þriðjudagur, maí 29, 2007

Ég á sextugsaldri

Ég er að vinna í því að setjast að á góðum stað þegar ég verð á besta aldri, kannski eftir svona 20-25 ár. Ég sé sjálfan mig á flottum stað við fallegt stöðuvatn á Ítalíu eða í flottu úthverfi í London. Katalóníu kannski.



"Þegar þú ert búinn að horfa ferð þú út að æfa þig strákur..."

sunnudagur, maí 27, 2007

Stór dagur

Bæði André 3000 úr Outkast og Jamie Oliver, nakti sjónvarpskokkurinn, eru 32 ára gamlir í dag.

Frábært.

mánudagur, maí 21, 2007

Brauð frá Austur-Evrópu gott í mávana

Ég fór með drengina niður á tjörn í gær, hérna á heimilinu er alltaf minnst á það öðru hvoru að fara að gefa öndunum brauð en oftar enn ekki verður minna úr þesskonar framkvæmdum. Verðurspáin fyrir daginn var góð framan af degi en rigning um eða eftir hádegið og því var ekkert verið að tvínóna við þetta heldur drifu menn sig af stað fyrir hádegi. Eitt sem óhjákvæmilega þarf að gera fyrir þessa athöfn er að redda sér brauði. Ég ákvað að vera ekkert að keyra niður í bæ og finna einhvað bakarí heldur smellt ég mér bara í mitt hverfisbakarí og sjá hvort ég gæti ekki reddað tveimur dagsgömlum brauðhleifum eða svo. Starfsstúlkan í bakaríinu var öll af vilja gerð og sagðist einmitt eiga hérna einn poka bak við sem innihélt einhverja afganga. Einn poki, flott mál hugsaði ég og hún fór baka til. Heyrði ég svo að verið var að draga eitthvað eftir gólfinu og áður en ég vissi af kom stúlkan fram með fullan ruslapoka af brauðmeti. Ég varð eins og froskur í framan og vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta en reyndi samt og koma henni í skilning um að þetta væri kannski fullmikið fyrir mig. Eitthvað gengu þær útskýringar illa, veit ekki hvort það var vegna þess að afgreiðslustúlkan var af erlendu bergi brotin og austantjaldlenskan mín er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ég nennti þessu ekki lengur, brosti bara og sagði já takk og dröslaði þessum poka út í bíl, skottið nánar tiltekið því ekkert annað dugði.

Við rúlluðum okkur niður í bæ í góðum gír feðgarnir og allt var í toppstandi. Fundum álitlegt bílastæði og þá var lítið annað að gera en að líta ofan í pokann góða. Úði þar og grúði af allskonar bakkelsi, brauði, kringlum, rúnstykkjum og það sem verra var, snúðum með glassúr. Sem betur fer voru nokkur álitleg brauð efst í pokanum sem ég gat veitt upp úr og hélt af stað með þau niður að tjörn. Alveg var þetta glötuð stemming að mér fannst því mávarnir voru gríðarlega fyrirferðamiklir. Það var alveg sama hvert við færðum okkur alltaf komu þeir aftur. Drengjunum fannst þetta svo sem ekkert verra, rosafjör að sjá hvernig þeir gripu hvern fljúgandi bitann á fætur öðrum en mér fannst rómantíkin eitthvað hverfa við þetta, í minningunni var þetta ekki svona slæmt. Ég lýsi alla vega yfir stuðningi mínum við bæjaryfirvöld að stemma stigum við þetta með öllum tiltækum ráðum, veit reyndar þó ekki alveg með leyniskytturnar en flest annað er ég til í að skoða. Þetta var hálf vonlaust dæmi.



Snérum heim eftir stutt stopp í Kolaportinu og hádegismat í 10-11 Austurstræti enda aðeins farið að kólna. Þá var tekin sú ákvörðun að fara ekki á fyrsta heimaleik ÍR í sumar en þeir tóku á móti Sindra. Sú ákvörðun reyndist rétt að því leytinu til að úrhellisrigning var á meðan leiknum stóð en röng að því leytinu til að heimamenn unnu 7:0.

Við keyrðum heim í bílnum sem angaði eins og sendibíll hjá Breiðholtsbakaríi en ég fór með restina af pokanum beint í tunnuna þegar við komum heim.

sunnudagur, maí 20, 2007

Pistill sem inniheldur ekki orðið fótbolti

Ég rakst á eftirfarandi tilkynningu á Grundarfjarðarvefnum um daginn:


Sumarstörf hjá Grundarfjarðarbæ

Vinnuskóli fyrir unglinga fædda 1992 (9. bekkur) og 1993 (8. bekkur)
Vinnutímabil er 19 dagar, hálfan daginn, unnið mánudaga til fimmtudaga kl. 8.30-12.00.
Fyrri hópurinn byrjar að vinna 4. júní og er að vinna til 4. júlí.
Seinni hópurinn byrjar að vinna 2. júlí og er að vinna til 1. ágúst.


Þetta er sem sagt sumarstörf í boði fyrir 14 og 15 ára unglinga í boði bæjarins. Eitthvað er landslagið að breytast segi ég nú. Sumarið sem ég flutti í Grundarfjörð, sem var sumarið sem ég varð 13 ára þá byrjaði ég að vinna í frystihúsinu. Reyndar ekkert djúpstæð vinna svo sem, pilla rækjur á færibandi en fullgild vinna samt sem áður. Maður þurfti að vera mættur á réttum tíma og standa sína vakt, annars gat maður bara verið heima. Öll sumur vann maður þarna með skólanum og með tímanum vann maður sig upp ef svo er hægt að segja, var eittthvað í saltfisknum og fékk svo að fara á flökunarvélarnar með körlum eins og Sigga Lár, Gísla göngutúr og Mumma. Yfirleitt lét maður sig hafa það að vinna frameftir ef það var í boði því það skilaði sér í feitari útborgun. Síðar fékk maður að fara á sjóinn og réri grimmt á sumrin sem gerði það að verkum að maður gat lifað á því yfir veturinn á meðan skólinn var stundaður. Stundum fékk maður svo túr á milli jóla og nýárs, væn búbót það.

Því miður skilst mér að þetta sé einfaldlega ekki í boði fyrir unglinga í dag, það er víst erfitt að fá svona vinnu. En fyrir 15 ára gamlan ungling að vinna hálfan dag, fjóra daga vikunnar í 19 daga yfir sumarið er algjört grín. Svo finnst sumum skrítið að mikið af fólki sem er að nálgast tvítugsaldurinn kunni ekki að vinna.

Svo finnst mér líka eitthvað hafi breyst í viðhorfi gangvart vinnunni. Eins og ég sagði þá reyndi maður að vinna eins og hægt var til að þéna sem mest fyrir veturinn, þetta var bara vertíð hjá manni. En núna heyrir maður allskonar sögur um unga krakka sem eru að ráða sig í sumarvinnu og taka það fram að þau þurfi að fá frí í þrjár vikur í júlí af því að þau séu að fara til Tenerife! En það er nú líka auðveldara aðgengi að peningum í dag en það var þá, eitthvað er það allavega. Menn hafa eitt og annað upp úr góðæri, virðing fyrir vinnunni er kannski ekki eitt af því.

fimmtudagur, maí 17, 2007

Bikarævintýrið lifir enn

Spiluðum við Snæfell í dag í Grundarfirði. Sigga fór með en við fengum að skilja drengina eftir upp í Mosó enda lítil stemming fyrir því að keyra fram og til baka í fjörðinn á sama deginum. Mannskapurinn var mættur upp úr hádegi en leikurinn var kl. 14:00 og alveg eðalveður um það leyti sem herlegheitin hófust. Byrjuðum vel en lentum samt 0:1 undir, komum þó til baka og náðum 2:1 forystu. Þeir náðu að jafna 2:2 fyrir hlé. Seinni hálfleikurinn byrjaði ekki nógu vel, undirritaður fékk á sig dæmda vítaspyrnu sem þeir náðu að skora úr en aftur náðum við að koma til baka og jafna í 3:3. Við vorum sterkari aðilinn en náðum ekki að nýta okkur það og framlenging því staðreynd en á þessum tíma var komið rigning og rok. Héldum áfram að ráða lögum og lofum og náðum að setja eitt mark í framlengingunni og tryggðum okkur 4:3 sigur.

Ég var alveg í tómu tjóni á tímabili í leiknum, þegar þeir skoruðu úr vítinu fannst mér eins og staðan væri 1:3 en ekki 2:3 eins og hún var. Það var ekki fyrr en við jöfnuðum í 3:3 (og ég hélt þá að staðan væri 2:3) að ég heyrði boltastrákana fyrir aftan markið hjá mér tala um að staðan væri 3:3 að ég kveikti aftur á perunni. Ógeðslega var þetta furðulegt, man samt ekki eftir því að hafa höfðuhögg í leiknum þannig að ég get ekki alveg skýrt þetta blockout.

Niðurstaðan úr þessu öllu er samt sú að við erum komnir á þann stað í keppninni sem okkur dreymdi um, fáum alvöru leik við öflugt lið Afturelding sem er spáð toppbaráttunni í 2. deildinni. Við erum líka eina utandeildarliðið sem er eftir í keppninni. Þessi leikur verður spilaður í Mosó þann 31. maí og ekki annað hægt en að hlakka til en ljóst er að við verðum í hlutverki Davíðs í þessum leik. Planið verður því einfaldlega það að gefa okkur alla í þennan leik og njóta dagsins. Ég er samt með aðeins í maganum vegna þess að hnéð er ekki alveg nógu gott eftir meiðsli sem ég lenti í á undirbúningstímabilinu. Það verður að halda því þetta er leikur sem öllum langar að spila, þetta er ástæðan fyrir því að maður er að djöflast í þessu.

laugardagur, maí 12, 2007

Dagurinn í gær var dagurinn

Þá er bikarævintýrið hafið en sem betur fer ekki lokið.

Fjölskyldan úr Eyjabakkanum smellti sér í Grundarfjörðinn á fimmtudeginum og planið var að fara strax eftir vinnu hjá mér en þá yrðum við komin tímanlega fyrir Eurovision. Eitthvað tafðist brottförin og okkur leist ekki alveg á blikuna varðandi það að ná Eika á sviði en hann var fimmti í röðinni. Sigga sá um aksturinn og lítið annað að gera nema sjá hvernig þetta færi. Stilltum á Rás 2 og þegar við vorum að fara upp á Vatnaleiðina þá hófst prógrammið og mikil spurning hvort við myndum ná þessu. Ísak Máni virtist vera nokkuð sáttur með það að heyra þetta en við fórum reyndar ekkert út í þá sálma að við gætum misst af Eika. Sigga stóð bílinn í botni, eða sló minnsta kosti sitt persónulega hraðamet og þegar hún lagði bílnum á bílastæðinu á Smiðjustíg 9 þá var verið að kynna Eika til leiks. Fjölskyldan stökk úr bílnum og inn í stofu og sáu þegar karlinn var að stíga á svið og sáum því flutninginn hjá karlinum. Meira þurfti ég svo sem ekki að sjá.

Reyndar var nú enginn friður til að horfa á mikið meira ef áhugi hefði verið á því, maður var boðaður í marksamsetningu á nýju mörkunum sem höfðu verið að koma í tilefni leiksins mikla. Gömlu mörkin höfðu farið í rokinu hérna í lok síðasta árs og því ekki hægt fyrir bæinn annað en að kaupa ný.

Leikdagurinn rann upp, fullkaldur en að öðru leyti nokkuð fínn. Ég hafði haft smá áhyggjur vegna smávægilegra hnémeiðsla sem ég varð fyrir í æfingaleik um daginn sem gerður það að verkum að ég hvíldi í síðasta æfingaleik og hafði heldur ekki mætt á tvær síðustu æfingarnar vegna þess. Hnéð var í ágætisstandi en til að auka áhyggjurnar þá hafði ég fengið þennan svaðalega hálsríg sem gerði vart við sig á leiðinni vestur, ég veit ekki hvort hann var afleiðing þess að ég hafi verið stífur af hræðslu þegar Sigga keyrði eins og vindurinn. No-way-in-hell að ég ætlaði að standa á hliðarlínunni á leiknum vegna hálsrígs og því var bara makað á sig eitthvað deep relief krem sem mamma útvegaði mér. Enda fann ég ekkert fyrir honum í leiknum. Mæting hjá liðinu kl 14:00 á Kaffi 59 í pasta og almennt hópefli. Ekki var annað að sjá en að stemming væri í mannskapnum en þetta verður að teljast óhefðbundinn undirbúningur hjá liðinu, þetta er ekki svona fyrir utandeildarleikina a.m.k.

Leikurinn flautaður á kl 18:00 og með því flauti má segja að knattspyrnusumarið hafi hafist því þetta var fyrsti leikurinn sem fór af stað í Íslandsmótum KSÍ fyrir sumarið 2007. Þónokkuð af áhorfendum á svæðinu sem verður sömuleiðis að teljast óhefðbundið fyrir liðið og hafði maður nettar áhyggjur að það gæti verið eitthvað sem gæti sett menn út af laginu. Við vorum sterkari aðilinn í fyrri hálfleik með vindinn í bakið en náðum ekki að skora þrátt fyrir líklega tilburði. Andstæðingarnir fengu ekki mikið að moða úr, fengu þó eitt úrvalsfæri seint í hálfleiknum, skot af stuttu færi, sem undirritaður náði að verja. 0:0 í hálfleik og mótvindur í seinni hálfleik. Við komust svo yfir í leiknum með marki frá Atla og allt leit vel út, enn vorum við að fá færi sem við nýttum ekki. Ekki fengu þeir mikið af færum í síðari hálfleiknum, sluppu reyndar einu sinni í gegn en ég náði að verða fyrir því skoti. Mér fannst því helv... fúlt þegar þeir náðu að jafna seint í hálfleiknum þegar fyrirgjöf þeirra rataði af fætinum á Jóni Frímanni og í netið. Lítið við því að gera. Lokastaða 1:1 eftir 90 mínútur og framlenging staðreynd. Hvorugu liðinu tókst að skora í framlengingunni og ljóst var að úrslitin myndu ráðast í vítaspyrnukeppni. Til að fara ekki með báða lesendur þessa pistils úr spenningi þá fóru leikar þannig að við kláruðum okkar 5 spyrnur á meðan Höfrungsmenn skorðu eingöngu úr 4 en ein spyrna þeirra fór yfir markið. Ótrúleg barátta, alveg magnað að liðið hafi náð að klára þessar 120 mínútur plús vító, sérstaklega í ljósi þess að menn eru vanir frjálsum skiptingum eins og í utandeildinni en það var vitaskuld ekki í boði í gær. Enda voru margir komnir með krampa og fór þetta áfram á viljanum einum saman.

Réttlætinu fullnægt að mér fannst, þ.e. betra liðið í leiknum komst áfram og eintóm gleði í gangi. Næsti leikur er derby leikur á móti nágrönnum okkar í Snæfelli núna strax á fimmtudaginn þannig að ævintýrið heldur áfram, við erum 8 sigurleikjum frá bikarmeistartitlinum.

laugardagur, maí 05, 2007

El capitan

Það skyldi þó ekki vera að hér sér á ferðinni enn ein færslan um fótboltamót hjá Ísaki Mána. Ljóst er að það fer drjúgur tími í þetta brölt, stundum finnst manni alveg nóg um. Reyndar hefur maður, sem betur fer, alveg ágætlega gaman af þessu en þessi mót geta þó verið eins mismunandi eins og þau eru mörg. Árangurinn hefur líka svolítið með það að gera, hvernig upplifunin verður, bæði hjá iðkendum og foreldrum þeirra.

Hvað um það, hið árlega KFC-mót þeirra Víkingsmanna var haldið í dag. Ísak Máni fór í fyrra en þá lá Logi Snær veikur heima og ég stóð vaktina heima á meðan Sigga fór, þetta var því frumraun mín á þessu móti. Sigga hafði stungið af um helgina í rollurassana fyrir vestan og mér var því falið að leysa þetta mál sem og önnur sem koma upp á heimilinu. Þessi laugardagur byrjaði nú ekki vel því Logi Snær vaknaði um kl 4:40 um "morguninn" og enduðu samskipti okkar í kjölfarið með því að hann kom uppí til mín. Get ekki sagt að ég muni hvernig stóð á því. Ég vaknaði svo aftur kl 6:30 þegar ég heyrði hann lenda á gólfinu eftir að hafa velt sér ofan af rúminu okkar og niður á gólf. Grátur sem fylgdi því, skiljanlega, en ekkert sem við gátum ekki leyst. Hann sofnaði fljótlega aftur en ég gat ekki annað en sofið með annað augað opið það sem eftir lifði rúmlegunnar því skiljanlega var ég hálftaugaveiklaður með hann þarna í rúminu.

Við tókum því bara rólega fyrri part dagsins enda fannst mér réttast að hafa menn afslappaða fyrir þetta mót. Mæting hjá Ísaki Mána 15:30 og leikslok á síðasta leiknum 18:58 og þ.a. var ein klukkustundarpása á milli leikja. Ég hafði talsverðar áhyggjur af því að vera með Loga Snæ þarna allan þennan tíma, köld gola á svæðinu og örlaði fyrir rigningardropum. Þessar áhyggjur mínar voru óþarfar, Logi Snær var ótrúlega duglegur að dunda sér þarna svo ég gat horft óáreittur á eldri drenginn spila. Þetta er nú ekki fyrst mótið hans Loga, drengurinn er farinn að þekkja þetta nokkuð vel enda stór hluti af uppeldinu að dröslast á knattspyrnuvöllum borgarinnar. Einu áhyggjurnar sem þessu fylgir eru þær að Logi verði lasinn en minn var reyndar vel undirbúinn með stærðarinnar tösku á bakinu með hinum ýmsu aukafötum sem ýmist voru af eða á drengnum.

Ísak Máni var hvergi banginn, gaf aftur yfirlýsingu um að nú ætlaði hann að setja ´ann í netið og ekkert rugl. Rætist vel úr því og hafði eflaust sitt að segja um hans stemmingu á mótinu að það var ekki mikið liðið af fyrsta leik þegar hann fékk boltann úr innkasti, tók tvær snertingar í átt að markinu og lét vaða þannig að söng í netinu og 3:1 sigur á Val varð staðreynd. Reyndar fylgdi síðan eitt jafntefli og tvo töp en það var ekkert til að spilla deginum. Hann var ekkert lítið rogginn þegar þjálfarinn dró upp fyrirliðaband eftir fyrsta leikinn og fól honum það ábyrgðarhlutverk út mótið. Tók síðan markið í síðasta leiknum og stóð sig eins og hetja, átti einhverjar 4-5 magnaðar vörslur sem gerði það að verkum að þeir töpuðu aðeins 2:0 fyrir sterku liði Víkings.


Medalía í boði KFC og kjúklingur með því í lokin, allir sáttir.

föstudagur, maí 04, 2007

Ekki þessi helgi heldur næsta

Þessi helgi að hefjast en hugurinn er samt við næstu helgi. Sú verður að teljast stór helgi hvernig sem á það er litið.

Tvöfaldur Eurovision pakki, forkeppnin á fimmtudaginn og úrslitin á laugardaginn. Ég er nú ekkert að tapa mér af spenningi en manni stendur þó engan veginn á sama þegar Ísland er að keppa við aðrar þjóðir. Eiríkur hinn rauði er töffari af náttúrunnar hendi og því ekki annað hægt en að hrífast með. Við Ísak Máni höfum horft á eitthvað af þáttunum þar sem lögin sem keppa eru kynnt en þar fer rauðhærði rokkarinn á kostum. Það er alveg óskiljanlegt hvernig hægt er að safna saman annarri eins tónlistarhörmung á einn stað. Stundum skemmtir maður sér alveg frábærlega yfir því hversu dapurt þetta er en oftar er þetta svo vont að það er sárt. Manni blæðir nánast. Eitt gott (eða vont) dæmi má sjá hér, á lærra plan er ekki hægt að komast, ég fullyrði það. En það verður að fylgjast með þessu, annað er ekki hægt.

Alþingiskosningarnar eru líka næstu helgi. Ég verð ekki á svæðinu á kosningadegi og verð því að kjósa fyrir helgina ef ég ætla að nýta mér þennan rétt. Ef segi ég, en ég held að ég þjáist af kosningaleiða. Það er alveg sorglegt hvað mér finnst þetta óspennandi allt saman. Ég er nánast alveg ráðþrota hvað skuli gera í þessu máli. Á tímabili var ég alvarlega að spá í að gefa bara skít í þetta og sleppa þessu helv... Grínlaust. Ég er nú samt eiginlega kominn á þá skoðun að ég verði að mæta á svæðið og kjósa utankjörstaðar. Annað er ekki hægt.

Svo er spurning hvað skuli kjósa? Úff...

Að lokum er það svo stóra málið, að mínu mati a.m.k. Föstudagskvöldið kl 18:00 á Grundarfjarðarvelli. Bikarkeppni KSÍ þar sem UMFG mun etja kappi við Höfrung frá Þingeyri. Spennandi verkefni og vonandi fer þetta allt vel fram, það myndi nú ekki skemma stemminguna að vinna leikinn en það kemur víst allt í ljós. Við látum allar gagnrýnisraddir sem vind um eyru þjóta ef einhverjar koma upp en vitaskuld má deila um það hversu mikið UMFG þetta er í raun. Enga síður eru 5 leikmenn af þessum 16 manna hóp sem geta haft kallað sig Grundfirðinga á einu eða öðru tímabili í sínu lífi svo það ætti að hafa eitthvað að segja. Það var líka frekar sorglegt að við upphaf búsetu minnar í firðinum sem gutta lauk sömuleiðis sögu meistaraflokks karla í knattspyrnu, við fluttum vorið 1988 en sumarið 1987 var síðasta árið sem UMFG sendi lið í deildarkeppnina. Maður varð því aldrei svo frægur að ná að spila með klúbbnum fyrir utan einhver héraðsmót og þessháttar. Botninum var svo náð þegar ég fór upp í 4. flokk (frekar en 3. flokk) en var eini í þeim árgangi og því ómögulegt að halda út flokki í þeim árgangi og æfði því með flokknum fyrir neðan heilt sumar án þess að spila neitt því ég var jú ólöglegur. Þvílíkt rugl. En þetta stendur allt til bóta sem sagt, um þetta leyti eftir viku ætti maður að vera orðinn kominn með þvílíka reynslu í bikarkeppninni að það hálfa væri nóg.

miðvikudagur, maí 02, 2007

Ísak og Phil, sálufélagar

Þú ert bara 8 ára gamall og ferð að keppa á fótboltamóti þar sem þú tekur það fram fyrir mót að þú ætlir að skora mark, tilkynning sem þú kastar alla jafna ekki fram. Á mótinu færðu eitt mark skráð á þig, nema bara það að þú settir boltann í eigið net, þ.e. sjálfsmark. Hversu niðurdrepandi er það? Auðvitað var erfiðara en allt að verjast vonbrigðunum og þegar tárin brutust fram skömmu síðar var eina rétta í stöðunni að halda um hnéð. Að gera sér upp meiðsli hlýtur að vera í lagi ef forsendurnar eru réttar.

Kemur fyrir á bestu bæjum, en ef Phil Neville lifir það af að skora fyrir sína gömlu félaga um síðustu helgi í ensku úrvalsdeildinni þá ætla ég að vona að Ísak Máni lifi það af að setja eitt fyrir Þrótt á innanhúsmóti hjá 7. flokk í Egilshöllinni.

En maður lifandi sárt var það.