þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Held fast í von og trú en...

Styttist í nýju Metallica plötuna en útgáfudagurinn er 12. september að ég held. Spenningur hjá karlinum enda gamlar hetjur á ferð. Vandamálið er vitaskuld það að eftir 5 skothelda gripi hafa komið frekar slappar 3 plötur. Síðasti góði gripurinn hvað mig varðar, svarta albúmið, kom út 1991 sem er asskoti langur tími. Svo langur tími að þegar hún kom út þá pantaði ég hana í póstkröfu og náði í hana út á pósthús í Grundarfirði í hádegishléinu í vinnunni í frystihúsinu og renndi stórum hluta hennar í gegn áður en ég þurfti að fara aftur í vinnuna. Í minningunni var ég ekkert alltof hrifinn til að byrja með en hún vann vel á og telst vel frambærileg í dag. Load og Reload plöturnar voru ekki nógu þéttar og einungis nokkur lög af þeim sem rata í spilarann hjá mér í dag. St. Anger var svipuð, þokkalegt sánd en heilt yfir ekki nógu öflug lög.

Búinn að heyra tvö lög af þessari nýju plötu (í dag hefur internetið forskot á pósthúsið) og er enn að melta þetta. Akveðið afturhvarfsfílingur virðist svífa yfir vötnum en hvort það dugar til að heilla menn verður að koma í ljós. Vona að gripurinn verði heilt yfir heillandi en hef samt mínar efasemdir, því miður. Kannski hafa síðustu plötur áhrif á þessa von mína eða öllu heldur vonleysi.

Sjáum til en það er ekki margt sem toppar 4. júlí 2004 þegar þessir drengir spiluðu hérna á klakanum. Enn fær maður gæsahúð við tilhugsunina...

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Til hamingju Ísland


Maður reif sig á fætur í morgun til að horfa á úrslitaleikinn í handboltanum á ÓL. Þetta hafðist nú ekki alveg enda Frakkarnir geysilega sterkir og við náðum ekki alveg okkar besta leik. En eins og einhver benti á þá voru við að vinna silfur en ekki tapa gulli og þennan árangur hefði hver sem er tekið fegins hendi fyrir mótið. Auðvitað fúlt að tapa úrslitaleik og allt það en glæsilegt enga síður.

Fór svo í skottúr til Þorlákshafnar en Ísak Máni átti að spila í fótbolta þar. Mígandi rigning alla leiðina og manni leist ekkert á blikuna. Enda kom það líka í ljós að aðstæðurnar voru frekar daprar. Selfyssingar og ÍR-ingar auk heimamanna í Ægir voru mættir en veðrið var slíkt að einföld umferð var látin duga, það var ekki hægt að bjóða upp á meir af þessari rigningu og roki. Það var líka alveg fínt, stemmingin að naga kex í pollagallanum var ekkert spes. Gat ekki annað en þakkað fyrir sólina á Sauðárkróki þarna um daginn, ég hefði aldrei meikað svona steypu í tjaldi.

laugardagur, ágúst 23, 2008

Magnaðir hlutir í tengslum við menningarnótt

Við létum okkur hafa það þrátt fyrir misjafnt veður og smelltum okkur á ÍR völlinn í dag til að sjá heimamenn etja kappi við Magna. Vallarþulurinn, sem oft getur verið nokkuð hnyttinn, bauð „alla þessa fjölmörgu áhorfendur“ á völlinn en í þeim töluðu orðum hjá honum voru 7 manns mættir á pallana, þar af við fjögur. Talaði um þessa tegund af stundvísisleysi um daginn. Hvað um það, þarna hékk maður og fékk eitthvað fyrir allan peninginn svo ekki sé meira sagt. 6:2 sigur okkar manna, 16. sigurleikurinn í 17 leikjum í deildinni og 1. deildarsæti að ári gulltryggt. Það sem gerði þetta enn fremur að stórmerkilegum viðburði var að framherji ÍR, Elías Ingi, setti 4 mörk en tókst að misnota þrjár vítaspyrnur! Þær voru allar varðar en honum tókst þó að ná frákastinu í því síðasta og setja síðasta markið. Maður gat nú ekki annað en brosað út í annað þegar maður hélt heim á leið alveg holdvotur.

Man eftir einu svona dæmi að sami leikmaðurinn hafi klúðrað þremur vítaspyrnum í sama leiknum, Martin Palermo, í leik með argentínska landsliðinu í Copa America 1999. Sá leikur var sýndur á gömlu Sýn en þessir leikir voru seint um nætur og maður var ekki mikið að vaka eftir þeim. Hemmi Gunn og Logi Ólafsson voru víst að lýsa þessum leik og fóru alveg á kostum heyrði maður hjá þeim sem urðu vitni af.

Ætluðum bara að taka því rólega í kvöld en Ísak Máni fékk allt í einu áhuga á að fara á Menningarnótt og við drifum okkur því niður í bæ og tókum einn hring. Vorum í seinna fallinu en fengum vott af stemmingunni. Held bara að við höfum aldrei farið niður í bæ þegar þessi viðburður hefur verið en mér sýnist að sögur af unglingadrykkju séu á rökum reistar, ansi margir ungir þarna að ráfa um. Engin orka til að bíða eftir einhverri flugeldasýningu, hérna voru menn nánast sofnaðir við eldhúsborðið þegar boðið var upp á síðbúið kvöldkaffi þegar heim var komið.

Svo þurfa menn líka að vakna snemma í fyrramálið til að hvetja íslenska handboltalandsliðið...

föstudagur, ágúst 22, 2008

Úrslitaleikurinn framundan

Þjóðarstoltið í botni þessa dagana þegar handboltalandsliðið brillerar núna leik eftir leik og ljóst er að maður kemur til með taka sunnudaginn snemma þegar stóri leikurinn verður.

Þessi mynd af Dorrit okkar eftir leikinn á móti Pólverjum hlýtur nú að vinna einhver verðlaun, þvílík snilld. Forsetinn vill halda þjóðhátíð og Dorrit fór sem fyrr á kostum með sinni einlægni því þegar upp er staðið er Ísland er ekki lítið land, það er stórasta land í heimi. Ég fíla Dorrit.


Nú lifir maður bara í voninni um gullið. Varla samt að maður þori að hugsa þá hugsun til enda...

mánudagur, ágúst 18, 2008

Grýluslóðir

Smelltum okkur í Hveragerði á laugardeginum en ÍR drottningarnar voru að spila við FC Grýlur á Grýluvelli, hvað annað? Sigga lét sig sem sagt ekki vanta og setti eitt kvikindi í þægilegum sigri. Karlarnir í fjölskyldunni voru á hliðarlínunni og dunduðu sér með bolta þess á milli.



Bæjarhátíð þeirra Hvergerðinga var þessa helgi, Blómstrandi dagar, en við stoppuðum nú ekkert til að kynna okkur aðra viðburði þessa helgi. Þó var svona litaþema í gangi eins og í Grundó (og er víst komið á flestar þessar bæjarhátíðir) en þarna var bænum skipt í þrennt, rautt, bleikt og blátt. Ég skal viðurkenna að ég tók ekki mikla úttekt á bænum en það sem ég sá var þetta voða rólegt og hvergi nærri geðveikt eins og í firðinum góða.

Annars missti ég mig aðeins á sunnudeginum og tók skokkhring á þetta, eitt stykki Elliðaárdalur. Úff, ekki hreyft mig í heavy langan tíma og boy-o-boy fann ég fyrir því. Skreið hérna heim alveg samanbrotin maður eftir því að hafa fengið staðfestingu á formleysinu sem ég vissi alveg af. Skreið bara upp í sófann og tók fótboltagláp á þetta, alveg uppgefinn. Harðsperrur í dag, slappt maður...

föstudagur, ágúst 15, 2008

Til hamingu Akureyri með nýjustu viðbótina



Þetta er náttúrulega stórfrétt og nú bíður maður bara spenntur eftir tilkynningu frá norðlenskum fréttamiðlum um komu þessa fólks.

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

FH - Aston Villa 1:4

Fór í kvöld á Laugardalsvöllinn að sjá Aston Villa spila við FH í Evrópukeppni félagsliða, ekki annað hægt en að mæta þegar svona stór klúbbur er að spila á Íslandi. Ísak Máni kom með ásamt Jökli ofurtöffara. Gaman að sjá þessa nagla og sjá svona í action muninn á yfirmeðallagi ensku úrvalsdeildarliði og toppliðs á Íslandi.

Hvað er annars með Íslendinga og fótboltaleiki eða þessháttar uppákomur af ýmsu tagi? Menn voru að tínast inn á völlinn langt fram eftir fyrri hálfleik og margir misstu því af miklu því staðan var orðin 0:2 eftir einhverjar 7 mínútur. Ótrúlegir treflar...

Hvað um það, ég var góður og sá allan leikinn.

mánudagur, ágúst 11, 2008

Öllu tjaldað til

Ísak Máni var að keppa núna um helgina með ÍR á Sauðárkróki á svokölluðu Króksmóti eða eins og Logi Snær kallar það, Crocsmótið. Fórum síðast í útilegu árið 2002 og við fengum sama tjald lánað, djásnið hans Villa sem er líklega ´86 módelið, þ.e. tjaldið ekki Villi. Ég fékk mér smá frí og við gátum því rúllað okkur af stað bara snemma á föstudeginum, fundið okkur þægilegan stað fyrir tjaldið o.s.frv. Eftir að hafa tekið smá rúnt um bæinn tók ég Siggu loksins trúanlega og keypti það að við höfðum verið þarna áður, í síðusta tjaldævintýri þarna 2002. Fengum okkur að borða í Ólafshúsi eins og síðast.

Lítið mál að tjalda í sjálfu sér, það hékk a.m.k. uppi þessa helgi. Grundvallaratriðið var þó að það rigndi ekki, ég hefði ekki boðið í það. Það var betra að vera í tjaldi þegar sólin skein, mér skilst hinsvegar að hitinn hafi farið niður í 4 gráður þessar nætur og stemmingin var ekkert ærandi þegar maður skreið framúr þessa morgna. En þegar kakóið var farið að kicka inn og sólin braust fram þá jókst nú stemmingin.

Spilamennskan hjá Ísaki Mána var fín en þarna voru lið sem hann er alla jafna ekki að spila við eins og Þór, KA, Tindastóll, Kormákur o.s.frv. Hann var reyndar færður upp úr C-liðinu yfir í B-liðið strax eftir fyrsta leik því eitthvað voru fáir tilbúnir að standa þar á milli stanganna. Mér leist svona la-la á það því þarna var hann að spila við stráka sem eru árinu eldri en hann og talsvert öflugari en þeir D-liðsmenn sem hann hefur yfirleitt verið að spila með og við. Þetta gekk samt allt í lagi, hann var samt greinilega svolítið stressaður strákurinn enda annt um álitið gagnvart eldri strákunum. Lenti einu sinni illa í því, tók nettan Taibi á þetta en fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það martröð allra markvarða, missa boltann eftir skot fyrst milli handanna á sér, svo í gengum klofið og þaðan í netið. Rosalega var erfitt að standa upp og horfast í augu við samherjana eftir það...

En það sem drepur þig ekki styrkir þig og hann hélt nú hreinu í tveimur leikjum og þeir lentu í 6. sæti af 14 liðum sem verður að teljast alveg fínn árangur.

Er það bara ég eða var tjaldið okkar eins og krækiber í helvíti? Spurning líka hvort aðrir á tjaldsvæðinu séu að forðast okkur?

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Hártískan

Ísak Máni fékkst loksins til að fá sér almennilega sumarklippingu, eitthvað sem náðist ekki í gegn fyrir Spánaarferðina en hafðist sem sagt í gegn núna síðsumars.

Fyrir:


Eftir:



Logi Snær er hins vegar ekkert á leiðinni í klippingu og er í einhverjum öðrum pælingum.

mánudagur, ágúst 04, 2008

Innipúki

Ekki var farið neitt um þessa verslunarmannahelgi og eiginlega var bara ekki neitt gert sem merkilegt gæti talist. Sem er stundum bara fínt. Það er mjög fínt að chilla svona í höfðuborginni um þessa helgi, allt svo rólegt og fáir á ferli.

Fórum í nýrri sundlaugina í Mosó, nokkuð sem Ísak Máni er búinn að bíða eftir í talsverðan tíma en nú var tækifærið nýtt til fullnustu. Allt voða nýmóðins en ég bjóst eitthvað við þessu stærra í sniðum en alveg vel brúkanlegt. Þá er maður búinn að prófa þá laug.

Skelltum okkur í bíó og sáum Wall-e. Veit ekki hvað skal segja. Ekki það að fjöldi orða í kvikmyndum sé einhver mælikvarði á gæði þá held ég að þeir sem talsettu þessa ræmu hafi þurft að smella inn fjórum orðum fyrir hlé. Eitthvað fór orðaflaumurinn að aukast eftir hlé en ég var ekkert frá mér numinn. Allt í lagi en sem sagt ekkert spes en kannski er það bara ég.

Fórum svo að leika okkur á ÍR vellinum í dag, gervigrasið opið og ekki hræða í bænum þannig að það var hægt að leika sér þar óáreittur í góða stund. Að öðru leyti var þetta bara þægilegt, farið á rúntinn og fengið sér ís. Ekki slæmt.