miðvikudagur, október 15, 2014

Dagbók fótboltabullunnar - Sumarið 2014

Endurvakti þennan lið, nokkuð sem ég tók mig til í þrjú sumur, 2009, 2010 og 2011, en mig langaði að sjá hvernig þetta kæmi út núna.  Náði 21 leik (12 sigrar - 1 jafntefli - 8 töp) þetta sumarið, en náði mest 25 árið 2011.  Átti nokkur "mín lið" þetta sumarið sem ég fór að horfa á, ÍR, Valur, Stjarnan, Ísland, Víkingur Ólafsvík og Grundarfjörður.
ÍR náði ekki að rífa sig upp úr 2. deildinni á meðan Leiknir rusluðu sér upp í Pepsí-deildina og spila meðal þeirra bestu að ári.  Grundarfjörður voru nokkuð stabílir í deild neðar og eru að gera fína hluti, hefði viljað ná fleiri leikjum með þeim en deildinn þeirra var ægileg landsbyggðadeild.  Ætlaði að enda þetta á Ísland - Holland sem fór fram núna á mánudaginn en þrátt fyrir talsverðar tilraunir að minni hálfu þá náðist ekki að næla sér í miða, m.a. fór kerfið hjá midi.is á hliðina þegar opnaði fyrir miðasölu.  Ég tók þann glæsilega 2:0 sigurleik því bara í stofunni. 

Á ekki von á því að ég taki þessa tölfræði aftur næsta sumar en sjáum til.  Svona var þetta annars:

8. maí Gervigrasið Laugardal Pepsi-deild karla
Valur - Keflavík 0:1
- Margir grasvellir sem komu illa utan vetri og því var spilað hálfgert mínímót á gervigrasinu í Laugardal í fyrstu umferðunum.  Ísak Máni plataði mig í þetta, þurfti reyndar ekki mikið til en ég ákvað að byrja á því að taka þennan leik svo ég væri alla vega búinn að tryggja einn Valsleik þetta sumarið.  Lítið sem gladdi augað í þessu en kaffið var þokkalegt og súkkulaðið gott.  Setti mér það markmið að taka a.m.k. einn leik á Hlíðarenda líka.

13. maí Leiknisvöllur Gervigras Borgunarbikar karla
Leiknir - ÍR 1:3
- Ekki annað hægt en að láta sjá sig þar sem ljóst var að þetta yrði eini bardaginn um Breiðholt þar sem litli klúbburinn upp í efra er víst deild ofar en stórveldið.  Við Ísak Máni fórum og Logi Snær fylgdi með og lék sér með félögunum sínum.  Vorum aðeins of seinir á svæðið, vorum að leggja þegar Leiknir skoraði.  Voru svo rétt að koma okkur fyrir í "stúkunni" þegar Leiknir missti mann af leikvelli.  ÍR jafnaði undir lok fyrri hálfleiks og tvö mörk á tíu mínútna kafla í seinni hálfleik kom mínum mönnum í 32-liða úrslitin.  Þar fengu þeir útileik við Aftureldingu og slógu þá út eftir vítaspyrnukeppni en ég var staddur í London og komst því ekki þangað.  Í 16-liða úrslitunum fengu þeir BÍ/Bolungarvík á Ísafirði.

23. maí ÍR völlur Gervigras 2. deild karla
ÍR - Njarðvík 2:1
- Ekki spennandi að standa við girðinguna við gervigrasvöllinn en maður létu sig hafa það.  Óttarlegt brölt en sigur hafðist þó.  Horfði upp á einhverjar lengstu vítaspyrnuframkvæmd sem ég man eftir, en eitthvað var erfitt að sparka til vítapunktinn á gervigrasinu.  Það gekk þó að skila því víti í netið.

31. maí Gróttuvöllur 2. deild karla
Grótta - ÍR 2:2
- Hefur yfirleitt verið óttarlegt bras á að ná fram einhverjum úrslitum hérna.  Fyrir þennan leik var Grótta búið að vinna fyrstu þrjá leikina sína og mínir menn 2:0 undir í hálfleik þannig ekki var mikið útlit á breytingu á því hjá Gróttu.  En á fyrstu 10 mínútum í síðari hálfleik komu tvö ÍR mörk og menn náðu að hirða stig á Seltjarnarnesinu.  Tvöfalt sáttur þegar dómarinn flautaði til leiksloka, annars vegar náðist stig í hús sem ekki leit út fyrir og svo var mér orðið helv... kalt enda gallabuxurnar orðnar gegnblautar eftir rigninguna sem tók hressilega við sér í síðari hálfleik.

4. júní Laugardalsvöllur Vináttuleikur
Ísland - Eistland 1:0
- Logi Snær fékk frímiða ásamt strákunum í flokknum hans hjá ÍR.  Í ljós kom að ég gat keypt miða í sætaröðinni fyrir framan hann og við Ísak Máni skelltum okkur því með.  Síðasti leikurinn sem landsliðið fékk fyrir alvöruna sem byrjar í haust.  Horbjóður er ekki nógu sterkt orð til að lýsa þessum leiðindum.  Hápunktur kvöldsins var þegar litli guttinn hitti í slánna af vítapunktinum í hálfleik og vann flugferð fyrir tvo út í heim.

6. júní ÍR völlur Gervigras 2. deild karla
ÍR - KF 1:0
- Aftur stóð maður upp við girðinguna við gervigrasið, í bongóblíðu þó, þegar Fjallabyggð kom í heimsókn.  Svipuð leiðindi og landsleikurinn tveimur dögum áður, en mark í fyrri hálfleik gerði nóg til að sigla þremur stigum í hús.

21. júní ÍR völlur Gervigras 2. deild karla
ÍR - Sindri 1:2
- Ég var búinn að vera með einhverja skítapest undanfarna daga og lagði því ekki í heilan leik en skrölti niður á völl í hálfleik, eftir að hafa grafið upp innanundirullarfötin.  Sá á netinu að ÍR voru lentir 0:2 undir en lét mig þó hafa það.  Enn varð maður að húka á þessu gervigrasi.  Mínir menn byrjuðu af krafti í síðari hálfleik en þeir náðu ekki að brjóta ísinn fyrr en á 90. mínútu og í hönd fór spennandi viðbótartími sem var óvenjulangur.  En meira var ekki hægt að kreista fram og 5. sætið í C-deildinni staðreynd að sjö umferðum loknum.

27. júní Kaplakrikavöllur Pepsi-deild karla
FH - Valur 2:1
- Þegar hér var komið við sögu var HM í Brasilíu í hvíld, riðlakeppninni lokið og 16-liða úrslit daginn eftir þannig að það var tilvalið að taka einn fótboltaleik, svo það dytti nú ekki dagur úr.  Engin HM 2014 gæði á þessum leik og FH skoraði sigurmarkið úr víti í uppbótartíma.  Manni hefði verið nær að halda akstrinum áfram og taka Reynir Sandgerði - ÍR sem var á sama tima.  0:3 sigur þar.

3. júlí ÍR völlur 2. deild karla
ÍR - Afturelding 2:1
- Einhver skítur í karlinum en lét mig hafa það.  Fyrsti leikur sumarsins á grasvellinum, liðin í 3. og 4. sæti deildarinnar.  Þvílík hörmung sem fyrri hálfleikurinn var og svo fór að rigna hressilega.  Held ég geti í alvöru sagt að það hafi verið samtals eitt færi í fyrri hálfleiknum, og þá tel ég hjá báðum liðum.  Kaffið í hálfleik var að gera heilmikið fyrir mig.  Í síðari hálfleik tók ÍR stjórnina á leiknum en fékk samt á sig mark eftir skyndisókn.  Menn gáfust þó ekki upp og jöfnuðu leikinn áður en "gamla" legendið, Kristján Ari, skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.  2. sætið í deildinni þegar hér var komið við sögu.

8. júlí ÍR völlur 2. deild karla
ÍR - Ægir 2:1
- Þessi leikur var upprunalega settur á sama tíma og undanúrslitaleikur Brasilíu og Þýskalands á HM þannig að maður var búinn að gefa þetta frá sér.  Einhverjum fannst sniðugt að flýta honum um tvo tíma svo það yrði líkur á að einhverjar hræður myndu mæta.  Sem var vel gert.  Maður gat þá mætt til að sjá mína menn herja út baráttusigur.  Brunað beint heim og staðan orðin 0:1 fyrir Þjóðverjum þegar við náðum að kveikja á sjónvarpinu.  20 mínútum síðar var staðan 0:5.  Ótrúleg steypa.

19. júlí Vodafonevöllurinn Hlíðarenda Pepsi-deild karla
Valur - KR 1:4
- Laugardagur, fyrsti dagurinn heima eftir viku í bústað og enn rigndi.  Sá fram á það að þetta væri besta tækifærið til að ná einum leik á Hliðarenda.  Og KR í heimsókn.  Mínir menn í Pepsi-deildinni voru óttarlega slakir heilt yfir og þetta var ekki að gera neitt fyrir mig.  Þriðji leikurinn hjá mér með Val í sumar og allt töp.  Ég spurði mig að því hvort ég þyrfti ekki að reyna að ná a.m.k. einum sigurleik.

25. júlí Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Magni 2:1
- Fyrsti leikurinn með uppáhaldssveitaliðinum mínu og það er nánast að koma haust, skammarlegt náttúrulega.  Ég á reyndar smá inni fyrir þessu þar sem þeir eru í algjörri landsbyggjadeild, eiga t.d. tvö útileiki á höfuðborgarsvæðinu og þegar hér var komið við sögu var öðru þeirra lokið en hann hafði verið settur á nákvæmlega sama tíma og Brasilía og Kólombía spiluð þvílíkt spennandi leik í 8-liða úrslitunum á HM.  ÍH - Grundarfjörður átti bara ekki break í þann samanburð.  En þessi leikur við Magna var Á-góðri-stund-leikurinn og vitaskuld var maður á svæðinu.  2:0 í hálfleik með tveimur mörkum með stuttu millibili.  Magni minnkaði muninn í upphafi síðari hálfleiks en mínir menn sigldu þessu heim.  Bæði lið með rauð spjöld.  Ég elska neðri deildirnar.

30. júlí Víkingsvöllur Gervigras 3. deild karla
Berserkir - Grundarfjörður 5:3
- Hinn leikur liðsins á höfðuborgarsvæðinu og fyrst ég missti af þeim fyrri þá var ekki annað hægt en að ná þessum.  Bongóblíða, aldrei þessu vant þetta sumarið, og úr varð að við Ísak Máni og Logi Snær tókum hjólatúr í Víkina.  Heimamenn komust snemma í 2:0 og manni var ekkert farið að lítast á þetta.  En Grundfirðingar komu til baka með þrjú mörk og maður var farinn að gæla við þrjú stig úr þessu og bullandi toppbaráttu í annars fáránlega jafnri deild.  En þrjú mörk aftur í bakið og tap staðreynd.  Mér var skítkalt á leiðinni heim og meirihlutinn uppí mót.
 
8. ágúst ÍR völlur 2. deild karla
ÍR - Grótta 0:1
- Daði Steinn fór í Baulumýri þessa helgina með Guðrúnu og restin af fjölskyldunni ákvað að skella sér á völlinn þetta föstudagskvöld.  Okkar menn að spila aftur á heimavelli eftir 3 sveitaleiki sem enduðu allir með jafntefli.  Sýnin um 1. deildarsæti var því farin að fjarlægast ansi hratt en sigur í þessum leik á móti Gróttu sem var í öðru sæti gæti kveikt smá vonarneista.  Það fór ekki svo, ÍR með skot í slánna og niður, röngu megin við marklínuna, í fyrri hálfleik og sigurmark Gróttu fimm mínutur fyrir leikslok.  Æi, eitthvað svo týpískt allt saman. 

15. ágúst Valbjarnarvöllur 1. deild karla
Þróttur - Víkingur Ólafsvík 1:3
- Upp kom hugmynd hjá hluta af heimilsmönnum að fara á þennan leik og úr varð að ég fór með Ísaki og Loga í Laugardalinn á þessu föstudagskvöldi.  Við mættum á annarri mínutu á völlinn en það var nóg seint til að missa af fyrsta markinu sem kom víst eftir rétt rúmar 20 sekúndur.  Heilmikið stuð á pöllunum þar sem stuðningsmenn liðanna tókust á, hvað það varðar þá var þetta einna skemmtilegasti leikur sumarsins.  Þorsteinn Már, Grundfirðingurinn með meiru, með tvö mörk fyrir Ólsara. 

17. ágúst ÍR völlur 2. deild karla
ÍR - Huginn 4:3
- Bongóblíða þennan sunnudag, konan startaði deginum á Esjunni og svo fór fjölskyldan í sund, allt eins og það á að vera.  Komum heim og hentum einhverri næringu í okkur áður en ég, Ísak og Logi kíktum á völlinn, Sigga og Daði ákváðu að chilla heima á pallinum.  ÍR komst í 1:0 en aðkomuliðið kom til baka með hvelli og í upphafi síðari hálfleiks var staðan orðin 1:3.  ÍR minnkaði muninn í 2:3 og þegar rúmar 20 mínútur voru eftir, hallaði ég mér upp að Loga og tjáði honum að það væri nógur tími eftir og að ég sæi fram á tvö mörk okkar megin.  Sem gekk eftir.  Þvílíkt comeback.

19. ágúst Grýluvöllur 3. deild karla
Hamar - Grundarfjörður 3:0
- Við Ísak Máni tókum rúntinn í Hveragerði.  Ótrúlega dapurt í rokinu og and- og getuleysið hjá sveitaliðinu okkar var algjört.  Annar sigurleikur Hamars í sumar sem sat rækilega á botninum.  Þurftum að borga okkur inn og Ingó Veðurguð, spilandi þjálfarinn, kláraði leikinn með síðasta markinu.

20. ágúst Laugardalsvöllur Evrópudeildin
Stjarnan - Inter 0:3
- Stjarnan á þvílíku rönni í frumraun sinni í Evrópu.  Komnir í 4. umferð og það var ekki hægt annað en að láta sig mæta á svæðið.  Var reyndar mjög tvísýnt með miða en það hafðist.

6. september N1-völlurinn Varmá 2. deild karla
Afturelding - ÍR 1:2
- Svolítið síðan að menn voru eiginlega búnir að kveðja vonina um 1. deildar sæti að ári.  Fjarðabyggð með mikla yfirburði á deildinni og Grótta með nokkurt forskot á ÍR-inga í öðru sæti.  En fyrir þennan leik hafði Grótta tapað þremur leikjum í röð á meðan ÍR hafði halað inn eitthvað af stigum.  Þurfti að skutla Ísaki Mána í eitthvað verkefni en náði að skjótast á seinni hálfleikinn upp í Mosó áður en ég þurfti að sækja drenginn aftur.  ÍR var 0:1 yfir í hálfleik og var að sigla þessu heim.  Voru reyndar stálheppnir að fá ekki dæmt víti á sig áður en þeir fengu sjálfir víti í uppbótartíma.  Menn náðu að nýta það áður en heimamenn löguðu stöðuna nánast úr síðustu spyrnu leiksins.  Á meðan tapaði Grótta 0:4 á heimavelli, fjórði tapleikurinn í röð og nú þegar tvær umferðir voru eftir var Grótta með 38 stig í öðru sæti en ÍR með 36 stig í þriðja sæti.  Spennandi.

9. september Laugardalsvöllur Undankeppni EM
Ísland - Tyrkland 3:0
- Fyrsti leikurinn í undankeppninni fyrir EM 2016.  Ég ætlaði nú ekkert að fara á völlinn, sá fyrir mér þægindi í sófanum heima.  En Ísak Máni vildi fara og Logi Snær var meira en til líka í að fara þannig að maður henti sér í að redda þremur miðum.  Mikil keyrsla, ég var að sækja Siggu og Daða Stein í fimleika í Laugardalnum tæpum klukkutíma fyrir leik, þegar sumir hverjir voru að mæta á völlinn.  Þá átti ég eftir að skutla þeim heim og sækja hina tvo, en það reddaðist.  Fullur völlur og Gylfi Sigurðsson var fremstur meðal jafninga.  Aftur hitti einhver snillingur í slánna, nú af vítaboganum í hálfleik og vann flugferð fyrir tvo út í heim, en núna var það ekki hápunktur kvöldsins.

4. október Kaplakrikavöllur Pepsi-deild karla
FH - Stjarnan 1:2
- Síðasti leikurinn í síðustu umferðinni og hreinn úrslitaleikur um dolluna.  Bæði liðin ósigruðu fyrir leikinn en FH myndi duga jafntefli.  6.450 áhorfendur skráðir á þessum leik en mig grunar að einhverjir hafi bakkað út úr mætingu á leikdegi.  Uppselt var á leikinn daginn fyrir leik en á leikdegi var þetta líka skítaveðrið, rigning og kuldi.  Ég fór með Loga Snæ og Ísaki Mána á völlinn ásamt Nick, félaga Ísaks.  Stjarnan komst yfir í fyrri hálfleik með kolólöglegu rangstöðumarki en Kristinn Jakobsson sem var að dæma kveðjuleikinn sinn á Íslandi gat ekki annað en farið eftir aðstoðardómaranum og látið þetta standa.  Loga var orðið frekar kalt þannig að ég ákvað að skjótast með hann heim en koma aftur og ná restinni af þessu.  Hlustaði á leikinn í útvarpinu meðan ég var á þessu skutli, Veigar Páll rekinn útaf hjá Stjörnunni og FH jafnaði fljótlega á eftir það.  Þannig að ekki virtist þetta að vera detta með Garðbæingum um það leyti sem ég mætti aftur á völlinn.  Stjörnumenn hentu flestum fram í tilraun sinni til að knýja fram sigur en opnuðu sig í leiðinni og FH fengu 2-3 úrvalsfæri til að klára leikinn, m.a. skot í stöng.  En svo gerðist það, Stjarnan fékk víti í uppbótartíma, sem þeir nýttu og allt ætlaði um koll að keyra.  Þeir náðu að sigla þessu heim og fyrsti Íslandsmeistaratitill Stjörnunnar orðin að veruleika.  Mínir menn í þessum leik.

miðvikudagur, október 01, 2014

Boltaferð með vinnufélögunum

Þá er maður kominn heim eftir breska fótboltaferð, get víst ekki kallað þetta vinnuferð en við erum sex saman úr vinnunni sem skruppum út.  Höfum gert þetta nokkrum sinnum áður, ekki alltaf á sömu vellina, en núna var ferðinni heitið til Manchester.  Tókum pakka í gegnum íslenska klúbbinn og nutum fararstjórnar Sigga Hlö.  Flogið var út á föstudeginum og fór sá dagur í almennt chill, einhverjir skutust í búðir á meðan aðrir fóru á knæpurölt í æðislegu veðri.

Á laugardeginum var farið á leik, Manchester United tók á móti West Ham.  Fjórða skiptið sem ég fer á Old Trafford og alltof langt síðan síðast.  Við skelltum okkur á Bishops Blaize fyrir leik, og það verður að segjast að það er stór partur af þessu, a.m.k. hvað mig varðar.  Á þessu brölti þessa hóps þá höfum við alltaf reynt að finna "bullubarinn" þar sem sungið er.  Kannski er ég svona ofureinfaldur en hvernig er ekki hægt að hrífast með?:



Rugl flott sæti, sátum í fjórðu röð frá grasinu, þvílík steypa.  Manchester vann 2:1, Rooney með rautt og ansi stíf pressa í lokin.  Manni leið ekkert rosalega vel þegar West Ham héldu að þeir væru búnir að jafna en sem betur fer var rangstæða dæmd.  Fyrsti leikur Paddy McNair í vörninni, hendi þessari staðreynd hérna inn svona ef þetta reynist verða einhver hetja með tímanum.  Held samt frekar að ef einhver nennir að lesa þetta eftir einhver ár þá muni sá hinn sami spyrja sig:  Who?
Stoppuðum á einum pöbb á næsta horni áður en við tókum lítið rölt í gegnum Megastore-ið, ég sat hjá að strauja kortið í þetta skiptið enda nokkuð sáttur með asísku búningasendinguna sem ég hafði pantað fyrr í haust.
Við upphaf leiksins
Van Persie og Rafael

Karlinn fyrir utan
Á sunnudeginum var ekki slegið slöku við.  Nánast engir leikir í boði en við höfðum tryggt okkur miða á þann sem var í boði, W.B.A. vs Burnley.  OK, viðurkenni að þetta hljómar ekki uppfullt af kynþokka en við reyndum að gera sem best út úr þessu.  Kostaði okkur lestarferð til Birmingham og svo vorum við búnir að tryggja okkur VIP miða á The Hawthorns, heimavöll W.B.A.  Þar var eldað ofaní okkur 3ja rétta matseðill sem slapp fyrir horn, ekkert mikið meira en það.  Við veltum talsvert fyrir okkur hverjir væru á borðunum í hringum okkur og síðar kom í ljós að megnið að því voru einhverjir styrktaraðilar.  Daninn á næsta borði virtist reyndar vera talsvert vinsæll og það kom svo í ljós að þar var á ferðinni markvörðurinn Brian "The Beast" Jensen sem gerði garðinn frægan með báðum þessum liðum.  Hóf ferilinn á Englandi með W.B.A. áður en hann fór yfir til Burnley þar sem hann spilaði í einhver 10 ár eða svo.  Er svo að spila með Crawley Town um þessar mundir.  Rámar aðeins í kauða en kom honum ekki fyrir mér þarna á staðnum.  VIP miðarnir tryggju okkur líka bólstruð sæti á fínum stað en mikið ósköp var ég hrifinn af þessum ca 26.000 manna velli.  Eitt svona stykki er nákvæmlega það sem Ísland þarf.  Heimamenn unnu 4:0 og tóm gleði í gangi.  Eftir leik voru eitthvað af þessu styrktaraðilaliði leyst út með gjöfum og einn leikmaður liðsins, Youssouf Mulumbu, mætti á svæðið og hélt smá tölu eftir leikinn.  Sá hafði reyndar ekki verið með sökum meiðsla held ég, annars þekkti ég ekki haus né sporð á þessum ágæta manni.  Þá var lítið annað að gera en að koma sér út á lestarstöð og koma sér aftur til Manchester.


Digital er ofmetið
Ótrúlega skemmtilegur völlur
Hinn ágæti Mulumbu

Heimferðardagur á mánudeginum, mikið ósköp var þetta gaman.

fimmtudagur, ágúst 21, 2014

Stjarnan - Inter 0:3

Garðabæjarklúbburinn var búinn að fara á kostum í frumraun sinni í Evrópukeppninni og voru komnir í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar UEFA.  Þar dróust þeir geng ekki minni mönnum en Internazionale frá Ítalíu.  Sigurvegara Meistaradeildarinnar frá 2010, reyndar var ekki kjaftur eftir frá þeim hóp og nafnalisti liðsins hefur oftar en ekki verið meira sexy.  Ætli Nemanja Vidic sem var að byrja sitt fyrsta tímabil með ítalska klúbbnum eftir mörg gæfurík ár hjá Man Utd, hafi ekki verið með þekktari nöfnum þarna.  Spenningur meðal almennra knattspyrnuáhugamanna á Íslandi var þó talsverður og þegar í ljós kom að í forsölunni meðal ársmiðahafa Stjörnumanna sem máttu kaupa ótakmarkað af miðum fóru einhverjir 6.000 miðar sem þýddi að eftir voru tæplega 4.000 sæti á Laugardalsvellinum þegar aðrir landsmenn fengu tækifæri til að versla sér miða.  Það þýddi ekkert annað en að vera klár í tölvunni þegar miðasalan á netinu hófst um morguninn og hafðist það með smá herkjum að næla sér í nokkra miða, alveg út í enda stúkunnar.  Enda seldist upp á rúmu korteri eða svo.

Ég náði miðum fyrir mig, Ísak Mána, Loga Snær og Nick, félaga hans Ísaks, alveg út við endann á annarri stúkunni.  Milt og gott veður og allt í toppmálum.  Mikið hefði ég nú viljað að þetta hefði verið mínir menn í Roma.  Kannski næst.

Góðir í stúkunni

Ég á endanum, hinir í mynd fengu víst ekki miða

miðvikudagur, júlí 30, 2014

Á góðri stund í Grundarfirði 2014

Við vorum mætt í fjörðinn þessa síðustu helgina í júlí á bæjarhátíðina eins og venjulega.  Þetta var víst í sextánda sinn sem hátíðin er haldin og maður hefur náð þeim flestum, man í raun ekki eftir ári þar sem ég var ekki á svæðinu en minnið mitt er nú langt frá því að vera skothelt.

Lágstemmt í ár, sem var bara ljómandi fínt.  Maður er búinn að sjá þetta flest, frá því að Bylgjulestin með öllu sínu hafurtaski var á svæðinu og svo yfir í svona minni útgáfu.  Ágætisveður, hélst þurrt sem verður að teljast kostur þetta sumarið.  Enn hangir Ísak Máni, á 16. ári, með gamla settinu og yngri bræðrunum tveimur.  Ótrúlega er ég ánægður með það, er á meðan er. 

Froðupartý-ið er farið að með því vinsælla

Hver er hvað?
Logi Snær á sundi
Góður svipur

Lokaskolið er alltaf svo kalt

Daði Steinn að verða klár í skrúðgöngu

Snillingarnir þrír

Stærstur - stærri - stór

laugardagur, júlí 19, 2014

Í bústað

Á einhvern ótrúlegan hátt náði ég að tryggja okkur sumarbústað í viku í gegnum VR.  Reyndi þetta í fyrra og átti aldrei sjéns þá.  Fékk endalausar villumeldingar þegar ég var að reyna að bóka enda allir að reyna þetta á sama tíma, þegar opnaði fyrir úthlutun.  Sömuleiðis er maður búinn að heyra af fólki sem hefur reynt í fleiri ár án þess að hafa nokkurtímann fengið neitt. 

En það gekk s.s. upp hjá okkur í þetta sinn og við náðum að bóka viku í Miðhúsaskógi á Suðurlandinu núna í júlí.  Ekki hægt að segja að við höfum verið beint heppin með veður, einhver úrkoma alla dagana en þess á milli var milt og gott veður.  En engin sól hinsvegar.  Logi Snær fékk einhver ofnæmisútbrot sem við þorðum ekki annað en að láta athuga út á Selfossi, kostaði okkur reyndar tvo bíltúra þangað en við notuðum bara tækifærið og chilluðum þar.  Annars fínn bústaður og allt í toppmálum hvað það varðar.  Alltaf gott að skipta aðeins um umhverfi.

Hoppudýna bara skemmtilegri svona blaut

Þreyttir

Flottir í potti

Huppuís á Selfossi

Haglél í smá stund...

Spilastund

þriðjudagur, júní 03, 2014

Daði Steinn og hugleiðingar um skinkur



Sá fimm ára:  „Pabbi, mig langar í rúnstykki með smjöri, osti og skinku.“
Pabbinn:  „OK, ég skal græja það fyrir þig.“

Smá þögn.

Sá fimm ára:  „Skinka... það er eitthvað svo skrítið.  Það er ekki hægt að gera neitt ef maður er skinka.“

Veit ekki hvernig þessi brandari eldist en til útskýringar þá segir slangurorðabókin:  "Stelpur sem mála sig mikið, nota brúnkukrem eða fara í ljós, lita hárið sitt og klæða sig í þröng föt"
Held að hann hafi ekki verið með þessa tengingu í huga en mér fannst þetta sniðugt.

sunnudagur, júní 01, 2014

VÍS mót Þróttar 2014

Staddur á dag á fótboltamóti í Laugardalnum, VÍS mót Þróttar.  Svolítið síðan síðast, þ.e. á fótboltamóti yfir höfuð.  Logi Snær hefur ekki verið að æfa fótbolta líklega síðan sumarið 2012 og maður því einskorðast við körfubolta- og fimleikamót síðustu misseri.  Allra veðra von á Íslandi er ekki eitthvað sem ég hef saknað við fótboltamótin en þetta slapp fyrir horn í dag.  Rigning á köflum en þakið á stúkunni á gervigrasvellinum í Laugardalnum var að gera heilmikið fyrir okkur.  Öll fjölskyldan á svæðinu og hvað það varðaði þá slapp þetta líka tímalega séð, þetta var svona temmilega langt áður en Daði og Ísak voru orðnir leiðir á þessu hangsi.

Logi var flottur í dag, spilaði einn leik í marki og þrjá sem útileikmaður.  Var reyndar frekar fúll yfir því hversu mikið hann var látinn spila sem aftasti varnarmaður og þar var ekki vel séð ef menn fóru fram yfir miðju.  Sem er ekkert rosalega vinsælt þegar maður er 10 ára og er að spila fótbolta.  Hann er í 6. flokki og stóra sumarmótið er í Vestmannaeyjum núna í lok júní.  Kappinn er bara nýbyrjaður að æfa aftur og það hefur nú ekki komið til raunverulegrar umræðu um að hann sé að fara þangað.  Kemur allt í ljós.

Tilþrif í markinu

mánudagur, maí 05, 2014

Íslandsmeistarar 2014

Ísak Máni og félagar í 9. flokki létu tiltölulega nýlegan bikarmeistaratitil ekki nægja heldur náðu að tryggja sér stóru dolluna á dögunum.  Þurftu fyrst að etja kappi við Njarðvík í undanúrslitum áður en þeir kæmust í úrslit.  Þeir náðu að vinna þá 60:40 í Seljaskólanum, og eftir að hafa tapað bæði bikarúrslitaleiknum og undanúrslitunum í Íslandsmótinu fyrir ÍR þá held ég að það verði eitthvað lítið um jólakort frá Njarðvík upp í Breiðholtið þessi jól.

Úrslitin voru spiluð í Smáranum í Kópavogi og þar var Keflavík andstæðingurinn.  Keflvíkingarnir hafa verið ógnarsterkir í gegnum þessi ár en hafa aðeins verið að slaka á klónni.  En gríðarlega öflugir samt, til að hafa það á hreinu.  ÍR-ingar byrjuðu leikinn vel og voru yfir í hálfleik 35:26.  Keflvíkingarnir voru þó á því að vera ekkert að yfirgefa svæðið án baráttu og náðu að jafna í upphafi fjórða og síðasta leikhluta.  Útlitið var svo orðið svart fyrir ÍR, 4 stigum undir þegar lítið var eftir og 2 stigum undir þegar 11 sekúndur voru eftir og Skúli á vítalínunni fyrir ÍR.  Fyrra vítið fór ofaní en ekki það síðara, Hákon náði rándýru sóknarfrákasti en þurfti að hnoðast út í teig meðan leikurinn var að fjara út.  Hann tók skotið sem hitti ekki hringinn en Halli sá í hvað stefndi og greip blöðruna í loftinu og smellti henni ofaní um leið og klukkan gall.  Þakið ætlaði af kofanum og maður hefur aldrei orðið vitni af öðru eins.  Dómarar leiksins tóku sé það bessaleyfi að kíkja á upptöku af síðustu andartökunum, bara til að fullvissa sig um að sigurkarfan hafi verið skoruð áður en leiktíminn rann út.  Sem var niðurstaðan og þetta sem var nánast eins og lygasaga var bara engin lýgi.

Hérna er myndband sem tekið var upp á leiknum og m.a. lokaandartökin, magnaður skítur:



Ísak Máni fékk sínar mínútur, náði nú ekki að setj´ann en sem fyrr var fínn í því sem er ætlast af honum.  Menn munu koma með að muna þetta það sem eftir er, frábær endir á glæsilegum vetri.

Rosaflottur dagur, margfalt fleiri í stúkunni ÍR-megin, hluti af meistaraflokki liðsins mætti á svæðið og stór hópur af öðrum velunnurum.  Fyrsti Íslandsmeistaratitill ÍR í körfu síðan 1998 eða 1999, rétt þegar þessir guttar voru um það að skríða í heiminn.  Rosalega flottir strákar, ekki bara á körfuboltasviðinu heldur almennt góður hópur.  Það verður vonandi gaman að fylgjast með þeim eitthvað áfram.

Einbeiting

Þessi vildi ekki ofaní

Einlægur fögnuður

Sigurhringur

Meistari

Íslands- og bikarmeistarar 2014

Tölfræði leiksins

sunnudagur, maí 04, 2014

Úr númer 32, í númer 32, í númer 32

Eftir að við, lengst af hjónaleysin, rugluðu saman reitum upp á Akranesi, seint á síðustu öld, þá höfum við búið á nokkrum stöðum en þó kannski ekki neitt rosalega mörgum, miðað við að einhverjir fyndist þetta vera rosalega mörg ár.
Fyrsta formlega samlífið var upp á Akranesi, á heimavistinni hjá FVA en það fékkst í gegn eftir að við skiluðum inn undirskrifuðum viljayfirlýsingum frá foreldrum og forráðamönnum okkar þar sem þessi ráðahagur var samþykktur.  Þetta var þarna um haustið 1994 eða eftir áramótin 1995.  Undirritaður fékk svo ekki lengur inn á heimavistinni á haustönninni 1995 þar sem formlega átti ég að vera búinn með mína skólagöngu en skiptin frá Laugarvatni yfir á Akranes töfðu karlinn aðeins, misræmi úr bekkjarkerfinu yfir í áfangakerfi var ekki að gera neitt sérstakt fyrir mig þegar viðkomandi skólar voru að meta karlinn.  En við leigðum okkur þá risloft út í bæ á Akranesi, á Vesturgötunni nánar tiltekið, Vesturgata nr hundrað og eitthvað.  Sigga fer svo út sem au-pair til USA í ársbyrjun 1996 en ég fer í Grundarfjörðinn og fer á sjó og tek síðustu tvo kúrsana utanskóla.  Ég byrja í HÍ um haustið 1996 og fæ inni hjá Magga og Bíbí, því mikla heiðursfólki, í Baugatanga 7.  Sigga kemur svo heim fyrir jólin það árið og við fáum að vera í Baugatanganum á meðan við bíðum eftir íbúð á Stúdentagörðunum.  Þar fáum við inn í nýrri íbúð líklega haustið 1997, í Eggertsgötu 32.  Búum þar þangað til ljóst er að frumburðurinn er væntanlegur og hlutafall mitt hvað vinnu og skóla varðar var sífellt að aukast, skólanum í óhag.  Göngum frá kaupum á íbúð í Eyjabakka 32 í ársbyrjun 1999 og flytjum inn í apríl sama ár.

Síðan hafa liðið fjölmörg ár.  Og á þeim árum, sérstakalega hinum síðari, tók maður stundum tímabil þar sem fasteignasíður blaðanna hafa verið meira lesin en öðrum stundum eða fasteignir.is urðu oft hluti af reglulegum netrúnti.  3-4 sinnum fórum við að skoða íbúðir með mismiklum áhuga en einu sinni urðum við það áhugasömu að við fórum að ræða tölur við fasteignasalann.  Þá ákvað eigandinn þó að hætta við sölu þannig að það fór aldrei lengra.  Þetta var um þetta leyti ársins fyrir ári síðan og maður varð smá svekktur að þetta fór ekki lengra.

Það svo kom boltanum af stað aftur var símtal frá fyrrverandi samstarfsmanni mínum sem var að hefja sinn fasteignasalaferil.  Hann hafði persónulega verið staddur í þessum pakka fyrir rúmu ári eða svo og ég hringdi í hann þegar ég var í mínum pælingum fyrir ári þannig að hann vissi að ég var eitthvað að spá í að hugsa mér til hreyfings.  Hann var sem sagt að leita sér að mögulegum sölueignum og bað mig um að hugsa þetta í nokkra daga.  Í kjölfarið kíkti ég á netið, svona aðeins til að sjá hvað væri í boði þann daginn því ekki selur maður án þess að hafa eitthvað plan hvert maður sé að fara.  Þar sá ég parhús upp í Seljahverfi sem var til sölu, innan þess verðramma sem ég taldi mig mögulega ráða við og fyrsti kostur var alltaf að halda sig við póstnúmer 109.  Að auki var auglýst opið hús þannig að við ákváðum að kíkja, upp í Kögursel 32.  Okkur leist svona vel á að við ákváðum að setja allt í gang með Eyjabakkann, hvort við gætum selt hann áður en Kögurselið seldist.  Það var því allt sett á fullt, Eyjabakkinn var settur á sölu á netið á fimmtudagskvöldið 7. nóvember 2013 og jafnframt auglýst að það yrði opið hús nk sunnudag, 10. nóvember.  Á sunnudeginum gerði þetta líka vitlausa veðrið með snjókomu og okkur leyst ekkert á blikuna, héldum jafnvel að það myndi engin koma að skoða.  Fór þó svo að 8 pör mættu á svæðið, misáhugasöm eins og gengur og gerist.  Fengum þó tvö tilboð strax eftir helgina, annað var nóg gott að við töldum.  Samþykktum það og gerðum tilboð með það sama í Kögurselið.  Það hafðist í gegn og því á réttri viku frá því að við settum Eyjabakkann á sölu var hann seldur og Kögurselið keypt.  Við vorum með eitthvað plan B, tvö raðhús í Fellunum voru á sölu og svo var einhver möguleiki á einhverju upp í Grafarvogi en þetta var okkar langfyrsti kostur og í raun það eina sem við ætluðum okkur, það átti bara að láta þetta ganga upp.

Flutningarnir gengu þokkalega fyrir sig.  Ég tók mér frí í nokkra daga og það tók okkur rúma viku frá því að við fengum Kögurselið afhent, um mánaðarmótin janúar/febrúar þangað til að við skiluðum lyklunum af Eyjabakkanum.  Þetta var helv... törn en við máluðum nánast alla Kögurselið áður en við fluttum inn og mikið ofboðslega var mikið af drasli sem við vorum búin að sanka að okkur öll þessi Eyjabakkaár.

Nú erum við s.s. búinn að vera í Kögurselinu í rúma 3 mánuði og líkar rosalega vel.  Höfum verið mjög róleg í að koma okkur fyrir, þ.e. bílskúrinn en ennþá fullur af kössum með einhverju dóti sem enginn virðist sakna á þessum tímapunkti.  Þó búið að græja eitt stykki forstofuskáp, trampólín komið út í garð og nokkur mál komin á teikniborðið.  Allir sáttir og það er fyrir öllu.

Nýji kofinn - nr 32 eins og venjulega

laugardagur, apríl 26, 2014

Sveitaferð í Kjós

Við tókum bíltúr í sveit, ekki alltof fjarri borginni, í dag.  Ferðinni var heitið á Valdastaði í Kjós en þar búa afi og amma hans Markúsar Orra, sem er besti vinur hans Daða.  Við tókum þennan bíltúr líka í fyrra, líklega í maí en þá kom Ísak Máni reyndar ekki með.  Núna bættist ekki bara Ísak Máni við heldur vorum við bæði með Heklu og Steinar þannig að öll 7 sæti bílsins voru þétt skipuð.  Við fengum aðeins að kíkja inn í fjósið og fjárhúsin áður en vöflukaffið var græjað út á pallinum.

Uppselt í sæti
Logi Snær

Hekla og Daði

Gleði í fjárhúsunum

Daði Steinn

Steinar Ingi

Logi Snær

Daði Steinn

Hekla

Markús og Daði

Daði Steinn

Logi Snær

Logi Snær

Í fjósinu

Ísak Máni í góðum gír


Hent í eina dýra selfie

Steinar Ingi á pallinum

Vöflukaffi á pallinum