miðvikudagur, desember 31, 2008

2009 færist nær

Styttist í endann á þessu ári. Mönnum eins og mér fannst frábært að sjá flugeldabæklinginn sem kom inn um lúguna hérna um daginn, nú þurftum við að brenna fleiri peninga fyrir sama magn af flugeldum og í fyrra. Frábært.

En sem fyrr var ekki annað hægt en að kaupa einn pakka eða svo, enn kemst ég upp með að kaupa næstminnsta pakkann og gat meira að segja slegið um mig og keypt tvo aukapakka af hurðasprengjum. Allir sáttir.

Tókum svo forskot á sæluna með því að húrrast hérna út fljótlega eftir hádegið í dag og tortímdum eitthvað af þessu smádrasli, ýlum, froskum og hvað þetta heitir. „Stóru“ bomburnar fara upp í Æsufellið og munu væntanlega mæta örlögum sínum snemma í kvöld því ég ætla að njóta útsýnisins þegar leik stendur sem hæst en ekki vera grúfandi yfir eigin bombum og missa af öllu saman.

Áramótaheiti þetta árið? Kannski reyna að minnka að segja: SÆÆÆDDDLLLLL.

Gangið hægt um gleðinnar dyr og lifið heil.

föstudagur, desember 26, 2008

Jólin 2008

Opnaði augun í morgun og leit á klukkuna. 9:30. Hlustaði eftir einhverju hljóði en heyrði ekki múkk. Allir sofandi á heimilinu og ég rölti fram úr til að athuga með drengina sem voru frekar myglaðir. Svona eru víst jólin en gaman til þess að vita að manni finnst hálf stjarnfræðilegt að sofa til hálftíu.

Annars eru jólin búin að vera alveg hreint fín, tiltölulega róleg stemming á aðfangadag en þannig vill maður hafa það. Ég þurfti reyndar að fara í vinnuna fram að hádegi en það var bara í góðu lagi. Mjög rólegt þar yfir og maður gat notað tímann til að hreinsa til í tölvupóstinum og þessháttar. Drengirnir voru meira og minna límdir við skjáinn þennan dag en víst lítið annað hægt að gera til að minnka kvölina í kringum biðina miklu. Sem fyrr var hamborgarahryggur á borðum hér og hann heppnaðist vel. Logi Snær heimtaði að fá að vera í jakkafötunum sem honum áskotnuðust hérna um daginn, reyndar í stærra lagi en það var algjört aukaatriði. Ísak Máni með mun minni áhyggjur af sparifatnaði og lét sér kasjúal fötin frá því í fyrra duga og ekkert nema gott um það að segja.





Ég fékk heila fjóra pakka, nokkuð gott bara. Veit nú oft fyrirfram um einhvern hluta af innihaldi þeirra og svo var það líka í ár. En það var reyndar einn sem ég var alveg týndur yfir og hafði ekki grænan grun um. Risastórt ferlíki frá tengdó. Ekki minnkuðu heilabrotin þegar pakkarnir frá þeim til hinna á heimilinu opnuðust einn af öðrum og upp komu hágæða ullarnærföt. Miðað við útlitið á pakkanum þá innihélt hann varla ullarnærföt eða hvað? Auðvitað hefðu þau getað pakkað ullarnærfötunum mínum í einhvern gamlan kassagarm og fyllt hann af krumpuðum dagblöðum, svona til að afvegaleiða mig. En, loksins komst pakkinn í mínar hendur og eftir nokkur fumlaus handtök kom innihaldið í ljós. Hágæðapottur, og ekkert eitthvað smáræði heldur 12 lítra kvikindi. Mér skilst að þar sem aðeins mitt nafn var á merkimiðanum þá verði aðrir heimilisbúar að biðja mig um leyfi ef nota á pottinn. Pottinn minn. Assskoti kom hún sér vel þessi gjöf því núna stendur 12 lítra potturinn hennar Guðrúnar sem við erum búin að vera með í láni í alllttttooooffff langan tíma á gólfinu í forstofunni hjá okkur, tilbúinn í að halda heim á leið.

Fengum Íslandsspilið í einum pakkanum. Við Ísak Máni tókum einn reynsluhring á því og það kom bara ágætlega út. Ísak fékk svo spurningu sem snérist um höfund ljóðsins Tíminn og vatnið. Þegar hann svaraði spurningunni rétt án þess að hika gat ég ekki annað en forvitnast nánar um vitneskju hans á ljóðskáldinu. „Pabbi, þetta stendur á Cheerios pakkanum.“

Mér fannst ég vera svolítið tekinn í bólinu...

þriðjudagur, desember 23, 2008

Kæst stemming

Búinn að vera hálftuskulegur þessa síðustu daga, það slæmt að maður tók trefilinn fram og spásserar með hann kvölds og morgna. Vona að það versta sé að baki og karlinn fari að hressast.

Skelltum okkur í Mosó á laugardeginum í skötu. Ansi magnað að þegar við renndum í hlað þá stóð pottur á hlóðum fyrir utan og þegar við stigum út úr bílnum fylltust vit okkar af skötuilmnum. Þetta nokkra stiga frost sem var úti var ekki nóg til þess yfirbuga kæstan ilminn. Auðvitað var matseðill fyrir okkur hin, saltfiskur og steiktur koli. Ég hef aldrei dottið inn í þessa stemmingu en þetta er ómissandi fyrir suma. Það var samt ekki annað hægt en að skella öllu því sem menn klæddust í þvottavélina þegar heim var komið. Kæst maður.

Við höfðum byrjað þennan laugardag á fótboltaæfingu hjá Ísaki Mána en þar sem þetta var síðasta æfing fyrir jólafrí þá var tekið létt á því, foreldrar vs. strákar. Það var því ekkert annað hægt en að reima á sig fótboltaskóna og láta finna fyrir sér eða svoleiðis. Karlinn skoraði glæsilegt mark sem vitaskuld náðist ekki á band en Ísak náði ekki að finna netmöskvana enda í stífri gæslu allan leikinn. Hann komast þó ansi nálægt því að setja´ann eins og náðist á band. Vil samt koma því á framfæri að markið í lokin taldi ekki því það var búið að flauta til leiksloka, maður gefur ekkert mörk í svona leik...

Gleðileg jól annars öll sömul.

Námshesturinn jr.

Ísak Máni þeytti próf á dögunum, nánar tiltekið samræmdu prófin í stærðfræði annars vegar og íslensku hins vegar. Á mínum grunnskólaárum tók ég nú bara samræmd próf í stærðfræði og íslensku í 10. bekk (var einmitt í fyrsta árgangnum sem var nefndur 10. bekkurinn) en núna eru próf í 4., 7. og 10. bekk. Minnir að það hafi verið eitthvað flökt á þessu prófformum því ég held að einhverjir af árgöngunum í kringum mig hafi verið líka í samræmdu prófum í dönsku og ensku.
Anyway, ég fékk 6 í báðum prófunum og var bara þokkalega sáttur ef ég man rétt, minnir a.m.k. að ég hafi ekki átt von á miklu meira og eftir því „sáttur“.

Ísak Máni fór hins vegar á kostum í sínum prófum, 8,5 í íslensku og 9,5 í stærðfræði.

Útlitið mitt en íslensku- og stærðfræðikunnáttan frá mömmu sinni, mögnuð blanda.

sunnudagur, desember 14, 2008

Ísak Máni á tónleikum

Ísak Máni var að spila á tónleikum í Seljakirkju í gær. Svona smá update fyrir þá sem ekki vita þá er drengurinn að spila á píanó og byrjaði á því hjá tónmenntakennaranum í Breiðholtsskóla. Sá kennari er snúinn til annarra starfa og því var brugðið á það ráð að sækja um fyrir hann í Tónskóla Eddu Borg. Þar hóf hann nám núna í haust og var að taka þátt í sínum fyrstu tónleikum á vegum Tónskólans. Tók Göngum við í kringum fjórhent með kennaranum sínum, henni Ragnhildi.

Meiri skóli

Jæja, var að ýta á enter. Skóli eftir áramót. Diplómanám í markaðsfræðum.

Sá að þeir hjá HR voru að bjóða upp á þetta núna eftir áramót, 6 kúrsa pakki frá jan 2009 og eitthvað framundir næstu jól. Ákvað að skella mér á þetta þar sem ég er nú búinn með 2 af þessum 6 kúrsum og fæ því rólegri ferð heldur en hinir. Þetta er samt kennt í skorpum eins og það sem ég er búinn að vera taka en breytingin er sú að núna er kennt 2x í viku en ekki 1x og því verður þetta eitthvað strembnara fyrir karlinn.

Undirritaður mun líka eiga eitthvað meira af frídögum á næsta ári en í hefðbundnu ári og kannski er hægt að samnýta það frí eitthvað bæði í barn og skóla.

Þrír litlir grísir. Er þá ekki um að gera að skella sér í skóla með vinnu svo maður geti nýtt dauða tímann í eitthvað?

Til sveinka

Eftirfarandi bréf bíður sveinkunum á hverju kvöldi í öðrum skónum sem prýðir eina gluggakistuna á þessu heimili. Veit ekki hvort eitthvað klikkaði í uppeldinu en síðan hvenær var það „refsing“ að fá mandarínu?

Yndislegt samt.

Kæri Jólasveinn.

Ef ég myndi vera óþekkur myndi ég helst þiggja mandarínu frekar enn kartöflu. Helst vil ég samt bíla, plaköt, risa blýant, dvd mynd og tússliti. Ég vona að þú skiljir skriftina mína.

Kv. Ísak.

P.S. Vinsamlega skildu þetta eftir.

föstudagur, desember 12, 2008

Fjésbók

Verð bara að koma því frá mér að karlinn fór í fyrsta skipti á Facebook síðu í kvöld. Tel líklegt að ég sé í einhverjum minnihlutahóp hvað þetta varðar enda hálf þjóðin eða svo með svona síðu hef ég heyrt.

Get ekki sagt að ég hafi misst mig í hrifningu en skil svo sem að einhverjum finnist þetta sniðugt. Ég held nú samt að maður sé nú ekkert á leiðinni í þetta samfélag en aldrei að segja aldrei. Varla samt.

þriðjudagur, desember 09, 2008

Voða lítið sniðugt í gangi

Búinn að vera rembast að lenda í einhverju sniðugu en það hefur bara ekkert sniðugt gerst í lengri tíma, svei mér þá. Eitthvað svona sniðugt eins og Tommi frændi lenti í. Þannig ef ykkur vantar eitthvað sniðugt að lesa þá bara lesið þið þetta -HÉR-

Námshesturinn stóðst annars prófið, með nokkrum glans þótt hann segi sjálfur frá. Held að ég skelli mér í einhvern pakka á komandi ári, meira um það síðar. Í takt við það kom markaðslegt gullkorni frá þeim yngri:

Logi Snær: „Pabbi, þegar ég var lítill í maganum á mömmu þá vissi ég ekki að 10-11 væri alltaf opið.“

Það er ljóst að máttur auglýsinga er einhver.