miðvikudagur, desember 27, 2006

Feðgar munu berjast

Maður reynir að ala syni sína rétt upp í einu og öllu. Vitaskuld hefur maður reynt að miðla áfram ást sinni á hinum ýmsu knattspyrnuliðum til drengjanna. Felur þetta í sér tilheyrandi treyjukaup og annar heilaþvottur. Hefur þetta gengið vonum framar held ég, Logi Snær er svona enn að meðtaka hlutina en Ísak Máni er lengra á veg kominn enda haft meiri tíma til að meðtaka hin heilögu orð.

En einhversstaðar á leiðinni klikkaði eitthvað hjá mér með frumburðinn. Vitaskuld fékk hann Manchester United strax með móðurmjólkinni, það mátti ekkert klikka með það og ítalska stórveldið AS Roma fylgdi svo fljótlega. Reyndar ætlaði mamma hans að vera voða sniðug einu sinni og fékk hann til að segja að hann héldi með Inter Milan, bara til að stríða mér og tók hann þetta einum of alvarlega því ég var lengri tíma að leiðrétta þá vitleysu. Enn í dag held ég að hann beri einhverjar taugar til Inter.

En eitthvað var ég of lengi að taka við mér með að innprenta gæði Barcelona frá Spáni inn í kollinn á honum því ég vaknaði við þá staðreynd einn dag að hann sýndi helstu keppinautunum, Real Madrid, mikinn áhuga. Var svo komið að því meira sem ég tautaði og raulaði þá varð hann staðfastari í ást sinni á Real Madrid, enda getur drengurinn verið nautþrjóskur þegar þannig liggur við. Eftir mikla rannsóknarvinnu af minni hálfu um ástæðu þessa feilspors þá grunar mig að aðalástæðan sé meistari David Beckham. Ísak Máni horfði stundum á videóspólur af honum í Manchesterbúning þegar hann var ca. 4 ára, eða um það leyti þegar Beckham var seldur til Real og þannig held ég að tengingin sé til komin.

Fór svo að ég gafst upp og gaf honum Real Madrid búning í jólagjöf, jólin 2004. Á vissan hátt hef ég smá gaman af þessu, við höfum átt nokkrar umræðurnar um Victor Valdes vs. Iker Casillas, Puyol vs. Cannavaro o.s.frv.

Svo skemmtilega vildi til að ég keypti nýja treyju handa honum í jólagjöf en fékk sjálfur frá þeim bræðrum Barca treyju. Hér sé fjör.

þriðjudagur, desember 26, 2006

Líf óskast

Eftirfarandi póstur kom á spjallsíðu knattspyrnufélgasins Vals núna um hátíðirnar:

Upplýsingar um liðið
gusti | 24. des. 2006 17:35
Jaja árið að líða og nýtt tímabil að hefjast. Langt síðan hópurinn hefur verið svona stór og ætla mætti sterkur. Hef mikla trú á að næsta ár geti liðið náð lengra en undanfarið. Hvernig er annars ástandið á liðinu? Er ekki einhver sem getur tjáð sig um stöðu mála hjá meistaraflokknum reglulega svo hægt sé að fylgjast með því hvað er að gerast. Myndi bara skapa verulega skemmtilega stemmningu fyrir áhugamenn. T.d. liðsuppstillingar, hverjir eru að æfa, meiðsl ofl. Annars bara jólakveðjur

Jú, jú, gott þegar menn hafa áhuga á liðinu sínu en öllu má nú ofgera. Það var aðallega dagsetning póstsins sem ég staldraði við, og tímasetninguna. Eru þetta pælingarnar sem eru efst í kollinum á manni 25 mínútur áður en jólin skella formlega á? Sr. Friðrik heitinn yrði kannski ánægður, kannski ekki.

Get a life.

mánudagur, desember 25, 2006

Jólin þetta árið

Þá er hátindi jólanna lokið. Það var nú aðeins jólalegra að kíkja út í morgun heldur en í gær.



Aðdragandi aðfangadagskvölds var nú alveg furðulega þægilegur og fljótur að líða. Ísak Máni fór ekki að ókyrrast verulega fyrr en um 5 leytið og Logi Snær fór bara og lagði sig rúmlega 4 og svaf til hálf 6. Hamborgarhryggur í matinn, a.m.k. hjá 75% af fjölskyldunni en Logi lét sér nægja þrjár skeiðar af skyri enda hálfkrumpaður enn eftir lúrinn.

Framkvæmd pakkaopnunnarinnar var tekin fastari tökum enn í fyrra, enda var búið að strengja þess heit að mistök ársins áður skyldu ekki endurtaka sig. Þá misstu stjórnendurnir öll tök á málunum tiltölulega snemma og ástandið á stofunni eftir þann pakkagjörning var svona:


Reynið að finna tvö börn á myndinni.

Núna var skipulagið meira, þó ekki á kostnað gleðinnar og ástandið eftir opnun var talsvert betra:



Í dag fórum við síðan upp í Mosó eins og venjan er og fengum hangikjöt í hádeginu. Þar var borðað, spilað, borðað, horft á sjónvarpið, borðað, spilað aðeins meira og svo var borðað. Ísak Máni hélt svo litla tónleika á blokkflautuna sína en hann er að verða ansi fær á hana enda duglegur að æfa sig. Ég held að hann og Jökull frændi hans ætli að halda saman tónleika í fjölskylduboðinu um áramótin, það verður þó að koma í ljós.

Eitthvað af myndum frá aðfangadag komnar inn á myndasíðuna.

sunnudagur, desember 24, 2006

Jólin koma

Sjónvarpsdagskráin, stemmingin í útvarpinu, lyktin sem er að færast yfir húsið, spenningur meðal drengjanna, það er allt sem bendir til þess að jólin séu að koma. Eða næstum allt...

fimmtudagur, desember 21, 2006

"Die Video, Die"

Ég er nú yfirleitt mjög opinn fyrir öllum tækninýjungum og þessháttar hlutum. En mikið lifandi skelfing er þetta DVD dæmi farið að fara í mínar fínustu. Þegar að þessi tækni hóf innreið sína var maður bara ágætlega sáttur og ég verslaði nokkra gullmola á DVD en ég hef aldrei dottið inn í þennan pakka að þurfa að kaupa allar mögulegar og ómögulegar myndir á DVD bara svona til að eiga heima í hillunni. Enda svo sem ekkert fanatískur kvikmyndaáhugamaður þótt ég sé yfirleitt opinn fyrir því að kíkja á góða mynd. Gæðin úr imbakassanum eru miklu betri á DVD-inu heldur en gamla VHS-ið, ég veit það en það er aðallega úr hverju tæknin er gerð sem fer svona í mig.

Heima hjá mér er það þannig að börnunum finnst spennandi að gera ýmislegt sjálf, t.d. að setja videóspólu í tækið og DVD-ið er þar engin undantekning. Vandamálið er það að sá sem hannaði geisladiskinn átti engin börn, staðreynd sem ég ætla að halda fram því börn og geisladiskar eiga ENGA samleið. Þegar Ísak Máni var lítill gat hann hnoðað Bubbi byggir videóspólunni í tækið alveg einn, þótt hann missti spóluna einu sinni í gólfið í leiðinni þá skipti það engu máli, alltaf hélt Bubbi áfram að lenda í sömu ævintýrum á skjánum. Sami heiðurssmiður í DVD formi í höndum Loga Snæs er ekki að eiga eins langa lífdaga þótt Logi Snær sé nú ekkert harðhentari en Ísak Máni var á sínum tíma. Endalaus barnagrátur þegar Bubbi höktir alltaf á sömu stöðunum, hvernig á maður að skilja þetta þegar maður er bara 2ja ára? Nei takk, ég held ég haldi í þessi gömlu VHS barnamyndbönd á meðan ég hef einhvern kost á því. Og svo þegar Star Wars gullið mitt er farið að hökta, þá er mér öllum lokið.

sunnudagur, desember 17, 2006

Þetta er bara rugl

Kæri Jóli.

Ég er að gera mitt besta til að anda rólega yfir hátíðirnar en þetta er bara rugl. Ákvað í gær að reyna að tækla eitthvað af þessum fáu jólagjöfum sem ég þarf að redda. Fór fyrst í litla sérverslun niðri í miðbæ. Fékk ekki stæði nema einshversstaðar lengst í rassgati og svo þurfti ég nánast að bakka inn í þessi litlu búllu því það var svo stappað þarna inni. Barðist með straumnum í smástund þangað til ég sá útganginn aftur og náði að klóra mér aftur leið út.

Tók stefnuna niður í Skeifu, bara til að lenda í umferðarteppu þar. Komast þar í þessa einu búð sem ég þurfti að fara í þar, bara til að komast að því að það sem ég var að leita að var uppselt. Ætlaði svo aldrei að komast út úr þessari umferðarmenningarleysu sem er þarna.

En Jóli, ég var samt enn bjartsýnn og gerði heiðarlega tilraun til að fara í Kringlunna. Eftir að hafa leitað af stæði í 20 mínútur innan um alla hina bílana sem voru þarna í sömu erindagjörðum þá nennti ég því ekki lengur og ákvað að snúa heim á leið. Stoppaði á einum stað þó og náði að versla einn hlut, svona til að klára a.m.k. einn hlut í þessari verslunarferð.

Vaknaði svo í morgun og fór að endurhugsa hvernig best væri að versla þær gjafir sem ég á eftir. Var að fletta blaðinu á eldhúsborðinu og sá þá þennan eina hlut sem ég verslaði í gær auglýstan á tilboði í sömu búð og ég keypti þetta í, tilboð sem var ekki byrjað í gær. Frábært.

Gleðileg jól kæri Jóli.

Þinn Davíð.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Jólaandi

Kæri Jóli.

Ég er í smávægilegum vanda. Núna styttist í jólin og ég er eiginlega ekki að nenna þessu. Ekki misskilja mig, stemmingin kemur án efa til með að batna þegar nær hámarkinu dregur og ég verð án efa í fínum gír á aðfangadag þegar steikin er komin í ofninn og verð ekki í verri málum þegar börnin mín fara að opna pakkana o.s.frv. En núna er ég bara eiginlega ekki að nenna þessu. Allar búðir kjaftfullar af fólki sem verða að kaupa allt sem í boði er, hvort Diddi móðurbróðir hennar Fíu frænku vilji þennan geisladisk eða hvort eigi frekar að kaupa handa honum bók...

Núna hamast allir að segja mér að það sé líka nauðsynlegt að kaupa sér flatskjá eða fá sér nýja eldhúsinnréttingu, allt til að klukkan 18 á aðfangadag verði heimilið eins og klippt út úr einhverju tískublaði og allt verði fullkomið. Það er nefnilega málið, þetta á allt að vera svo fullkomið að ég gæti kastað upp.

Þú verður bara að fyrirgefa kæri Jóli að núna tæpum tveimur vikum fyrir jól er ég ekki að fíla stútfullar verslunarmiðstöðvar og endalausa auglýsingabæklinga með hinu og þessu hégómadrasli sem gerir það að verkum að ef maður dansar með þá fer Visa reikningurinn í febrúar með allt til fjandans og maður upplifir timburmenn dauðans. Til hvers? Til að upplifa einhverja fullkomnun þegar maður er að skera hamborgarahrygginn á aðfangadag?

Æi Jóli, ég reyni samt bara að draga andann djúpt og chilla þessa daga fram að jólum, ég neita að taka þátt í allri þessari hlaup-kaup vitleysu. En núna verð ég samt að fara að huga að jólakortunum.

Þinn Davíð.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Hve glötuð er vor æska?

Fór í ræktina í dag eftir vinnu. Ekkert stórvægilegt við það svo sem, fór svo í sturtu eins og gengur og gerist. Það er vitaskuld þverskurður af þjóðfélaginu í ræktinni og maður hefur séð margan furðufuglinn en þetta sem ég varð vitni af í dag í sturtunni var too much.

Þrír félagar saman í ræktinni í sturtu, svona ca 17 ára og allir með útlitið á hreinu og umræðan, sem var á háværari nótunum, frekar meinlaus. Þeir voru í vandræðum með að mæla sér mót á sama stað á morgun því einn af þeim sá ekki fram á að geta vaknað klukkan 1 eftir hádegi eins og hinir vildu. Svo var rætt um próteindrykki o.s.frv. en síðan fór þetta á hálan ís.

"Varstu að raka þig í gær?" heyrðist í einum.
"Já, ég er að fá einhverjar djö... bólur eftir það, þoli þetta ekki." svaraði annar.
"Af hverju notar þú ekki háreyðingarkrem?" heyrðist þá í þeim þriðja.

Mér til mikillar skelfingar voru þeir ekki að tala um þessi týpísku andlitshár heldur svæðið í kringum félagann, enda kom á daginn að piltarnir voru allir frumskógarlausir á því svæði.

Þegar ég yfirgaf búningsklefann þá ætlaði ég varla að komast út því þeir voru allir að klæða sig fyrir framan spegilinn.

Kannski er þetta bara ég en það er eitthvað við þetta sem mér fannst too much.

sunnudagur, desember 10, 2006

Tölvuvæðing heimilisins komin út fyrir alla skynsemi

Ástandið hérna á heimilinu er hálffurðulegt. Það eitt og sér telst kannski ekki til tíðinda en maður veit ekki alveg hvernig maður á að taka þessu öllu.

Fyrr á þessu ári sem er að líða hrundi fartölvan mín, eina tölvan á heimilinu og því var lítið annað hægt en að fjárfesta í nýrri því ekki gengur að hafa engan svoleiðis grip á heimilinu. Mig minnir að ég verði löggiltur eigandi gripsins um mitt næsta ár.

Hvað um það, svo gerist það í vinnunni hjá mér að ég fékk nýja tölvu, gamli borðhlunkurinn var fjarlægður og ég fékk fartölvu í staðinn. Þannig að nú var kominn möguleikinn á að vera með tvær fartölvur á heimilinu, þótt reyndar ég nenni nú alls ekki alltaf að dröslast með vinnutölvuna heim. Rosa gaman að við hjónaleysin gætum núna verið á netinu á kvöldin í sitt hvorri tölvunni svona á meðan maður horfði á sjónvarpið með öðru auganu. Klikkað.

Ef þetta var ekki nóg fyrir heimilisfólkið þá dúkkaði 3ja gripnum upp núna fyrir helgi. Málið var þannig að fyrir fáránlega löngum tíma fjárfestu atvinnurekendurnir hennar Siggu í einhverjum fjölda af fartölvum sem átti að útdeila meðal vissra starfsmanna. Eitthvað stóð á útdeilingunni en þetta hafðist nú loksins og Sigga var meðal hinna heppnu.



Ástandið í stofunni getur því núna verið ansi athyglisvert, 3 fartölvur, allar með sitt hleðslutæki og mismunandi gögn í hverri. Maður ráfar því stundum á milli græjanna eins og geðsjúklingur því í vinnutölvupósturinn er í einni en myndaalbúm fjölskyldunnar er í annarri. Svo var alltaf spurning í hvaða grip þetta eða hitt skjalið var.

Það eru mismunandi vandamálin í heiminum.

mánudagur, desember 04, 2006

Sögur af sjúklingnum

Logi Snær búinn að vera lasinn, hefur ekki mætt á leikskólann í viku og sama sem ekkert farið út úr þessum 90 fermetrum sem við höfum til umráða á þeim tíma. Spennandi. Fyrst einhver kvefpest með hita og þurrum lungnahósta sem leiddi síðan út í eyrnabólgu. Kannski ekki skrítið að það sé svona almenn la-la stemming hérna. Þetta horfir nú allt til betri vegar, hann verður sendur út í umheiminn á miðvikudaginn ef allt gengur upp.

Þetta er harðákveðinn ungur maður og að nota smekk er ekki ofarlega á vinsældarlista þessa dagana. "Nei pabbi, ég borða bara yfir" sem þýðir að hann vilji frekar borða yfir disknum en nota smekk.

sunnudagur, desember 03, 2006

Ekki gera ekki neitt

Ísak Máni er búinn að taka þátt í tveimur viðburðum núna á stuttum tíma, annars vegar fótboltamót og hins vegar sundsýning. Á þessum viðburðum var sami styrktaraðili, ákveðið innheimtufyrirtæki hérna í bæ. Núna á Ísak Máni sem sagt verðlaunapening og vatnsbrúsa með lógói þessa fyrirtækis og hefur sagt við mig eftir þessa viðburði: "Pabbi, manstu eftir þessu?" þegar við rekumst á auglýsingar þessu tengt í fjölmiðlum eða á förnum vegi.

Spurning hvort verið er að hamra á skilaboðum í þessum stíl sem eiga að rata til foreldranna sem eru að sköltast með gríslingana á þessa viðburði eða hvort verið sé að undirbúa gríslingana sjálfa þegar þeir komast á þann aldur að þeir verði í áhættuhópi um að ráða ekki lengur við gemsareikninginn. Þá er gott að þau þekki lógóið og viti fyrir hvað það standi.

Á meðan ekki kemur umslag með þessu lógói úr póstkassanum stílaðan á einhvern á heimilinu þá ætla ég ekkert að hafa þetta framarlega í minniskubbnum.

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Hin fullkomna jólagjöf

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum heilvita manni að blessuð jólin eru á næsta leyti með tilheyrandi glaum og gleði. Maður er alltaf hálfkærulaus í þessu öllu, ekki komin með svo mikið sem ein sería upp í íbúðinni og ferlið í kringum jólakortin fer yfirleitt af stað ekki mikið fyrr en á síðasta sjéns.

Ég datt niður á grein í dag þar sem farið var yfir hvað væri besta gjöfin, samkvæmt stjörnumerkjunum. Fyrir þá sem ekki vita þá hef ég ekki nokkurn áhuga á stjörnumerkjum og tengdum málefnum. Ég er ekki að segja að pælingar þessu tengdu séu bull og vitleysa, hef enga hugmynd um það en ég hef bara ekki verið áhugasamur um þetta. En af einhverjum ástæðum vakti þetta athygli mína.

Og hver er hin fullkomna gjöf fyrir tvíburann, samkvæmt stjörnumerkjunum?

Það þarf ekki mikla hugsun til að gefa tvíbura gjöf því tvíburinn vill helst ekki að aðrir hugsi fyrir þá. Það er því mjög auðvelt að gefa tvíburanum gjafir og þær mega vera margvíslegar. Tvíburinn verður sérstaklega þakklátur ef gjöfin víkkar út sjóndeildarhring hans, gjöf eins og ársáskrift að tímariti eða erlendri fréttastöð, nýjasta tegundin af farsíma eða jafnvel ferðalag á framandi stað. Pakkningarnar þurfa ekki að vera glæsilegar því satt að segja hefur tvíburinn meiri áhuga fyrir því sem er innan í pakkanum. Tvíburinn er ekki keyrður áfram af græðgi heldur forvitni. Það má því segja að besta gjöfin fyrir tvíbura séu peningar sem þeir geta svo eytt í það sem þá langar helst.

Þetta var það gáfulegasta sem ég hef heyrt lengi.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Upptekni sonurinn

Það er brjálað að gera þessa dagana, aðallega í einhverju tengdu Ísaki Mána. Í gær voru tónleikar upp í Breiðholtsskóla hjá þeim sem eru að æfa á hljóðfæri hjá henni Birnu tónlistarkennara en Ísak byrjaði aðeins að fikta í þessu í fyrra. Hann flutti tvö lög, Gamli Nói og Klukknahljóð og gerði það bara listavel, kalt mat. Hann var nú líka búinn að æfa sig talsvert undir þetta, aðallega undir styrkri leiðsögn móður sinnar. Síðan verða eiginlegir jólatónleikar núna á næstu vikum.



Í dag var síðan sundsýning hjá Ægir en hann er á sundæfingum 2x í viku upp í Breiðholtslaug, a.m.k. fram að áramótum hvað svo sem hann gerir eftir áramót. Þessi sýning var haldin í Laugardalslaug og það var margt um manninn, ég vissi ekki alveg hvað ég var að fara út í og Ísak Máni svo sem ekki heldur. Hlutverk hans var að synda skriðsund alla 25 metrana í innilauginni sem er nú talsvert þegar menn eru vanir minni polli, að ekki sé talað um þegar þú nærð ekki til botns. En hann fékk nú fylgdarsvein úr eldri hópnum hjá Ægir sem gott var að grípa í þegar þreytan var að yfirbuga menn.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Meiri vondgóð tónlist

Meiri tónlistarfurðulegheit að hætti Bonnie Tyler. Til upprifjunar er hér hluti af upphafspistlinum:


Nú hef ég lent í því öðru hvoru í gegnum tíðina að ég er að fíla einstök lög sem ég heyri einhversstaðar, lög sem mér finnst einhvern veginn að ég "eigi" ekki að fíla. Lög sem tengjast annað hvort tónlistarmönnum eða -stefnum sem ég hef hingað til ekki verið mjög ginkeyptur fyrir. Ég er ekki að tala um það þegar maður er að uppgötva nýja hljómsveit eða söngvara sem reynist svo við nánari skoðun vera nokkuð góð/góður. Nei, ég er meira að tala um þegar einstaka lög sem af einhverjum óútskýranlegum orsökum snerta einhverjar rásir í hausnum á mér en við nánari skoðun finnst mér allt annað sem viðkomandi listamaður hefur gert vera rusl, eða miður gott til að orða þetta ekki alveg svona sterkt. Svona mitt eigið one-hit-wonder.



Big Country - In a big country

Man aðeins eftir þessu bandi frá Duran Duran tímabilinu. Mér fannst þeir alltaf hálffurðulegir, spilandi eitthvað rokk/popp með skosku þjóðlagaívafi. Söngvarinn þeirra, Stuart Adamson, átti víst að vera einhver nettur snillingur en það fór fyrir honum eins og mörgum snillingnum, varð þreyttur á þessu jarðlífi og hengdi sig í hæsta gálga árið 2001. Ég verslaði mér Best of disk með þeim á einhverri útsölu og hef pínt mig til að renna honum tvisvar í gegn og get sagt með vissu að ég sé engan veginn að fíla þetta. Nema þetta lag, get hlustað á það endalaust.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Verkaskiptingin á heimilinu séð með barnsaugum

Ég tel mig vera nokkuð frambærilegan í heimilisstörfunum, a.m.k. í einhverjum hluta þeirra. Ég er þó fyrstur til að viðurkenna að ég mun seint teljast duglegur með skúringarfötuna og að þurrka af er ekki eitthvað sem er mér ofarlega í huga. Hins vegar tel ég mig vera ansi öflugan hvað þvottavélina varðar og uppþvottavélina á ég með hurðum og gluggum.

Einu sinni sem oftar var ég að ganga frá í eldhúsinu eftir kvöldmatinn en konan var eitthvað að föndra inn í stofu og var með hamar í hönd. Hún kallar á mig og biður mig um aðstoð og vitaskuld sinni ég því kalli. Hins vegar varð Logi Snær ekkert sáttur við að sjá karl föður sinn inn í stofu og sagði: "Nei pabbi, þú vera inn í eldhúsi."

Ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta þegar ég snéri aftur inn í eldhús og hélt áfram að ganga frá matarleifunum á meðan hamarshöggin dundu frá stofunni.

laugardagur, nóvember 18, 2006

Fótbolti getur verið þjáning

Laugardagsmorgun og klukkan hringdi kl. 07:40. Ég pírði augun og gat séð að það stóð -11,6 stig á mælinum. En þar sem ég var búinn að ákveða að fara í ræktina þá var ekki aftur snúið og í ræktina var farið. Þurfti bara að koma þessu frá mér því ég var ekki lítið sáttur við mig, þ.e. að hafa ekki velt mér yfir á hina hliðina og frestað ræktarför sökum kuldabola.

Annars var Ísak Máni að keppa í fótbolta í Keflavík í dag svo það var annað hvort að fara á þessum tíma í ræktina eða sleppa því alveg. Þeim gekk alveg ágætlega, 1 sigur, 2 jafntefli og 2 töp. En fótbolti er ekki bara tóm gleði þegar maður er bara 7 ára, þetta getur stundum verið sárt eins og samherji Ísaks Mána fékk að kynnast.



Jú, þetta er Sigga sem hljómar þarna undir.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Þjóðminjasafnið - long time no see

Foreldaraviðtalsdagur í Breiðholtsskóla í dag og því enginn skóli hjá Ísaki Mána í dag. Ég smellti út einum sumarfrísdegi og við vorum bara að chilla í dag. Ekki að það hafi verið eitthvað hangs í gangi, ekki hægt að bjóða bara upp á Playstation í heilan dag. Ég skrölti með Loga Snæ á leikskólann því eitthvað af dagskrá dagsins var ekki alveg að hans smekk. Við Ísak Máni höfðum fengið það verkefni að koma nagladekkjunum undir heimilisbílinn, á kostnað sumardekkjanna. Þetta verður að teljast með leiðinlegri verkefnum sem ég fer í en af einhverjum ástæðum gekk þetta bara nokkuð fljótt fyrir sig. Kannski vegna þess að guttinn var ágætlega áhugasamur um þetta og lét sig hafa það að drösla hluta af dekkjunum úr geymslunni og út í bíl.



Að því loknu var tekin ákvörðun um að fara á Þjóðminjasafnið. Ég hafði ekki stigið fæti þarna inn eftir að það var opnað eftir breytingar, samt eru komin einhver tvö ár síðan það var opnað eftir 6 ára lokun svo ljóst er að það eru örugglega einhver 10+ ár síðan ég álpaðist inn á þessa menningarstofnun. Þetta er náttúrulega ekki sama safnið og hérna í den, það er alveg ljóst. Fyrir mitt leyti finnst mér þetta hið flottasta safn og gaman að koma þarna. Ísak Máni var líka nokkuð spenntur fyrir þessu en hann hafði farið þarna áður. Maður var samt svolítið eins og álfur út úr hól þarna, staddir þarna um hádegisbil á miðvikudegi innan um hóp miðaldra þýska túrista og einhverra annarra þjóða kvikindi.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Sáttur við grasið mín megin... í bili a.m.k.

"Veistu að þú færð einbýlishús upp á Akranesi fyrir minni pening en eitt stykki raðhús í Breiðholti?"

Þessari fullyrðingu smellti konan á mig í gærkvöldi, án þess að ég væri nokkuð að ræða nein húsnæðismál eða nokkuð því tengt. Þetta er nú staðreynd sem ég var alveg með á hreinu en búinn að taka ákvörðun um þetta mál fyrir nokkru. Ég er ekki að fara flytja upp á Skaga né í nokkra aðra sveit. Ég þyrfti þá að leggja ÍR peysunni minni og fjárfesta í ÍA peysu, þannig að "gróði" minn úr þessum viðskiptum myndi minnka í samræmi við það. Og því ætti maður að stoppa upp á Akranesi, ég hlýt að geta fengið 4ra hæða einbýli á Suðureyri með sundlaug og tennisvelli í bakgarðinum fyrir Breiðholtsblokkaríbúðina mína.

Nei, ég verð eitthvað lengur hérna og held áfram að dunda mér á fasteignavef mbl.is þegar þannig liggur á mér. Ég tel mér þá trú um að ég geti notað peningana mína í eitthvað skemmtilegt og konan getur keypt sér nýja 16.000 kr. íþróttaskó eins og í gær en þurfi ekki að fara í Hagkaup og kaupa sér 1.900 kr Addadax skó í ræktina.



Spurning um að fara að skella sér aftur á Old Trafford og lifa lífinu. Eða a.m.k. kaupa mér nýja skó í ræktina, dýrari týpuna að sjálfsögðu.

laugardagur, nóvember 11, 2006

Um græna grasið hinu megin

Ég fæ stundum svona dellur. Þær fela aðallega í sér að ég vilji fá mér nýjan bíl eða að ég vilji taka hatt minn og staf og flytja. Tek ég svona nettar tarnir í þessu, ligg þá yfir fasteigna- og bílasölum á netinu og hugsa mikið en framkvæmi minna.

Núna er ég með íbúðardelluna. Ekki það að maður hafi það eitthvað slæmt þar sem maður er, alls ekki. Hér eru báðir drengirnir með sitt hvort herbergið, þvottahús í íbúðinni, nýleg eldhúsinnrétting og baðherbergið allt á réttri leið í endurbótum. Hvað vill maður meira? Jú, ég væri alveg til í sérinngang, lítinn bakgarð til að dunda sér með fótbolta yfir sumartímann, stærra svefnherbergi, stærra eldhús og svona eitt og annað sem maður sér í hillingum. Eitt af vandamálinu í þessu, ef vandamál skyldi kalla, er að ég vil ekki fara úr hverfinu því sama hvað menn segja um Breiðholtið þá er ég svona líka sáttur hérna, búinn að kaupa mér ÍR peysu og allt. Íbúðir hérna í hverfinu í kring sem hafa þennan sérinngang o.s.frv. eru margar hverjar alltof stórar, 200+ í fermetrum talið og ég hef ekkert við það að gera, hvað þá efni á því að borga fyrir það. Nei, ég er meira að hugsa í svona 130-160 fermetrum sem yrði alveg yfirdrifið fyrir mig og mína.

Það hefur dottið inn á fasteignasölur bæjarins svona ein og ein íbúð sem uppfyllir flestar af þessum óskum mínum en yfirleitt er alltaf eitthvað við þær sem gerir mér létt að afskrifa þær, enda hefur maður nú ekki verið að spá í þessu af neinni alvöru, það er ekki eins og ég sé að fara að skoða ásamt því að verðpunkturinn er nú talsvert annar en hann var ´99 þegar við Sigga keyptum þessa íbúð. En þá datt draumahúsið inn á fasteignavefinn, raðhús í Breiðholti með sérinngangi vitaskuld, 150 fermetrar á tveimur hæðum með stóru hjónaherbergi, æðislegu eldhúsi, bakgarði og bílskýli. Fljótt á litið (án þess að ég hafi farið og skoðað) þá virðist þetta uppfylla alla mína drauma. En eins fljótt og ég komst á flug þá brotlenti ég jafnharðan. Tæpar 35 millur sem menn vilja fá fyrir herlegheitin! Djöfulsins rugl. Ég gæti grátið.

Er maður reiðubúinn til að skuldsetja sig til fjandans, selja djöflinum sálu sína þangað til maður er kominn niður í 6 fetin? Fórna utanlandsferðum og öðru sem manni langaði kannski að gera næstu árin fyrir lengra bili milli útveggja?

Æi, þetta er bara steypa. Í bókstaflegri meiningu.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Endurnýjuð kynni

Loksins hafði maður það af. Mætti í ræktina aftur eftir guð-má-vita-hve-lengi. Ákvað að láta slag standa og peppaði mig upp í að mæta eftir vinnu í dag. Ég hafði talsverðar áhyggjur af þessu, var alveg viss um að það væri komið eitthvað nýtt innritunarkerfi eða eitthvað sem myndi láta mig líta út eins og hálfvita. Sá fyrir mér alltof hressa afgreiðsludömu segja við mig: "Nei, ert þú með gamla kortið, við hættum með það fyrir einhverjum mánuðum. Þú þarft að fylla út nýtt eyðublað og bla bla bla..." En þetta hafðist allt saman, ég stillti mér upp í anddyrinu af minni alkunnu lymsku og létti mjög þegar ég sá gæja fara inn og hélt kunnuglegu korti á lofti. Var líka nokkuð feginn þegar fjandans vélin meðtók kortið mitt og ég komst inn.

Þetta var nú engin djúpstæð æfing, tók 30 mínútur á hlaupabrettinu og teygði síðan á ásamt einum góðum skammti af magaæfingum. En það var fínt að kíkja aftur og taka stöðuna á þessu. Nú er bara að koma sér í form fyrir sumarið, undirbúningstímabilið er byrjað.

þriðjudagur, október 31, 2006

Meira af Bonnie

Smellum inn Bonnie Tyler lag mitt nr. 2, af því að ég er í stuði fyrir að opinbera meira af mínum furðulegheitum. Nánari útskýringar í tónlistapistlinum hérna fyrir neðan.



Daft punk - One more time
Gjörsamlega óskiljanlegt af hverju ég er að fíla þetta lag. Ég peppast allur upp þegar ég heyri þetta lag. Þetta er einhver franskur diskodúett sem mættu m.a. í viðtal í Kastljósið á RÚV með bréfpoka á hausnum því þeir vilja ekki vera í sviðsljósinu, eða eitthvað. Hef heyrt eitthvað annað með þessum gæjum en get ekki sagt að ég sé að fíla það. Engan veginn. Nema þetta lag.

mánudagur, október 30, 2006

Fríða og dýrið

Ég er heilt yfir sáttur með vinnuna mína. Auðvitað eru dagarnir mismunandi eins og gengur og gerist en almennt er ég sáttur. Maður fæst við hin ýmsu verkefni og sum eru athyglisverðari en önnur. Sum eru líka furðulegri en önnur. Fór á fund um daginn og spjallaði þar við móðir fráfarandi alheimsfegurðardrottningar og sjálf er hún fyrrverandi fegurðardrottning og telst vera rúmlega yfir meðallagi á augnkonfektaskalanum.

Meðal þeirra orða sem við notuðum á þessum fundi voru:

Blautklútar
Vaselín
Bómullarskifur
Húðhreinsun
Handáburður
Augnfarðahreinsir

Þegar ég kom út af fundinum hugsaði ég bara: "Hvað var þetta?"

Sáttur með vinnuna.

laugardagur, október 28, 2006

Fjórir spenar í stað vinarins

Kaninn getur verið alveg rosalega klikkaður. Við Ísak Máni fórum á forsýningu á einhverri amerískri vellu teiknimynd, Barnyard, en Sigga hafði orðið sér út um tvo frímiða og auðvitað nýttum við okkur tækifærið. Í grófum dráttum var myndin um dýr á einhverju sveitabýli en þegar mannskepnan var ekki að fylgjast með þá gengu þau upprétt og töluðu mannamál. Hvað um það, aðalsöguhetjan hét Oddur (Otis) og pabbi hans var Brjánn (Ben) og þeir voru beljur eða naut öllu heldur. Það hefur greinilega ekki verið nein stemming í henni Ameríku að hafa tvo upprétta tudda með þetta allra heilagasta dinglandi fyrir framan börnin og það var leyst hvernig? Jú, þeir smelltu bara júgur framan á tuddana eins og það væri ekkert sjálfsagðara. Enda hallaði Ísak Máni sér að mér fljótlega eftir að myndin var byrjuð og hvíslaði: "En pabbi, naut eru ekki með spena". Held að þetta sé það sem þeir kalla að vera kýrskýr. Veit ekki hvaða áhrif svona myndir hafa á kýrskýrleika barna í Bandaríkjunum.

fimmtudagur, október 26, 2006

Getur vond tónlist verið góð tónlist?

Ég man að það var síðasti dagur síðasta árs, skömmu fyrir hádegi. Veit ekki af hverju ég man það en ég geri það samt. Logi Snær var að borða hafragrautinn sinn, aðeins á eftir áætlun en allt í lagi með það svo sem. Ísak Máni var inni í stofu að horfa á Star Wars III Revenge of the Sith, mér heyrðist að Obi-Wan væri kominn til Utapau að leita að General Grievous. Konan var í ræktinni. Ég var að raða í uppþvottavélina og kveikt var á útvarpinu, Bylgjan var í gangi. Gulli Helga var að tala við Björgvin Halldórsson söngvara og Bjarna Ármannsson bankastjóra Íslandsbanka (Glitnir heitir þetta víst í dag) en þeir voru að tala um sýninguna hans Bo sem ég held að hafi verið á Broadway. Snérist þá umræðan um að talsvert af ungu fólki hafi verið að koma á þessa sýningu, mörgum þætti líklegra að eldra fólk en yngra væri að koma á sýningu með Björgvini Halldórssyni. Voru þeir Bo og Bjarni sammála um að með tilkomu MP3 spilaranna og Ipodanna væri aðgengi að tónlist miklu meiri og auðveldari og fólk væri því að hlusta á allskonar tónlist og jafnvel eitthvað sem það myndi að öðru leyti kannski ekki vera að hlusta á.

Ég er nefnilega í smávandræðum. Málið er að ég hef alltaf haft ákveðin tónlistarsmekk, eða a.m.k. talið mér trú um það. Það er sumt sem maður hlustar á og annað ekki. Ég man þegar ég var að byrja í tónlistarpælingunum sem gutti að þá var sjóndeildarhringurinn ekkert rosalega breiður, skoðanir manns einskorðust við vinsældarlista Rásar 2 og svo tónlistarmyndbönd sem sýnd voru í þættinum Skonrokk á RÚV enda lítið annað að hafa. Svo fór maður aðeins að víkka þennan hring.

Nú hef ég lent í því öðru hvoru í gegnum tíðina að ég er að fíla einstök lög sem ég heyri einhversstaðar, lög sem mér finnst einhvern veginn að ég "eigi" ekki að fíla. Lög sem tengjast annað hvort tónlistarmönnum eða -stefnum sem ég hef hingað til ekki verið mjög ginkeyptur fyrir. Ég er ekki að tala um það þegar maður er að uppgötva nýja hljómsveit eða söngvara sem reynist svo við nánari skoðun vera nokkuð góð/góður. Nei, ég er meira að tala um þegar einstaka lög sem af einhverjum óútskýranlegum orsökum snerta einhverjar rásir í hausnum á mér en við nánari skoðun finnst mér allt annað sem viðkomandi listamaður hefur gert vera rusl, eða miður gott til að orða þetta ekki alveg svona sterkt. Svona mitt eigið one-hit-wonder.

Þetta minnir mig alltaf á eitt. Eitt sinn fyrir einhverjum árum var ákveðinn aðili í lífi Dabba litla sem viðurkenndi fyrir mér að lagið Total eclipse of the heart með Bonnie Tyler gerði eitthvað fyrir sig. Þetta sló mann nokkuð því þessi aðili var á þessum tíma meira að spá í bassaplokk að hætti Cliff heitins Burtons og skók höfðinu villt og galið í takt við tóna Iron Maiden. Ég hef stundum hugsað til þessa atburðar þegar ég lendi í þessum umdeildu tónlistaruppgvötunum.

Til að leggja áherslu á mál sitt er best að koma með dæmi. Og ég á þau nokkur. Ég er að hugsa um að henda einu hérna og svo koma kannski önnur við tækifæri, þau eru misslæm, þótt ég sjái einhverja fegurð í þeim öllum.

Fyrsta Bonnie Tyler lagið mitt er:



Robbie Williams - Old before I die
Take That var alls ekkert fyrir mig og mér hefur fundist það sem Robbie Williams hefur gert síðan þá ekkert spennandi. Svona þokkalega vönduð popptónlist sem er að gera ágætishluti fyrir fullt að fólki, en ekki mig. Nema þetta lag.

Þýðir þetta að tónlistarsmekkurinn er að breytast með árunum? Veit ekki. Þroskamerki? Veit ekki. Eða er ég einfaldlega í tómu rugli? Kannski. En niðurstaðan er einfaldlega sú að hvað tónlist varðar þá er ekki hægt að gera neitt í því hvað maður fílar og hvað ekki. Góð lög eru bara góð lög, þótt þau "eigi" að vera vond.

sunnudagur, október 22, 2006

Lokahóf

Geisp...

Var á lokahófi Vatnsberanna í gærkvöldi. Það var mikil gleði en sú gleði var haldin á Blásteini, eðalpöbb upp í Árbænum sem verður líklega að teljast helstu höfuðstöðvar klúbbsins. Voru veitt hin ýmsu verðlaun, misdjúpstæð en öll með góðum huga. Aðalverðlaunin voru ekki af verri endanum, skítug Fulham treyja með 6 daga gamalli Heiðari Helgusyni svitafýlu sem strákurinn var að spila í sl. mánudag. Tók Bolungarvíkurtröllið Karvel Steindór Pálmason aðalverðlaunin og var hann vel að þeim kominn. Ég fékk það hlutverk á föstudaginn að nálgast treyjuna þar sem skaffarinn, sjálfur Jón Frímann, var kominn með annan fótinn út á sjó. Kostaði það rúnt til höfðustöðva Glitnis til móts við sjálfan Birki Kristinsson fyrrverandi landsliðsmarkvarðarins en hann hafði séð um að ferja treyjuna til landsins, með svitafýlunni og alles. Sem geymslumaður verðlaunanna gat ég ekki annað en látið Ísak Mána pósa aðeins með gripinn.





Það fór svo reyndar að þegar ég skrölti heim þá var Logi Snær búinn að æla eitthvað og því var lítið sem ekkert sofið í nótt því hann hélt áfram að skila einhverju. Vona að þetta sé bara eitthvað smáræði sem hverfi jafnfljótt og það kom.

Held að séu myndir af lokahófinu væntalegar á myndasíðunna hans Tomma.

Geisp...

mánudagur, október 16, 2006

Dagbækur

Dagbækur eru skemmtilegt fyrirbrigði. Svo skemmtilega vildi til að ég hélt dagbók á mínum yngri árum, í tveimur skorpum ef kalla má. Fyrra tímabilið var þegar ég var 11 ára og svo aftur þegar ég var 15 ára. Ætli aðalverðmætin í þessu séu ekki bara fyrir mig sjálfan, að eiga upplýsingarnar og pælingarnar sem koma fram í þessum skrifum þótt þetta sé langt frá því að vera djúpstætt eða merkilegt. Mér finnst meira varið í síðara tímabilið, af einhverjum ástæðum örlítið skemmtilegri lesning. Kannski orðin aðeins meiri hugsun í manni á þeim árum, ef hugsun mætti kalla. Núna finnst mér bara verst að ég hafi ekki verið duglegri að skrifa í dagbókina á þessum árum því óneitanlega er gaman að eiga þetta. Þetta er líklega ein af ástæðum sem maður er að dúlla í þessu bloggi, það er vonandi að ég geti haft eitthvað gaman af því að skoða gamlar færslur seinna meir.

Annars var ég búinn að reyna mana Jóhönnu systir upp dagbókarskrif á netinu. Díllinn var þannig að ég myndi birta eitthvað af dagbókinni minni á þessum vettfangi og þá myndi hún gera slíkt hið sama. Hún hélt, að eigin sögn, ansi athyglisverða dagbók á táningsárunum þegar hormónarnir og gelgjan voru í sögulegu hámarki. Hvað get ég sagt, hún tók það ekki í mál. Hún hefur líklega haldið að hennar dagbók innihaldi safaríkari lýsingar en mínar ég-vaknaði-kl-8-fór-í-fótbolta-borðaði-kjötbollur-fór-að-sofa-kl-23 lýsingar. Það er líklega rétt.

sunnudagur, október 15, 2006

Helgin

Helgin kom og fór. Sigga fór vestur svo það var þriggja karla helgi hérna í Eyjabakkanum.

Laugardagurinn byrjaði snemma eins og venjan er orðin. Ísak Máni á fótboltaæfingu kl 9:50 þannig að það þýddi ekkert að stripplast á næturklæðunum langt fram eftir morgni. Fínt fyrir alla að losa smá orku inni í íþróttahúsi, sérstaklega þegar veðrið var jafnömurlegt og það var, rigning og rok. Sökum þess var nú ekki mikið hægt að vera útivið en menn fundu sér eitthvað til dundurs. Bolti í sjónvarpinu og nokkrir viðbótamaurar mættu á svæðið í Playstation, nýji Star Wars lego leikurinn að gera gott mót. Ég tók þá meðvituðu ákvörðun um að fara EKKI í nýju IKEA búðina eins og hinir plebbarnir. Auðvitað er þetta eitthvað sem maður verður að kíkja á en ekki fyrstu helgina eftir opnun, einhverntímann seinna. Fór þó í einhverja Leikbæjarútsölu, aðallega bara til að komast aðeins út úr húsi en hélt langan pistill yfir drengjunum að við værum ekki að fara þangað til að kaupa eitthvað heldur aðallega bara til að skoða og ef ég myndi kaupa eitthvað þá væri það eitthvað mjög lítið og mjög ódýrt. Fór svo að eftir stutt rölt þarna fóru við út, þeir með sinn hvorn dótakarlinn og ég 200 kr. fátækari.

Við reyndum bara að dúlla okkur hérna í dag, enda úrhellisrignig og lítið útivistarveður. Hræðum í eina Betty Crocker og höfðum það gott, ef menn hafa ekki prófað gulrótarkökuna þá hafa menn ekki lifað lífinu. Ákváðum síðan að réttast væri að styðja handboltalið hverfisklúbbsins og fórum og sáum ÍR - Fylkir. Ég var smá smeykur við að taka Loga Snæ með mér vegna hávaðans sem er oft á svona leikjum en þetta bjargaðist allt saman. Sátum ekkert of nálægt trommunum en nóg var hávaðinn samt. Sá litli var orðinn frekar lúinn en var samt ósköp þægur og góður. Því miður tapaði ÍR leiknum og virðist eiga erfiðan vetur framundan.

laugardagur, október 14, 2006

1 árs afmæli...

Í dag er eitt ár liðið frá fyrsta bloggpistli undirritaðar. Blóm og kransar eru vinsamlega afþakkaðir en áhugasömum er bent á skandinavíska styrktarsjóð örvhentra sem er með höfðustöðvar í Finnlandi, nánari upplýsingar um sjóðinn og klúbbinn sem honum tengist má fá á www.lefthandlovers.fi. Til gamans má geta þess að höfuðstaður klúbbsins er staðsettur í lítilli hliðargötu við ráðhústorgið í Helsinki og á efri hæðinni er fyrsta allífræna kaffihúsið sem opnað var í Evrópu. Fyrrverandi formaður klúbbsins var þekkt karlfyrirsæta í Finnlandi og var m.a. andlit Nivea þar í landi. Hann lenti hinsvegar í því að slasast á vinstri hendinni þegar hann var í handsnyrtingu og þurfti að þjálfa upp hægri hendina til daglegra notkunar. Var honum vitaskuld sagt upp störfum sem formaður klúbbsins og gerður brottrækur úr honum.

Í tilefni bloggafmælisins var stefnan tekin á að poppa eitthvað upp þessa síðu en það er spurning hvernig það fer, skíthræddur um að þetta fari allt fjandans til ef ég fer eitthvað að fikta í þessu. Það ætti samt að vera hægt að taka til í linkunum hérna til hliðar, svona til að gera eitthvað. Sjáum til.

föstudagur, október 13, 2006

Meira rokk og ról

Ég verslaði mér nokkra diska í Manchester, annað ekki hægt þegar hægt er að fá fína diska á einhver 5 pund, innan við 700 kr. Meðal þess sem ég keypti mér var einhver collection diskur með Dio. Það hafði alltaf verið planið að kaupa safndisk með karlinum og þegar ég sá þennan í HMV var aldrei spurning um annað en að slá til. Ég var ekki alveg klár á hverju ég átti von á, þekkti nokkur lög með kappanum en síðan kom í ljós að þetta var bara rosalega solid dæmi. Þessa dagana er Dio blastaður á góðum hljóðstyrk í Puffy, mér til mikillar gleði. Ég er kominn á þá skoðun að Ronnie James Dio sé einfaldlega snillingur. Ég fór meira að segja inn á www.youtube.com og fann myndbandið við Rock and roll children. Flashback dauðans maður lifandi. Þetta myndband var á einhverju VHS spólu sem Tommi frændi átti og við horfðum talsvert á í Grundarfirði en á henni voru hellingur af myndböndum með hinum ýmsu rokk og ról böndum. Alla vega, ég gróf þetta upp, njótið vel því þetta er bara snilld:


föstudagur, október 06, 2006

Spurning um átak

Þegar kreditkortareikingurinn kemur inn um lúguna mánaðarlega þá er alltaf ein lína sem fær mig til að hugsa: "Jæja, nú verð ég að fara að gera eitthvað í þessu máli". Eins og staðan er í dag þá er ég að styrkja ákveðna líkamsræktarstöð hér í bæ um tæpar 3000 kr á mánuði. Veit ekki hversu langt síðan ég mætti, allavega langt. Tók reyndar meðvitaða ákvörðun um að byrja EKKI aftur í byrjun september eins og allir aðrir, taldi sterkt að láta smá tíma líða og byrja aðeins á eftir öðrum. Kannski var það bara afsökun fyrir að mæta ekki strax. Hvað um það, ég held að þessi tími sé kominn. Vandamálið er að ég veit ekkert hvernig ég á að fara að þessu. Að stilla klukkuna á 5:55 eða eitthvað álíka er í alvöru ekki my-thing, þetta var ekki alveg að gera sig fyrir mig. En eitthvað verður maður að gera, þetta er ekki hægt svona. Er búinn að bíta það í mig að ef ég fer léttu leiðina út úr þessu máli, sem væri að hafa samband við þessa líkamsræktarstöð og skila inn kortinu mínu, þá sé ég búinn að tapa. Veit ekki hverju, líklega baráttunni við hreyfingarleysið. Og ég þoli ekki að tapa.

Ég er búinn að skora á sjálfan mig að vera í betra formi næsta sumar en ég var í síðastliðið sumar, úthald og annað var ekki nógu gott. Maður finnur að það er ekki eins gaman í boltanum þegar formið er miður gott. Ekki það að stefnan sé sett á eitthvað ofurform, byrjum á betra formi.

Ég ætla að klára M&M pokana sem ég keypti í fríhöfninni og svo byrja ég.

miðvikudagur, október 04, 2006

Undanþágur

Ísak Máni vill fá nammi á þriðjudegi. Ég segi nei á þeim forsendum að það sé ekki laugardagur, þ.e. nammidagur og því komi það ekki til greina. Hann vill fá undanþágu því að hann er að fara í afmæli til vinar síns og þar verði nammi á boðstólnum. Ég fellst á að veita þá undanþágu og gef honum leyfi til að fá nammi. Hann fer í afmælið, fær sér nammi og kemur heim. Ég tek á móti honum og segi honum að ég hafi gert mistök með því að leyfa honum að fá nammi. Laugardagar væru einu nammidagarnir í vikunni og því hefði hann ekki mátt fá nammi á þriðjudegi. Ég læt hann í mánaðarnammibann af því að hann fékk sér nammi á öðrum degi en laugardegi.

Já, ég er að æsa mig.
Já, ég er að æsa mig yfir kvennaboltanum á Íslandi.

Meira ruglið
.

þriðjudagur, október 03, 2006

Manchesterferðin mikla

Þá eru menn komnir heim eftir Manchesterhelgarferðina miklu. Eitt orð: Snilld!

Fórum út á föstudeginum, og lentum þá um kvöldið í Manchester. Lítið gert annað en að koma sér á hótelið og fá sér að éta, Hard Rock varð fyrir valinu.

Laugardagurinn var tekinn ágætlega snemma, egg og beikon í morgunmat (hvað annað?) en svo var ákveðið að fara á Old Trafford og kíkja á Megastore-ið og versla. Fyrir þá sem ekki vita er dauðadæmt að ætla að versla þarna á leikdegi, við erum að tala um að það er hleypt inn í hollum. Versluðum aðeins þar eins og lög gera ráð fyrir. Svolítið fúll með það að á meðan ég var að bíða eftir Tomma fyrir utan þá labbaði sjálfur Carlos Queiroz, aðstoðarþjálfari Man Utd, út úr búðinni en þar sem ég var akkúrat að horfa í einhverja aðra átt þá sá ég varla nema rétt baksvipinn af honum þegar hann þrammaði í hina áttina, það hefði ekki verið leiðinlegt að eiga mynd af sér með karlinum. Röltum svo yfir í verkamannamollið þarna hinum megin við, enda vanir Manchester menn á ferð sem þekkja orðið borgina eins og handarbakið á sér. Komum reyndar við í einhverju hersafni sem er þarna við, allt í góðu með það en ekki eins flott og safnið í London. Skrölltum síðan inn á pöbb þarna við Old Trafford, Bishop Blaize, og drukkum þar ótæpilega af bjór næstu tíma. Segir síðan lítið af ferðum tvímenninganna fyrr en morguninn eftir.

Sunnudagurinn var leikdagur þegar strákarnir frá Newcastle mættu á svæðið og því lítið annað sem var gert en að snúast í kringum það. Vorum komnir snemma á leikvanginn og dunduðum okkur þar. Vorum aðeins of seinir til að sjá leikmennina koma en náðum restinni af þeim, sáum O´Shea, Ferdinand og Saha mæta á svæðið. Vissum ekki hvert við ætluðum þegar við fórum að leita að sætunum okkar á vellinum og fundu þau, í 7. röð frá vellinum. Sást í kjölfarið til tveggja Íslendinga sem féllust í faðma og grétu af gleði. Leikurinn var æðislegur, bara eitt lið á vellinu, 2:0 ásamt 3 stangarskotum, Ole Gunnar með fyrstu mörkin á Old Trafford síðan 2003 og áfram héldu Íslendingarnir tveir að gráta af gleði, þetta var bara of gott til að vera satt. Chill um kvöldið, einhver ömurleg Superman Returns mynd sem við héldum að væri eitthvað ýkt 3-D dæmi en þurftum bara að nota þessi Imax gleraugu í 10 mínútur á meðan restin var nánast bara eitthvað vasaklútadæmi.

Mánudagur, röltdagur dauðans. Tjékkuðum okkur út fyrir hádegi og við tók rölt um miðbæ Manchester á meðan við biðum eftir kvöldinu enda flugið ekki fyrr en kl. 22 um kvöldið. Þetta var langt en samt bara drullufínt. Rákumst á hljómsveitina Disturbed sem var að árita diska og smellti maður sér á eintak þótt maður teljist nú ekki vera neinn fan.

Niðurstaða ferðarinnar: Snilld!

Manchester... þangað til næst

miðvikudagur, september 27, 2006

Clifford Lee Burton (10. febrúar 1962 – 27. september 1986)

Í dag eru 20 ár síðan Cliff Burton, einn mesti bassaleikari rokksögunnar, lést.

Hann fæddist þann 10. febrúar 1962 í Eden spítalanum í San Francisco. Foreldrar hans voru Jan og Ray Burton og áttu þau tvö börn fyrir, Scott og Connie.

Cliff byrjaði að spila á píanó þegar hann var sex ára gamall. Þegar hann var fjórtán ára byrjaði hann að spila á bassa og hóf svo að læra á hljóðfærið í september 1978 og stundaði það nám til janúar 1980. Samkvæmt foreldrum Cliffs þá eyddi hann fjórum til sex tímum á dag að æfa sig, jafnvel eftir að hann gekk til liðs við Metallica. Hann útskrifaðist frá Castro Valley High School árið 1980 og gekk þá til liðs við hljómsveitan Trauma eftir að hafa verið í hljómsveitinni Easy Street. Easy Street spilaði aðallega lög eftir aðrar hljómsveitir og kom að mestu leyti fram á litlum börum. Einn besti vinur Cliffs á þessum árum var Jim Martin sem síðar spilaði á gítar með Faith No More.

Það var síðan árið 1982 sem Lars Ulrich og James Hetfield, meðlimir í Metallica sáu til Cliffs og hrifust mjög af. Þá þegar voru komnir brestir í samstarf þeirra við þáverandi bassaleikara Metallica, Ron McGovney. Fannst Lars og James hann ekki vera að standa sig og í raun gaf James það einu sinni út að það væri í raun hann sem hefði kennt Ron allt sem hann kunni á bassa. Cliff vildi fyrst ekki ganga til liðs við Metallica og það var ekki fyrr en Lars og James samþykktu að færa höfuðstöðvar bandsins frá L.A. til San Francisco að Cliff sannfærðist. Þann 5. mars 1983 spilaði Cliff í fyrsta sinn með Metallica á stað sem hét The Stone í San Francisco.



Það er ekkert vafamál að með Cliff innanborðs urðu Metallica mun heilsteyptara band. Hann varð fljótlega þekktur fyrir mikil og þétt bassasóló ásamt kröftugri framkomu á sviði. Cliff var bassaleikari Metallica á fyrstu þremur plötum bandsins, Kill ´em all (1983), Ride the lightning (1984) og Master of puppets (1986).



Það var einmitt þegar þeir voru á tónleikaferðalagi að kynna Master of puppets plötuna að Cliff lést.

Það var snemma á laugardagsmorgni þann 27. september 1986 nálægt bænum Ljungby í Svíþjóð að rútan sem þeir voru í fór útaf sökum ísingar á veginum og hvolfdi ofan í skurði. Cliff, sem var aftur í koju hægra megin í rútunni, kastaðist út um gluggann áður en rútan lenti ofan á honum. Enginn annar lést í þessu slysi, Lars fótbrotnaði en aðrir sluppu með minni meiðsli. Þeir sem voru í rútunni minnast þess að hafa séð fæturnar á Cliff standa út undan rútinni strax eftir slysið, sjón sem þeir gleyma ekki. Til að bæta gráu ofan á svart féll rútan ofan á líkið af Cliff þegar kapall sem var notaður til að lyfta rútunni slitnaði.

Eins og oft þegar svona harmleikir gerast þá hugsa menn aftur til atburðanna fyrir slysið og spyrja sig af hverju hlutirnir hafi farið eins og þeir fóru. Þegar hljómsveitarmeðlimirnir voru á þessu ferðalagi drógu þeir Cliff og Kirk spil um hver fengi þessa koju sem Cliff var í þegar hann lést. Cliff dró spaðaás og fékk kojuna. James svaf vanalega í koju næst þeirri sem Cliff var í en hann átti yfirleitt í vandræðum með að sofa í þeim. Þessa nótt gat hann ekki sofið vegna þess að honum fannst of mikill gegnumtrekkur þar og hafði áhyggjur af því að verða lasinn.

Farið var með lík Cliffs til Bandaríkjanna og var það brennt, 7. október 1986 í heimabæ hans, Castro Valley. Ösku hans var dreift yfir einn eftirlætisstað Cliffs, Maxwell Ranch. Við útförina var lagið Orion af plötunni Master of Puppets spila. Eftir það spilaði Metallica aldrei Orion í heild sinni á tónleikum fyrr en 3. júní 2006 þrátt fyrir að hlutar af laginu hafi verið oft notaðir.



Við bassanum hjá Metallica tók Jason Newsted, aðeins rúmum mánuði eftir fráfall Cliffs, en hann var þá meðlimur í Flotsam And Jetsam. Aðalástæðan fyrir þessum hraða var að hinir þrír eftirlifandi meðlimir Metallica ákváðu að fresta ekki tónleikaferð sinni í Japan þrátt fyrir brottfall Cliffs. Jason vildi meina að hann hafi aldrei verið að fullu samþykktur sem fullgildur meðlimur Metallica, þrátt fyrir að vera hafa verið í hljómsveitinni í 15 ár. Jason hætti í janúar 2001 og Robert Trujillo tók við í febrúar 2003.

Réttast að enda þetta á texta eftir Cliff sem kemur fram í laginu To live is to die sem kom út á fyrstu stóru plötu Metallica eftir að Cliff féll frá, ...And justice for all (1988).

"When a man lies he murders some part of the world.
These are the pale deaths which men miscall their lives.
All this i cannot bear to witness any longer.
Cannot the kingdom of salvation take me home."



Heimildir:
Kerrang! Legends. Issue 3, 2003
http://www.nunnie.com/cliff-burton.html
http://www.metallicaworld.co.uk/Cliff%20Burton.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Cliff_Burton
http://web.telia.com/~u90102963/tribute.htm

mánudagur, september 25, 2006

Gamlar og nýjar hugdettur

Ég fæ stundum hugdettur. Misgóðar eins og gerist og gengur og misvel gengur að hrinda þeim í framkvæmd. Jafnvel spurning hvort maður vill eitthvað framkvæma allar hugmyndir sem maður fær, en það er önnur saga.

Hef alltaf séð svolítið eftir því að hafa aldrei lært á hljóðfæri. Ég hafði nú engan sérstakan áhuga held ég svona snemma í bernskunni og þegar ég kom á unglingsárin var áhuginn aldrei nógu mikill til að ég gerði eitthvað í málunum. Það er helst svona núna á síðari árum að ég hef séð þetta í hillingum, að læra á eitthvað hljóðfæri. Aðgerðarleysið hefur nú sennilega stafað meðal annars af því að ég er ekki að sjá mann á mínum aldri stauta mig í gegnum Litlu andarungarnir á eitthvað hljóðfæri. Ég er samt kominn að þeirri niðurstöðu að ef ég ætla að læra á eitthvað úr þessu þá verður gítar fyrir valinu, alltaf öfundað þá sem geta glamrað nokkur grip á gítarinn. Á tímabili þegar ég var ekki sjá þennan draum rætast þá var ég kominn á það að kaupa mér einhvern alvöru rafmagnsgítar, Gibson eða eitthvað annað flott merki og hafa bara sem stofuskraut og læra aldrei á hann. Hann yrði að sjálfsögðu fyrir örvhenta og því ekki hætta á að margir vitleysingar færu að fikta í honum.

Svo kom önnur, að ég tel, snilldarhugmynd upp í kollinn á mér ekki alls fyrir löngu varðandi þetta málefni. Ég tek stöðuna á Ísaki Mána og athuga hvort honum langi ekki að læra á gítar. Hann byrjaði aðeins að læra á hljóðfæri síðasta vetur, er að fikta bæði á blokkflautu og píanó og kemur til með að halda því áfram í vetur. Ég sá þetta fyrir mér að ef hann, á einhverjum tímapunkti, myndi vilja skipta yfir í gítarinn þá myndi ég láta slag standa og læra með honum. Sá þetta svo vel fyrir mér að ég ímyndaði mér að ef við sætum hvor á móti öðrum (annar rétthentur, hinn örvhentur) þá væri þetta bara eins og að horfa í spegill og kannski þægilegt að læra hvor af öðrum þannig. Bara hugdetta.

Eitthvað sem gerist í framtíðinni? Tíminn verður að leiða það í ljós.

sunnudagur, september 24, 2006

Réttardagurinn

Þá er réttunum lokið, eða a.m.k. þessum aðalréttum. Það er víst eitthvað sem heitir seinni réttir eða þessháttar, menn ná víst ekki að hreinsa fjöllin í einni hrinu. Ég hef nú ekki mikla reynslu af þessu dæmi, hef t.a.m. aldrei farið að smala svo heitið geti en maður hefur núna farið með börnin í þessar réttir undanfarin 2-3 ár. Get ekki sagt að ég sé búinn að finna rolluna í mér en það er greinilega viss stemming í þessu og greinilega margir sem ekki geta verið án þessa atburðar.

Reyndar held ég að eitt og annað hafi breyst í þessu viðburði í gegnum árin, nema að mín tilfinning sé byggð á einhverri þjóðsögu. Núna í þessum réttum sá ég t.d. ekki nema einn áfengispela ganga á milli manna og einhverja tvo bjóra. Það skal þó tekið fram að þetta er ekki vísindaleg könnun. Engan heyrði ég vera kveða vísur eða taka lagið. Ég fékk á tilfinninguna að þetta voru meira svona borgarbörn og brottfluttir sveitungar sem héldu þessu uppi innan um þessa fáu bændur sem enn standa í þessari iðju. Fékk líka á tilfinninguna að fyrir einhverjum árum, eflaust ekki svo mörgum, hafi verið talsvert meira fé í þessari rétt. Líklega bara eitt dæmi um breytt þjóðfélagsmynstur á landinu.

föstudagur, september 22, 2006

"Ég heiti afi"

Logi Snær er á einhverju furðulegu skeiði núna. Aðalmálið í fataskápnum hjá honum eru gallabuxur og Batman peysur og Batman sokkar. Hvað buxurnar varðar þá gengur hann ekki í neinu nema að hann geti með réttu kallað þær "afabuxur". Til að byrja með voru það aðallega flauelsbuxur, ekki ósvipaðar og þær sem Halli afi hans gengur í en svo fór afinn að láta sjá sig í gallabuxum öðru hvoru og þá snérist minn maður. Núna vill hann bara ganga í gallabuxum og ekki hvaða gallabuxum sem er heldur einum sérstökum sem hann á. Sem getur verið vandamál þegar við erum að gera okkur klára í leikskólann að morgni dags og þessar einu sönnu buxur eru með kvöldmatinn frá deginum áður út um sig allar. Ekki nóg með það að hann heimti þessar einu buxur heldur treður hann svo ótrúlegustu hlutum í vasana og gengur svo um og segir: "Ég heiti afi".

Þessi blessuðu börn...

fimmtudagur, september 21, 2006

Pistill nr. 100

Kominn í Grundarfjörðinn. Konan að fara í sinn árlega rollurassaeltingarleik sem berst víst út um fjöll og fyrnindi þarna hinu megin á nesinu. Drengirnir með mér enda hafa þeir enn ekki þá líkamsburði sem til þarf í svona ævintýramennsku. Hún verður víst í þessu á morgun og svo verða réttirnar þarna á laugardaginn og þangað mætum við borgarbörnin og gerum allt vitlaust eins og venjan er þegar borgarbörn komast í tengsl við náttúruna. Það er nokkuð ljóst að við erum að ala upp borgarbörn, Logi Snær horfði út um gluggann í Baulumýri í kvöld þegar við skiluðum konunni af okkur, virti fyrir sér myrkrið og sagði: "Það er búið að slökkva öll ljósin". Minn maður er ekki alveg að átta sig á ljósastauraleysinu í sveitinni enda alinn upp í blokk í Breiðholti.

Fór í dag niður í Úrval-Útsýn og náði í miðana fyrir mig og Tomma. Eftir rétt rúma viku erum við að fara til Manchester og kíkja á leik þarna úti, Man Utd - Newcastle. Maður er ekki búinn að vera mikið að spá í þetta eftir að við pöntuðum pakkann og gengum frá þessu en þegar ég sá miðana þá varð þetta allt raunverulegra. Sýnist á öllu að við séum í flottum sætum og hef enga trú á öðru en að þetta verði flott ferð. 3ja skiptið sem við förum á Old Trafford og spennan magnast.

fimmtudagur, september 14, 2006

Á víkingaslóð

Fór út að borða í gærkvöldi, vinnutengt. Útlendingur á vegum General Mills var á svæðinu og við fórum nokkrir frá Nathan til að stytta honum stundir. Forstjórinn ákvað að fara eitthvað annað en á Nordica eða þetta hefðbundna og beindi hópnum á Fjörukránna í Hafnarfirði. Ég hafði aldrei farið þarna og vissi svo sem ekki alveg á hverju ég átti von á. Við mættum á svæðið og þá voru aðaltopparnir mættir og voru að festa á sig skikkjurnar og setja pappakórónu á hausinn...
Þá vissi ég að ég var kominn í einhvern pakka. Þegar maður var búinn að sitja þarna í nokkrar mínútur og farið var að bera hákarlsbita á borðið og hella hreinu íslensku brennivíni í staupin sem voru á borðinu, þá var mér hætt að lítast á blikuna. Við erum að tala um miðvikudagskvöld og vinna daginn eftir. Maður gat samt ekki skorast undan, fyrst útlendingurinn lét sig hafa það þá gat ég ekki verið minni maður. Hann skemmti sér vel en mikið var ég feginn að fjórða staupið kom aldrei. Þvílíkur viðbjóður maður... Annars var maturinn fínn og stemming þokkaleg, kom mér á óvart hversu staðurinn var þéttsetinn svona í miðri viku. Sem betur fer var nú ekki setið að drykkju langt fram eftir morgni, maður kom heim tímanlega í úrslitaþáttinn af Rockstar Supernova til að sjá Magna lenda í 4. sæti. En ógeðslega var ég þreyttur í morgun.

þriðjudagur, september 12, 2006

Einn pottur af mjólk

Fyrsta frétt á Stöð 2 í kvöld var sú að lágvöruverslanirnar á matvörumarkaðinum væru búnar að hækka matvöruverðið hjá sér eitthvað óeðlilega mikið að mati fréttamannanna. Ég ætla nú ekki að hætta mér mikið út í þessa umræðu um virðisaukaskatt á matvæli, ofurtolla eða styrki til bænda en um eitt í þessu máli verð ég samt að tjá mig um.

Fyrir ca. einu og hálfu ári síðan fór mikið verðstríð af stað á þessum markaði eins og kannski menn muna. Voru margir stórir vöruliðir eins og mjólkurvörur, kjöt, bleyjur, morgunkorn o.s.frv. sem voru seldar út með tapi, nokkuð sem getur ekki talist vera góð kaupmennska, a.m.k. ekki til lengdar. Þessi ágæta fréttakona á Stöð 2 talaði sérstaklega um mjólkurlíterinn sem er víst kominn í tæpar 80 kr. út úr búð sem er talsverð hækkun frá því sem mest (eða minnst) var þegar verðstríðið stóð sem hæst. Ég man einmitt eftir þessari umræðu um mjólkina því það er þekkt að MS er ekki mikið að mismuna sínum viðskiptavinum sínum með misundandi afsláttur, einhver ríkislykt af því. Alla vega, það var sömuleiðis þekkt að til að standa sléttur á mjólkinni þarf kaupmaðurinn að selja líterinn út á einhverjar 74-77 krónur. Til að fríska upp á minnið hjá fólki kostaði mjólkin lengi vel 50-60 krónur út úr lágvöruverslun. Það væri gaman að vita hvað margir mjólkurlítrar rata í innkaupakerrur hjá fólki í einni meðalstórri Bónusverslun á degi hverjum. Tapið á þessum eina vörulið yfir nokkra mánaðartímabil var gríðarlegt, fyrir utan allt annað sem menn voru að tapa á.

Það sem ég er að reyna að segja að menn þreytast á að selja hluti með tapi. Nú er komið að skuldardögum, á endanum þurfum við neytendur að borga brúsann. Ef menn hrynja í það með látum verða menn þunnir. Núna erum við í mjólkurþynnku á matvörumarkaðnum.

laugardagur, september 09, 2006

Helgin sem var

Það var tekið aðeins á því um helgina. Fjörið byrjaði fljótlega eftir vinna á föstudeginum en þá var tekin stefnan í Reykjanesbæ með vinnunni í smávegis gleðiferð. Byrjuðum í Go-kart kappakstri en það er eitthvað sem ég hafði ekki prófað að neinu viti. Minnir samt að einhverntíman hafi ég farið í eitthvað svona niðri í Skeifu, það hljóta að vera einhver 15 ár síðan eða eitthvað álíka. Þetta var bara þrælgaman, get ekki sagt að ég hafi verið sérstaklega öflugur en maður var nú líka smátíma að komast inn í þetta og maður var orðinn töluvert frambærilegri síðari hlutann. Að því loknu fórum við og fengum okkur í gogginn á Kaffi Duus, fínn staður þar sem maður fékk vel útilátið á diskana. Þá var stefnan tekin aftur í borgina og maður fór út fyrir utan Players í Kópavogi. Veit ekki hvort það er aldurinn eða léleg ástundun á svona staði en þá fannst mér ég vera kominn einhver ár aftur í tímann, hangandi í biðröð fyrir utan skemmtistað innan um lið í misjöfn ástandi. Hvað um það, Sálin var að spila og staðurinn troðinn eftir því. Ég endist nú ekkert sérstaklega lengi, en nógu lengi.

Skellti mér á ÍR-völlinn á laugardeginum með drengina, lokaleikur tímabilsins á móti Selfossi. 2:0 sigur heimaliðsins í leiðindarveðri. Ísak Máni var búinn að bíta það í sig að fara strax eftir leikinn á úrslitaleikinn í bikarnum í kvennaboltanum, Valur - Breiðablik. Veit ekki alveg af hverju hann var svona æstur í það, ekki var ég neitt sérstaklega áhugasamur. Var eiginlega áhugasamari um að komast heim og fá eitthvað heitt í kroppinn. Ég fékk því mömmu hans með mér í lið og eftir stuttar samningaviðræður þá sættist hann á að vera bara heima. Enda var bara betra held ég að horfa á leikinn í kassanum, að því undanskyldu að RÚV gerði í buxurnar og smellti fréttum á þegar vítaspyrnukeppnin var að fara af stað. Ísak Máni var ekki sáttur enda elskar hann vítaspyrnukeppnir og mamma hans var ekki minna æstari í sófanum, skutlaði sér á símann og hringdi með það sama upp í sjónvarp, ein af 300 samkvæmt Fréttablaðinu. Ég get ekki annað en sett þetta í samhengi við úrslitaleik í karlaboltanum, hefði þetta gerst ef þeir hefðu verið að sýna karlana? Ekki sjéns! En Valur vann.

Lokaleikurinn í utandeildinni í gær hjá okkur á móti FC Dragon. Best að hafa sem fæst orð um hann, fór 5:5 og eins og staðan lítur út erum við einu marki frá því að hafa komist í umspil um sæti í úrslitakeppninni. Bara sorglegt...

fimmtudagur, september 07, 2006

Innkaupaleiðangurinn

Drullaðist loksins og fór að versla í ríkinu, sjá pistil neðar á síðunni. Eftir að hafa spáð svolítið í því hvað ég ætti að gera þá tók ég þá ákvörðun um að versla mér eitthvað eðalvín sem fer vel í hillu, aðallega vegna þess að ég á yfirdrifið af bjór. Þannig að ég fór í ríkið (kalla menn þetta ekki enn ríkið?), nældi mér í innkaupakörfu og hélt af stað. Ég hlýt að hafa litið furðulega út röltandi þarna um með gemsann í annarri en með honum sló ég inn jafnóðum upphæð á flöskunum sem fóru í körfuna enda ákveðin upphæð sem þurfti að stemma. Ef það hefur ekki komið nógu skýrt fram þá hef ég ekki hundsvit á borðvínum, ekki nokkra. Ég var sem sagt þarna inni og valdi mér flöskur aðallega eftir tveimur atriðum: Hvernig flaskan leit út, þ.e. var hún eitthvað fyrir augað og hvað kostaði hún, valdi bara flöskur sem kostuðu meira en minna og taldi mér trú um að þetta snérist um gæði en ekki magn. Mér var nokk sama hvort stóð á hillumiðanum að vínið væri dökkrautt eða með ávaxtaeftirbragði. Alla vega, núna lítur vínskápurinn minn talsvert betur út en hann gerði. Fyrir utan þá staðreynd að ég á ekkert sem ég get kallað eiginlegan vínskáp. Hvað um það, þessi eina einmanna rauðvínsflaska sem ég er búinn að eiga í einhver 5-6 ár er búin að eignast níu nýja vini sem innihalda rauðvín og hvítvín frá ýmsum heimshornum og einni rándýrri kampavínsflösku. Djö... er ég klikkaður...

Annars er nú eitt sem ég skil ekki varðandi vínbúðir. Hver fer og kaupir sér t.d. 3 dósir af bjór? Ég hélt að kippan væri svona lágmarkið ef maður á annað borð væri kominn á staðinn til að versla sér bjór. Á meðan þetta er ekki leyft í matvörubúðum þá kostar þetta mann alltaf sérrúnt í þessar vínbúðir. Hlýtur að vera eitthvað langt leitt lið sem getur ekki átt bjór heima í ísskápnum án þess að drekka hann á stundinni. En ertu þá ekki með vandamál? Skiptir mig engu svo sem, það er annarra manna vandamál, ég er bara í rauðvíni og hvítvíni og einstaka kampavíni.

mánudagur, september 04, 2006

Frú Jóhanna


Þá er Jóhanna orðin Frú Jóhanna og ég er síðasta barnið hennar mömmu sem lifi í synd. Tókum stefnuna á Grundarfjörðinn á föstudeginum með mikilvægan farangur, sjálfan brúðarkjólinn. Þar var þokkalegasta fjör, mamma búin að panta hjólhýsi til að smella því út í garð svo Villi og fjölskylda þyrftu ekki að gista í stofunni enda hefur honum löngum verið úthýst að eigin sögn. Þetta gekk allt stórslysalaust á brúðkaupsdeginum, svolítið stress í gangi þarna rétt fyrir athöfnina en allt samt hafðist þetta og allir sögðu já. Athöfnin var stutt, talsvert styttri en ég hafði búist við en það var svo sem fínt bara, algjör óþarfi að vera með einhverjar málalengingar. Veislan var svo haldin á Kaffi 59 þar sem allir fengu nóg að éta og drekka. Meistari Óli Siggi klikkaði ekki í matseldinni frekar en fyrri daginn. Eins og oft vill verða þá endust menn mislengi í djamminu og voru því að skila sér heim á mismunadi tíma sólarhringsins. Svo mismunandi að mamma sagði bara hingað og ekki lengra og skellti bara í lás þegar henni fannst nóg um með þeim afleiðingum að hún læsti eina tengdadóttir og eitt barnabarn úti. Sem betur fer hafði þeim verið úthlutað koju í fyrrnefndu hjólhýsi og allt fór þetta vel að lokum. Ef þetta var ekki nægilegt aðhlátursefni daginn eftir þá sáu brúðhjónin um að viðhalda hlátrinum þegar símtalið kom frá Hótel Búðum þarna um morguninn en þar höfðu þau eytt brúðkaupsnóttinni. Kom þá í ljós að þau höfðu fengið far með öðrum bíl þangað út eftir en stóð um í upprunarlega handritinu. Var taskan með aukafötunum eftir í bílnum á bílastæðinu við Kaffi 59 en þau fór allslaus út að Búðum. Nei, ekki alveg allslaus því þau tóku bíllykilinn að bílnum sem hafði töskuna að geyma með sér. Kostaði þetta smásnatt nokkra manna á milli Grundarfjarðar og Búða, en það verður nú að vera smá fjör í þessu.

Nei, ég veit ekki hvenær ég ætla að gifta mig.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Harði stuðningsmaðurinn

Við vorum á ÍR vellinum núna um daginn að horfa á ÍR - Huginn. Þar fór Logi Snær á kostum.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Vínbúð og ég

Eins og einhverjir vita þá urðu Ítalir heimsmeistarar í knattspyrnu núna fyrr í sumar...(nei Jóhanna, þetta er ekki beint fótboltapistill svo þú getur lesið áfram)...en í vinnunni var haldið lítið veðmál þar sem menn áttu að giska á framgang liðanna í keppninni alveg frá riðlakeppninni til úrslitaleiksins og var öllu skilað inn vitaskuld fyrir fyrsta leik. Til að gera langa sögu stutta þá var ég sá eini sem giskaði á Ítali í fyrsta sæti og það dugði mér til að vinna keppnina.

Með því að taka þátt þá lagðir þú eitt stykki ölkippu undir sem sigurvegarinn fengi, sem sagt ÉG! Þetta var nú ekki alveg þannig að þegar ég kom úr sumarfríi væru tæplega 20 kippur á borðinu hjá mér, kannski sem betur fer því þótt mér þyki bjór fínn þá drekk ég ekki svo mikið af honum að líklega hefði talsverður hluti ölsins hreinlega runnið út á dagsetningu eða eitthvað. Niðurstaðan er sú að ég verð að versla í viðurkenndri vínbúð fyrir andvirði ölsins, rúmlega 21 þúsund. Ég get sem sagt verslað mér viský eða rauðvín í staðinn fyrir að fá bjór. Nú er bara spurning hvað kappinn gerir. Versla sér bjór fyrir allan peninginn? Held ekki. Kannski maður kaupi sér eitthvað eðalrauðvín svona bara til að eiga. Það fer ágætlega í hillu ekki satt? Verst að ég þekki varla eðalrauðvín frá kattarhlandi. Ætli sé hægt að kaupa eina flösku af viský fyrir 21 þúsund? Það færi vel í hillu.

KSÍ og ég

Við Ísak Máni fórum á Ísland - Spánn núna á dögunum. Það var fínt, ekkert sérstakur leikur en ágætisstemming og menn voru almennt sáttir. Strákurinn var svo farinn að biðja um að fara á Ísland - Danmörk sem er núna í byrjun september og ég var búinn að lofa að taka það til skoðunar. Svo hófst miðasalan á netinu í hádeginu í gær og ég fór að athuga málið þegar ég kom heim seinnipartinn í gær. Mér til mikillar skelfingar sá ég að búið var að ráðstafa megninu af bestu sætunum, eiginlega megninu af öllum sætunum ef út í það er farið. Til að toppa þetta allt þá hefði það kostað mig 6.750 fyrir okkur tvo að fara á völlinn í góð sæti en til samanburðar kostaði pakkinn fyrir okkur 3.750 kr. á Spánarleikinn. Til að detta endanlega í reiðiskast út af þessu datt ég niður á fotbolti.net og rakst á þessa frétt. Hvað á maður að segja? Andskotans kjaftæði er þetta, af tæplega 10.000 miðum fara tæplega 6.000 miðar EKKI í almenna sölu. Nei takk, fokkjú segi ég bara. Ég ræddi bara við drenginn minn og við uðrum sammála um að hann fengi bara eitthvað annað í staðinn. Samt frekar fúlt því okkur báða langaði á leikinn. En þetta var of mikið af því góða fyrir mig í bili, ég sendi bara KSÍ löngutöng í bili. Við þessa plebba þarna úti sem fenguð miða í gegnum Glitni eða 365 eða eitthvað álíka segi ég bara enjoy, en ég læt ekki bjóða mér þetta.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Varalisti

Jóhanna systir er að fara gifta sig á sunnudeginum eftir viku. Maður er alltaf að heyra eitthvað nýtt um hinar ýmsu hefðir og hluti sem nauðsynlegt er að gera þegar maður er að fara gifta sig. Get ekki sagt að ég fyllist spenningi en það er samt reynt að telja manni trú um þetta og hitt.

Eitt af því sem ég hef lært að það er eitthvað sem tíðkast sem kallast "varalisti" hvað gestalista varðar. Það eru sem sagt einhverjir aðilar sem eru ekki alveg nógu góðir vinir eða ekki alveg nógu blóðskyldir til að komast inn með fyrsta holli en gott að hafa í bakhöndinni ef mikið verður um brottföll meðal 1. flokks gesta. Það telst ekki vera nógu gott ef þú reiknar t.d. með 100 manns í veisluna að það komi bara 70. Svo er mér sagt a.m.k. Ótrúleg klikkun maður.

Bara ein bón frá mér til ykkar. Ef ég er á einhverjum varalista þarna úti þá megi þið bara sleppa því að bjóða mér. Bara vinsamleg tilmæli. Maður kemur líklega til með að líta öðrum augum á þau brúðkaupsboðskort sem kynnu að villast inn um lúguna hjá mér. En svo á hinn bóginn er víst vonlaust að vita hvort þú ert 1. eða 2. flokks. Það sem þú veist ekki ætti ekki að skaða þig.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

ÍR dagurinn mikli

Gærdeginum var eytt að mestu leyti á ÍR svæðinu. Lítið 7. flokks mót var sett upp þar og var þetta í fyrsta sinn sem Ísak Máni og félagar spiluðu á sínum heimavelli ef svo má segja. Mættu þrjú önnur lið, FH, HK og Fram. Við vorum mætt á svæðið rétt rúmlega 10 í blíðskaparveðri. Ísak Máni fékk það í gegn að spila í marki í fyrsta leiknum á móti Fram en eitthvað voru Frammararnir þreyttir svona snemma morguns því þeir komust ekki yfir miðju og 4:0 sigur hjá ÍR var staðreynd. Minn maður var ekki alveg sáttur við þetta því hann stóð þarna í markinu og kom ekki við boltann svo mikið sem einu sinni. Næst var spilað við HK og gekk það vel líka, 3:0 sigur og Ísak Máni fékk að spila frammi (kannski vegna þess að mamman var liðstjóri) og setti eitt mark. Í lokaleiknum á móti FH fékk hann að spila hálfan leik í marki, líklega mest vegna þátttökuleysis í fyrsta leiknum. FH höfðu talsverða yfirburði og unnu 5:0 en lítið sem Ísak Máni gat gert við þessum þremur mörkum sem hann fékk á sig.


Grillaðar pylsur runnu svo ljúflega niður í lokin og allir fengu viðurkenningarskjal. Lúlli þjálfari var að kveðja og flytja upp á Skaga og því var annar bragur yfir þessu en ella. Að því loknu var klukkan farin að nálgast tvö og því lítið annað að að gera heldur en að færa sig yfir á aðalvöllinn og fylgjast með ÍR spila við Huginn í meistaraflokk karla. Mér til mikillar skelfingar var búið að hækka inngangseyrinn frá því ég fór á þennan völl síðast úr 700 kr upp í 1000 kr. Rán um hábjartan dag fyrir miðjumoð í 2. deild. Reyndar hafði ÍR 3:2 sigur þannig að menn fóru sáttir af velli. Klukkan orðin rúmlega fjögur þegar við komum heim.

Fljótlega eftir það var haldið upp í Mosó í kvöldmat en þar var betri mæting en oft áður, sérstaklega vegna þess að Baunalandsbúarnir voru á landinu en Erla og börn héldu reyndar af landi brott núna snemma í morgun.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Síðsumars pælingar

Var að taka eftir því um daginn að það er kominn niðamyrkur úti núna á kvöldin um það leyti sem maður skríður upp í bælið. Hélt að ég yrði meira þunglyndur yfir þeirri staðreynd að veturinn sé að koma en ég er í dag. Það er kannski lítið að marka það, þetta á eflaust eftir að hellast yfir mann þegar maður fer að drösla Loga Snæ í leikskólann, dúðuðum upp fyrir haus og skafandi frosthélið af bílnum. Annars hef ég reynt að taka veturinn fyrir svona í skömmtum. Ég hugsa þetta yfirleitt þannig að öllu jöfnu meikar maður þetta fram að áramótum nokkuð létt, að því gefnu að sept og okt séu mannsæmandi, nóv og des fer í jólafíling og þá á nú að vera snjór og með því. Jan og feb eru síðan kannski svolítið leiðinlegir en þegar fer að koma í mars þá finnst mér nú yfirleitt stutt í sumarið.

Það fer nú allt að detta í gömlu rútínuna aftur, Sigga er að fara að vinna á þriðjudaginn og þá fer Logalingur í leikskólann aftur. Við höfum svona verið að ræða þetta við hann í góðu, svona til að taka púlsinn á stemmingunni. Hvað get ég sagt, hann virðist ekkert vera neitt sérstaklega hrifinn af hugmyndinni um að vera að fara aftur í leikskólann. Ég vona bara að þetta verði ekkert stórmál en kappinn er reyndar ekki búinn að fara í leikskólann í einhverja tvo mánuði. Ísak Máni byrjar svo í skólanum í vikuna eftir það, drengurinn að fara í 2. bekk! Rosalega líður þetta hratt allt saman.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Fuglaflensan

Hvað varð eiginlega um fuglaflensuna?

Var þetta ekki orðið bara spurning um mínútur hvernær þessi næsti svarti-dauði kæmi til landsins? Og það var fyrir einhverjum vikum eða mánuðum. Þetta var í hverjum einasta fréttatíma í marga daga og alltaf kom þessi pest nær og nær landinu. Maður fylgdist með þegar hún hélt innreið sína inn í hvert Evrópulandið á eftir öðru og barst eins og eldur í sinu í átt til Íslands. Þegar henni skaut upp kollinum í Danmörku þá var nánast öllu lokið. Maður borðaði hverja máltíð á KFC eins og hún væri sú síðasta á þeim stað og eldaði kjúklingana heima 10 mínútur lengur en venjulega, just in case! Tveir fuglar fundust dauðir út á víðavangi og yfirdýralæknir var hataðsti maður á landinu af því að víkingasveitin var ekki kölluð út til að taka sýni úr fuglunum.

En svo hvað?
Hættu þessar fréttir að vera fréttir?
Stormur í vatnsglasi?
Mýfluga sem verður að úlfalda?

Maður spyr sig.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Jafnrétti

Stundum fæ ég alveg upp í háls af þessu jafnréttistali öllu.

Djö... hljómar þessi byrjun illa. En ég meina t.d. þegar konur eiga hlutfallslega fáa fulltrúa á einhverjum stöðum og einhverjum sérfræðingum finnst þá ómögulegt annað en að allt verði gert til að jafna þeirra hlut.

Ég er ekki að tala um launamisrétti eða neitt þannig. Bara til að hafa það á hreinu þá er ég á þeirri skoðun að sömu störf leiði af sér sömu laun. Það á ekki að mismuna fólki almennt, af því að viðkomandi sé kona, hafi dökkan hörundslit, sé örvhentur, treggáfaður, yfir kjörþyngd, undir kjörþyngd o.s.frv.

Dæmi:


Ég er atvinnurekandi og er að ráða í ákveðna stöðu í fyrirtækinu hjá mér. Á borðinu hjá mér liggja tvær umsóknir, önnur frá karlmanni og hin frá kvenmanni. Segjum sem svo að þau séu bæði með samskonar menntun og starfsreynslu. Ég fæ þetta fólk í viðtal og heyri hvað það hefur fram að færa. Hvað geri ég síðan? Jú, ég hlýt að taka ákvörðun um hvorn aðilann ég ræð og sú ákvörðun myndi þá byggjast á þeirri tilfinningu sem ég hefði fengið í þessum samtölum, hvor aðilinn ég myndi telja væri betur til þess fallinn að sinna þessu starfi. En ef 80% af því starfsfólki sem er starfandi í þessu fyrirtæki mínu eru karlmenn á ég þá frekar að ráða konuna til að rétta hlut kvenna í fyrirtækinu? Vitaskuld á þetta líka við á hinn veginn, þ.e. ef 80% væru konur, á ég þá að ráða karlinn? Þið verðið að fyrirgefa en ég sé ekkert vit í því. Ég myndi bara ráða þann aðila sem ég teldi að yrði betri starfskraftur fyrir fyrirtækið.

Tvö atriði varðandi Háskóla Íslands:


Árið 1987 urðu konur í fyrsta sinn fjölmennari en karlar í hópi innritaðra stúdenta og hafa síðan verið meirihluti nemenda. Man alltaf eftir að ég sá viðtal við ónefndan kvenréttindafrömuð fyrir nokkrum árum þar sem kom fram að konur voru í meirihluta í öllum deildum í Háskólanum nema í verkfræðideild þar sem þær voru aðeins rúmlega 25% nemenda. Lýsti þessi ágæti frömuður yfir miklum áhyggjum af stöðu kvenna í verkfræðideildinni og taldi nauðsynlegt að konur myndu sækja fram á þeim vettvangi! En hvað með allt hitt? Ég gat ekki annað en hugsað með mér: "Hey kerling, það eru konur í meirihluta í öllum öðrum deildum í HÍ, er það ekki bara frábær árangur kvenna ef þú vilt endilega setja þetta svona upp?"

Svo var fékk HÍ viðurkenningu frá Jafnréttisráði fyrir árið 2005 en eins og sagði í fréttinni:
Meginástæða þeirrar ákvörðunar er að á þessu ári urðu þau tímamót í sögu skólans að kona var í fyrsta skipti kjörinn rektor. Kristín Ingólfsdóttir, prófessor í lyfjafræðideild var kjörinn 28. rektor Háskóla Íslands.

Af hverju er verið að hampa HÍ eitthvað sérstaklega fyrir þetta? Ég vona bara að hún hafi verið hæfasti umsækjandinn og að þeir sem réðu í þessa stöðu hafi verið að ráða hæfsta umsækjandann. Ég vona a.m.k. ekki að þeir hafi hugsað sem svo að nú væri kominn tími til að kona fengi þessa stöðu, heldur hafi hún einfaldlega verið hæfust.

Mér finnst snilldardæmi eins og staðan hefur verið í Grundarfirði undanfarið. Þannig er málum háttað að þar hafa konur setið í eftirfarandi stöðum: Bæjarstjórinn(er reyndar búin að víkja sæti fyrir karlmanni sem tekur við á haustdögum) , forseti bæjarstjórnar, presturinn, læknirinn, annar af tveimur bankastjórum, skólastjóri grunnskólans, skólastjóri framhaldsskólans og ritstjóri bæjarblaðsins. Eflaust eru einhver fleiri prýðisembætti í Grundarfirði í höndum kvenna en þetta var svona það helsta sem ég mundi eftir. Ég sé ekki tilganginn í að hampa þeim eitthvað sérstaklega af því að þær eru konur, ég held bara að þær séu allar færar í sínum störfum og ekkert meira með það. Að þær séu konur á ekki að skipta nokkru einasta máli.

Ef hinsvegar verðandi bæjarstjórinn í Grundarfirði verður á hærri launum en hinn fráfarandi vegna þess eins að hann hefur eitthvað annað vaxtarlag milli fóta sér þá þurfum við að staldar við, því þá er eitthvað að.

mánudagur, júlí 31, 2006

Sigur Rós

Sá glefsur af tónleikunum með Sigur Rós sem voru í sjónvarpinu í gær. Ég ætla að standa upp og segja það sem enginn virðist þora að segja: Ég fíla ekki Sigur Rós! Takk fyrir, búinn að segja það. Engin leiðindi í gangi hvað mig varðar, ég bara fíla ekki þessa tónlist. Eflaust fínir strákar allt saman og margt sem þeir eru að gera er öðruvísi og það er flott í sjálfu sér, gaman þegar menn láta ekki markaðsöflin éta sig upp til agna. En ég bara fíla þetta engan veginn og ætla bara að halda fram þeirri skoðun. Þessi lög þeirra virðast vera allt sama gaulið, eins og verið að pína kött í slow motion. Þetta minnir mig svolítið á dauðarokkstímabilið þegar andstæðingar þess heldu því fram að öll lögin væru eins og ómögulegt væri að skilja hvað söngvarinn væri að syngja. Er það ekki eins og Sigur Rós?

Nei takk, þá set ég frekar Carcass - Symphonies of sickness eða Bolt Thrower - Warmaster undir geislann, og skammast mín ekkert fyrir það.

Fréttir síðustu daga


Við létum verða af því af skella okkur til Suðureyrar til Jóhönnu og co. Lögðum af stað á mánudeginum fyrir viku, vorum komin snemma af stað og búin að undirbúa okkur vel, með nesti og nýja skó. Fyrsta stopp var í einhverju veiðihúsi fyrir utan Borgarnes til að sækja Ingu en hún ætlaði að fá að fljóta með okkur eitthvað áleiðis. Svo lá leiðin til Rebekku í Reykhólasveitina en þar var búið að lofa okkur köku sem við og fengum og skoluðum henni niður með alvöru sveitamjólk. Þar sleiktum við sólina í smá stund en sólin var með í för alla leiðina. Næsti viðkomustaður var Flókalundur en þar voru Halli og Jenný með bústað og með þeim voru Guðrún, Jökull og Jenný jr. Við notuðum tækifærið og liðkuðum okkur með smá tuðrusparki ásamt því að fá að borða. Þar skildu leiðir við Ingu en við héldum áfram förinni til Sudureyri City. Þangað renndum við í hlað kl. 21:00, tólf tímum eftir að við yfirgáfum bílastæðið í Eyjabakkanum. Verð að hrósa drengjunum mínum en þeir stóðu sig alveg eins og hetjur í þessum langa rúnti. Held að málið hafi verið að taka bara góðan tíma í þetta, vera með nesti og taka góð stopp og gera smá stemmingu úr þessu. En mikið var gott að komast á leiðarenda. Á Suðureyri og í nærsveitum dúlluðum við okkur í tvo daga í brakandi blíðu og höfðum það rosalega gott.


Á fimmtudeginum var lagt af stað til Grundarfjarðar enda bæjarhátiðin Á góðri stund um helgina og af henni má maður eiginlega ekki missa. Það var sex tíma túr með stoppi og aftur fengu drengirnir mínir plús fyrir frammistöðuna. Ótrúlegur fjöldi af fólki var í plássinum um helgina, öll tjaldstæði pökkuð og í mörgum görðum voru þetta 1-3 tjöld. Eitthvað er komið af myndum á myndasíðuna.

Komið heim í gær en Sigga nennti ekki að stoppa lengi heima heldur fór í bústaðinn undir jökli í dag til að hjálpa við framkvæmdirnar á honum og tók strákana með. Á meðan hef ég það verkefni að fúa inni á baðherbergi hjá okkur. Vonandi leysi ég það fullnægjandi af hólmi.

Síðan fer fríinu að ljúka, mæti í vinnuna á fimmtudaginn og þá byrjar það fjör aftur.

föstudagur, júlí 21, 2006

3:1 og Manchester skorar...

Logi Snær er algjör snillingur, algjörlega hlutlaust mat, þetta er bara eitthvað sem ég er alltaf að komast betur og betur að. Þegar við erum að leika okkur í fótbolta þá segir hann stundum: "3:1" eins og hann sé að gefa til kynna hver staðan sé, án þess að það sem á undan hefur gengið gefi endilega tilefni til að halda að staðan sé 3:1. Nú er hann farinn að taka þennan frasa á næsta stig. Venjan er þegar hann er búinn að gera stykkin sín í bleyjuna sína þá eru ósköpunum smellt í poka og beint í ruslarennuna hérna fram á gangi. Ekki fyrir löngu fór hann að heimta það að hann fengi sjálfur að henda pokanum í rennuna. Svo tók hann upp á því að stilla sér upp fyrir framan rennuna og segja: "3:1". Þá tekur hann pokann og kastar honum inn í rennuna af öllu afli og segir: "Manchester skorar".





Snilldin í þessu öllu er að hann diggaði þetta trix sjálfur. En þvílíkur snillingur er þessi drengur.

Blindur fær sýn


Þá hefur þessi kappi prufað að fá sér linsur. Fyrir þá sem ekki vita hefur sjónin mín alltaf talist vera með afbrigðum góð og þrátt fyrir að árin færist yfir þá heldur hún enn megninu af sínum gæðum, hvað svo sem síðar verður. Málið var einfaldlega þannig að í gær, sem var einmitt leikdagur hjá Vatnsberunum, þá fékk ég hringingu frá formanni klúbbsins þar sem mér var tjáð að ég þyrfti að koma mínum rassi niður í ákveðna gleraugnabúð hér í bæ og nálgast þar linsur. Þetta voru engar venjulegar linsur heldur einhverjar magnaðar Nike fótboltalinsur sem eiga að hjálpa okkur sem stundum tuðruspark að sjá boltann í mikilli birtu, en einmitt þannig aðstæður voru í gær. Ég reyndi að malda í móinn enda hef ég reglulega þakkað æðri máttarvöldum fyrir það að þurfa ekki standa í svona gleraugna- og linsumálum. Tilhugsunin um að troða einhverju í augun á mér var heldur ekkert rosalega spennandi. Maður lét sig hafa það að koma sér þarna niður eftir enda eru þeir sem ráða þarna ríkjum löglegir meðlimir Vatnsberanna og ljóst að þeir myndu fara með satt og rétt mál í þessu máli sem og öðrum. Eftir stutt samtal var ákveðið að láta slag standa og maður var leiddur í bakherbergi þar sem maður fékk Linsuísetningu 101 á mettíma með tilheyrandi skýringarmyndum. Verð ég að segja að þetta gekk nokkuð vel held ég bara, þó ég segi sjálfur frá. Ég ákvað að hafa bara gripina í augunum, enda ekki nema 3 tímar í leik og óvíst að maður kæmi þessu aftur í sig svona einn og óstuddur. Með þetta í augunum og linsuvökva og linsubox undir hendinni hélt maður út í orangelitaðan heiminn. Ísak Máni var með mér og honum fannst pabbi sinn frekar furðulegur en ok samt. Drengurinn líklega farinn að venjast því að eiga furðulegan faðir. Hann var orðinn frekar svangur og náði með einstakri lipurð að plata mig til að fara á KFC. Þegar við eru á bílastæðinu þar þá fara að renna á mig tvær grímur. Ég er náttúrulega eins og einhver geðsjúklingur með appelsínugul augu! Hvað um það, ég læt mig hafa það enda búið að gefa loforð fyrir þessu. Inn arka ég og reyni að horfa ekki í augun á afgreiðslumanninum, borga og forða mér í sæti. Sit þarna og vona að ég hitti ekki neinn sem ég þekki, forðast að horfa á nokkurn þegar við förum.

Hvað um það, þetta virkaði nógu vel til að við unnum Nings Utd 2:1. Ég spilaði á móti sterkri sól í fyrri hálfleik, derhúfulaus og kom alveg heill frá honum. Það var ekki fyrr en í seinni hálfleik þegar sólin var í bakinu að við Haraldur lögðumst á eitt til að fá spennu í leikinn og gáfum Ningsurum eitt mark. Okkur til happs var okkur bjargað með stórglæsilegu sigurmarki sjö mínútum fyrir leikslok, magnaður Vatnsbera sigur og menn eru enn í toppbaráttunni í C-riðli.



fimmtudagur, júlí 20, 2006

Enn af salernisherbergismálum

Ok, þetta gengur allt saman. Finnst mér þetta ganga hratt? Nei. Tel ég, svona eftir að hyggja, að þetta sé hins vegar eðlilegur tími? Já.



Þegar við byrjuðum á þessu fannst mér annað ótrúlegt en að þetta yrði nú yfirstaðið á þokkalega skömmum tíma. Ég hef hins vegar komist að því að allt tekur þetta tíma og það eru ótrúlegustu hlutir sem taka ótrúlegastan tíma. Við skulum samt hafa það á hreinu að ég stend ekki sjálfur inn í innsta hring heldur hvílir það óneitanlega aðallega á Siggu og pabba hennar.



Til að gera ljósa verkaskiptinguna eins og daginn í gær þá var dagurinn svona hjá mér annars vegar og Siggu hins vegar:

Ég:

Skreið á fætur um kl. 09:00 þegar drengirnir voru farnir að þrá meiri athygli. Gaf þeim að borða áður en Ísak Máni var gerður klár fyrir fótboltaæfingu. Fór með hann á æfingu og tók Loga Snæ með mér. Notaði tímann meðan Ísak Máni var á æfingu að fara í einhverjar snattferðir, m.a. kaupa meira flísalím. Við Logi fórum svo á æfingarsvæðið hjá ÍR og horfðum á restina af æfingunni hjá Ísaki í góða verðrinu og tókum léttan fótbolta í bland með. Fórum svo heim og dúlluðum okkur aðeins út í garði áður en við fengum okkur að borða. Við Logi smelltum okkur svo í Bónus og keyptu eitt og annað til heimilisins. Síðan fórum við heim, sóttum Ísak Mána og fórum í sund og fengum okkur sjeik að því loknu. Fengum skilaboð um að sækja eitt stykki slípirokk út í bæ. Komum með hann heim og fórum aftur út í garð í meira chill. Smellti mér svo út á svalir, stóð klofvega yfir flísasöginni og skellti nokkrum hamborgurum á grillið. Fjölskyldan henti þeim í andlitið á sér en síðar gerði ég Loga kláran fyrir svefninn svo móðir hans gæti bara hent honum beint inn í rúm því ég þurfti að fara út á stúfana og sinna skyldum mínum vegna stjórnarstarfa fyrir blokkina. Glápti svo á RockStar Supernova og fór alltof seint að sofa.

Sigga:


Klukkan hringdi kl. 08:00. Fékk mér að borða og byrjaði að flísaleggja. Pabbi kom fljótlega eftir hádegi og hjálpaði mér. Hann fór svo aftur heim fyrir kvöldmat. Fór út í 10-11 rétt fyrir kvöldmat og kíkti á sólina. Borðaði og hélt áfram að flísaleggja þangað til ég fór að sofa.