þriðjudagur, maí 24, 2011

Aftur af 19 titlum United

Við strákarnir í vinnunni vorum smá tíma að fatta þetta en díses hvað við hljótum að vinna á flottasta stað í heimi.

föstudagur, maí 20, 2011

Skurðurinn á Loga Snæ

Svona fyrir þá sem hafa læknisfræðilegan áhuga á skurðum og saumum þá lítur þetta svona út. Menn geta klikkað á myndina til að fá þetta í meira návígi en ef sá áhugi er ekki til staðar, jafnvel bara nettur ógeðishrollur, þá bið ég afsökunar á þessu.
Við vorum ekki alveg nógu sátt við hvernig drengurinn var að höndla þetta, eða að höndla þetta ekki öllu heldur svo mamma hans fór með hann aftur til læknisins. Sá hafði nú ekki miklar áhyggjur en skipti um umbúðir á fótunum. Við vonum að þetta fari nú að ganga eitthvað betur, Logi Snær gengur alveg um en það verður að segjast að hann er ekki að fá mörg stig fyrir stíl. Ísaki Mána gengur betur, í bókstaflegri merkingu og nú er svo sem bara að bíða eftir því að saumarnir verði teknir úr þeim, sem verður næsta fimmtudag.

sunnudagur, maí 15, 2011

Annar í stíganda

Drengirnir máttu fara að stíga í lappirnar í gær eftir 3ja daga legu en það gekk svona upp og ofan. Það kom í ljós að það er einhver sársauki sem fylgir því að stíga í fæturnar, á svo sem ekki að koma á óvart þar sem sárin og saumarnir eru jú á iljunum. Ísaki Mána gekk þetta aðeins betur og á degi tvo er hann farinn að rölta um, reyndar ekki hröð yfirferðin á honum en það er nú alveg eðlilegt. Logi Snær er ekki kominn alveg eins langt í endurhæfingunni og þetta er að reynast honum erfiðara.

Samkvæmt plani áttu þeir að fara í skólann á morgun og það verður raunin með Ísak. Hann er aðeins að fara í eitt próf þannig að þetta verður ekkert stórmál. Mér sýnist hinsvegar á öllu Logi Snær verði að taka morgundaginn heima á morgun. Vona að hann fari að stíga skrefið til fulls í þessu, í bókstaflegri merkingu.

fimmtudagur, maí 12, 2011

Fótaaðgerðartilboð: 2 fyrir 1

Gærdagurinn var sérdeilis hressandi. Fyrir einhverju síðan var ákveðið að fá bót fótameina þeirra tveggja elstu með smávægilegri aðgerð. Fótamein sem hafa s.s. ekki haft djúpstæð áhrif á þeirra daglega líf en valdið þeim ákveðnum óþægindum. Við vorum búin að brölta með Ísak Mána til hinna ýmsu sérfræðinga sem allir höfðu sína skoðun á málinu, einfaldlega of há rist, of stuttar sinar í iljum, of- þetta og of- hitt. Prófað einhver innlegg og ég veit ekki hvað. Hjá Loga Snæ hefur það verið þannig að hann labbar mikið út á jörkunum og eftir að hann byrjaði í fótbolta hefur hann oft og iðulega kvartað mikið yfir sársauka í fótunum. Málið er einfaldlega svo hjá þeim að þeir virðast ekki getað rétt nógu mikið úr ristinni eða ilinni, eftir á hvernig það er litið.


Við ákváðum að taka þennan slag með þessari aðgerð þar sem farið er inn í ilina með litlum skurði og liðkað fyrir eitthvað af þessum böndum þar. Þetta heitir eitthvað voða flott á latínu. Við mættum í gærmorgun upp í einhverja læknastöð í Glæsibænum, klárlega staður þar sem ríka og fræga fólkið á Íslandi lætur slétta úr sér og lyfta hinu og þessu. Drengirnir svæfðir, aðgerðin sjálf tók mjög stuttan tíma og eftir að þeir voru búnir að hrista af sér svæfinguna var farið heim, 2 1/2 tími með öllu.


En samkvæmt smáaletrinu mega þeir ekki stíga í fæturnar fyrr en á föstudagskvöld í fyrsta lagi. Mega fara í skólann á mánudaginn og svo er bara mæting í tjékk eftir tvær vikur og viku eftir það eiga þeir að vera orðnir færir í flest. Dagurinn í gær gekk þokkalega en þar sem ég á ekki hjólastóla (ekki það að íbúðin bjóði upp á það) þá þarf að handlanga þá hvert sem þeir þurfa að fara. Logi Snær er talsvert meðfærilegri en Ísak Máni enda er sá síðari orðinn einhver 45 kíló og tekur í. En þetta er víst bara verkefni sem þarf að leysa, við hugsum um daginn í dag og svo verður dagurinn á morgun síðasti handlangaradagurinn. Það verður talsverð viðbrigði að hafa engar fótbolta- eða körfuboltaæfingar til að skoppast í kringum um. Ég tala nú ekki um keppnislausar helgar, ég veit bara ekki hvað við eigum af okkur að gera.




Góðu fréttirnar í þessu öllu er þó að í einhverri skoðuninni hjá skurðlækninum var Daði Steinn með í för og læknirinn gat ekki stillt sig um að taka út lappirnar á honum. Þær líta bara vel út þannig að ég vonast til að við séum hólpin, skárra væri það en að þetta tækist ekki í þriðju tilraun.

miðvikudagur, maí 11, 2011

Aldarafmæli tilfinningatengsla nr. 1

Ég tel mig hafa tilfinningaleg tengsl við tvö íþróttafélög á Íslandi. Á vissan hátt á ólíkan máta.

Þrátt fyrir að að hafa alist upp frá 6 ára aldri og fram undir 13 ára afmælið á Hagamelnum, steinsnar frá Frostaskjólinu og með KR-inga alltum kring þá hélt ég alltaf með Val. Villi bróðir hafði vitaskuld eitthvað um það að segja enda dripplaði hann körfubolta með Hlíðarendapiltum þannig að sú tenging var kannski ekki óeðlileg. En ég bjó aldrei í Hlíðunum, æfði aldrei sjálfur með Val og var aldrei þannig tengdur klúbbnum. Það var samt svo að þegar maður var kominn í Grundarfjörðinn þá hélt maður áfram stuðning sinn við klúbbinn, fylgdist með þeim úr fjarlægð taka einhverjar dollur í fótbolta og handbolta og var bara helsáttur með þetta. Maður var þó ekki fastagestur á vellinum af skiljanlegum ástæðum.

Eftir að maður flutti á mölina haustið 1996 þegar HÍ ferillinn hófst, fyrst á Baugatanga og síðar Eggertsgötuna, var ekki mikið um það að maður væri eitthvað að skoppast á völlinn. Sem fyrr, maður var ekki beint í hverfinu og né hafði einhverja sérstaka sameiginlega vinatengingu á Hlíðarenda. Breiðholtið tók við 1999 en áfram hélt maður að fylgjast með Völsurunum svona úr fjarska. Ég man enn eftir laugardagseftimiðdeginu í september þarna 1999 þegar ég stóð á gólfinu í GÁP og var að skella í lás. Ég hafði hlusta á leikinn í útvarpinu þegar Valur tapaði 3:1 fyrir Grindavík í lokaumferðinni og féllu úr efstu deild í fyrsta skipti í sögunni. Ég kom heim og fór í göngutúr um hverfið, svona til að hreinsa hugann. Sigga hélt að ég væri búinn að missa það. Bara svo til að strá salti í sárinn hafði KR, í vikunni áður, tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í 31 ár. Svo tók við jójó brölt á liðinu, upp og niður einhver 6 ár í röð held ég svo ekki var það til að æsa upp í manni áhugann. Fór þó við vel valin tækifæri, síðasta heimaleikinn á gamla vellinum á Hlíðarenda haustið 2005 og sá þá verða meistara 2007 í lokaleiknum á Íslandsmótinu á Laugardalsvellinum. Keypti mér svo einhvern tímann Valstreyju í einhverju flippi.

Ég set nú engan sérstakan byrjunarpunkt á tilfinningatengslin hin síðari. Þau hafa svona myndast með barnabröltinu, Ísak Máni var náttúrulega ekki gamall þegar maður var farinn að drösla honum niður í ÍR heimilið, var eitthvað á leikjanámskeiðum og byrjaði svo í fótboltanum, 5 eða 6 ára. Þá var málið, ólíkt hinum tengslunum, að maður bjó í hverfinu og varð reglulegur gestur í húsakynum félagsins, kynntist vitaskuld öðrum foreldrum, þáverandi framkvæmdarstjóri félagsins þekkti mig með nafni o.s.frv. Varð m.a. svo frægur að taka dómaraprófið í fótbolta hérna um árið einmitt í stól framkvæmdarstjórans. Á vellinum í Breiðholtinu er maður alltaf málkunnugur slatta af fólki.

Ég fór nú í 100 ára afmælið hjá ÍR á sínum tíma en held ég hafi lítið að gera á Hlíðarenda í dag, fylgist bara með þeim úr fjarlægð sem fyrr. Ég á hins vegar enn eftir að kaupa mér ÍR treyju, best að setja það á to-do-listann.

sunnudagur, maí 08, 2011