föstudagur, ágúst 31, 2018

Blautt var það


Þetta var svolítið svona í sumar.  Eiginlega ekki bara svolítið heldur meira svona fullmikið.  Að minnsta kosti hérna á þessu blessaða Suð-Vesturhorni, íbúar Austurlands fengu þó betri tíð.  Hérna rigndi í einhverju formi hvern einasta dag í maí.  Júní og júlí voru blautir og framan af ágúst ekkert sérstakt, slapp nú til seinni parturinn.  Sökum þess að við fórum með allan mannskapinn til Bandaríkjanna um páskana þá samþykkti buddan lítið annað en að veðja á það að taka sumarið hérna heima og vonast til að geta verið á pallinum í góðum gír.  Það var þá árið til að gera það.  Grillið var minna snert en áður og trampólínið, þetta nýja, það hefði líklega verið hægt að spara sér samsetninguna á því þetta árið.

fimmtudagur, ágúst 09, 2018

624-6776

Þá er litli grís hinn síðasti búinn að símavæðast.  Reyndar hefur hann nú verið að dandalast með eitthvað snjalltæki hérna heima við, en í dag fékk hann sitt eigið símanúmer.  Ekki þótt það gáfulegt að smella því símkorti í snjalltækið þannig að það var brugðið á það ráð að versla ódýrt símtæki handa honum.  Fyrir valinu varð Nokia 3310, sem gekk í endurnýjun lífdaga fyrir stuttu síðan og kemur nú með einhverjum meiri fítusum heldur en hérna í den en er áfram old school takkasími.

OK, Ísak var 12 ára, í 7. bekk þegar hann fékk sinn fyrsta síma og Logi Snær var 9 ára, fékk hann í lok sumars áður en hann fór í 4. bekk.  Daði Steinn fékk þó ekki símann þegar hann var 6 ára, eins og ég var farinn að geta mér til um miðað við framþróunina á milli hinna drengjanna en var s.s. á pari við Loga, 9 ára og á leiðinni í 4. bekk.

Þannig týnist tíminn.

mánudagur, júlí 30, 2018

Á góðri stund í Grundarfirði 2018

Eins og líklega hefur einhverntímann komið fram á þessum miðli þá man ég ekki eftir að hafa misst af þessari bæjarhátíð sem var nú haldin í ca 20. skipti undir þessum formerkjum, var haldin í fyrsta sinn undir öðru nafni, 100 ár í Nesinu, í tilefni 100 árum eftir að Grafarnes, þar sem Grundarfjörður stendur nú, varð löggildur verslunarstaður.  Alla vega, þetta árið varð þátttaka mín í sögulegu lágmarki, að ég man best.

Þessa helgi hittist þannig á að það var Baulumýrarhittingur á laugardeginum þannig að það var ljóst að það var ekki hægt að vera á báðum stöðum samtímis.  Niðurstaðan var því sú að við fórum á föstudeginum, öll fimm en Ísak hefur nú ekki alltaf komist með undanfarin ár.  Planið var að ná froðugamaninu kl 17:00.  Bílferðin var í fínasta verði, alveg þangað til að við sáum Grundarfjörðinn en þá fóru rúðuþurrkurnar af stað og rok með því.  Við þurftum nánast að hlaupa inn úr bílnum inn til mömmu til að komast hjá því að verða ekki holdvot.  Sem betur fer rættist úr þessu, þegar styttist í froðugamanaði þá fór að birta til og þegar sú dagskrá hófst þá var komið þetta fína veður.  Þetta var með aðeins breyttu sniði frá undanförnum árum, en núna var búið að koma dúknum fyrir í brekku við íþróttavöllinn og þetta virkaði því eins og stór froðurennibraut.  Daði Steinn og Logi Snær tóku þátt í þessu, Ísak Máni er formlega búinn að leggja froðusundskýluna á hilluna enda hefði hann líklega slasað aðra þátttakendur.  Rúnar Atli sem var þarna með Villa lét sér hinsvegar nægja að sitja hjá enda ekki klæddur í þetta en hann lýsti áhuga sínum að vera með að ári.  Sjáum til með það.
Að öðru leyti var lítið annað gert en að hlýða á Ingó Veðurguð kyrja sinn brekkusöng um kvöldið, sem verður að segjast var með þreyttari sniði, það má eflaust alveg fara að poppa það upp.  Á undan því voru reyndar tónleikar hjá Grétu á Smiðjustígnum, sem voru nokkuð skemmtilegir.  Ég klikkaði reyndar á því að gæjast inn í gamla kofann sem hefur víst tekið einhverjum breytingum.  Geri það bara næst.

Daði Steinn lætur sig flakka

Bræðurnir

Á laugardeginum var farið yfir í Baulumýri og slakað þar á í góðu yfirlæti en um kvöldið var svo grillað.  Við vorum búin að ætla að halda því opnu hvort við færum aftur í Grundarfjörð, til að ná einhverri rest á þeirri skemmtun en ákváðum bara að halda heim í Breiðholtið um kvöldið.

Hópurinn í Baulumýri

þriðjudagur, apríl 17, 2018

Ameríska ævintýrið

Á síðasta ári var tekin sú ákvörðun að fara með fjölskylduna í páskaferð til Flórída á þessu ári.  Við vorum búin að hugsa þetta aðeins, okkur langaði að gera eitthvað sérstakt þar sem Logi Snær var að fara fermast og Ísak Máni að útskrifast úr Kvennó.  Ferð á hefðbundnum sumarleyfistíma var ekki í myndinni þar sem Ísak Máni er kominn á þann stað að þurfa að vinna á sumrin og 2-3 vikna leyfi í júní/júlí er ekki í boði.  Þannig að að páskarnir urðu niðurstaðan.

Eftir að hafa skoðað þetta var planið sett á 14 daga ferð (12 dagar ef við drögum frá báða ferðadagana) og að við færum vikunni fyrir páska, út 18. mars en tilbaka 31.  Að komast á NBA leik var eitt af stóru málunum og þegar leikjaplanið kom út var ljóst að Miami átti heimaleik við Cleveland á þessu tíma þá var það nánast bara merki um að kýla þetta í gang.  Byrjað var að fjárfesta í flugi með WOW til Miami og bílaleigubíl.  Nennti engu rugli með bílamál og tók því stærsta kvikindið sem ég gat fengið.  Ljóst að ferðalagið frá Miami upp til Orlando þar sem við ætluðum að vera var góðir 4 klst með stoppi og við vorum að lenda í Miami seint um kvöldið þá ákvað ég að taka tvær fyrstu næturnar á hóteli í Miami.  Sem eftir að hyggja var sterkur leikur, við náðum því einum heilum dag í Miami áður en við rúlluðum upp til Orlando.  Við notuðum Miamidaginn í að fara í dýragarðinn þar ásamt því að chilla við sundlaugarbakkann á hótelinu okkar, sem var mjög ljúft.

Útsýnið af sundlaugarbakkanum í Miami var ekki slæmt

Fórum svo upp til Orlando, eða Kissimme nánar tiltekið þar sem við höfðum leigt okkur hús þær 11 nætur sem eftir voru.  Við vorum með hús í Crystal Cove resortinu, í því voru 3 herbergi sem rúmaði okkur mjög vel.  Lítil sundlaug í garðinum sem var reyndar óupphituð en þeir allra hörðustu létu sig hafa það þegar það hentaði.  Hitastigið var fínt, 20°C+ stig og náðist mest upp í 30°C.  Lítið klúbbhús var á svæðinu, með stærri sundlaug, smá líkamsrækt, poolborði og fótboltaspil o.s.frv.  Við notuðum það nú ekki mikið en aðeins þó.

Blue Diamond Street í Kissemme - Verður ekki amerískara

Harry Potter kastalinn í Universal
Byrjuðum á alvöru látum, fórum í Universal Studios garðinn, sem samanstóð af rússíbönum og Universal kvikmyndatengdum upplifunum.  Rosalega gaman en að sama skapi rosalega dýr pakki.
Þegar þessi hugmynd um þessa ferð var að fæðast og ég var að versla miðana á Miami - Cleveland sá ég að nokkrum dögum áður yrðu mínir menn í 76ers að spila við Orlando Magic þannig að það var ekki annað hægt en að hjóla í þá líka.  Leikirnir á NBA leiki urðu því tveir, fyrst fórum við á Orlando Magic - Philadelpia 76ers og sáum þar mína menn sigla heim þægilegum 118-98 sigri.  Það kom mér rosalega á óvart hvað það voru margir áhorfendur á bandi útiliðsins, ég held svei mér að það hafi örugglega verið meirihlutinn á bandi þeirra, a.m.k. miðað við þá sem voru fötum merktum liðunum (ég klikkaði á Sixers outfitnum, það gerist ekki aftur).  Reyndar getur þetta Orlando lið ekki neitt og stemmingin eftir því var ekki góð hvað þá varðar.  Frekar erfiður dagur á skrifstofunni hjá peppliðinu, dönsurunum og því fólki.  En ég var ánægður að sjá Embiid, Simmons og þá karla, þetta var eitthvað sem ég væri til í aftur.  Það vildi svo skemmtilega til að þetta var hluti af 16 síðustu leikjum Sixers á regular season sem allir unnust og með því settu þeir félagsmet, sem er gaman að hafa tæknilega orðið vitni af.
Síðar í ferðinni fórum við á hinn leikinn, Miami Heat - Cleveland Cavaliers, en drengirnir mínir voru spenntir í að sjá Kónginn sjálfan, Lebron James.  Það var lagt á sig talsvert ferðalag fyrir það, þessi rúmlega 4 tíma bíltúr á leikinn í Miami og svo sami rúntur til baka eftir leikinn, menn voru því talsvert þreyttir þegar við skriðum heim um kl 03:00 um nóttina.  Því miður fyrir okkur hittum við á algjöran off-leik hjá Cavs og Miami vann þægilegan 98-79 sigur.  Smá skellur en aldrei neitt öruggt í þessum íþróttaleikjabrölti, en þetta varð eini tapleikur Cavs í 11 leikja hrinu og það minnsta sem þeir skoruðu á regluar seasoninu.  En stemmingin í húsinu var þó talsvert meiri heldur en í Orlando og sú upplifun því svakalegri.
Magic - 76ers
Við tókum tvo daga fyrir Seaworld, einn í Aquatica vatnsgarðinn þeirra og annan í rússibanahlutann.  Sá var á margan hátt meira value-for-money miðað við Universal.  Að öðru leyti fórum við eitthvað að versla, þó ekkert rosalega, kíktum á einn trampolíngarð og svona almennt chill.

Heilt yfir frábær ferð, margt sem maður fékk meira en í þeim Spánarferðum sem við höfum farið.  Auðvitað talsverðar mínútur sem maður eyddi í akstur, í heild voru þetta um 2.000 km sem við keyrðum í ferðinni.  En ég er klár í að endurtaka þetta við tækifæri.

Chillað í heimilislauginni

Fyrir utan Miami höllina - Go Cavs


Mættur að sjá Guðinn

Við M&M búðina í The Florida Mall

Enduðum ferðina á Seaworld - menn rússibönuðust í góða 6 tíma

fimmtudagur, febrúar 08, 2018

Ein af þessum þannig-týnist-tíminn hugleiðingum

Image result for munich 1958 60 yearsÞann 6. febrúar síðastliðin voru 60 ár frá flugslysinu í Munchen sem kostaði 23 mannslíf, þar af voru 8 leikmenn Manchester United.  Ég verð að segja að sú staðreynd að það væru 60 ár síðan fannst mér svolítið yfirþyrmandi af þeirri einföldu ástæðu að mínar fyrstu minningar um þetta eru þegar ég las um þetta þegar menn voru að minnst þessa atburðar 30 árum eftir að þetta gerðist.  Þá var það herrans ár 1988 og ég tæplega 13 ára gutti.  Ég man að ég klippti út síðuna úr Morgunblaðinu og hengdi hana upp í herberginu mínu.  Ef minnið er ekki að bregðast mér þá fékk hún að hanga uppi eftir að ég flutti til Grundarfjarðar, á stóru korktöflunni sem ég gerði í smíði.  Núna er s.s. helmingi lengri tími síðan þetta gerðist og ég er tæplega 43 ára.  Jahérna. 

Síðan góða úr Mogganum frá 11.febrúar 1988

laugardagur, desember 30, 2017

Jólin 2017

Fjórðu jólin í Kögurselinu gengu sinn vanagang myndi ég segja.  Íþróttahús Breiðholtsskóla var heimsótt á aðfangadag, reyndar bara 3 af 4 karlmönnum fjölskyldunnar þar sem Ísak Máni hafði tognað á ökkla á meistaraflokksæfingu hjá ÍR tveimur dögum áður og lá heima.  Við komust að því að íþróttahúsið, eða a.m.k. salurinn sjálfur var lítið sem ekkert hitaður og því var skítakuldi á meðan við styttum okkur stundir fram að hápunkti aðfangadags.  Hápuntur þessarar íþróttastundar verður þó að teljast þegar við vorum í fótbolta með blakbolta og Loga Snæ tókst að sparka blöðrunni upp í höndina á mér.  Það sem gerði þennan annars saklausa atburð að einhverjum hápunkti er að í asnaskap mínum hafði ég ákveðið að spila hluta þessa leiks með gemsann minn í hendinni.  Þeirri sömu og Loga tókst að skjóta í.  Niðurstaða af þessum "hitting" var að ég missti símann úr hendinni og hann sveif í fallegum boga aftur fyrir mig og lenti í netinu á markinu, með viðkomu held ég í einhverju af burðarvirki marksins.  Við fyrstu skoðun var skjárinn alveg óbrotinn, sem mér fannst alveg ótrúlegt, en þegar ég kveikti á honum var skaðinn ljós.  Hluti skjásins var svartur og þegar leið á daginn smitaðst það út frá sér og tæplega sólarhring síðar var hann orðinn alveg svartur.

En við létum það nú ekki skemma stemminguna, maturinn var fínn og pakkaúthlutunin sömuleiðis.  Eins og undanfarin ár eru flíkur í aðalhlutverki en eitthvað af bókum kom þó líka úr pökkunum.  Helsti skellurinn var að körfuboltaskórnir sem við pöntuðum handa Ísaki Mána fyrir einhverju lifandislöngu frá Ástralíu voru enn ekki komnir.  Hann þurfti því að láta sér nægja útprentaða litmynd af þeim en ekki að hann hefði komist í þá þarna á aðfangardagskvöldi, a.m.k. ekki þann hægri.

Kvöldið endaði svo með kynningu á páskafríinu okkar en stefnan hefur verið tekin á Flórída í mars á næsta ári.  Ísak Máni hafði aðeins haft veður af þessu, enda ekki hægt að panta svona ferð nema að bera tímasetninguna undir hann, en önnur börn í fjölskyldunni vissu ekki neitt.  Ég var búinn að henda í eitthvað myndband sem ég var búinn að eyða ófáum klukkutímum undanfarnar vikur í að púsla saman, sambland af dóti tekið af YouTube og svo eitthvað sem ég var búinn að taka upp sjálfur en í þessu myndbandi tilkynnti ég s.s. að þessi ferð væri á dagskrá.  Gaman að því, og ég var nokkuð ánægður með niðurstöðuna, miðað við að þegar ég hóf þetta verkefni þá kunni ég ekkert á forritið en tókst að klóra mig framúr þessu.
Við ætlum að nota þessa ferð sem sambland af fermingar- og menntaskólaútskriftarfögnuði.   Ég fattaði svo reyndar að sá yngsti mun svo eiga 9 ára afmæli í þessari ferð.  Meira um þessa ferð síðar.

Prinsarnir á aðfangadag

sunnudagur, nóvember 05, 2017

Meistaraflokksleikurinn hinn fyrsti

Drengurinn eftir leik
Á þessum degi fyrir tveimur árum skrölti ég heim með Ísak Mána eftir að búið var að fjarlægja gifsið á honum, eftir að fóturinn hafði verið í rúma 3 mánuði í gifsi, nokkuð sem lesa má um -HÉR-.  Það var því ákaflega skemmtileg tilviljun að á þessum degi í ár fékk drengurinn sinn fyrsta formlega meistaraflokksleik með körfuknattleiksliði ÍR.  Sýnir hvað er hægt að gera þótt lífið láti menn stundum þurfa að taka eitt skref afturábak áður en menn taka tvö áfram. 


Um var að ræða bikarleikur KKÍ, 16-liða úrslitum, við 1. deildarlið Snæfells á heimavelli ÍR.  Hann fékk að spila undir lokin tæpar 5 mínútur og lét vel að sér kveða.  Byrjaði að smella niður þriggja stiga körfu, reyndi svo aftur sem geigaði en smellti öðrum niður í lokin og endaði því með 6 stig.  Náði einu sóknarfrákasti en var með einhver læti að mati dómarana og fékk á sig 2 villur á þessum 5 mínútum.
Umgjörðin um þennan leik var nú kannski ekki alveg á við hefðbundin deildarleik, en þar hefur stuðningsmanna sveitin Ghettó Hooligans farið mikinn í upphafi móts og byrjað þetta tímabil eins og hið síðasta endaði.  En það var ágætismæting í stúkunni og hluti þeirra háværustu voru drengirnir í 10. flokki sem Ísak er að þjálfa ásamt Hr. ÍR sjálfum, Svenna Claessen.  Ég gat ekki annað en leitt að því hugann hvað þetta hlýtur að vera mikið "boost" fyrir þessa stráka sem hann er að þjálfa að sjá svona uppalinn gaur fá tækifærið.  Hlýtur að vera gríðarlega hvetjandi og styrkir skoðun manns á því að hluti leikmanna í svona liði verða að vera uppaldir, það gefur þessu miklu meira líf.
Það verður svo bara að koma í ljós hvað verður með áframhaldið á þessu hjá honum, hvort hann fær eitthvað að hanga í hóp áfram, en við fylgjumst með.
Tölfræði leiksins - smella á til að sjá stærra

laugardagur, október 14, 2017

Stelpurnar mæta á ný

Mynd: karfan.isFór á heimaleik hjá meistaraflokki kvenna í körfubolta hjá ÍR í dag.  Staðreynd sem ætti alla jafna ekki að vekja neina sérstaka athygli þar sem þessi klúbbur á jú einn sigursælasta kvennaflokkinn ef sagan er skoðuð.  Málið er hinsvegar það að undanfarin ár hafa verið erfið, held ég geti sagt nánast það sem af er þessari öld og meistaraflokkurinn einfaldlega ekki starfræktur undanfarin rúman áratug, en leikurinn í dag var fyrsti heimaleikur liðsins í einhver 12 ár.
Umgjörðin í dag var alveg til fyrirmyndar og bekkirnir þéttsetnir.  Þótt reynsla mín af næstefstudeild í körfubolta kvenna hafi verið engin fyrir daginn í dag þá neita ég að trúa að svona mikil stemming sjáist á mörgum stöðum þar, og jafnvel þótt víða væri leitað.  Naumt tap varð reyndar niðurstaðan en ég vona sannarlega að þetta verði eitthvað til að byggja á og að kvennalið félagsins rísi til þeirra virðingar sem það á skilið.

Held ég hafi bara verið smá montinn þegar ég rakst á þessa mynd núna í kvöld sem sýnir alla drengina mína þrjá á fremsta bekk við þetta tilefni.

#alvörumenn
#stelpurrokka

þriðjudagur, ágúst 15, 2017

7. flokkurinn í fótboltanum kvaddur

Daði Steinn tók þátt í sínu seinasta 7. flokksmóti í fótbolta núna um núafstaðna helgi, Arionbanka móti Víkings.  Ekki hægt að segja annað en þetta loka 7. flokksmót hafi gengið framar vonum en þeir sigruðu alla sína leiki nokkuð örugglega, í brakandi rjómablíðu í ofanálag.  Daði Steinn setti eitt mark, í sigri á Snæfellsnesi, sem var nokkuð gaman vegna augljósra tengsla en hann hafði aldrei mætt þeim áður.
Við taka síðustu vikurnar á æfingum í 7. flokki en svo færist þessi árgangur upp í 6. flokk núna á haustdögum.  Sem er næsta verkefni.

Daði, Egill, Bæring, Kristján, Róbert og Halldór