föstudagur, ágúst 25, 2006

Harði stuðningsmaðurinn

Við vorum á ÍR vellinum núna um daginn að horfa á ÍR - Huginn. Þar fór Logi Snær á kostum.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Vínbúð og ég

Eins og einhverjir vita þá urðu Ítalir heimsmeistarar í knattspyrnu núna fyrr í sumar...(nei Jóhanna, þetta er ekki beint fótboltapistill svo þú getur lesið áfram)...en í vinnunni var haldið lítið veðmál þar sem menn áttu að giska á framgang liðanna í keppninni alveg frá riðlakeppninni til úrslitaleiksins og var öllu skilað inn vitaskuld fyrir fyrsta leik. Til að gera langa sögu stutta þá var ég sá eini sem giskaði á Ítali í fyrsta sæti og það dugði mér til að vinna keppnina.

Með því að taka þátt þá lagðir þú eitt stykki ölkippu undir sem sigurvegarinn fengi, sem sagt ÉG! Þetta var nú ekki alveg þannig að þegar ég kom úr sumarfríi væru tæplega 20 kippur á borðinu hjá mér, kannski sem betur fer því þótt mér þyki bjór fínn þá drekk ég ekki svo mikið af honum að líklega hefði talsverður hluti ölsins hreinlega runnið út á dagsetningu eða eitthvað. Niðurstaðan er sú að ég verð að versla í viðurkenndri vínbúð fyrir andvirði ölsins, rúmlega 21 þúsund. Ég get sem sagt verslað mér viský eða rauðvín í staðinn fyrir að fá bjór. Nú er bara spurning hvað kappinn gerir. Versla sér bjór fyrir allan peninginn? Held ekki. Kannski maður kaupi sér eitthvað eðalrauðvín svona bara til að eiga. Það fer ágætlega í hillu ekki satt? Verst að ég þekki varla eðalrauðvín frá kattarhlandi. Ætli sé hægt að kaupa eina flösku af viský fyrir 21 þúsund? Það færi vel í hillu.

KSÍ og ég

Við Ísak Máni fórum á Ísland - Spánn núna á dögunum. Það var fínt, ekkert sérstakur leikur en ágætisstemming og menn voru almennt sáttir. Strákurinn var svo farinn að biðja um að fara á Ísland - Danmörk sem er núna í byrjun september og ég var búinn að lofa að taka það til skoðunar. Svo hófst miðasalan á netinu í hádeginu í gær og ég fór að athuga málið þegar ég kom heim seinnipartinn í gær. Mér til mikillar skelfingar sá ég að búið var að ráðstafa megninu af bestu sætunum, eiginlega megninu af öllum sætunum ef út í það er farið. Til að toppa þetta allt þá hefði það kostað mig 6.750 fyrir okkur tvo að fara á völlinn í góð sæti en til samanburðar kostaði pakkinn fyrir okkur 3.750 kr. á Spánarleikinn. Til að detta endanlega í reiðiskast út af þessu datt ég niður á fotbolti.net og rakst á þessa frétt. Hvað á maður að segja? Andskotans kjaftæði er þetta, af tæplega 10.000 miðum fara tæplega 6.000 miðar EKKI í almenna sölu. Nei takk, fokkjú segi ég bara. Ég ræddi bara við drenginn minn og við uðrum sammála um að hann fengi bara eitthvað annað í staðinn. Samt frekar fúlt því okkur báða langaði á leikinn. En þetta var of mikið af því góða fyrir mig í bili, ég sendi bara KSÍ löngutöng í bili. Við þessa plebba þarna úti sem fenguð miða í gegnum Glitni eða 365 eða eitthvað álíka segi ég bara enjoy, en ég læt ekki bjóða mér þetta.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Varalisti

Jóhanna systir er að fara gifta sig á sunnudeginum eftir viku. Maður er alltaf að heyra eitthvað nýtt um hinar ýmsu hefðir og hluti sem nauðsynlegt er að gera þegar maður er að fara gifta sig. Get ekki sagt að ég fyllist spenningi en það er samt reynt að telja manni trú um þetta og hitt.

Eitt af því sem ég hef lært að það er eitthvað sem tíðkast sem kallast "varalisti" hvað gestalista varðar. Það eru sem sagt einhverjir aðilar sem eru ekki alveg nógu góðir vinir eða ekki alveg nógu blóðskyldir til að komast inn með fyrsta holli en gott að hafa í bakhöndinni ef mikið verður um brottföll meðal 1. flokks gesta. Það telst ekki vera nógu gott ef þú reiknar t.d. með 100 manns í veisluna að það komi bara 70. Svo er mér sagt a.m.k. Ótrúleg klikkun maður.

Bara ein bón frá mér til ykkar. Ef ég er á einhverjum varalista þarna úti þá megi þið bara sleppa því að bjóða mér. Bara vinsamleg tilmæli. Maður kemur líklega til með að líta öðrum augum á þau brúðkaupsboðskort sem kynnu að villast inn um lúguna hjá mér. En svo á hinn bóginn er víst vonlaust að vita hvort þú ert 1. eða 2. flokks. Það sem þú veist ekki ætti ekki að skaða þig.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

ÍR dagurinn mikli

Gærdeginum var eytt að mestu leyti á ÍR svæðinu. Lítið 7. flokks mót var sett upp þar og var þetta í fyrsta sinn sem Ísak Máni og félagar spiluðu á sínum heimavelli ef svo má segja. Mættu þrjú önnur lið, FH, HK og Fram. Við vorum mætt á svæðið rétt rúmlega 10 í blíðskaparveðri. Ísak Máni fékk það í gegn að spila í marki í fyrsta leiknum á móti Fram en eitthvað voru Frammararnir þreyttir svona snemma morguns því þeir komust ekki yfir miðju og 4:0 sigur hjá ÍR var staðreynd. Minn maður var ekki alveg sáttur við þetta því hann stóð þarna í markinu og kom ekki við boltann svo mikið sem einu sinni. Næst var spilað við HK og gekk það vel líka, 3:0 sigur og Ísak Máni fékk að spila frammi (kannski vegna þess að mamman var liðstjóri) og setti eitt mark. Í lokaleiknum á móti FH fékk hann að spila hálfan leik í marki, líklega mest vegna þátttökuleysis í fyrsta leiknum. FH höfðu talsverða yfirburði og unnu 5:0 en lítið sem Ísak Máni gat gert við þessum þremur mörkum sem hann fékk á sig.


Grillaðar pylsur runnu svo ljúflega niður í lokin og allir fengu viðurkenningarskjal. Lúlli þjálfari var að kveðja og flytja upp á Skaga og því var annar bragur yfir þessu en ella. Að því loknu var klukkan farin að nálgast tvö og því lítið annað að að gera heldur en að færa sig yfir á aðalvöllinn og fylgjast með ÍR spila við Huginn í meistaraflokk karla. Mér til mikillar skelfingar var búið að hækka inngangseyrinn frá því ég fór á þennan völl síðast úr 700 kr upp í 1000 kr. Rán um hábjartan dag fyrir miðjumoð í 2. deild. Reyndar hafði ÍR 3:2 sigur þannig að menn fóru sáttir af velli. Klukkan orðin rúmlega fjögur þegar við komum heim.

Fljótlega eftir það var haldið upp í Mosó í kvöldmat en þar var betri mæting en oft áður, sérstaklega vegna þess að Baunalandsbúarnir voru á landinu en Erla og börn héldu reyndar af landi brott núna snemma í morgun.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Síðsumars pælingar

Var að taka eftir því um daginn að það er kominn niðamyrkur úti núna á kvöldin um það leyti sem maður skríður upp í bælið. Hélt að ég yrði meira þunglyndur yfir þeirri staðreynd að veturinn sé að koma en ég er í dag. Það er kannski lítið að marka það, þetta á eflaust eftir að hellast yfir mann þegar maður fer að drösla Loga Snæ í leikskólann, dúðuðum upp fyrir haus og skafandi frosthélið af bílnum. Annars hef ég reynt að taka veturinn fyrir svona í skömmtum. Ég hugsa þetta yfirleitt þannig að öllu jöfnu meikar maður þetta fram að áramótum nokkuð létt, að því gefnu að sept og okt séu mannsæmandi, nóv og des fer í jólafíling og þá á nú að vera snjór og með því. Jan og feb eru síðan kannski svolítið leiðinlegir en þegar fer að koma í mars þá finnst mér nú yfirleitt stutt í sumarið.

Það fer nú allt að detta í gömlu rútínuna aftur, Sigga er að fara að vinna á þriðjudaginn og þá fer Logalingur í leikskólann aftur. Við höfum svona verið að ræða þetta við hann í góðu, svona til að taka púlsinn á stemmingunni. Hvað get ég sagt, hann virðist ekkert vera neitt sérstaklega hrifinn af hugmyndinni um að vera að fara aftur í leikskólann. Ég vona bara að þetta verði ekkert stórmál en kappinn er reyndar ekki búinn að fara í leikskólann í einhverja tvo mánuði. Ísak Máni byrjar svo í skólanum í vikuna eftir það, drengurinn að fara í 2. bekk! Rosalega líður þetta hratt allt saman.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Fuglaflensan

Hvað varð eiginlega um fuglaflensuna?

Var þetta ekki orðið bara spurning um mínútur hvernær þessi næsti svarti-dauði kæmi til landsins? Og það var fyrir einhverjum vikum eða mánuðum. Þetta var í hverjum einasta fréttatíma í marga daga og alltaf kom þessi pest nær og nær landinu. Maður fylgdist með þegar hún hélt innreið sína inn í hvert Evrópulandið á eftir öðru og barst eins og eldur í sinu í átt til Íslands. Þegar henni skaut upp kollinum í Danmörku þá var nánast öllu lokið. Maður borðaði hverja máltíð á KFC eins og hún væri sú síðasta á þeim stað og eldaði kjúklingana heima 10 mínútur lengur en venjulega, just in case! Tveir fuglar fundust dauðir út á víðavangi og yfirdýralæknir var hataðsti maður á landinu af því að víkingasveitin var ekki kölluð út til að taka sýni úr fuglunum.

En svo hvað?
Hættu þessar fréttir að vera fréttir?
Stormur í vatnsglasi?
Mýfluga sem verður að úlfalda?

Maður spyr sig.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Jafnrétti

Stundum fæ ég alveg upp í háls af þessu jafnréttistali öllu.

Djö... hljómar þessi byrjun illa. En ég meina t.d. þegar konur eiga hlutfallslega fáa fulltrúa á einhverjum stöðum og einhverjum sérfræðingum finnst þá ómögulegt annað en að allt verði gert til að jafna þeirra hlut.

Ég er ekki að tala um launamisrétti eða neitt þannig. Bara til að hafa það á hreinu þá er ég á þeirri skoðun að sömu störf leiði af sér sömu laun. Það á ekki að mismuna fólki almennt, af því að viðkomandi sé kona, hafi dökkan hörundslit, sé örvhentur, treggáfaður, yfir kjörþyngd, undir kjörþyngd o.s.frv.

Dæmi:


Ég er atvinnurekandi og er að ráða í ákveðna stöðu í fyrirtækinu hjá mér. Á borðinu hjá mér liggja tvær umsóknir, önnur frá karlmanni og hin frá kvenmanni. Segjum sem svo að þau séu bæði með samskonar menntun og starfsreynslu. Ég fæ þetta fólk í viðtal og heyri hvað það hefur fram að færa. Hvað geri ég síðan? Jú, ég hlýt að taka ákvörðun um hvorn aðilann ég ræð og sú ákvörðun myndi þá byggjast á þeirri tilfinningu sem ég hefði fengið í þessum samtölum, hvor aðilinn ég myndi telja væri betur til þess fallinn að sinna þessu starfi. En ef 80% af því starfsfólki sem er starfandi í þessu fyrirtæki mínu eru karlmenn á ég þá frekar að ráða konuna til að rétta hlut kvenna í fyrirtækinu? Vitaskuld á þetta líka við á hinn veginn, þ.e. ef 80% væru konur, á ég þá að ráða karlinn? Þið verðið að fyrirgefa en ég sé ekkert vit í því. Ég myndi bara ráða þann aðila sem ég teldi að yrði betri starfskraftur fyrir fyrirtækið.

Tvö atriði varðandi Háskóla Íslands:


Árið 1987 urðu konur í fyrsta sinn fjölmennari en karlar í hópi innritaðra stúdenta og hafa síðan verið meirihluti nemenda. Man alltaf eftir að ég sá viðtal við ónefndan kvenréttindafrömuð fyrir nokkrum árum þar sem kom fram að konur voru í meirihluta í öllum deildum í Háskólanum nema í verkfræðideild þar sem þær voru aðeins rúmlega 25% nemenda. Lýsti þessi ágæti frömuður yfir miklum áhyggjum af stöðu kvenna í verkfræðideildinni og taldi nauðsynlegt að konur myndu sækja fram á þeim vettvangi! En hvað með allt hitt? Ég gat ekki annað en hugsað með mér: "Hey kerling, það eru konur í meirihluta í öllum öðrum deildum í HÍ, er það ekki bara frábær árangur kvenna ef þú vilt endilega setja þetta svona upp?"

Svo var fékk HÍ viðurkenningu frá Jafnréttisráði fyrir árið 2005 en eins og sagði í fréttinni:
Meginástæða þeirrar ákvörðunar er að á þessu ári urðu þau tímamót í sögu skólans að kona var í fyrsta skipti kjörinn rektor. Kristín Ingólfsdóttir, prófessor í lyfjafræðideild var kjörinn 28. rektor Háskóla Íslands.

Af hverju er verið að hampa HÍ eitthvað sérstaklega fyrir þetta? Ég vona bara að hún hafi verið hæfasti umsækjandinn og að þeir sem réðu í þessa stöðu hafi verið að ráða hæfsta umsækjandann. Ég vona a.m.k. ekki að þeir hafi hugsað sem svo að nú væri kominn tími til að kona fengi þessa stöðu, heldur hafi hún einfaldlega verið hæfust.

Mér finnst snilldardæmi eins og staðan hefur verið í Grundarfirði undanfarið. Þannig er málum háttað að þar hafa konur setið í eftirfarandi stöðum: Bæjarstjórinn(er reyndar búin að víkja sæti fyrir karlmanni sem tekur við á haustdögum) , forseti bæjarstjórnar, presturinn, læknirinn, annar af tveimur bankastjórum, skólastjóri grunnskólans, skólastjóri framhaldsskólans og ritstjóri bæjarblaðsins. Eflaust eru einhver fleiri prýðisembætti í Grundarfirði í höndum kvenna en þetta var svona það helsta sem ég mundi eftir. Ég sé ekki tilganginn í að hampa þeim eitthvað sérstaklega af því að þær eru konur, ég held bara að þær séu allar færar í sínum störfum og ekkert meira með það. Að þær séu konur á ekki að skipta nokkru einasta máli.

Ef hinsvegar verðandi bæjarstjórinn í Grundarfirði verður á hærri launum en hinn fráfarandi vegna þess eins að hann hefur eitthvað annað vaxtarlag milli fóta sér þá þurfum við að staldar við, því þá er eitthvað að.