miðvikudagur, febrúar 29, 2012

Dagur til að blogga

Stemming að henda inn einum pistli hingað á þessu degi...
...að hluta til bara því dagurinn í dag er í dag.  Ég hef eitthvað klikkað á því fyrir fjórum árum.

Ástandið hérna heima búið að vera í frekar miklu tjóni.  Daði Steinn og Ísak Máni fengu báðir flensuna í byrjun síðustu viku, Ísak á sunnudeginum og Daði á þriðjudeginum og báðir lágu þeir í viku.  Daði Steinn fór loksins í leikskólann í dag eftir herlegheitin.  Mér tókst svo að leggjast sjálfur um síðustu helgi en mætti semiferskur til vinnu í dag.  Eins og það væri ekki nóg heldur skreið Logi Snær heim úr skólanum á miðjum degi í gær, kominn með pestina.  Hann fékk að fara upp í Mosó og er þar núna í góðu yfirlæti ef ég kannast eitthvað við Mosfellsbúa.  Sigga hefur siglt í gegnum þetta, mætir í sína rækt á ókristilegum tíma og lætur ekkert stoppa sig.  A.m.k. hingað til.

PAD verkefni mitt og Ísaks Mána gengur vel, mánuður tvö búinn og enn hefur ekki fallið úr dagur, með pest eða án pestar þá hafa menn látið sig hafa það.  Bættum nokkrum sekúndum við settin frá því í janúar, 1:05 mínúta og tökum svo 0:50 eftir stutta pásu.  Held að við þyngjum ekkert við í mars, þetta er tekur alveg í eins og er.

þriðjudagur, febrúar 28, 2012

Korn frá Daða

Einhver gullkorn frá yngri árum Loga Snæs leynast hérna á þessum vettfangi, Ísak Máni greyið geldur fyrir það að pabbi hans var ekki farinn að blogga þegar hann var lítill.  Segjum bara að það hafi ekki verið búið að finna upp bloggið svona til að fría mig öllu.  Hef nú ekki verið nóg góður að punkta niður mola frá Daða Steini en læt hérna einn frá því í kvöld flakka.

Ég var nýbúinn að koma Daða Steini í bælið en labbaði svo framhjá herberginu hans eitthvað léttklæddari en ég hafði verið þarna rétt áður.  "Pabbi, hvert ertu að fara?" spurði hann, en ég skildi nú ekki alveg af hverju hann fékk það út að ég væri að fara eitthvað.  "Ég ætla bara að skella mér í sturtu" sagði ég.  Nokkur andartök líða áður en hann kallar í mig úr rúminu sínu inn á baðherbergi:  "Pabbi, ég kann ekki að fara í sturtu."  Ég brosi út í annað og humma eitthvað en hann kemur svo með nánari útskýringu á þessu:  "Ég er með svo lítinn maga.  Þess vegna fer ég alltaf í bað."

mánudagur, febrúar 20, 2012

þriðjudagur, febrúar 07, 2012

Ofurskál númer 46

Mætti hálf syfjaður í vinnuna á mánudagsmorgni, þó ferskari en ég hélt. 4 tíma svefn er svona í það minnsta fyrir mann á mínum aldri. En ég var sáttur. Superbowl, úrslitaleikurinn í ameríska fótboltanum að baki og mínir menn í New York Giants hirtu dolluna í mögnuðum leik. Sigruðu Þjóðernissinnana frá New England, endurtekið efni frá 2008, ef leikurinn um helgina var flottur þá var sá frá 2008 algjört rugl í gæðum. Sagði það þá og segi það enn, ég elska þessa íþrótt og skammast mín ekki neitt fyrir það. Stöð 2 gerði mér nú reyndar smá óleik, ekkert alvarlegt þó. Alla vikuna fyrir leikinn auglýstu þeir að leikurinn yrði sýndur á ESPN America sem er á fjölvarpinu hjá þeim. Ég nennti ekki að taka sjénsinn á að horfa á leikinn í gegnum netið í einhverjum misgóðum gæðum og fékk mér því fjölvarpið í einn mánuð. Þurfti reyndar ekki að greiða beint fyrir það með peningum heldur átti ég inni einhverja vildarpunkta sem ég gat notað. Nokkrum klukkutímum fyrir leik upplýstu þeir hinsvegar að þeir myndu skipta yfir á ESPN stöðina á Stöð 2 Sport rásinni, sem ég er með. Þannig að ég hefði ekki þurft að fórna þessum punktum mínum fyrir fjölvarpið í einn mánuð. Skítt með það, ég hlýt að geta fundið mér eitthvað í kassanum út þennan mánuð.

Þessu tengt, skil ekki hvernig mér tókst að finna íþróttabúð steinsnar frá hótelinu þegar við Sigga vorum í NY þar sem hægt var að fá Giants treyjur og labba þaðan út, tvisvar, án þess að versla mér Manning-treyju. Ófyrirgefanlegt og mun ekki gerast aftur.

sunnudagur, febrúar 05, 2012

Erfitt sumar fyrir suma

Veturinn hefur verið ansi vetrarlegur, mikil snjór og kuldi með því. Það er því lítið sem hefur minnt á sumarið núna fyrstu tvo mánuði ársins, a.m.k. veðurlega séð. Hinsvegar fer hugurinn að tengjast sumrinu þegar íslenskir knattspyrnumenn fara að hefja keppni í þessum "upphitunarmótum" fyrir sumarið sem hefjast oftar en ekki í janúar ár hvert. Reykjavíkurmótið er eitt þeirra og þar var hverfisklúbburinn vitaskuld að taka þátt. Ég var að mörgu leyti forvitnari en oft áður, aðallega vegna þess að þjálfari liðsins frá síðasta sumri taldi sig vera kominn á endastöð með liðið og tók hatt sinn og staf og yfirgaf Breiðholtið og í kjölfarið hurfu á annan tug leikmanna og þótt eitthvað hafi komið af nýjum mönnum í staðinn þá fór minna fyrir því. Ég var nú samt ekki svo langt leiddur að ég dröslaði mér á þessa leiki en sökum fyrrnefndrar forvitni þá tók ég fyrsta leikinn í beinni á netinu fyrst það var í boði, leikur gegn úrvalsdeildarliði Fram. Segjast verður að áhyggjur mínar af þessari endurnýjun reyndust á rökum reistar, 5:0 tap og mínir menn skítlélegir svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Tap í næsta leik, 0:1 gegn Víkingi, var þó aðeins skárra en svo tók við 0:3 tap á móti nágrannaliðinu sem maður nefnir helst ekki á nafn. Lokaleikurinn í þessu móti var svo gegn KR og enn náðu ÍR-ingar ekki að skora mark og fengu nú enn fleiri mörk á sig en áður, 0:9 endaði þetta. 4 leikir, 4 töp og markatalan 0:18. Veit ekki hvað skal segja með stemminguna fyrir sumarinu hvað þetta varðar en reyndar er enn bara febrúar þannig að menn hafa enn tíma til að girða sig í brók og æsa upp stemminguna. Verð kannski bara að treysta á uppáhaldssveitaliðið fyrir gleði á vellinum í næsta sumar.