sunnudagur, nóvember 05, 2017

Meistaraflokksleikurinn hinn fyrsti

Drengurinn eftir leik
Á þessum degi fyrir tveimur árum skrölti ég heim með Ísak Mána eftir að búið var að fjarlægja gifsið á honum, eftir að fóturinn hafði verið í rúma 3 mánuði í gifsi, nokkuð sem lesa má um -HÉR-.  Það var því ákaflega skemmtileg tilviljun að á þessum degi í ár fékk drengurinn sinn fyrsta formlega meistaraflokksleik með körfuknattleiksliði ÍR.  Sýnir hvað er hægt að gera þótt lífið láti menn stundum þurfa að taka eitt skref afturábak áður en menn taka tvö áfram. 


Um var að ræða bikarleikur KKÍ, 16-liða úrslitum, við 1. deildarlið Snæfells á heimavelli ÍR.  Hann fékk að spila undir lokin tæpar 5 mínútur og lét vel að sér kveða.  Byrjaði að smella niður þriggja stiga körfu, reyndi svo aftur sem geigaði en smellti öðrum niður í lokin og endaði því með 6 stig.  Náði einu sóknarfrákasti en var með einhver læti að mati dómarana og fékk á sig 2 villur á þessum 5 mínútum.
Umgjörðin um þennan leik var nú kannski ekki alveg á við hefðbundin deildarleik, en þar hefur stuðningsmanna sveitin Ghettó Hooligans farið mikinn í upphafi móts og byrjað þetta tímabil eins og hið síðasta endaði.  En það var ágætismæting í stúkunni og hluti þeirra háværustu voru drengirnir í 10. flokki sem Ísak er að þjálfa ásamt Hr. ÍR sjálfum, Svenna Claessen.  Ég gat ekki annað en leitt að því hugann hvað þetta hlýtur að vera mikið "boost" fyrir þessa stráka sem hann er að þjálfa að sjá svona uppalinn gaur fá tækifærið.  Hlýtur að vera gríðarlega hvetjandi og styrkir skoðun manns á því að hluti leikmanna í svona liði verða að vera uppaldir, það gefur þessu miklu meira líf.
Það verður svo bara að koma í ljós hvað verður með áframhaldið á þessu hjá honum, hvort hann fær eitthvað að hanga í hóp áfram, en við fylgjumst með.
Tölfræði leiksins - smella á til að sjá stærra