sunnudagur, desember 27, 2015

Jólin 2015

Heildarframkvæmdin á þessum jólum nr. 2 í Kögurselinu voru með hefðbundnum hætti að mestu leyti.  Ísak Máni var reyndar að vinna í Hagkaup frá kl. 11:00 - 14:30 þannig að hann gat ekki komið í hefðbunda íþróttahússheimsókn í Breiðholtsskóla og hafði það talsverð áhrif á upplifunina hjá öðrum.  En úr því var reyndar bætt á jóladag.
Sigga galdraði fram hamborgarahrygginn og hangikjötið á slaginu kl. 18:00 og spennustigið tengt pökkunum var svona innan skekkjumarka.  Logi Snær fékk reyndar aðeins í magann strax eftir matinn en líklega var það vegna ójafnvægis á milli kjötsýrustigs og spennuhnútsins í maganum.  Hann var svo alveg þokkalegur í pakkaflóðinu.  Verður að teljast hefðbundið sem rataði upp úr pökkunum, fatnaður var áberandi þessi jólin.

þriðjudagur, nóvember 24, 2015

Viðtalið

Sá yngsti í einlægu einkaviðtali í jólablaði Fréttablaðsins í dag, þar sem ekkert er dregið undan og engum er hlíft.

fimmtudagur, nóvember 05, 2015

Laus úr gifsinu - 3 mánuðum seinna

Núna þremur mánuðum eftir fótbrotið er Ísak Máni loksins laus úr gifsi, hinu síðasta af þremur. Eftir rúmar 4 vikur í gifsi upp að nára tóku við einhverjar 5 vikur í gifsi sem náði upp að hné, í hvorugu þeirra var í boði að stíga í fótinn en gifsferlið endaði svo á „litlum“ þremur vikum í göngugifsi, um 13 vikur í það heila. Núna taka við einhverjar vikur í að koma sér af stað en svo er planið að taka teinana, sem settir voru í fótinn til að skorða beinin af, úr fyrir áramót. Þangað til er allt leyfilegt sem framkallar ekki sársauka og eru sundlaugaferðir og styrktaræfingar þar ofarlega á blaði.

Ef maður gerir þetta upp þá verður að segjast að byrjunin var erfiðust í þessu. Frekar óljóst í upphafi hversu langt ferli væri framundan, hlunkagifs og 1. bekkur í menntó að bresta á. Drengurinn hóf s.s. skólagönguna í Kvennó með pabba gamla oftar en ekki á kantinum og Ísak á orðið slatta af nýjum vinum sem þekkja hann ekki öðruvísi en á hækjum. Kvennó – þrjár byggingar, hver þeirra örugglega að meðaltali 100 ára gamlar og sameiginlegur fjöldi lyfta í þessum þremur byggingum er 1 kvikindi. Dreptu mig ekki. En einhvern veginn hafðist þetta af.

Málin urðu aðeins þægilegri með minna gifsinu og þegar göngugifsið kom undir þá var hann nánast búinn að losa sig við báðar hækjurnar eftir 3 daga. Göngugifsið fór s.s. af núna í morgun og eftir smá slökun þá var farið í það að leggja löppina í bleyti og framkalla hamskipti á fætinum, sem er helv... rýr á þessu stigi málsins. Kappinn stígur núna í fótinn sársaukalaust þótt menn fari ekki hratt yfir. Það var svo ekki hægt annað en að reima á sig nýju Kyrie körfuboltaskóna, bara til að prufa, þótt prufukeyrsla á þeim á fullu gasi fari nú ekki fram fyrr en eftir áramót.

Maður er ótrúlega stoltur af stráknum, oft bognaði sálin en aldrei hlaut hún sömu örlög og fóturinn. Ég trúi því að menn séu komnir upp mestu brekkuna, núna taki við ferðalagið að koma sér aftur heim.

sunnudagur, ágúst 16, 2015

Daði Steinn - fyrsta fótboltamótið

Eftir að hafa byrjað formlega í boltanum í síðasta mánuði þá tók Daði Steinn þátt í sína fyrsta móti í dag, Arion-bankamótið í Víkinni.  8. flokkur hjá ÍR svona til að halda því til haga.  Ég var að gæla við það að hann gæti notað búninginn hans Loga en vitaskuld var það ekki tekið í mál.  Það var því haldið til Braga í Leiksport og verslað eitt stykki búningasett.  Logi kom með og þegar umræðan um hvaða númer átti að setja á þá vildi Daði vera númer 17, eins og Logi.  Logi tók það hinsvegar ekki í mál og niðurstaðan varð númer 11, eins og Neymar Jr.
Strákurinn stóð sig frábærlega vel á þessu móti, byrjaði að skora tvö mörk í fyrsta leiknum á móti Gróttu og eftir það var ekki litið til baka.  Formlega voru ekki tekin saman nein úrslit en óformlega var ljóst að þeir unnu alla sína leiki.

Fyrsta markið á ferlinum í bígerð - með vinstri

Yfirvegun á móti Blikunum
Annars fannst mér hann góður þegar ég var að hrósa honum fyrir mótið og m.a. að hafa skorað 6 mörk í leikjunum 5.  Hans svar við þessari tölfræði var einfaldlega þetta:
"Ég skoraði ekki 6 mörk í 5 leikum pabbi.  Ég skoraði ekki í einum leiknum, þannig að ég skoraði 6 mörk í 4 leikjum."

Enn einn snillingurinn, svaðalega er maður ríkur.

Svakalegir tilburðir

Á móti Grindavík

Peppfundur á milli leikja með Helga þjálfara

Flottir

laugardagur, ágúst 15, 2015

Valur - KR í bikarúrslitum 2015

Valur - KR í úrslitum bikarkeppni KSÍ.  Valur í úrslitum í fyrsta sinn síðan 2005.  Það var eiginlega ekki hægt annað en að mæta. 

Dró aðeins úr mér að Ísak Máni var ekki ferðafær en ég ákvað að láta reyna á þetta og Logi Snær og Daði Steinn voru tilbúnir að fara, þótt þeir væru ekki alveg að átta sig á því út í hvað þeir voru að fara.  Við vorum mættir vel tímanlega og fengum fínustu sæti, Valsmegin vitaskuld og þegar upp var staðið vorum við þeim megin á vellinum sem mörkin komu.  Tíðindalítill fyrri hálfleikur og rólegt framan af síðari hálfleik.  Valsara þó líklegri en KR-ingar ekki að skapa sér neitt.  Ég var farinn að hafa smá áhyggjur af því að við værum mögulega að fara út í framlenginu, var ekki að sjá og skynja að mínir drengir hefðu úthald í það.  En Bjarni Ólafur Eiríksson og Kristinn Ingi Halldórsson sáu til að svo varð ekki, með mörkum á 71. og 87. mínútu og Valur bikarmeistari 2015.  Ég held að KR hefði getað spilað eitthvað fram á sunnudag án þess að skora.  Tæplega 6.000 manns á vellinum, það mesta á bikarúrslit síðan 1999.  Strákunum fannst svolítið gaman að því að fyrir aftan okkur sat Kale-dóttir, markvarðar Vals, og hún kallaði jafnan inná þegar pabbi hennar greip fyrirgjafir, sem var eiginlega það eina sem hann þurfti að gera í leiknum, "gott pabbi" eða "vel gert pabbi".

Fékk smá deja-vú þarna í Valsgleðinni á Laugardalsvellinum, ekki ósvipað þegar Valur varð Íslandsmeistari síðast 2007 en þá tryggðu þeir sér titilinn einmitt á Laugardalsvelli vegna framkvæmda á Valsvellinum.  Þar vorum við Ísak Máni og þetta var ekki ósvipað.

Bræðurnir - Daði Steinn í ÍR gallanum

Þrennan

Fyrst ÍR vann þetta ekki þá var þetta draumaniðurstaða

föstudagur, ágúst 14, 2015

Kings of Leon

Kings of Leon spiluðu í Laugardalshöllinni í gær.  Svolítið síðan eitthvað þokkalegt nafn í þessum geira kom til Íslands að spila og ég var ágætlega spenntur að kíkja þótt ég get ekki sagt að ég sé eldheitur fan.  Miðasalan fór af stað þegar við vorum út á Spáni og ég ætlaði svona að sjá hvernig þetta færi af stað en ég hafði alveg eins átt von á því að það myndi seljast upp mjög fljótt.  Svo varð nú ekki raunin og þegar upp var staðið fékk ég tvo miða á besta stað í gegnum vinnuna en um 8.000 manns voru í Höllinni.  KOL er ekki Siggu-tebolli svo alla jafna hefði Ísak Máni verið fyrsti maður inn.  Hann var náttúrulega ekki að fara skrölta þarna á hækjunum svo mér datt í hug að testa hvort Logi Snær væri maður í þetta.  Hann var til í þetta en eins og oft áður, án þess að gera sér fulla grein fyrir því hvað hann væri að fara út í.  Það varð því úr að við fórum tveir á þetta.
Við mættum ágætlega tímalega á svæðið og í fremsta hólfinu, hólfinu okkar, var ágætlega rúmt um okkur þegar upphitunarbandið, hinir íslensku drengir í Kaleo, stigu á svið.  Loga finnst þeir flottir og þeir stóðu sig vel.  Mér fannst þeir byrja þó heldur rólega, sérstaklega í ljósi þess að þeir spiluðu bara í tæpan hálftíma.  Þegar KOL stigu á svið var heldur farið að þéttast í hólfinu okkar og sífellt erfiðara fyrir Loga Snæ að sjá á sviðið.  Svona þegar nálgaðist miðbik tónleikana þá tókum við á það ráð að koma okkur á barinn og næla okkur í ískalt 7-up.  Og í framhaldinu náðum við að koma okkur alveg upp við sviðið, á öðrum kantinum sem gerði það að verkum að Logi Snær sá á sviðið og það var flott upp á síðari hluta tónleikana.  Líka skemmtilegra að við þekktum frekari lögin sem voru spiluðu þarna í seinni hlutanum sem endaði náttúrulega með feiknar stuði í Sex on Fire.




Sýn blaðamanns Fréttablaðsins á tónleikana:

Kings of Leon
Nýja laugardalshöllin
13. ágúst 2015
Það var margt um manninn í Nýju-Laugardalshöllinni á fimmtudagskvöldið þegar ein vinsælasta rokkhljómsveit heims, Kings of Leon, steig þar á svið. Það var reyndar íslenska hljómsveitin Kaleo sem hóf leik og sýndi sveitin frábæra takta og var afar þétt í sinni spilamennsku. Kaleo spilaði því miður í einungis um 25 mínútur og undirritaður skynjaði það á tónleikagestum að fólk var almennt til í að heyra fleiri lög frá rokkurunum úr Mosfellsbænum. Það var auðsjáanlegt og auðheyranlegt að dvöl sveitarinnar í Bandaríkjunum undanfarna mánuði hefur gert þessa góðu sveit enn betri og verður gaman að sjá hvað gerist hjá henni í framtíðinni.
Eftir að Kaleo lauk leik, tók við smá bið en fólk var almennt í góðum fíling.
Þá kom að því, að suðurríkjarokkararnir í Kings of Leon stigu á svið og þeir voru stundvísir. Undirritaður var heillaður, alveg frá fyrsta tóni, frá því að fyrsti hljómurinn í laginu Supersoaker, sem er jafnframt fyrsta lagið á nýjustu plötu Kings of Leon, Mechanical Bull, allt fram að síðasta hljómi í lokalagi tónleikanna, sem er jafnframt vinsælasta lag sveitarinnar, Sex on Fire.
Bræðurnir þrír, Caleb Followill, Nathan Followill, Jared Followill og frændinn Matthew Followill slógu ekki feilnótu alla tónleikana, eða þá hefur hún allavega farið fram hjá undirrituðum. Með þeim á sviðinu var þúsundþjalasmiður að nafni Ethan Luck, sem spilaði á slagverk, gítar, hljómborð, söng bakraddir og allt þar á milli. Þessir fagmenn
léku öll vinsælustu lög sveitarinnar og voru öryggið uppmálað í spilamennsku sinni og framkomu. Tónleikagestirnir, sem voru um átta þúsund manns, fengu að heyra lög af öllum sex breiðskífum Kings of Leon og því klárt mál að þeir fengu helling fyrir sinn snúð, sama hvaða plata er í uppáhaldi.
Söngvari sveitarinnar, Caleb Followill, talaði aðeins við tónleikagesti á milli laga en var aldrei með neitt óþarfa blaður. Hann sagðist til dæmis vera flugþreyttur en að hann myndi laga það með því að drekka sig fullan og glotti í kjölfarið. Þá sagði töffarinn einnig þegar langt var liðið á tónleikana að sveitin hefði í hyggju að koma aftur til landsins, það væri frábært að vera á Íslandi og þeir hefðu hlakkað mikið til þess að koma hingað. Annars virtust liðsmenn Kings of Leon að mestu leyti vera einbeittir í því að skila sínu vel, sem þeir gerðu. Þeir voru ekki með neitt óþarfa blaður og það er bersýnilegt að þessi gaurar hafa svo
sannarlega spilað á nokkrum tónleikum áður. Þvílík reynsla og fagmennska.
Það voru fleiri fagmenn í salnum því hljóð og ljós var til mikillar fyrirmyndar. Hljóðkerfið skilaði frábærum hljómi og ljósadýrðin var þvílík. Til að setja punktinn yfir i-ið voru þrír risaskjáir við sviðið, sinn hvorum megin við sviðið og svo einn, sem var jafnframt stærsti skjárinn, fyrir aftan sviðið. Þessi skjáir gerðu mikið fyrir tónleikana og gerðu þá að miklu sjónarspili. Fjöldi myndavéla var á sviðinu þannig að áhorfendur gátu vel séð hvað meðlimir sveitarinnar voru að gera uppi á sviði þegar þeir rýndu í hliðarsk
jáina. Glæsileg grafík var svo á skjánum á bak við sviðið sem talaði við hvert lag fyrir sig. Þessir skjáir, með þessari glæsilegu grafík og myndefni, gerðu svo sannarlega góða tónleika enn betri.
Það eina sem undirritaður gat sett út á á tónleikunum var svæðisskiptingin og fannst honum heldur mikið að hafa svæðin fjögur, A+, A, B og C svæði. Ástæðan fyrir því gæti verið sú að undirritaður er ekki vanur svona mörgum svæðum á standandi tónleikum á Íslandi og þetta því svolítið viðbrigði. Annars var allt skipulag til mikils sóma og virtist undirrituðum allt fara vel fram og allir ganga sælir og sáttir úr Nýju-Laugardalshöllinni.

Niðurstaða: Bræðurnir þrír, Caleb Followill, Nathan Followill, Jared Followill og frændinn Matthew Followill í Kings of Leon slógu ekki feilnótu alla tónleikana. Hinir íslensku Kaleo gáfu tóninn fyrir það sem í vændum var og voru frábærir. Vel heppnaðir tónleikar í alla staði.

mánudagur, ágúst 10, 2015

2-á-2 á Selfossi endar með braki

Rosalega hafði ég góða tilfinningu fyrir þessum föstudegi.  Logi Snær að fara að keppa á fótboltamóti um helgina á Selfossi og planið á föstudeginum var sú að ég tók mér frí í vinnunni og fór með hann ásamt Ísaki og Daða sem ætluðu að fylgjast með bróðir sínum.  Ég var sérstaklega ánægður með að Ísaki langaði til að fara með, hann hafði lítið séð af Loga í boltanum í sumar en var akkúrat í fríi í vinnunni þennan föstudag.  Fínasta veðurspá, einhver sumarhátíð á Selfossi og við ætluðum að gera flotta strákaferð úr þessu en Sigga var á námskeiði.  Þetta átti bara að verða súper nice, Ísak og Daði ætluðu mögulega að kíkja saman í sund á milli leikja og svo ætluðum við að verðlauna okkur með Huppuís o.s.frv.  En merkilegt nokk þá fara hlutirnir ekki alltaf samkvæmt plani.

Logi var búinn að spila fyrsta leikinn af þremur þann daginn, þeir unnu og Logi skoraði sigurmarkið.  Við fjórir fengum okkur smá í gogginn í félagshúsinu við völlinn hjá Selfyssingum, klassískar grillaðar samlokur og pylsur.  Þarna við völlinn þar sem Logi átti að spila leik nr 2 var smá grasbali með pínulitlum mörkum.  Við ákváðum, til að drepa tímann, að taka smá 2-á-2 fótbolta á þetta, ég og Logi á móti Ísaki og Daða.  Þegar þessi annars krúttlegi leikur okkar var að klárast þá gerðist það.  Ísak er eitthvað að teygja sig í boltann með vinstri fætinum en nær einhvern veginn að stíga á boltann, missir jafnvægið og hrynur í jörðina.  Hægri fóturinn sem hann stendur í harðneitar hinsvegar að færa sig úr stað og allur þunginn á drengnum lendir ofan á þeim fæti.  Á þess að fara út í einhverjar öfgakenndar hádramatískar, þriggja klúta lýsingar þá get ég staðfest að ég heyrði smellinn í fætinum og sá óeðlilega afstöðu á hægri fætinum þegar aumingja drengurinn hrundi í jörðina.  Bættu við svakalegum viðbrögðum hjá honum og þá var alveg greinlegt að við vorum ekkert í neitt sérstökum málum.  Ég þorði ekki annað en að skutla mér á hann svo hann myndi vera kyrr, reif upp símann og hringdi í 112.  Að dreif eitthvað fólk og aðstoðaði okkur á meðan við biðum eftir sjúkrabílnum.  Sú bið varð reyndar tæpur hálftími þar sem þessir hefðbundu tveir sjúkrabílar sem eru að þjónusta svæðið voru víst ekki að anna eftirspurninni og síðar frétti ég að þegar mest lét þennan dag voru þeir alls sjö að sinna verkefnum.  Logi og Daði voru strax settir í fóstur með liðinu hans Loga en þeir voru eðlilega smá skelkaðir.

Ísak Máni var dópaður upp þarna á grasinu og fóturinn spelkaðar og drengurinn fékk sínar 15 mínútur (eða þennan hálftíma) af frægð enda talsverð traffík gangandi fólks þarna um svæðið, af strákum sem voru að keppa og foreldrum þeirra.  Farið var með hann upp á sjúkrahúsið á Selfossi í myndatöku en guttinn var alveg út úr heiminum, bullaði um einhver form og liti en bleiku filarnir komu reyndar ekki.  Úr því kom, að leggurinn var brotinn, bæði beinin í sundur en ökklinn slapp.  Sigga fékk mömmu sína til að skutla sér upp á Selfoss og tók hina tvo drengina úr fóstri á meðan ég var á spítalavaktinni.  Niðurstaðan var sú að Ísak þurfti að fara í aðgerð á fætinum, til að bolta beinin saman, aðgerð gerð í Reykjavík.  Þannig að drengurinn var gifsaður, fyrir flutninginn og við fengum sjúkrabílaflutning frá Selfossi upp á Barnaspítala þarna seint á föstudagskvöldinu svo hann gæti farið í aðgerð á laugardeginum.  Ég gisti þarna, svona að nafni til en það var s.s. ekki mikið sofið.

Laugardagurinn hófst í raun bara á bið eftir aðgerðinni en hún var framkvæmd fljótlega eftir hádegið, í Fossvoginum þannig að við þurftum að fá transport í sjúkrabíl þangað.  Aðgerðin gekk vel og þegar Ísak var orðinn þokkalega brattur eftir vakningu af svæfingunni var okkur skutlað aftur í sjúkrabíl upp á Barnaspítala.  Vel áliðið á daginn og því var ákveðið að halda honum aðra nótt á spítalanum, svona til að sjá hvernig þetta myndi þróast.  Þannig að við tókum aðra nótt á Barnaspítalnum.  Í morgun leit þetta vel út, strákurinn orðinn nokkuð brattur miðað við aðstæður og því ekkert annað en að koma sér heim.  Amma hans kom úr Mosó og hjálpaði okkur upp í Breiðholtið en Sigga var á Selfossi enda hafði hún haldið uppi stífum áætlunarferðum fram og tilbaka á Selfoss með Loga og Daða á fótboltamótinu.  Liðið hans Loga gátu ekki hætt að vinna og Logi skoraði eins og það væri enginn morgundagur sem endaði á besta veg, með sigri í sínum riðli og bikarinn í Breiðholtið. 

Þannig að ljóst er að Ísak Máni er ekki alveg að fara reima á sig körfuboltaskóna strax og mun eiga svaðalega innkomu í Kvennó, sem "businn á hækjunum".  Ég reyni að sjá broslegu hliðina á því að ökukennarinn sem ég var að vinna í því að taka Ísak í tíma hringdi í mig ca 3 tímum eftir að við komum heim í dag til að bjóða honum að byrja á þriðjudaginn.  Allir sem komu að þvi máli voru sammála um að setja það á ís.  Gifs næstu 6-8 vikurnar, ein af þessum brekkum í lífinu, verkefni sem þarf að leysa, áður en partýið verður keyrt aftur í gang á fullu gasi.

Bæði beinin í sundur
Kominn heim með ferlíkið á fætinum

Logi Snær átti frábært mót

Liðið hans Loga

mánudagur, júlí 27, 2015

Á góðri stund í Grundarfirði 2015


Þá er þessari helgi lokið þetta árið.  Þetta var á margan hátt frekar óvenjuleg hátíð, miðað við mörg árin á undan.

Það sem var aðallega óvenjulegt:

  • Mættum í seinna lagi, um kaffileytið á föstudeginum, bara rétt til að ná froðugamaninu.  Mig minnir að þetta sé þriðja árið sem það er froðugaman en núna var það í franska garðinum sem er bara fyrir aftan húsið hjá mömmu.  Kostur að það var mjög stutt að hlaupa heim í sturtu þegar menn voru búnir að fá nóg, ekki það að kirkjutúnið árin áður hafi verið einhver vegalengd.
  • Ísak Máni var ekki með, var bara heima.  Hann hafði fengið vinnu í Hagkaup í Smáralind þegar við komum frá Spáni og var búinn að vinna frekar grimmt og þ.a.m. alla þessa helgi.
  • Það voru tónleikar á hlaðinu hjá Óla Sigga og Sjöbbu, sem var nýjung sem heppaðist svona líka vel.  Núverandi og fyrrverandi Grundfirðingar sungu og spiluðu.
  • Jóhanna mætti með Aron Kára, þau hafa nú ekki alltaf sé sér fært að mæta og yfirleitt ekki.
  • Sigga þurfti að skjótast í sjötugsafmælisveislu hjá Helga frænda sínum sem haldið var rétt fyrir utan Borgarnes á laugardeginum.  Upphaflega ætlaði hún bara ein en þegar á reyndi vildu bæði Logi Snær og Daði Steinn fara með henni þannig að ég varð bara einn eftir í firðinum.  Sá því ekki mikið point í því að taka skemmtidagskrána þarna á laugardeginum og ákvað frekar að sleikja sólina á pallinum. 
  • Það fór ekki upp svo mikið sem ein gul skreyting þetta árið að Smiðjustíg 9, sem skrifast aðallega á hversu seint við komum á svæðið.
  • Það var ekkert sérstök stemming á Smiðjustígnum fyrir skrúðgöngunni en við létum okkur hafa það alveg undir restina og náðum að reka lestina í henni.  Frekar róleg stemming þar fannst mér, enda kannski erfitt að ætla að viðhalda sömu stemmingunni fyrir þessu ár eftir ár.
  • Fórum svo mjög snemma heim um kvöldið eftir bryggjuskemmtunina, áður en bandið sem var að spila byrjaði, Daði og Logi vildu einfaldlega fara heim.
  • Á leiðinni heim til Reykjavíkur stoppuðum við og fórum upp á Eldborg, hlutur sem Logi Snær er oft búinn að tala um ansi oft þegar við höfum keyrt framhjá.  Tók okkur tvo tíma að rölta þetta fram og til baka.
  • Síðast en ekki síðst þá var þetta væntanlega í síðasta skiptið sem við erum í gula hverfinu, en mamma er að flytja sig yfir götuna sem þýðir að ári verðum við í bláa hverfinu.  Sem verður skrítið en menn verða þá bara að skipta Cheerios bolunum út fyrir ÍR göllum.


Það sem var aðallega venjulegt:

  • Veðrið.  Þvílík bongóblíða að það hálfa hefði verið nóg en það þykja víst ekki fréttir á þessari hátið.  

Bræðurnir í froðugamaninu
Bræðurnir á Eldborg

þriðjudagur, júlí 14, 2015

Daði Steinn byrjaður í boltanum

Það kom að því, allt er þá þrennt er og svoleiðis en í dag fór Daði Steinn á sína fyrstu fótboltaæfingu hjá 8. flokki ÍR.  Hann hefur verið ansi öflugur hérna heima í stofu og einnig stundum fengið að fljóta með Loga Snæ út á völl í tuðruspark.  En allar umræður um að mæta á fótboltaæfingar fengu lítinn hljómgrunn, jafnvel þótt Markús, einn besti vinur hans úr leikskólanum, væri að æfa.  Drengurinn samt að öðru leyti mjög áhugasamur, var vel inn í hlutunum á HM 2014, átti orðið dágott safn af fótboltamyndum og -treyjum, og talaði að jafnaði digurbarkalega um eigin getu í þessari íþrótt.  En að mæta á æfingar var ekki inn í myndinni.  Við hjónakornin teljum okkur hafa séð eitt og annað í þessum fræðum, svona með þriðja drenginn, þannig að við vorum sultuslök með þetta allt saman og leyfðum honum bara að ráða þessu - hann færi einfaldlega af stað þegar og ef hann sjálfur vildi.

Búið að vera talsverður fótboltapakki í kringum Loga Snæ eftir að við komum frá Spáni, skelltum okkur nánast beint á N1 mótið á Akureyri með öllu sem því fylgdi og þar fylgdi Daði Steinn með í þeim pakka.  Svo var Logi að keppa á Íslandsmótinu á ÍR-vellinum í gær, á móti Gróttu þar sem hann skoraði annað markið í 2:0 sigri.  Við vorum að horfa, mínus Ísak Máni sem var að vinna, og Daði fer eitthvað að ræða við mömmu sína á meðan leiknum stendur.  Eitt leiðir af öðru í þeirra samtali og upp úr kemur að drengurinn vill prófa að fara á fótboltaæfingu hjá ÍR.  Það var þá lítið annað að gera en að kíkja á æfingatöfluna um kvöldið og í ljós kom að það var æfing næsta dag.  Drengurinn var grjótharður í ætla að mæta, græjaði sig í heljarinnar græjur, legghlífar og takkaskó frá Loga, innanundirföt sem voru líka frá Loga en yst var nýji Barcelona búningurinn sem keyptur var út á Spáni.  Markús mætti líka og í heildina voru þetta 13-14 strákar en aðra þekkti hann ekki.  Þetta var frekar klassískt allt saman, stórfiskaleikur í upphitun, svo einhverjar tækniæfingar áður en endað var á smá spili.  Þeim var skipt upp í tvo hópa og Daði Steinn lenti klárlega í getuminni hópnum, líklega af því að hann var nýr en hann pakkaði þessu saman, svona algjörlega kalt mat.  Fór m.a. illa með einhverja gutta þarna í einn-á-einn, stóð einnig í marki í einni æfingunni þar sem hinir drifu varla á markið.  Endað svo á "æfingaleiknum" eins og hann kallaði þetta og skoraði tvö mörk og stýrði þessu eins og herforingi, á meðan aðrir voru frekar týndir.  Ég skal alveg viðurkenna að ég var að vonast til að hann fengi nú smá meiri mótspyrnu svona aðeins til að lækka rostann, keppnisskapið var full mikið á köflum þarna fannst mér.

En alla vega, þetta er byrjað og aftur æfing á fimmtudaginn.

Helgi, varamarkmaður meistaraflokks og þjálfari

Menn brosa þegar vel gengur

Hornspyrna

Mark og þá taka menn "slædið"

Sáttur eftir fyrstu æfinguna

mánudagur, júlí 06, 2015

N1 mótið á Akureyri 2015


N1 mótið var haldið á Akureyri núna í síðustu viku og þar var Logi Snær að keppa með ÍR.  Þar sem mótið byrjaði á miðvikudegi þá var ákveðið að leggja af stað á þriðjudeginum.  Við vorum með íbúð á Akureyri þannig að þetta var ekkert spurning um að lágmarka tjaldnætur.  Ferðahópurinn minnkaði reyndar um einn á mánudeginum þegar Ísak Máni fékk, svona frekar óvænt, vinnu í Hagkaup í Smáralindinni.  Hann hafði mætt þangað með umsókn áður en við fórum út til Spánar og hafði þá fengið þau svör að líklega væri ekkert í boði fyrir hann en ef það væri eitthvað þá væri það í júlí.  Hann var fékk símtalið á mánudegi og mætti samdægurs í viðtal og var svo boðaður í kennslu á þriðjudeginum þannig að hann missti af Akureyri.

Innkast tekið og mamman og Daði á kantinum

Þokkalegt veður þegar við renndum í bæinn á þriðjudeginum en samt aðeins þungt yfir.  Á miðvikudeginum, fyrsta keppnisdegi, var aðeins farið að rigna.  Árið áður hafði verið eitt það versta veður í sögu mótsins, þá rigndi nánast öllu sem hægt var að rigna, hluta leikjanna var aflýst og vellirnir voru rústir einar, þannig að smárigning var víst ekkert til að væla yfir.  Logi Snær var á yngra ári og liðið hans var í D-liðum en þeir spiluðu einn leik þarna fyrsta daginn, öruggur sigurleikur gegn Skallagrím.  Logi tók sig til og setti eitt mark í upphafi síðari hálfleiks en því miður vorum við Daði Steinn ekki mættir eftir klósettferð í hálfleik þannig að hann þurfti bara að leika þetta fyrir okkur síðar um kvöldið.

Menn létu ekkert vaða yfir sig

Daði Steinn eitthvað að spá í þetta


Á degi tvö var blautt yfir eftir gærdaginn og smá rigningarúði en ekkert alvarlegt.  Þrír leikir þann daginn, á móti Stjörnunni, Keflavík og ÍBV en þeir leikir unnust allir.  Þriðji keppnisdagurinn hófst á sigri á Breiðablik sem þýddi að síðasti leikurinn í riðlinum, við færeysku gestina í Viking, var úrslitaleikurinn í riðlinum.  Sá leikur tapaðist reyndar, 5:3, sem skipti í raun ekki höfðumáli því menn voru komnir í 8-liða úrslit.  Sá leikur var spilaður þarna á föstudagskvöldinu og þar hafðist 2:1 sigur og því ljóst að framundan var undanúrslit á laugardeginum og menn væru aldrei að enda neðar en 4 sætið.

Laugardagsmorguninn hófst því með undanúrslitaleik á móti Aftureldingu.  Þar hafðist 2:0 sigur og menn komnir í úrslitleik D-liða.  Á sama tíma á vellinum við hliðina mættust vinir okkar frá Færeyjum liði KR í hinum undanúrslitaleiknum og þar höfðu þeir færeysku betur og því ljóst að við myndum mæta þeim aftur en s.s. nú í hreinum úrslitaleik.  Það var svo fínasta umgjörð um úrslitin, þjóðsöngurinn spilaður fyrir leik og flottir dómarar sem voru að dæma.
En ekki hafðist að sigra þá færeysku í seinna skiptið, 4:3 tap var það í þetta skiptið eftir mikla baráttu.  Minn maður var nú ekkert rosalega lengi að jafna sig á þessu og var farinn að leika sér í fótbolta með litla bróður sínum örlitlu síðar á meðan við biðum eftir lokahófinu.  Það var vitaskuld ekki hægt að sleppa því og bruna beint til Reykjavíkur þar sem árangurinn var svona góður, menn þurftu jú að fá að fara upp á svið og taka á móti verðlaununum sínum.  Við tókum strauið heim eftir það, vorum ekki með íbúðina lengur og lögðum þetta á okkur.  Planið var menn myndu nú sofna á leiðinni en af einhverjum ástæðum gekk það eiginlega ekki.  Það voru því frekar lúnir ferðalangar sem skriðu heim í Kögurselið um hánóttin en þeim mun ljúfara að skríða upp í sitt eigið rúm.

Hoppað upp úr tækingu

Silfurbikarinn

mánudagur, júní 29, 2015

Í fríi á Spáni

Þá er fjölskyldan komin heim eftir tvær vikur í fríi á Spáni.  Tókum þetta hérna um árið, 2008, áður en Daði mætti á svæðið en það var ákveðið að henda sér í þetta aftur núna.  Smávesen að púsla þessu saman, ekkert allir sem reikna með 5 manna fjölskyldu en ekki annað hægt en að taka eitthvað með aukaherbergi. 
Púsluðum saman pakka til Costa Brava með WOW.  Gistum á Aqua Hotel Montagut í Santa Susanna nánar tiltekið, mjög þægilegt, stutt rölt út á strönd og allt til alls í nágrenninu.  Tókum hálft fæði, sem var morgunmatur + kvöldmatur og þegar á reyndi var það algjör snilld.  Mannskapurinn borðaði vel um morguninn og svo var bara verið í einhverju léttmeti fram að kvöldmat.  Í kvöldmatnum var svo alltaf eitthvað val um kjöt, fisk, pasta o.s.frv. þannig að það var alltaf hægt að finna sér eitthvað ætt. 

Í heildina var þetta svo bara hið mesta chill.  Tókum nokkrar dagsferðir, þar sem farið var í vatnsleikja- og rússíbanagarða ásamt einum degi þar sem við tókum lestina til Barcelona.  Þar var aðalmálið að kíkja í heimsókn á Camp Nou.  Náðum svo að kíkja á Römbluna þar sem við urðum m.a. vitni af þokkalegum stórstuldi úr H&M, áður en við héldum í einhvern dýragarð áður en við tókum lestina heim.

Heilt yfir flott frí og væri haugalýgi ef ég segði að þetta hefði verið eitthvað annað en ljúft.  Mér tókst reyndar að týna giftingahringnum mínum eitt skiptið sem ég var út í sjónum en það er önnur saga.