miðvikudagur, júlí 27, 2016

Á góðri stund í Grundarfirði 2016

Enn vorum við mætt í fjörðinn fagra á þennan viðburð þeirra Grundfirðinga, um nýafstaðna helgi.  Eins og í fyrra vorum við Ísaks Mána-laus, aftur var hann að vinna í Hagkaup þessa helgina.  Við mættum á föstudeginum, í tíma fyrir froðugamanið.  Mamma á nýja staðnum, nú í bláa hverfinu, en ekki mjög mikið lengri spotti í franska garðinn.  Froðan var nú eitthvað öðruvísi en áður, freyddi ekki eins mikið eins og undanfarin ár.  Annars var Logi Snær hálfónýtur, hafði fengið einhvern hálsríg og var allur stífur og skakkur.  Ingó Veðurguð með brekkusöng á kirkjutúninu svo um kvöldið.
Á laugardeginum vorum við svo á leiðinni niður á höfn til að kíkja á skemmtunina þegar Daði Steinn, sem var aðeins á undan okkur, dettur fram fyrir sig og tekst að fá þetta myndarlega sár á milli efri vararinnar og nefsins.  Fossblæðir og krakkinn fær algert kast.  Við hlaupum aftur heim með hann og ég bjallaði í Tomma sem græjaði það að starfandi hjúkka á staðnum hitti okkur niður í heilsugæslunni.  Ekki þurfti að sauma en það þetta var límt saman og drengnum tókst að æla yfir löppina á lækninum sem var þarna líka, reyndar út af öðru máli.  Hann fór bara aftur heim til ömmu sinnar með mömmu sinni en ég og Logi tókum röltið áfram niður á höfn.  Ekki fyrst skipti sem við heimsækjum heilsugæsluna á þessari hátíð, Logi flaug á hausinn hérna um árið við íþróttahúsið og þá þurfti að moka einhverjum steinum úr enninu á honum.  Við náðum þó öll að fara
í skrúðgönguna um kvöldið en núna í fyrsta sinn fórum við með þeim bláu.  Það var rosalega skrítið.
Svo dóluðum við okkur heim á sunnudeginum, létum okkur nægja að gjóa augunum á Eldborg þetta árið.

Bræðurnir í froðunni
Tekinn snúningur á þessu

Búið að líma kallinn saman

Bláir í ár - annar skakkur og hinn tjónaður