miðvikudagur, september 30, 2009

HRollur

Ég verð að viðurkenna að það fór um mig nettur hrollur í dag þegar sjálfvirka hurðin í Háskólanum í Reykjavík opnaðist og ég gekk inn. Kannski var það unaðshrollur, er ekki alveg viss. Tveir kúrsar eftir og 9. desember er dagurinn sem horft er til, líklegast réttast að klára þetta verkefni sem maður tók að sér. Það var fínt að sjá aftur andlitin sem maður þekkti frá því í vor. Svo náði ég líka eina eintakinu af kennslubókinni sem var á bókasafninu og sparaði mér því 8.490 kr. Maður verður víst að bjarga sér í kreppunni. Það er þó ekki hægt að segja annað en að þessi kúrs byrji vel.

þriðjudagur, september 15, 2009

Í ruglinu

Ég rífressaði afruglarann minn um daginn og inn duttu Eurosport og Eurosport2, af hverju veit ég ekki. Síðustu daga hef ég notið góðs af því og tók upp á því að detta inn í US Open mótið og fylgst með svona með öðru. Jú, jú, tennis.
Prófaði að æfa þetta sport í smátíma hérna í den í Grundó þegar nýja íþróttahúsið reis forðum daga. Ástralski enskukennarinn dró fram spaðann og kenndi okkur þetta sport. Reyndar var frekar fúlt að gólfflötur íþróttahússins er bara rétt svo rúmlega einn tennisvöllur sem setti okkur óneitanlega skorður í því að stunda sportið eins og á að gera það.

Hvað um það, mér þótti í byrjun frekar meira spennandi að fylgjast með stelpunum á US Open, kannski er alltaf meiri drama í kringum þessar elskur. Það var ekki annað hægt en að hrífast með þessari endurkomu hinar belgísku Kim Clijsters sem kom, sá og sigraði eftir 2ja ára hlé frá íþróttinni. Magnað líka með þessa staðreynd að hún sé fyrsta móðirin sem sigrar eitt af hinu fjóru stóru mótum síðan 1980.
Allavega, úrslitaleikurinn í karlaflokki var í gær og ég var nú svo sem alveg rólegur. Við áttust Davíð og Golíat, hinn tvítugi Del Potro frá Argentínu og sigurvegari mótsins síðustu fimm ára, hinn svissneski Roger Federer. Ég sýndi góð tilþrif á fjarstýringunni og horfði m.a. á heilan CSI:NY þátt á meðan leik stóð. Var bara kominn á það að fara að sofa en spennan var hreinlega orðin óbærileg. Eftir rúmlega 4ra tíma maraþonleik stóð guttinn uppi sem sigurvegari og ég skreið alltof seint upp í rúm. Djö... magnað.

Ekki fyrir hvern sem er

3/5 hlutar fjölskyldunnar voru heima um síðastliðnu helgi á meðan 2/5 fóru í sveitina. Meirihlutinn fór á rúntinn niður í bæ og mættu á ferð sinni þar svona tveggja hæða „sightseeing“ rútu, fulla af túristum myndi ég giska á.

Ísak Máni: „Pabbi, getum við einhverntímann farið í svona strætó?“
Pabbinn: „Humm...“
Logi Snær: „Jáááááá, mig langar í svona strætó.“ Smá þögn en hann hélt svo áfram: „En við erum ekki einu sinni Pólverjar!“

Ég er að segja það, 5 ára er snilldaraldur.

fimmtudagur, september 10, 2009

Gullkorn úr leikskólanum


-Klikkið á myndirnar til að stækka-

miðvikudagur, september 09, 2009

Tímasetningar

Núllníunúllníunúllníu. Flott dagsetning, mjög töff fæðingadagur og nýjasti Haraldssonur Hallsteinssonar fannst tilvalið að mæta á svæðið í dag. Því bíða eitthvað fram í október?

Einhvern tímann ekki svo alls fyrir löngu kom til umræðu að gifta sig núllfjórirnúllníunúllníu. Með kyrrþey-ívafi minnir mig, en samt ekki beint í kyrrþey. Varð alla vega aldrei meira en hugmyndarskissa á teikniborðinu. Staðan er sem sagt óbreytt.

Þangað til næst...

þriðjudagur, september 08, 2009

Tímaskekkja?

Ég kom heim í dag og komst að því að þar hafði verið stunduð jólainnpökkun af einhverjum krafti fyrr um daginn. Eitthvað hringsnérist í hausnum á mér og ég leit á klukkuna til að reyna að átta mig á stað og stund. Mun samt örugglega hugsa með þakklæti til þessa dags þegar jólapakkarnir verða allir teknir fram tilbúnir með góðum fyrirvara fyrir jól og ég get afslappaður einbeitt mér að því að innbyrða jólin.