þriðjudagur, júlí 31, 2012

Á góðri stund í Grundarfirði 2012

Við skelltum okkur í fjörðinn um helgina, maður getur ekki látið sig vanta á bæjarhátíðina.  Fullt hús af fólki hjá mömmu, við öll fimm + Jóhanna og co + Gulla og Rúnar Atli.  Það er hægt að segja með réttu að mönnum hafi verið staflað en allt hafðist þetta.  Frábært veður og stemmingin flott.
Við erum að tala um sundlaugina, sólpallurinn á Smiðjustígnum, víkingaspilið kubb í garðinum og grillið fullt að funheitum kolum.
Svo voru hefðbundin hátíðarhöld, stemmingin niður við höfn og öll sú skemmtidagskrá sem henni fylgdi.  Menn buðu að meira að segja upp á heilt varðskip svona til að poppa þetta upp.  Bættu við í jöfnuna einum fótboltaleik sem fór vel, pylsuvagn með framandi útfærslum á matseðli og berjamó, bara svona til að taka þetta alla leið og þá er erfitt að sjá hvernig eigi að toppa þetta.

Ísak Máni og Logi Snær í blíðunni
Daði Steinn orðinn efnilegur „kubbari“
Grundarfjörður - Víðir 4:1
Íþróttaálfurinn gagntekinn af Mikka ref

mánudagur, júlí 23, 2012

Draumurinn rættist


Það var loksins að menn fengu viðeigandi galla:

fimmtudagur, júlí 19, 2012

Útilega á Suðurlandi

Kominn heim eftir smá útilegutúr.  Komum heim úr Grundarfirðinum á laugardeginum og héldum í túrinn á sunnudeginum.  Redduðum okkur fellihýsi hjá góðu fólki og eftir hraðnámskeið í meðferð á svona græju var ekkert annað að gera en að drífa sig bara af stað, á meðan við höfðum veðrið enn með okkur í liði.
Haldið var í austurátt eftir suðurlandinu með mjög grófa ferðaáætlun, þetta átti svolítið að ráðast bara.  Karlinn var með smá hnút enda ekki á hverjum degi með eitt stykki tonn í eftirdragi.  Þetta gekk nú allt saman vel, ég fann alveg fyrir þessu en V6 vélin var samt alveg í góðum gír.  Alla vega þá enduðum við á tjaldsvæðinu í Vík og komust að því á bílastæðinu þar að Sprunguvinir með Ingu og Gunna innanborðs voru á svæðinu.  Komum okkur fyrir á álitlegum stað og tókum því bara rólega þann daginn.

Daði og Hekla í Vík
 Á mánudeginum fór við rúnt og kíktum upp í Þakgil, hefði nú ekki lagt í það með fellihýsið í eftirdragi.  Svo var bara farið í sund í Vík, grillað og chillað.
Á þriðjudeginum var pakkað saman í Vík.  Áður en við létum okkur hverfa þaðan var skroppið í Reynisfjöru og kíktum á Hálsnefshellir og Reynisdranga.

Daði Steinn, Logi Snær og Ísak Máni í Reynisfjöru
Þaðan var ferðinni heitið að Seljalandsfossi, á tjaldsvæðið að Hamragörðum.  Á leiðinni þangað stoppuðum við hjá Skógarfossi og tókum allar 384 tröppurnar upp.  Þegar við vorum búin að finna okkur stað fyrir "kerruna" eins og Daði kallaði græjuna á Hamragörðum þá lentum við í smá tæknilegum vandamálum.  Ákveðið var þá að skottast á Hvolsvöll og redda okkur nánari verkfærum en nota tækifærið og skella okkur í sund og taka sveitta máltíð á vegasjoppu í leiðinni.  Þegar aftur var komið voru tæknilegu vandamálin leyst og græjunni smellt í rafmagn.  Þá var kvöldsólin notuð til að kíkja fyrst inn í Gljúfrabúa sem var nokkuð magnað.  Sáum svo að lítið var um bíla á stæðinu hjá Seljalandsfossi og drifum við okkur því bara að taka röltið þarna bak við.  Sigga og Daði Steinn tóku þetta reyndar bara að utan en við hinir tókum þetta alla leið.  Varla kjaftur á sveimi en á nánast öllum öðrum tímum á meðan við vorum þarna var bílastæðið nánast alltaf kjaftfullt og 2-3 rútur staðalbúnaður.

Ísak Máni og Logi Snær bak við Seljalandsfoss
Daði Steinn og Seljalandsfoss séð að framan
Þegar þarna var komið við sögu var farið að þyngjast yfir veðurspánni.  Hugmyndir höfðu komið upp að fara yfir til Vestmannaeyjar þarna á miðvikudeginum en við ákváðum að eiga það bara inni.  Á miðvikudeginum var dótinu pakkað saman í takt við rigningardropana og haldið heim á leið.  Stoppað á Selfossi til að fá sér í gogginn en þar var algjört úrhelli.  Það var nú léttara yfir Reykjavík þegar við skiluðum fellihýsinu af okkur.
Allir bara þokkalega sáttir, flestir hefðu nú líklega getið haldið lengur út en það var samt engin stemming fyrir rigningunni.

laugardagur, júlí 14, 2012

Aðeins meira af 19:0 leiknum

Sem sérstakur áhugamaður um 3. deildina í knattspyrnu, sérstaklega þá sem snýr að minni gömlu heimabyggð þá er ekki leiðinlegt að hafa orðið vitni af stærsta sigri liðsins í sögunni, þeim stærsta svo um munar.  Eftir smá sagnfræðigrúsk þá kom í ljós að stórsigrarnir hafa nú ekki verið gríðarlega miklir í gegnum tíðina.  Lengi vel var 5:0 sigur gegn USVH í gömlu 3. deildinni (C-deild) árið 1976 stærsti sigurinn.  Eftir sumarið 1987 varð hlé á þátttöku liðsins þangað til sumarið 2010 en 2011 vannst 8:1 sigur á Afríku og var ég á svæðinu þá en ég held svei mér að menn hafi ekki gert sér grein fyrir að það væri stærsti sigurinn í sögunni þá.  Þessi 19:0 sigur gegn Snæfelli fer sem sagt í sögubækurnar sem sá stærsti.  Bara svona til fróðleiks þá er stærsta tap klúbbsins 0:9 gegn HV í 3. deild (C-deild) 1981.

Nokkrir punktar um metleikinn:
  • Markvörður Grundfirðinga, Ingólfur Örn Kristjánsson, sem var m.a. annars kosinn efnilegasti leikmaður Grundfirðinga síðasta sumar og hefur verið á mála hjá Víkingi Ólafsvík, hefur verið að glíma við axlarmeiðsli.  Axlarmeiðslin hafa gert það að verkum að hann hefur ekki getað spilað í marki en var settur í framlínuna í síðasta leik fyrir leikinn gegn Snæfell, 3:0 tap gegn Kára.  Aftur fékk hann tækifæri og setti 7 mörk í þessum leik, sem verður að teljast gott hjá formlegum markverði.  Reyndar er ég harður á því að hann hafi sett 8 kvikindi en að það hafi eitthvað skolast til í bókhaldi hjá ágætum dómara leiksins og kunninga mínum, Halldóri Breiðfjörð.  En 7 eru skráð á hann síðast þegar ég vissi, það verður að duga honum.
  •  Í hálfleik þegar staðan var 11:0 notaði Snæfell annan af tveimur varamönnum sínum og skipti um markvörð.  Sá sem kom inná stóð sig bara nokkuð vel þrátt fyrir að mitt nef segi mér að hann sé ekki mikið menntaður í fræðunum.  Hann var 15 ára, tveimur árum eldri en Ísak Máni.
  • Ásgeir Ragnarsson kom inná á 78. mínútu leiksins fyrir Grundfirðinga.  Hann er 48 ára og var að spila sinn fyrsta deildarleik síðan þarna á 9. áratug síðustu aldar.  Sonur hans var líka inná.
Annars er nú þátttaka Snæfells í þessu móti alveg efni í nýjan pistil.  Ég skal hundur heita ef í næsta riti af Íslenskri knattspyrna verði ekki bróðurpartur liðanna úr C-riðli 3.deildar með skráðan stærstan deildarsigur í sögunni gegn Snæfelli árið 2012.  Liðið er svo langt frá því að vera samkeppnishæft, tel meira að segja að það myndi varla gera mikla lukku í utandeildinni.  Þessi frétt á Vísir sem kom í dag finnst mér koma kjánalega út fyrir Snæfellsmenn, fyrir mitt leyti er þetta hætt að vera fyndið og ég get ekki séð til hvers góðs þessi þátttaka á að vera.  9 leikir búnir og allir tapaðir með markatöluna 0:124!  Menn hljóta að gera tilkall til þess að vera mögulega lélegasta lið í sögu deildarkeppninnar á Íslandi.
Nei, þá er nú betur heima setið.

fimmtudagur, júlí 12, 2012

Fyrsti í sumarfríi

Við Daði Steinn vorum að detta í frí í dag, hinir 3/5 eru búin að vera að chilla í einhvern tíma.  Bongóblíða þennan fyrsta frídag eins og hefur verið nánast í allt sumar og ég vona að þetta haldi eitthvað áfram.
Öllu liðinu sópað út í bíl í morgun og haldið upp á Akranes.  Tókum Langasand á þetta með tilheyrandi baðstrandarfílíng og fórum svo upp í skógræktina á svæðinu í nestisát, strandblak og almenna sólarsleikingu.  Héldum áfram í Grundarfjörð, skelltum lambakjöti og hamborgurum á kolagrillið í Smiðjustígnum um kvöldið, örugglega 40 gráður á pallinum í sólinni.  Röltum svo út á Grundarfjörð Stadium til að horfa á heimamenn flengja nágrannana úr Stykkishólmi 19:0.  Furðulegt en maður var með nettan kjánahroll megnið af leiknum og var svo eiginlega hálffúll að þeir hafi ekki náð 20 mörkunum.  En athyglistvert var þetta.
Hvað gerum við á morgun?  Ekki hugmynd.

Lífið er ljúft.

mánudagur, júlí 02, 2012

Betra liðið vann

Það var fljótlega ljóst að þetta var ekki að fara gerast en mér fannst 4:0 kannski fullmikið af því góða.  Spánverjar voru svaðalega góðir en tek samt ofan af fyrir mínum mönnum fyrir að halda áfram að reyna.  En það var lítið að detta með þeim bláu og þegar 3ji varamaðurinn tognaði á læri fimm mínútum eftir að hann kom inná þá slokknaði sú litla von sem kannski, hugsanlega, mögulega var eftir og síðasti hálftíminn var ekki að gera mikið fyrir mig.

Ég get þó huggað mig við það að spænskur sigur þýddi að ég vann ekki EM pottinn niðri í vinnu, en ítalskur sigur hefði þýtt að ég hefði fengið 114 bjóra heim með mér.  Það hefði verið bölvað vesen að koma þeim fyrir hérna heima, endurraða í eldhússkápunum og svoleiðis.  Bara vesen.

Bitur?  Neibb, ekki þegar betra liðið vann.

sunnudagur, júlí 01, 2012

Hálfnaður planki

Planki 1. júlí búinn og enn hefur ekki dottið út dagur hjá mér og Ísaki Mána á árinu 2012, 183 dagar búnir og 183 dagar eftir.  Við höfum haldið okkur við að planka í 2:05 mínútur en núna er þetta yfirleitt gert í einni lotu.  Ég get samt ekki sagt að þetta verði eitthvað léttara eða að manni finnist að maður sé að byggja upp eitthvað "plankaþol", þetta er alltaf jafn mikið helvíti.  Við höfum líka reynt að poppa þetta með einhverjum útfærslum, svipað eins og þessum -hérna-.  Það verður að segjast að þetta er ekki brjáluð fjölbreytni en það þýðir lítið annað en að reyna að klára þetta verkefni.  Spurning hvernig manni gengur að klára einn á dag í sumarfríinu, það verður bara að koma í ljós.