sunnudagur, apríl 12, 2009

Páskadagur

Páskarnir hafa liðið þokkalega hérna. Brutum reyndar aðalhefðina en hérna hefur verið venjan að fara í Grundarfjörðinn og eyða páskunum þar. Það var því svolítið skrítið að fela eggin og borða í Eyjabakkanum en það var allt í góðu. Þeim, þ.e. tveim elstu, er farið að sakna fjörðsins enda talsvert síðan síðast. Það verður að bæta úr því í næsta mánuði, þegar sólin verður kominn hærra á loft.

Reyndar þarf ekki að kvarta yfir sólarleysi hérna þessa daga, ekkert hret og mannskapurinn hefur náð að dunda sér undir beru lofti. Logi Snær ákvað reyndar að næla sér í nokkrar auka hitakommur og er búinn að vera í hálfgerðu móki í dag, honum hefur gengið eitthvað illa að hrista þessi veikindi úr sér. Annars allir góðir.

Sá 9 ára með egg númer 5 og sá 5 ára með egg númer 9

mánudagur, apríl 06, 2009

Lífið með fimm ára augum

Logi Snær er fimm ára. Aldur sem mörgum finnst afspyrnuskemmtilegur ef hægt er að orða það þannig. Jú, jú, svo sem hægt að skrifa undir það enda margt sem menn spá í á þessum aldri. Sumt af því fær mann svona til að klóra sér í hausnum vegna þess að það er snúið að snara því yfir á mál sem fimm ára skilur. Sumt vill maður nú bara helst ekki fara út í. Hann var mikið að spá í um daginn hvað orðið skilaboð þýddi og hvað fælist í því orði. Reyndi svolítið á heilasellurnar á karlinum að koma því yfir á eitthvað vitrænt form og í sjálfu sér óvíst að það hafi fyllilega skilað sér.

Við vorum svo að horfa á sjónvarpið ekki alls fyrir löngu þegar hinir léttklikkuðu sjónvarpsmenn, Auddi og Sveppi tóku upp á því að slefa ofan í hvorn annað í þágu einhvers málefnis. Þá flissaði þessi fimm ára allsvakalega, leit á mig og sagði: „Kallar að kyssast! Eiga ekki bara kallar að kyssa konur?"

Rosalega var ég ekki stemmdur í þessar útskýringar...

sunnudagur, apríl 05, 2009

Eitursvalt

Var að detta í þyngsta þunglyndið seinni partinn í dag. United að tapa 1:2 fyrir Aston Villa og allt að stefna í 3ja tapleikinn í röð í deildinni, nokkuð sem hefur víst ekki gerst síðan í desember 2001. Stutt eftir af mótinu og ég var meira að segja farinn að sjá fyrir mér Liverpool lyfta dollunni „okkar“, sýn sem var ekki góð. Sérstaklega vegna þess að það eru ár og dagar síðan dollan fór þar í hús, 1990 ef ég man rétt og þannig vill maður helst halda því áfram. 1990, við erum að tala um að Margret Thatcher var forsætisráðherra Bretlands, menn spiluðu í stuttbuxum sem náðu varla niður fyrir nára og Milli Vanilli voru að skjótast fram á sjónarsviðið.


Sem betur fer náði Ronaldo að jafna leikinn tíu mínútum fyrir leikslok áður en hinn 17 ára ítalski kjúklingurinn úr varaliðinu, Federico Macheda, kom inná í sínum fyrsta leik og smellti þessu líka stórglæsilega sigurmarki í uppbótartíma og gæsahúð dauðans helltist yfir mann. Hversu svalt er það að vera 17 ára, koma inná í sínum fyrsta leik, á heimavelli og smyrja sigurmarki í netið í uppbótartíma? Tíminn verður að leiða það í ljós hvort þessi gaur verði eitthvað en svalt var þetta, eitursvalt.

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Fyrstu dagar í lífi drengs

Hér er búið að vera fjör eftir að heimilið varð fimm manna. Sigga og sá yngsti komu heim á föstudaginn. Þeir eldri bara nokkuð sprækir með þetta. Nema það að Logi Snær tók upp á því að verða lasinn, fékk einhverja drullu-uppgangspest þarna um helgina. Gat ekki haldið neinu niðri og gat ekkert gert en að liggja fyrir á laugardeginum, sunnudeginum, mánudeginum og þriðjudeginum. Hann var nánast settur í sóttkví inn í stofu og umgekkst mömmu sína og þann nýjasta eins lítið og hægt var. Hljómar grimmt, ég veit. Menn voru samt hálfhrædd við að einhverjir aðrir í fjölskyldunni fengju þessa pest en það slapp nú allt. Poppaði stemminguna ekki beint að undirritaður fór að vinna á mánudeginum ásamt því að skólinn hjá mér byrjaði aftur þann dag þannig að þetta var allt hálfskrautlegt. Logi fékk nú að fara til ömmu og afa í Mosó í gærkvöldi og er þar enn og er víst að hressast.

Fórum með þann yngsta í 5-daga skoðunina í dag. Hann flaug í gegnum hana eins og allir vonuðust eftir og staðfestir það bara sem maður hélt, þetta er náttúrulega bara fullkomið barn.

1. apríl

Merkilegur dagur í dag ef minnið bregst mér ekki. Fengum íbúðina okkar afhenta á þessum degi fyrir 10 árum síðan. Rosalega flýgur tíminn áfram. Mér finnst ekkert svo rosalega langt síðan við fengum lyklana í hendurnar og máluðum megnið af íbúðinni með hjálp Ingu og Sigga komin langt á leið með Ísak Mána. Svo á milli umferða var rölt út í Pizzakofann og náð í eina 16" með fjórum áleggstegundum á þúsund kall. Þá ætlaði ég örugglega að vera kominn í eitthvað raðhús 10 árum síðar en ég er hérna enn. Og er bara nokkuð góður.

Ef ég man svo líka rétt þá var ég, 11 árum fyrir lyklaafhendingu á þessum degi, settur í gifs eftir að hafa brotið á mér löppina í fyrstu skíðaferðinni deginum áður, það var góð saga svona eftir á.

Þetta er því frekar merkilegur dagur. Svona grínlaust.