föstudagur, október 28, 2011

3ja stiga skotið góða um árið

Fjallaði um það hérna þegar Ísak Máni smellti niður 3ja stiga körfu í leikhléi á leik Hauka og ÍR, fyrir tæplega ári síðan. Pistilinn má lesa með því að smella -HÉR-. Ég man að ég var að reyna að taka mynd af þessu á símann minn þegar á þessu stóð, nokkuð sem virkaði engan veginn.

En félagi Ísaks Mána fann svo link af atburðinum inn á YouTube ekki alls fyrir löngu. Þið getið séð það með því að smella -HÉR-. Endursýning í slow-motion og alles, greinilega toppmenn hjá Haukar TV. Helv... vel gert hjá stráknum, það var ekkert að þvælast fyrir honum að vera í úlpunni og með húfuna á hausnum. Hann hefði reyndar þurft að gera eitthvað í fagninu. Það er alltaf næst.

fimmtudagur, október 27, 2011

893-9538

Í dag brutum við odd af oflæti okkar og leyfðum frumburðinum að versla sér GSM síma og höfum þá væntanlega aðeins skriðið upp vinsældarlistann. Erum ekki alveg eins vond eins og venjulega. Greyið er búinn að berjast fyrir þessu í einhvern tíma og loksins hafði hann þetta í gegn. Til samanburðar má geta þess að allir nemendurnir í bekknum sem Sigga kennir eiga GSM síma, hver einn og einasti. Sigga kennir 3. bekk. Ísak Máni er í 7. bekk.

Logi Snær? Fyrst Ísak Máni fékk að kaupa sér síma þá fékk Logi handbolta sem pabbi borgaði. Handbolta með geðveikt góðu gripi. Spurning hvort hann þarf að bíða eftir símanum fram í 7. bekk.

Daði Steinn kom óneitanlega verst út úr þessum degi.

miðvikudagur, október 26, 2011

Í fyrsta sinn heill en ekki hálfur

Það færist til bókar að í dag var fyrsti fótboltaleikurinn hjá Ísaki Mána á velli í fullri stærð. Drengurinn kominn upp í 4. flokk en hefur ekki getað mætt mjög skipulega á æfingar sökum þess að hluti þeirra skarast á við önnur verkefni, körfubolta og píanó. Hann spilaði sem miðvörður, bara hann og markmaðurinn sem spiluðu allan tímann en ég held að þjálfarinn, sem var búinn að gefa það út fyrir leik að allir myndu hvíla eitthvað, hafi bara gleymt honum. Skemmtilegt tilviljun að mótherjarnir í þessum leik, sem spilaður var á gervigrasinu hjá ÍR, var Valur. Áhorfendurnir fengu eitthvað fyrir allan peninginn, 11-3 heimasigur. Ekki slæmt í fyrsta heilavellisleik.

mánudagur, október 24, 2011

NYC

New York City. Þá er það komið í reynslubankann. Við Sigga skelltum okkur í borgina sem aldrei sefur, tókum góða helgi á þetta fyrst við gátum komið drengjastóðinu í fóstur upp í Mosó. Flugum út síðdegis á fimmtudegi og vorum að lenda um kl. 19:00 að staðartíma. Planið hafði verið að drífa sig út á hótel og losa okkur við töskurnar áður en við myndum kíkja eitthvað á borgina. Reiknuðum ekki með að þurfa að dúsa í tvo tíma í biðröð dauðans í loftlausri flugstöðvarbyggingunni áður en við komumst inn í landið. Svo tók nú taxaferðin upp á hótel smá tíma. Við létum það nú samt ekki stoppa okkur þótt við værum á eftir áætlun, röltum niður á Times Square, sem var drjúgur spotti, svona aðeins til að átta okkur á aðstæðum.
Byrjuðum föstudaginn snemma, eftir samdóma álit hjá okkar helstu álitsgjöfum og reynsluboltum í New York-ferðum og tókum Empire State Building á þetta. Fyrir þá sem til þekkja þá létum við okkur ekki nægja 86 hæðirnar sem er svona hefðbundni túrinn heldur fórum alveg upp á nr 102, en hærra komast menn víst ekki. Magnað að horfa yfir borgina í allar áttir. Eyddum svo deginum í rölt þarna í kringum 34. stræti í að skoða búðir og mannlíf. Byggingarnar þarna eru náttúrulega bara rugl. Enduðum svo inn á Hard Rock.

Tókum laugardaginn líka snemma enda var móttóið að eyða sem minnstum tíma í svefn. Tókum Subwayið niður þar sem tvíburaturnarnir stóðu eitt sinn. Lítið svo sem að sjá þar, við nenntum ekki að taka túristaskoðunarferðina á það, létum okkur nægja að sjá svæðið þarna í kring. Röltum þaðan í gegnum fjármálahverfið upp í Kínahverfið, þaðan í gegnum það sem þeir kalla Little Italy og upp í Soho. Tekinn svona búða/mannlífs úttekt á því hverfi. Skelltum okkur upp á hótel áður en við fundum okkur veitingastað í nágrenninu til að slútta deginum.
Lokadagurinn var svo tekin í að klára það sem eftir stóð á innkaupalistanum og frekari mannlífsúttektir með tilheyrandi kaffihúsastoppi, stungum m.a. tánni inni í Central Park bara svona til að hafa gert það. Svo var ekkert annað en að koma sér upp á flugvöll, áttum flug 20:35 og lentum um kl 06:30 í morgun að íslenskum tíma. Maður náði að sofa þokkalega í vélinni, eins þokkalega og hægt er að sofa í flugvél. Komum heim og pústuðum aðeins áður en farið var að sækja drengina. Dagurinn í dag er því búinn að vera nokkuð stífur og augnlokin þung eftir því. Þýðir ekkert að væla það, vinna á morgun og hversdagsleikinn tekur við á ný. Sem er bara fínt.

Skemmtileg ferð, að hugsa sér að þegar við vorum að spá í að fara eitthvað út í heim þessa helgi þá fékk ég í alvöru þá flugu í höfuðið að reyna að plata konuna til Manchester í verslunarferð og nota tækifærið og sjá borgarslaginn United - City. Það hefði nú verið sorglega stemmingin að þurfa að upplifa þessa 1:6 flengingu á staðnum. Þá var nú betra að vera bara staddur á Times Square þar sem ekki nokkur maður hafði áhuga á soccer.

þriðjudagur, október 18, 2011

Myndabeiðni

Ég fékk póst fyrir nokkru, fyrirspurn um að fá að nota eina mynd af drengjum í körfubolta sem er á þessari síðu í kynningarefni hjá menntastofnun einni. Það var svo sem auðsótt mál, ég sá a.m.k. enga ástæðu til að neita bara til þess að neita.

Gaman að þessu, en ég sé reyndar enga jákvæða breytingu í heimabankanum mínum. Karlinn eitthvað linur í þessum samningamálum.

mánudagur, október 17, 2011

Karfa á Króknum

Körfuboltatímabilið er hafið. Kostaði mig rúnt á Sauðárkrók þessa helgi sem var að líða. Vekjaraklukkan hringdi 07:00 á laugardagsmorguninn og við Ísak Máni vorum mættir upp í íþróttahús Seljaskóla kl. 08:15. Gekk allt vel bara, 3 bílar voru notaðir til að ferja liðið norður eftir og vorum við komnir klukkan rúmlega 12. Þetta var 8. flokkur sem var að berjast þarna en Ísak Máni er formlega í 7. flokki. ÍR ákvað að senda inn 8. flokk líka (ári eldri drengir) þrátt fyrir að það sé bara einn drengur á því ári að æfa hjá ÍR. 7. flokks strákarnir fá því að hljóta góðs af því, spila sem sagt bæði sem 7. og 8. flokkur í vetur. Allt hlýtur þetta að fara í reynslubankann.

Þeir spiluðu svo tvo leiki á laugardeginum, við Tindastól og Fjölni B en síðan var leikin önnur umferð á sunnudeginum. Þeir unnu bæði liðin og töpuðum líka fyrir báðum þannig að þetta var allt í járnum. Menn fengu framlengingu, flautukörfutilraunir, vafasama dóma á ögurstundum svo það má segja að menn hafi fengið eitthvað fyrir allan peninginn. Ég verð að viðurkenna að mér finnst erfiðara að horfa á körfuna heldur en fótboltann, veit ekki hvað veldur en stressfaktorinn virðist vera meira í körfunni.

Mættir í höfðuborgina um kaffileytið á sunnudeginum og rétt náðum að anda áður en farið var á fyrsta heimaleikinn í körfunni hjá meistaraflokknum. Tap gegn nýliðunum frá Þorlákshöfn staðreynd. Verður að segjast að það var ljúft að leggjast á koddann um kvöldið.

föstudagur, október 14, 2011

Drengjafréttir

Heilt yfir fín stemming. Daði Steinn er í góðum gír í leikskólanum og verður meiri gaur með hverri vikunni. Logi Snær er í fimleikum og finnst það rosalega fínt. Hann byrjaði svo í körfuboltanum í haust og finnst það gaman þannig að það er komið á fullt. Eins og það væri ekki nóg þá datt hann svo inn á handboltaæfingu með félaga sínum og mér heyrist að þeir séu æstir í að halda honum enda örvhentur og að öðru leyti nokkuð fínn getulega. Einhversstaðar verður að draga mörkin og ég held að við slökum á með hann í fótboltanum a.m.k. fram að áramótum. Þetta er náttúrulega komið út fyrir öll skynsemismörk. Ísak Máni er í körfunni og mun í vetur keppa með tveimur flokkum þannig að það eykst um helming mót og keppnisferðir frá því síðasta vetur. Sú fyrsta er einmitt núna um helgina á Sauðárkróki. Hann er áfram í píanóinu en þarf eitthvað að minnka fótboltann a.m.k. fram að áramótum, það eru of mikið af árekstrum með æfingar. Maður finnur að þetta verður stífara með hverju árinu hjá honum en sjáum hvernig fer.

fimmtudagur, október 13, 2011

Erlendis

Karlinn kominn heim frá Þýskalandi. Skaust á matvælasýningu í Köln á vegum vinnunnar laugardaginn síðasta og heim aftur á þriðjudaginn. Það var nokkuð gott bara, reyndar alveg botnlaus vinna og keyrsla yfir daginn en þetta var víst jú vinnuferð. Gistum í Dusseldorf og keyrðum á milli sem var nú ekki langur spotti en gat verið drjúgur tímalega séð þegar traffíkin var sem mest. Gat ekki annað en brosað að því að nokkur hundruð metrum frá hótelinu var H&M staðsett en ekki hafði maður tök á því að kíkja þangað inn, kannski sem betur fer, maður slapp þá við að fylla töskuna af sokkabuxum og nærfötum úr barnadeildinni. Það detta kannski inn fleiri utanlandsferðir á næstunni, hver veit.

mánudagur, október 03, 2011

Dagbók fótboltabullunnar - Sumarið 2011

Ég var eiginlega búinn að ákveða að halda ekki dagbók fótboltabullunnar þetta sumarið eins og ég gerði tvö síðustu sumur en þar sem sigurhlutfallið var ömurlegt í fyrra þá fannst mér ekki hægt að enda svoleiðis, 4 sigurleikir af 24 leikjum verður að teljast hálfdapurt. Ekki fékk ég framlengingu á dómaraskírteinið góða þannig að nú þurftu menn að vera með veskið á lofti og borga við innganginn. Til upprifjunar þá eru þetta meistaraflokksleikir sem haldir voru á vegum KSÍ. 17 leikir náðust 2009 og 24 árið eftir, spurning hvernig þetta fór.

Svona lítur þetta út:

1. maí Egilshöll Valitor-bikar karla
Elliði - Grundarfjörður 5:2
- Gamli VISA-bikarinn og sveitaliðið í borginni. Átti reyndar að vera spilað á Fylkisvelli en sökum snjólags var ekki hægt að spila þar svo leikurinn átti að fara fram í Reykjanesbæ áður en menn fengu inn í Egilshöllinni með stuttum fyrirvara. Sunnudagur og ég með Daða Stein og Loga Snæ á meðan hin tvö voru í sveitinni. Ég náði nú ekki að mæta fyrr en þegar síðari hálfleikur var að hefjast og mínir menn komnir 3:1 undir eftir að hafa komist í 0:1.

21. maí Víkinni 3. deild karla
Berserkir - Grundarfjörður 0:2
- Fyrsti leikurinn í deildinni hjá strákunum og ég ákvað að kíkja aðeins á svæðið. Bongóblíða en þar sem ég var búinn að láta plata mig í eitthvað firmamót upp í Kórnum þá náði ég nú ekki nema rétt tæplega fyrri hálfleik. Ég hef líklega verið kominn upp að ljósum við Bústaðaveg þegar Grundarfjörður tók 0:1 forystu undir blálok fyrri hálfleiks. Þeir bættu við öðru í síðari hálfleik og sigldu þessu heim, voru þar með búnir að jafna fjölda sigurleikja frá sumrinu áður. Flott byrjun og frekar óvænt þar sem Víkings B-liðinu var búið að spá góðu gengi þetta sumarið en strákunum úr firðinum ekkert spes.

25. maí ÍR völlur Valitor-bikar karla
ÍR - Þróttur 1:1 (1:3 e. framlengingu)
- Við Ísak Máni kíktum á þetta. Nettur vorbragur á þessu en ÍR tók forystuna í lok fyrri hálfleiks. Síðari hálfleikurinn rúllaði nokkuð þægilega í gegn þangað til heimamenn misstu mann af velli með rautt spjald á 83. mínútu. Þetta var nánast komið í hús þegar Þróttarar jöfnuðu leikinn í uppbótartíma og framlengingin reyndist ÍR-ingum erfið. Bikarkeppnisdraumar úti þetta árið. Ég færi þetta til bókar sem tap.

28. maí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Haukar 1:3
- Fyrsti heimaleikurinn í deildinni. Ég var með Ísak Mána í körfuboltabúðum KKÍ í Frostaskjólinu en þaðan tókum við beint stefnuna á ÍR völlinn. Í síðari hálfleik fór að rigna, bæði úr lofti og mörkum. Heimamenn komust yfir en gestirnir svöruðu jafnharðan. 2 mörk til viðbótar frá þeim á síðustu þremur mínútunum gerði lítið fyrir bláklædda stuðningsmenn.

2. júní Kórinn gervigras 3. deild karla
Ísbjörninn - Grundarfjörður 1:3
- Við Ísak Máni náðum í tæka tíð fyrir fyrsta mark leiksins sem gestirnir skoruðu. Heimaliðið, sem var utandeildarlið árinu áður, jafnaði þó í byrjun þess síðari en Grundarfjörður náði að setja tvo mörk undir lok leiksins og kláraði þetta en ekki er hægt að segja að það hafi verið glæsibragur á þessu. Þar með höfðu allir þrír fyrstu leikir Grundfirðinga unnist og menn strax búnir að margbæta árangurinn frá því í fyrra.

2. júní Fjölnisvöllur 1. deild karla
Fjölnir - ÍR 2:3
- Seinni leikur dagsins, man hreinlega ekki eftir því að hafa tekið tvo leiki sama daginn. Ekki sama snilldartímasetning á mér og Ísaki Mána eins og á fyrri leik dagsins, mættum þegar 4 mínútur voru búnar en þá voru liðnar 3 mínútur og 15 sekúndur síðan ÍR komst yfir. Þegar við vorum að labba að stúkunni skoruðu okkar menn aftur og við sáum það eiginlega ekki því auglýsingaskiltið fyrir aftan markið var einfaldlega fyrir okkur, 0:2 eftir 5 mínútur. 1:3 í hálfleik og við eyddum hálfleiknum í að virða fyrir okkur Fjölniskrakka á aldrinum 12-14 ára henda flöskum og grjóti í lukkudýrið sitt, mjög þroskaheft allt saman. Heimamenn náðu að klóra í bakkann á 90. mínútu, mark sem við sáum ekki almennilega því þetta sama blessaða auglýsingaskilti var aftur fyrir okkur þar sem við vorum að rölta út á bílastæðið. Lærdómur kvöldis var að mæta alltaf fyrir kick-off, fara ekki fyrr en dómarinn flautar leikinn af og það þýðir ekki að vera með lukkudýr nema að öryggisgæslan sé af dýrari taginu.

7. júní ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Grótta 0:0
- Steindautt. Ég hefði alveg eins getað hent þúsundkalli í ruslið og setið heima á rúminu og horft á fataskápinn minn.

11. júní Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Afríka 8:1
- Við kíktum í sveitina yfir hvítasunnuna og það var ekki hægt annað en að skella sér á völlinn. Lítið um þetta að segja þegar maður skilur ekki alveg hvernig þetta gestalið getur haldið úti liði í þessari deild ár eftir ár. Grundfirðingar með fullt hús stiga eftir 4 leiki.

16. júní ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Leiknir 3:2
- Maður lætur sig ekki vanta í svona alvöru derby leiki. Ég fór með Ísak Mána og Loga Snæ og fyrir tilviljun fékk Logi að fylgja leikmönnunum inn á völlinn. Þetta er nú ekki gert nema endrum og eins og jafnan 6. flokks guttar en það var hægt að bæta fleirum við og Logi fékk að fljóta með. Í nýju ÍR búningunum með nr 8 á bakinu, leiddi reyndar Leiknismann en það var nú allt í lagi. Villi og Rúnar komu hjólandi úr efra en sátu gestamegin, Leiknir-for-life og allt það. Leikurinn sjálfur var stórfurðulegur, heimamenn voru alveg á hælunum til að byrja með en náðu að setja tvo mörk í seinni hluta fyrri hálfleiks og leiddu með þeirri forystu í hálfleik. Beint rautt spjald á gestina þegar tæpur hálftími lifði leiks hefði nú átt að gera gæfumuninn en ekki fyrir strákana úr neðra Breiðholtinu sem leiðist ekki að gera hlutina spennandi. Leiknir minnkaði muninn korteri fyrir leikslok og allt upp í loft. Það var ekki fyrr en á 86. mínútu að ÍR skoraði þriðja markið og aftur leið manni vel. Víti á 90. mínútu fyrir gestina gerði það hins vegar að verkum að aftur myndaðist hnútur og uppbótartíminn var óskaplega lengi að líða.
Með þessum sigri var ég búinn að vera vitni af fleiri sigrum minna liða heldur en allt sumarið í fyrra.

24. júní Kópavogsvöllur 1. deild karla
HK - ÍR 1:1
- Fengum slatta af ættingjum í síðbúið síðdegiskaffi eða kvöldmat í fyrra fallinu svona til að heiðra afmælisbarn morgundagsins. Að því loknu fórum við Ísak Máni og Logi Snær á völlinn. Óttarlega þunnt eitthvað, okkar menn voru yfir 0:1 í hálfleik en duttu svo í þann pytt að ætla að halda fengnum hlut. 7 mínútum fyrir leikslok jöfnuðu heimamenn og náðu þar með að tvöfalda stigafjölda sinn á botni deildarinnar. Sonur dömunnar á símanum niðri í vinnu var í vinstri bak hjá heimamönnum.

9. júlí Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Berserkir 3:2
- Strákahluti stórfjölskyldunnar tóku skottúr í Grundarfjörðinn án þess að láta nokkurn mann vita en heyrst hafði að grillveisla yrði um kvöldið í Smiðjustígnum þannig að við buðum okkur sjálfir í það á meðan Sigga fór með foreldrum sínum að gróðursetja í Baulumýri. Við Villi kíktum á völlinn með Ísak, Loga, Daða og Rúnar. Ókeypis inn en búið að setja upp rándýra sjoppu þar sem kaffibollinn kostaði helmingi meira en á fyrstudeildarvöllunum í Breiðholti en það var allt í lagi því menn fengu sannarlega eitthvað fyrir peninginn. Gestirnir sanngjarnt 0:2 yfir í hálfleik og heimamenn stálheppnir að fara ekki einum færri inn í síðari hálfleikinn. En svo fór að færast fjör í þetta. Á 10. mínúta kafli í upphafi síðari hálfleiks, frá 57. - 67. mínútu fengu þrír gestanna að kenna á rauða spjaldinu og hlutfall rauðra treyja vs. blárra var orðið helskakkt. Heimamenn minnkuðu muninn á 60. mínútu og náðu að jafna 12 mínútum fyrir leikslok. Gestirnir voru farnir að spila leikkerfið 5-3-0 sem skiljanlega var hálferfitt gegn fullskipuðum Grundfirðingum. En það var ekk fyrr en á lokamínútum leiksins að sigurmark heimamanna kom og allt ætlaði um koll að keyra, miðvörður liðsins með öll þrjú mörkin. Þegar lokaflautið kom þótti svo ekki annað hægt enn að senda nokkra fílelfda karlmenn í hlutverki öryggisvarða til að fylgja dómaratríóinu til búningsklefa. Geysilega mikilvæg þrjú stig í toppbaráttu C-riðils og draumurinn um úrslitakeppnina færðist nær.

12. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Víkingur Ólafsvík 1:0
- Við Ísak og Logi stungum af í fyrra fallinu úr matarboði í Mosó en misstum af fyrsta korterinu. Misstum samt ekki af neinu og restin af leiknum var ekkert til að setja á harða diskinn. Heimamenn skoruðu í lok fyrri hálfleiks og það dugði til.

16. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - BÍ/Bolungarvík 2:3
- Settur í smávesen því bæði hverfisklúbburinn og uppáhaldssveitaliðið mitt að spila í borginni á sama tíma. Tók hverfisklúbbinn framyfir, Ísak Máni var búinn að tilkynna sig sem boltastrák og auðveldara að fara með alla stóðina niður á ÍR heldur en eitthvert upp í Grafarvog. Sigga hafði ákveðið að fara með Guðrúnu systur sinni að rölta yfir fjallgarðinn á milli Grundó og Baulumýri þannig að ég var on-my-own.
ÍR voru ekki með í fyrri hálfleik og voru í raun stálheppnir að fara bara með 0:2 á bakinu í hálfleiksteið. Eitthvað öflugt var hinsvegar í teinu og staðan orðin 2:2 eftir 60 mínútur. En útlendingahersveitin frá Vestfjarðarkjálkanum hnoðaði inn sigurmarkinu einhverjum 12 mínútum fyrir leikslok og þar við sat. Menn eru ekkert að fara að gera meira en að hanga bara í deildinni með þessu áframhaldi. Frétti svo að sveitaliðið hafi unnið 0:1 en þar er blússandi sigling í gangi.

17. júlí KR völlur Pepsi-deild karla
KR - Valur 1:1
- Villi tók það upp að fara á þennan leik og við Ísak og Logi skelltum okkur með honum og Rúnari Atla. Frábært veður, 2.911 áhorfendur skráðir á svæðinu og ágætis stemming Valsmegin en leikurinn lítið fyrir augað. Hlutirnir fóru ekki að gerast fyrr en undir lokin. Valsmenn komu blöðrunni í sitt eigið net á 87. mínútu og ég sver að ég fékk óbragð í munninn. En sem betur fer kom jöfnunarmarkið á 90. mínútu og manni leið aðeins betur enda áttu gestirnir eitthvað skilið úr þessum leik. KR-ingar enn ósigraðir í toppsætinu en Valsarar í 2. sæti.

22. júlí Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Ísbjörninn 3:2
- Föstudagskvöld bæjarhátíðarinnar Á góðri stund. Toppliðið fékk botnliðið í heimsókn en það er víst ekki alltaf einfalt mál. 1:0 í hálfleik í hálfgerðum leiðindum en gestirnir jöfnuðu fljótlega í síðari hálfleik og komust í 1:2 þegar þeir fengu vítaspyrnu. Allt stefndi í algjöran skandall en á einhvern ótrúlegan hátt náðu heimamenn að snúa tapi í sigur á lokamínútunum þar sem sigurmarkið kom eftir hornspyrnu og reyndist vera síðasta spyrna leiksins, ótrúlegur andskoti. Enn og aftur var það leikmaður ársins á síðasta tímabili, Aron Baldursson, sem kom Grundó til bjargar og miðvörðurinn er með markahæstu mönnum riðilsins þegar hér er komið við sögu. Alvöru umgjörð í sveitinni, sushi selt í sjoppunni og árituð liðstreyja seld á uppboði í hálfleik, 30.000 kall takk fyrir.

27. júlí Ásvellir 1. deild karla
Haukar - ÍR 3:2
- Við Ísak Máni kíktum á þetta. Okkar menn stálheppnir að vera með 1:1 stöðu í hálfleik en í stöðunni 2:2 var maður farinn að gæla við að menn fengju eitthvað út úr þessu en það hafðist ekki. Heilt yfir hálfdapurt, saga sumarsins, og ekkert nema kjallarabarátta framundan. Síðasta kvöld Villa og co á landinu fyrir brottförina til Malaví og hann og Rúnar Atli fóru á Leiknisvöll og sáu sína menn kjöldraga Þrótt, 5:1. Þriðji sigurleikur Efra-Breiðholtsins í röð eftir sigurlaust sumar og sá fyrsti á heimavelli þannig að þeir feðgar fengu fína kveðjugjöf frá klúbbnum. Nú munar aðeins einu stigi á Breiðholtsklúbbunum þarna við botninn þannig að þetta verður eitthvað.

28. júlí Leiknisvöllur (gervigras) 3. deild karla
Afríka - Grundarfjörður 0:2
- Við Ísak Máni tókum leik annan daginn í röð. Frekar tíðindalítið, 0:0 í hálfleik en undir lok fyrri hálfleiksins fékk liðsmaður Afríku beint rautt spjald. Tommi í hóp og lét mig taka myndavélavaktina í síðari hálfleik, svona aðallega ef hann kæmi inná held ég. Tvö mörk í upphafi síðari hálfleiksins og gestirnir sigldu þessu heim. Tommi fékk nokkrar mínútur og ég klíndi mér upp við kantinn hans og skaut nokkrar af kappanum.

11. ágúst Gróttuvöllur 1. deild karla
Grótta - ÍR 4:1
- Þar sem vængmaðurinn minn í þessu fótboltaleikjabrölti var farinn í sleep-over partí og Logi Snær vildi ekki fara þá þýddi ekkert annað en taka sólóið á þetta. Staðan orðin 1:0 þegar ég kom á 3ju mínútu en gestirnir náðu að jafna mjög fljótlega. Ekki dugði það það til neins því staðan var orðin 3:1 eftir 23 mínútur. Eitt í síðari hálfleik og andleysið og stemmingsleysið var algjört hjá mínum mönnum. Til að strá salti í sárin var sami leikmaðurinn sem gerði öll mörk Gróttu uppalinn ÍR-ingur og hafði farið til Gróttu síðasta vetur til að fá meiri spilatíma. Þetta er víst það sem krakkarnir kalla "FACE". Eina ástæðan fyrir því að við lentum ekki í fallsæti eftir kvöldið var bara sú að Leiknir fékk á sig tvö mörk á lokamínútunum í sínum leik og tapaði með einu. Mér líst ekkert á þetta, 3ji tapleikurinn í röð, fjögur stig í seinustu átta leikjum og erfitt prógramm framundan. Lenny Kravitz söng It aint over til it´s over í útvarpinu á leiðinni heim. Ég trúi ekki að menn ætli að fara aftur niður í 2. deild en þetta er ekki búið fyrr en það er búið.

13. ágúst Bessastaðavöllur 3. deild karla
Álftanes - Grundarfjörður 0:2
- Toppslagur í C-riðli í næstsíðustu umferð og það var ekki hægt að sleppa þessu. Logi Snær fékk að fara í heimsókn til Óðins Arnar á Álftanesinu en restin af fjölskyldunni skelltum okkur á völlinn í flottu veðri, svolítið rok reyndar. Ekki stórkostlegasti knattspyrnuleikur sem maður hefur farið á en úrslitin þvílík sæt. Eitt mark í hvorum hálfleik, seinna alveg í blálokin en maður leiksins markvörður Grundfirðinga með þvílíkan leik að unun var að horfa. Tommi var á sjúkrabílavaktinni og því fastur í sveitinni. Ég var með myndavél fyrir karlinn og á sms-inu til hans á meðan hann nagðaði handarbakið á sér og bruddi sprengjutöflur. Uppáhaldssveitaliðið komið í úrslitakeppnina, hver hefði trúað því fyrir tímabilið?

16. ágúst ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - ÍA 1:1
- Skagamenn töpuðu fyrsta leik sínum á sumrinu í leiknum á undan og þurftu stig í Breiðholtinu til að vera búnir að tryggja sig upp í efstu deild. Stúkan var heiðgul þetta kvöld og ég þurfti að gera mér að góðu að standa fyrir aftan, það sem er venjulega, gestahluta stúkunnar. Reyndar voru mínir menn bara ágætir, 1:0 yfir í hálfleik og markmaðurinn búinn að verja vítaspyrnu. Þeir gulu náðu að jafna fljótlega í þeim seinni og þannig endaði þetta. Skagamenn fögnuðu í stúkunni en ég dreif mig bara heim. Spurning hvenær ÍR-ÍA spila næst í sömu deild? Við tökum þetta stig alveg fegins hendi, baráttan um Breiðholtið framundan á föstudag og vægið enn meira þar sem það er botnbaráttuslagur af dýrari gerðinni.

19. ágúst Leiknisvöllur 1. deild karla
Leiknir - ÍR 1:2
- Tvöfalt vægi á þessum leik því ekki var þetta bara baráttan um Breiðholtið heldur nú voru þessi bæði lið í bullandi botnbaráttu. Það fór um mig smáhrollur þegar við Ísak Máni mættum, minnugur tapsins hérna í fyrra og þá ónotatilfinningu sem því fylgdi. Stemmingin var betri ÍR-megin, andstætt leiknum frá árinu áður og allt gekk þetta betur. 0:2 yfir í hálfleik og allt leit mjög vel út. Heldur duttu menn niður í síðari hálfleik, heimamenn minnkuðu muninn og gerðu það að verkum að það hélst góður hnútur í maganum það sem eftir lifði leiks. En það hafðist og í stað þess að Leiknir jafnaði ÍR að stigum þá skildi 6 stig liðin eftir kvöldið og menn fengu smá andrými.

25. ágúst ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - HK 0:3
- Leikur sem gat gulltryggt áframhaldandi sæti í 1. deild að ári hjá mínum mönnum. Það virtist ekki vera nóg til að hvetja menn og sigur botnliðsins staðreynd.

30. ágúst Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Magni 1:1
- Seinni leikurinn í 8-liða úrslitum 3ju deildar. Spilaður á þriðjudegi kl 17:30 og úr varð eitt svaðalegasta ævintýri sumarsins. Nánar um það ef þið smellið -HÉR-

1. september Valbjarnarvöllur 1. deild karla
Þróttur - ÍR 1:3
- Var í einhverju vinnustússi en ákvað að kíkja á seinni hálfleik svona á leiðinni heim. Var mættur í hálfleik í stöðunni 1:1. Tvö mörk í upphafi síðari hálfleiks kláraði þetta fyrir mína menn og menn nánast búnir að tryggja sæti sitt í deildinni, ekki alveg þó.

10. september ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Selfoss 1:3
- Síðasti heimaleikurinn í sumar og síðasti ÍR leikurinn hjá mér, sá ekki fram á að taka síðasta leikinn í Ólafsvík helgina eftir. Ísak Máni í bíó í Smáralindinni en kom beint á völlinn fyrir leik en ég tók Daða Stein með mér. Öll mörkin í fyrri hálfleik og í annað skiptið í sumar fögnuðu gestir sæti í efstu deild eftir leik á ÍR velli. Önnur úrslit þýddu að ÍR var endanlega sloppið við fall.


Niðurstaða sumarsins er þessi: 25 leikir (24 árið 2010 - 17 árið 2009) en af þeim voru 12 sigurleikir hjá mínum liðum (4 - 8), 5 jafntefli (8 - 2) og 8 töp (12 - 7). Náði 14 leikjum hjá ÍR í deildinni (13 - 12) og 1 í bikarnum (1 - 0).
Það voru einhverjir leikir sérstaklega þarna í lokin hjá Val sem ég hafði tekið stefnuna á en duttu uppfyrir. Síðasti leikur þeirra var heima á móti KR, síðasti leikur Sigurbjarnar Hreiðarssonar í Valstreyju, og maður hefur reynt að kíkja á a.m.k. einn leik á Hlíðarenda þótt það hafi ekki alltaf tekist og ekki tókst það í ár. Sem betur fer voru KR-ingar búnir að tryggja sér titilinn í leiknum á undan þannig að ekki þurfti dollan að fara svört-hvít á loft á Hlíðarenda á 100 ára afmæli Vals. Tvöfalt KR ár á afmælinu hjá Val en til upprifjunar má minna á það að á 100 ára afmæli KR þá féll Valur í fyrsta skipti í sögunni...
Jæja, sigurhlutfallið var bara nokkuð gott þetta sumarið, uppáhaldssveitaliðið átti nú sinn skerf af því og talsvert skemmtilegra að fylgjast með þeim frá því í fyrra. Held að við látum þetta duga í liðnum Dagbók fótboltabullunnar, höfum þetta bara sem þríleik.

sunnudagur, október 02, 2011

Íslandsmótið hið fyrsta

ÍR-ingar tóku sig til og héldu Íslandsmót í Stinger í gær. Hið fyrsta sinnar tegundar héldu þeir fram og ég hef ekkert undir höndum sem hrekur það. Án þess að ætla að fara djúpt í framgang leiksins þá er stinger körfuboltaskotleikur þar sem spilað er þangað til aðeins einn maður stendur eftir. Við Ísak og Logi mættum í Seljaskólann til að verða vitni af þessu en það fór nú þannig að Ísak Máni tók þátt í þessu fyrsta Íslandsmóti en mótið var öllum opið en Logi Snær var ekki alveg nógu kröftugur í þetta, þrátt fyrir að vera ágætlega öflugur í körfunni. Að kasta fullvaxta körfubolta í körfuna frá 3ja stiga línunni var fullmikið af því góða fyrir hann, hæfileiki sem var nauðsynlegur ef menn ætluðu að taka þátt. Ég ákvað að láta ekki reyna á mína hæfileika í þessum fræðum og sat frekar upp í stúku á meðan á þessu stóð.
Ísak Máni hékk nú eitthvað inni í þessu en varð að játa sig sigraðan á einhverjum tímapunkti þegar á keppnina var liðið. Ég tek nú ofan fyrir mönnum að hafa látið sér detta það í hug í fyrsta lagi að halda svona mót og svo að hafa hrundið þessu í framkvæmd. En það vantaði óneitanlega einhver alvöru fallbyssunöfn úr íslenska körfuboltanum, gömul og ný. Þarna voru nokkrir meistaraflokksmenn hjá ÍR en þær 2-3 þriggjastigaskyttur, aðallega frá Suðurnesjunum, sem maður var búinn að heyra að myndu mæta létu ekki sjá sig.
Kannski verður þetta meira á næsta ári, Ísak Máni ætlar a.m.k. að mæta og kannski verður Logi Snær farinn að drífa.