þriðjudagur, júní 03, 2014

Daði Steinn og hugleiðingar um skinkur



Sá fimm ára:  „Pabbi, mig langar í rúnstykki með smjöri, osti og skinku.“
Pabbinn:  „OK, ég skal græja það fyrir þig.“

Smá þögn.

Sá fimm ára:  „Skinka... það er eitthvað svo skrítið.  Það er ekki hægt að gera neitt ef maður er skinka.“

Veit ekki hvernig þessi brandari eldist en til útskýringar þá segir slangurorðabókin:  "Stelpur sem mála sig mikið, nota brúnkukrem eða fara í ljós, lita hárið sitt og klæða sig í þröng föt"
Held að hann hafi ekki verið með þessa tengingu í huga en mér fannst þetta sniðugt.

sunnudagur, júní 01, 2014

VÍS mót Þróttar 2014

Staddur á dag á fótboltamóti í Laugardalnum, VÍS mót Þróttar.  Svolítið síðan síðast, þ.e. á fótboltamóti yfir höfuð.  Logi Snær hefur ekki verið að æfa fótbolta líklega síðan sumarið 2012 og maður því einskorðast við körfubolta- og fimleikamót síðustu misseri.  Allra veðra von á Íslandi er ekki eitthvað sem ég hef saknað við fótboltamótin en þetta slapp fyrir horn í dag.  Rigning á köflum en þakið á stúkunni á gervigrasvellinum í Laugardalnum var að gera heilmikið fyrir okkur.  Öll fjölskyldan á svæðinu og hvað það varðaði þá slapp þetta líka tímalega séð, þetta var svona temmilega langt áður en Daði og Ísak voru orðnir leiðir á þessu hangsi.

Logi var flottur í dag, spilaði einn leik í marki og þrjá sem útileikmaður.  Var reyndar frekar fúll yfir því hversu mikið hann var látinn spila sem aftasti varnarmaður og þar var ekki vel séð ef menn fóru fram yfir miðju.  Sem er ekkert rosalega vinsælt þegar maður er 10 ára og er að spila fótbolta.  Hann er í 6. flokki og stóra sumarmótið er í Vestmannaeyjum núna í lok júní.  Kappinn er bara nýbyrjaður að æfa aftur og það hefur nú ekki komið til raunverulegrar umræðu um að hann sé að fara þangað.  Kemur allt í ljós.

Tilþrif í markinu