 Ég er mættur niður í vinnu, búinn að næla mér í fyrsta kaffibollann og er að opna tölvupóstinn og önnur helstu forrit sem maður þarf til að selja fullt af Cocoa Puffs kúlum. Kíki á fótbolti.net til að sjá herlegheitin, sé að það er verið að auglýsa hið árlega Drottingarmót ÍR, fótboltamót uppgjafa knattspyrnukvenna á óræðum aldri. Myndin sem birtist með fréttinni er frá gullaldarliði ÍR sem tók þátt 2007, þegar Sigga stóð í rammanum. Meðal annarra drottninga sem tóku þátt og voru því vitaskuld á myndinni var Rúna hans Tomma frænda. Fréttina er hægt að sjá -HÉR-

8:25 Mér fannst þetta töff en tók samt nett andvarp og sendi Tomma stuttan tölvupóst sem innihélt það sem ég var að hugsa: Hvenær fáum við mynd af okkur á fótbolti.net?

8:56 Tommi svarar tölvupóstinum og fullyrðir við mig að ég þurfi ekkert að óttast, það muni gerast fyrir helgi.

9:42 Ég kem út af fundi, sé póstinn frá Tomma og er ekki alveg að fatta en spái svo sem ekkert meira í það.

13:07 Tommi sendir mér annan póst með link inn á nýlegri frétt á fótbolti.net og spyr einfaldlega: Sáttur??? Þá frétt er hægt að sjá -HÉR-


Þannig að innan við 4 tímum eftir að ég sendi Tomma tölvupóstinn og 18 fréttum eftir Drottningafréttina var kominn mynd af mér á fótbolti.net.

Þetta heitir að vera með sambönd.

mánudagur, mars 01, 2010