laugardagur, maí 23, 2015

Uppskeruhátíð körfuboltans hjá ÍR

Veturinn sem er að ljúka var gerður upp hjá körfunni í ÍR núna í vikunni.  Yngri iðkendnum og foreldum þeirra er smalað saman upp í íþróttahúsið í Seljaskóla og verðlaun og viðurkenningar fyrir nýafstaðinn vetur eru veittar.

Logi Snær var í körfunni í vetur, hafði ekki verið árið áður.  Minniboltaflokkurinn hans lenti hálfpartinn í tómu rugli, mættu ekki til Egilsstaða á fyrsta fjölliðamótið og samkvæmt reglum KKÍ þýðir svoleiðis fjarvera að liðið er sjálfkrafa búið að fyrirgera sínum rétt á þátttöku á þeim fjölliðamótum sem eftir lifa tímabilsins.  Helv... hart en svona eru reglurnar bara.  Mótaþáttaka þeirra var því heldur af skornum skammti þennan veturinn, þeir fóru á einhver þrjú minni mót sem var hálfgerð synd því hópurinn var frekar stór og innihélt nokkra efnilega einstaklinga.  Þeir voru líka með rosalega flottan þjálfara, Nonni Mæju sem var búinn að vera ein skærasta stjarna Snæfells undanfarin ár, lagði skóna á hilluna og kom á mölina til að setjast á skólabekk.  Hann tók við þjálfun á þessum flokk og stóð sig mjög vel en þurfti reyndar frá að hverfa fljótlega eftir áramótin sökum breyttra aðstæðna og við tók Vilhjálmur Theodór, liðsmaður meistaflokksins og hann gerði líka góða hluti.

Sá hluti flokksins hans Loga sem mætti á uppskeruhátíðna

Logi Snær tekur við sinni medalíu fyrir þáttöku vetrarins

Ísak Máni var í tveimur hlutverkum á þessari hátíð.  Hann og félagar hans voru að kveðja þjálfarann sinn til síðustu tveggja ára, Herbert Arnarson, en hann hefur skilað gríðarlega flottum árangri, 3 af 4 stóru titlunum komu í hús á þessum tveimur árum og það ber að taka ofan fyrir það.  Ísak Máni fékk tvær einstaklingsviðurkenningar í sínum flokki, fyrir ástundun og mestu framfarir.  Held að þetta sé fjórða árið sem hann fær verðlaun fyrir ástundun, sem er bara frábært.

Hebbi og hópurinn
Ísak Máni og Óli með sínar viðurkenningar
Ísak var svo sjálfur í hlutverki þjálfara en hann hefur verið að þjálfa yngstu maurana (6-7 ára) í vetur ásamt öðrum eldri strák, Tómasi Viggósyni.  Sá gat ekki komið á hátíðina þannig að Ísak þurfti að taka það að sér að halda smá pistil um verkefni vetrarins ásamt því að veita þeim viðurkenningu.
Ekki nóg með það heldur fékk hann svo viðurkenningu sem ÍR-ingur ársins sem veitt er þeim einstaklingi sem er hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu deildarinnar.  Hann var að aðstoða við sumarnámskeiðin síðasta sumar, er búinn að vera að þjálfa í vetur, hefur verið í dómara- og ritaraborðshlutverki á þeim yngriflokkamótum sem ÍR hefur haldið ásamt því að hafa verið talsvert á ritaraborðinu í unglinga- og drengjaflokknum.

Ísak Máni og hópurinn hans
Að veita viðurkenningar

ÍR-ingur ársins
Þorsteinn, formaður unglingaráðs og Ísak Máni