miðvikudagur, mars 26, 2008

Guðlast?

Ég var illa tekinn um daginn. Vinnufélagi minn var að dásama nýja hringitóninn sinn og leyfði mér að heyra án þess að segja mér hvað þetta væri. Ég gerði mér grein fyrir að þetta var eitthvað stef úr einhverri mynd eða einhverjum þætti sem ég átti að þekkja en gerði ekki. Ég reyndi samt að halda kúlinu og setti upp ég-veit-alveg-hvað-þetta-er-en-það-er-bara-alveg-stolið-úr-mér lúkkið. „Hvað er að þér, Don Vito Corleone maður“ fékk ég að heyra og gerði mér þá grein fyrir að umrædda stef var úr Guðföðursmyndunum.

Málið er nefnilega að ég hef ekki séð „The Godfather“. Ekki mynd nr. I, II eða III. Ég geri mér grein fyrir að þetta staðreynd sem er mér ekki líkleg til almennrar álitshækkunnar en þetta er staðreynd enga síður.

Málið var nefnilega það að ég ætlaði alltaf að taka góðan dag eða góða helgi og taka bara allan pakkann í einum rykk. Þetta var árið 1990 og eitthvað og enn hefur ekkert gerst.

Ég var næstum því dottinn inn í byrjunina á mynd nr. II þegar hún var sýnd á RÚV hérna um árið en stóð upp og slökkti því mér fannst fáránlegt að horfa fyrst á hana áður enn ég sæi nr. I.

Djöfull er ég týndur.

sunnudagur, mars 23, 2008

2000 0513 3013 2911

Þar kom að því að maður gat ekki flúið lengur. Ég var búinn að vera alveg extra ánægður með bankann minn vegna þess að þeir virtust ekkert vera að æsa sig yfir þessum auðkennislyklum sem eiga víst að auka eitthvað öryggið í netbönkum. Fékk svona græju senda heim, ætli sé ekki komið ár síðan eða svo, en umslagið fauk inn í skáp óopnað. Hef svo séð fólk í kringum mig vera dinglandi með þetta, lyklakippan mjög algeng. Ekki hef ég heyrt marga tala vel um þetta tæki, líftíminn virðist vera frekar takmarkaður, sérstaklega þegar fólk er að dröslast með þetta á fyrrnefndum lyklakippum út um allt.

Hvað um það, nú fékk ég bréf frá bankanum þar sem mér var tilkynnt að ef ég virkjaði ekki þetta núna í lok mars þá fengi ég einfaldlega ekki inngang í bankann í gegnum netið. Djöfull...

Núna er ég sem sagt kominn með svona drasl hangandi á kippuna mína og USB-lykillinn sem ég er með af því að Tommi frændi segir að það sé alveg nauðsynlegt er kominn með sálufélaga.

Manchester United - Liverpool 3:0

Maður hafði smá áhyggjur af því að sjá ekki stórleikinn hérna í sveitinni en það var ekki hægt að bregðast knattspyrnuáhugamönnum í bæjarfélaginu og því var Kaffi 59 opið. Við Ísak Máni röltum þarna út og fengum okkur öl og franskar (hann var reyndar bara í vatninu). Manchester vann og allt flott og fallegt með það en við feðgarnir fórum reyndar á kostum þarna, svona okkar á milli.


Mascherano leikmaður Liverpool fékk gult spjald snemma leiks og virtist ekki vera í andlegu jafnvægi eins og nokkrir aðrir leikmenn liðsins. Ég halla mér upp að Ísaki og segi: „Hann fær rautt fyrir hlé, pottþétt.“ Á 44. mínútu fékk kappinn seinna gula spjaldið og þar með rautt.

Ísak toppaði þetta nú samt. Í hálfleik var staðan 1:0 og það mark hafði komið á 34 mínútu. Ísak kom þá með eftirfarandi fullyrðingu í byrjun síðari hálfleik: „Þar sem United skoraði 11 mínútum fyrir hlé mun koma annað mark 11 mínútum fyrir leikslok.“ Og á 79. mínútu, 11 mínútum fyrir leikslok skoraði Ronaldo annað mark United. Nani bætti svo um betur tveimur mínútum seinna og við héldum kátir heim á leið, ógeðslega ánægðir hvað við voru sniðugir og svalir. Næsta stopp var sparkvöllurinn.

Páskar í Grundarfirði

Við í Grundó en mamma út á Spáni. Við reynum samt að finna eitthvað til að borða þótt það sé ekki eldað ofan í okkur.




Vorum nú ekkert að missa okkur í þessu, páskaegg nr. 4 fyrir hvern karlpening en frúin sætti sig við eitt nr. 2. Ég held að Logi Snær hafi ekki innbyrt svo mikið sem einn bita en samt er þetta allt að verða búið.

Þá er bara spurning, hvert þetta fór allt saman?

fimmtudagur, mars 20, 2008

Fermingafár

Karlinn búinn að taka tvær fermingar núna á stuttum tíma, enda árstíminn þesslegur. Fórum fyrst um síðustu helgi til Gúzza (held ég sé með stafsetninguna rétta) og Jökull, aka Jolly yo-yo, staðfesti pakkann í dag. Maður er sem sagt búinn að gúffa í sig slatta af orkuforða og taka í spaðann á fullt af fólki sem maður á að vita hvað heitir en gæti ekki munað það til að bjarga lífinu.


En þetta er víst pakki sem maður fær yfir sig fyrr en maður heldur, það er að segja ef mínir drengir ákveða að láta ferma sig. Mér heyrist nú að það hafi ekki beint letjandi fermingaáhrif á börn sem eru að velta þessu fyrir sér að fara í svona veislur og verða vitni af gjafaflóðinu, án þess að þessar tvær sem ég sé búinn að fara í séu eitthvað ýktar.

Amen.

sunnudagur, mars 09, 2008

Stefnan sett á sól og sumaryl

Framundan í sumar er sól og sumarylur. Karlinn tók á sig rögg og bókaði fjölskylduna í 2ja vikna ferð til Costa del Sol, þegar íslenska sumarið stendur mögulega sem hæst. Ég hef aldrei verið talsmaður þess að hverfa af skerinu í þann stutta tíma sem maður á hvað mestan möguleika á að fá sómasamlegt veður, ég er alveg maður í að taka mér frí og fara til útlanda í febrúar, mars eða október, nóvember. En þar sem konan starfar sem kennari og drengirnir eru í skóla og leikskóla þá er ekki mikið annað í boði en að fara til útlanda þegar þau eru í fríi, ef maður ætlar á annað borð til útlanda.

Það verður athyglisvert, þetta er ekkert sem maður hefur stundað í gegnum tíðina. Fór reyndar einu sinni sem gutti á suðrænar slóðir en það var reyndar yfir jól og áramót, ætli það hafi ekki verið árið 1990 eða um það bil. Þá fór maður bara í sundlaugina á meðan beðið var eftir að jólin gengu í garð. Nú verður öðruvísi stemming og við vonum að þetta hið mesta fjör, Ísak Máni er a.m.k. bjartsýnn á að þetta verði bara gaman.