föstudagur, desember 30, 2005

Sum börn verða til í hlöðunni

Það er alltaf gaman að sjá börnin sín fæðast og taka á sig mynd. Ég var fenginn til að vinna að ákveðnu verki sem Jóhanna og Elli, a.k.a. Herra og Frú Suðureyri, fóru af stað með. Þau voru að vinna að gerð gönguleiðakorts fyrir Súgandafjörð þar sem horft var til gömlu samgönguleiðanna. Mitt hlutverk var að safna gömlum frásögnum af þessum leiðum og hnoða saman einhvern texta sem hægt væri að koma á prent. Það hafðist að koma þessu í eitthvað frásagnarform þótt ég verði að viðurkenna að Hlaðan (Þjóðarbókhlaðan) hafi verið langt frá því spennandi sl. sumar. Að hanga þarna inni yfir einhverjum skruddum á heitum sumardögum, úff. Fyrir þá sem ekki vita er ekki hægt að opna svo mikið sem eitt stykki glugga í kofanum heldur er þetta eitthvað loftræstisystem sem er ekki að gera gott mót á sumrin. Það er líka svolítið skrítið að koma þarna inn, ég fæ alltaf svo geðveikt Háskóla-flassback að maður kiknar í hnjáliðunum, veit ekki hvort það er lyktin þarna sem hefur þessi áhrif á mig eða hvað. Ekki það að þetta sé eitthvað slæmt en ... æi ég veit ekki hvað skal segja, ég er búinn með Háskólapakkann og sakna Hlöðunnar ekkert sérstaklega. Við skulum segja að Hlaðan sé í góðu svona í hæfilegum skömmtum. Allavega, þessi texti er kominn þarna á myndarlegt form og ég er bara sáttur, held að það hafi alveg ræst úr þessu barni.

Hægt er að drögin að þessu korti HÉR á pdf formi.

fimmtudagur, desember 29, 2005

“Þú brennir peninga með því að kveikja...”

Flugeldakaup á morgun, andvarp! Það verður víst ekki komist hjá þessu þegar maður á 6 ára gamlan dreng. Takmarkið er að halda þessu undir 6000 krónum sem hljómar kannski ótrúlega nánasarlega en mér finnst bara ekki gaman að brenna peningana mína. Ef ég mætti ráða þá myndi ég ekki eyða krónu. Ég lifi alveg góðu lífi á gamlárskvöldi með að klæða mig vel og standa aðeins til hliðar og horfa á alla sprengjusjúklingana tapa sér í gleðinni og bomba frá sér allt vit. En þar sem frumburðurinn er ekki alveg að sætta sig við svoleiðis vinnubrögð þá verðum við að gera svo vel að taka upp veskið og kveikja í peningunum.

Annars var ég að fá tölvupóst áðan frá Villa áðan. Ef einhverjir bjuggust seint við því að ég færi að blogga þá held ég að hann jafnvel verið ólíklegri en ég að detta í bloggið. En allavega þá er hann búinn að vera að laumupúkast með þetta í einhverjar vikur, gafst upp á Operunni og skipti um taktík. Þið getið þá hætt að bauna á mig þótt ég hafi kosið að hafa einhvern aðlögunartíma á þessu hjá mér. Hann þóttist auðvitað vera búinn að senda út tilkynningu í fjölskyldunni um þetta en ég sé í gegnum það. Þetta er komið út í tómt rugl, maður þarf varla lengur að hringja í nokkurn mann, bara spurning um að lesa bloggið. Ég bíð spenntur eftir mömmu í bloggmenninguna

sunnudagur, desember 25, 2005

Á jólameltunni

Úff, hér situr maður á jóladagskvöldi alveg búinn á því. Aðfangadagurinn gekk nokkuð vel fyrir sig sérstaklega framan af, það var farið með drengina í sund svona aðeins til að hafa þetta ekki eingöngu bið og hangs fram að pakkaupptöku. Svo var þetta þokkalegt en Ísak Máni var orðinn svolítið óþreyjufullur svona um hálffimm leytið en allt hafðist þetta. Logi Snær var ekki að átta sig á þessu, allir eitthvað voða furðulegir í sparifötum og svo var borðað inn í stofu og allt í tómu rugli. Enda fór svo að hann truflaðist algjörlega og vissi ekki hvort hann var að koma eða fara. Vildi ýmist ekki sjá pakkana sína eða var æstur í að opna pakka, alveg óháð því hver átti að fá þá. Ég man nú ekki eftir því að hafa fengið svona marga pakka í lengri tíma en það var nú aðallega vegna þess að Sigga var dugleg að dreifa þessu á fleiri pakka en færri.

Fórum svo upp í Mosó rétt fyrir hádegið í dag og fengum okkur smá hangikjötsmakk áður en við fórum upp á Skaga í, jú, meira hangikjöt! Maður var orðinn frekar þreyttur þegar við komum aftur heim um sex leytið og var snöggur úr skyrtunni og bindinu og í stuttbuxur og bol. Og eins og venjulega er maður búinn að borða of mikið af kjöti og konfekti og drekka of mikið af gosi, maður er nánast lasinn af of mikilli ruslinntöku. En hey, þetta eru nú jólin.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Síðasta gjöfin

Ég fór í Kringluna í gærkvöldi til að athuga með síðustu gjöfina sem ég átti eftir. Jamm, það var fyrir konuna. Sem betur fer var þessi elska búin að gefa mér örlítinn jólagjafalista svona til að gefa mér einhverjar hugmyndir. Það eru til tvennskonar jól: Annars vegar jól þar sem ég er fyrir löngu búinn að finna gjöfina fyrir konuna, eitthvað ógeðslega sniðugt með gríðarlegt notagildi og svo hins vegar jól þar sem þar sem ég er alveg týndur út á túni. Því miður eru þessi jól eins og þau síðarnefndu. Ég dreif mig af stað með nokkrar hálfhugmyndir í kollinum og reyndi að gíra mig upp í þetta. Byrjaði á því að rölta einn hring og sjá hvernig stemmingin væri, nóg var af helvítis fólkinu. En það var alveg sama hvað ég reyndi, innkaupaandinn var ekki með í för og því ráfaði ég þarna um eins og illa gerður hlutur. Ég reyndi að fara í þær búðir þar sem ég gæti mögulega fullmótað þessar hálfhugmyndir mínar með misjöfnum árangri. Svo sá ég fljótlega að ég var ekki að nenna þessu dæmi þannig að ég ákvað að versla ekkert þarna um kvöldið þótt ég væri eiginlega búinn að ákveða hvað ég myndi kaupa en ekki endanlegu útfærsluna á því. Náði að redda þessu í dag, vona að þetta falli í góðan jarðveg.

miðvikudagur, desember 14, 2005

Í augnablikinu getur verið slökkt á farsímanum...

Ég bölvaði stundum gemsum. Ég og betri helmingurinn ákváðum að fjárfesta í einum slíkum í ársbyrjun 1999 að mér minnir, það var alla vega þegar Sigga var komin á seinni helming meðgöngunnar á frumburðinum. Okkur þótti það heilmikið öryggi í því að hún væri með slíkt tæki, sem það að sjálfsögðu var og er. En mér fannst þetta oft þvílíkt ofnotuð tæki að stundum blöskraði mér þvílíkt. Það fór óheyrilega í mig þegar plebbinn sem var á undan mér í röðinni í Bónus gat ekki annað en svarað í gemsann þó að það væri komið að honum að borga, nei allt í lagi lagsi, stoppaðu bara alla helvítis röðin af því að frændi þinn vill fá að vita hvað kappinn ætlar að gera um helgina og þér finnst bara í góðu lagi að ræða það þarna á þessum stað og á þessum tíma. Eða þegar athyglissjúka gellan sem var með mér í umræðutímum í Mannkynssögu IV þótti svo sniðugt að hún skildi gleyma að slökkva á símanum að hún svaraði í hann í miðjum tíma þegar hann hringdi! Ekki að ég sé barnanna bestur á köflum, ég hef oft notað gemsann til að spara mér ótrúlega litla fyrirhöfn. Svo er líka málið að maður verður svo rosalega háður þessu að það er alveg sorglegt. Fór einhverntíma í fótbolta og ákvað að taka ekki símann með enda er ekkert hægt að ná í mig hvort sem er nema rétt á meðan ég er að keyra upp í Fífuna og svo heim aftur. Ég sver það að mér leið bara illa, grínlaust. Þarna var ég staddur einn að keyra einhversstaður í Kópavogi og alveg útilokað að ég gæti haft samband við einhvern eða að einhver gæti haft samband við mig. Auðvitað komst ég klakklaust heim aftur og þegar ég kom heim blasti við mér bláköld staðreynd: Enginn hafði reynt að hringja í mig og ekkert sms hafði ratað í númerið mitt.

Ég fékk aðra sýn á þetta mál um daginn þegar mamma fór að rifja upp svolítið sem ég hafði ekki leitt hugann að. Pabbi var með ónýt nýru og þurfti að fá gjafanýru. Hann var í raun annar Íslendingurinn til að fá gjafanýra og fyrsti Íslendingurinn til að fá gjafanýra frá óskyldum aðila. Við skulum átta okkur á því að ég er að tala um byrjun áttunda áratug síðustu aldar og gemsar gersamlega óþekkt fyrirbæri. Pabbi þurfti að vera viðbúinn allan sólarhringinn ef að kallið kæmi og ef hann fór eitthvað þurfti einhver að vera heima til að svara í símann og sá aðili þurfti að vita hvar væri hægt að ná í karlinn. Ef þau fóru t.d. í leikhús var nauðsynlegt að vita nákvæmlega hvar þau sætu svo hægt væri að finna hann. Einu sinni “stálust” hann og mamma út í gönguferð á meðan enginn var heima og ómögulegt að ná í þau. Þau voru með móral lengi á eftir.

Eftirfarandi frétt kom í Morgunblaðinu þann 5. apríl 1973:

Flugvél frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli flutti í gær íslenskan nýrnasjúkling til Kaupmannahafnar, þar sem hann var fluttur á Ríkisspítalann og í nótt átti að græða í hann nýtt nýra þar ytra. Maður þessi, Hans Wíum, 49 ára Reykvíkingur, hefur undanfarin tvö ár verið algjörlega háður gervinýra því, sem er í Landspítalanum og hefur þurft að koma þangað reglulega tvisvar í viku. Líffæraflutningur þessi fer fram að undirlagi dr. Páls Ásmundssonar, læknis, sem hefur yfirumsjón með gervinýranu í Landsspítalanum. “Við erum aðilar að stofnun sem nefnist Scandia Transplant, en þar eru skráðir allir sjúklingar sem þurfa á nýju nýra að halda og háðir eru gervinýra” sagði Páll í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. “Þegar svo vill til að það fellur til hentugt nýra er það óðar sent til Kaupmannahafnar á ríkisspítalann þar og þar fer líffæraflutningurinn jafnan fram. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem við verðum aðnjótandi þessarar samvinnu,” sagði Páll ennfremur, “en hins vegar í annað sinn sem nýra er grætt í íslenskan mann. Í fyrra tilfellinu var það ung stúlka og þá var það bróðir hennar sem lagði til nýrað. Í dag fengum við hins vegar boð um það að fyrir lagi nýra úr látnum manni, og íslenskum sjúklingi stæði það til boða. Þessi boð komu klukkan 4 í dag og Hans var farinn í loftið með varnarliðsvél kl. 7 í kvöld.” Páll sagði að í tilfellum sem þessum mætti engan tíma missa. “Í dag var ekkert áætlunarflug til Kaupmannahafnar og í fyrramálið var þetta orðið of seint. Þess vegna gerðum við samkomulag við varnarliðið á síðasta ári, að það legði okkur til flugvél til að flytja íslenskan nýrnasjúkling til Kaupmannahafnar, þegar svo bæri undir og illa stæði á ferðum áætlunarflugvéla.” Herflugvélin átti að lenda á Kaupmannahafnarflugvelli um kl. 22 í gærkvöldi, en þar beið sjúkrabifreið eftir sjúklingnum og flutti hann í sjúkrahúsið. Átti líffræraflutningurinn að fara fram strax í nótt. Að sögn Páls eru nú þrír sjúklingar í gervinýranu í Landspítalanum og bíða þess að fá sams konar tækifæri og Hans Wíum fékk nú.

Daginn eftir kom síðan smá viðbótargrein og mynd af karlinum staulast úr flugvélinni. Ástæðan fyrir þessum skrifum er aðallega sú að í dag hefði karlinn orðið 82 ára gamall.

Magnað.

Ég er hættur að bölva gemsum.

þriðjudagur, desember 13, 2005

"Hóst - hóst"

Karlinn skrölti aftur til læknis í gær, enda var ekki annað hægt. Maður er búinn að vera hóstandi í 4 vikur eða eitthvað þvíumlíkt og alltaf í tómu rugli. Það er ekki hægt að vera svona, maður verður svo meir, lofar öllu fögru um betri lifnaðarhætti þegar maður nær heilsu, ræktin 3x í viku og gulrætur með imbanum á kvöldin. Doktorinn lét mig hafa nýjar pillur og púst eins og asmasjúklingarnir eru með og fullyrti að þetta eigi að gera mér gott, annars verð ég að fara í eitthvað allsherjar tjékk, bara frá skottinu og uppúr. Ég get þá kannski farið að hringja í mömmu aftur en ég var nánast farinn að forðast það því hún hafði alltaf svo miklar áhyggjur hvað maður hóstaði mikið. Ég tók alltaf léttar öndunaræfingar áður en ég hringdi í hana en alltaf fór þetta í sama farið. Fljótlega í símtalinu fann ég hvernig ég þurfti að hósta en ég reyndi eins og ég gat að birgja hann inni. Ég fann hvernig ég hitnaði allur í framan og svitataumurinn lak niður úr handarkrikanum. Svo gat ég ekki meir: "Hóst - hóst". Í brot úr andartaki var ég að vonast til að hún hafi ekki fattað það að ég hafi verið að hósta en... "Davíð minn, ertu ennþá svona slæmur í hálsinum? Mér líst ekkert á þetta, ertu búinn að fara til læknis?" Ég reyndi að malda í móinn og koma með einhverja afsökun um að ég væri mikið betri og það hefði bara verið eitthvað fast í hálsinum á mér. Mundi þá að líklega notaði ég þessa línu þegar ég talaði við hana síðast og fann hvernig sannfæringarkrafturinn fór allur út um gluggann og ég fór í þvílíka vörn að annað eins hefur ekki sést síðan Franco Baresi var og hét. "Þú verður að tala við einhvern sérfræðing, þetta er ekki eðlilegt, þú ert alltaf með eitthvað kvef". Þannig að karlinn pantaði sér tíma, mömmur hafa alltaf rétt fyrir sér sagði einhver.

laugardagur, desember 10, 2005

Idol

Ég get ekki sungið nótu skammlaust, er rammfalskari en allt. Hef oft og iðulega óskað þess að ég geti sungið eins og þessi eða hinn söngvarinn þegar maður heyri einhverja söngframmistöðu sem lætur gæsahúðina myndast af unaði á örskotsstundu. Ég myndi t.d. ekki eiga nokkuð erindi í Idolið nema til að fá mínar 15 mínútur af frægð og gaula Stál og hnífur alveg út úr kú og finnast voða fyndið að ergja dómnefndina með einhverju bulli. Reyndar fell ég ekki lengur inn í aldursramma Idolsins en það er önnur saga.

Ég er ekki með Stöð 2 og hef eiginlega aldrei verið með hana. Að þeim sökum hefur Idol áhorf mitt verið frekar brösótt þessar þrjár seríur sem hafa verið í gangi. Fylgdist svolítið með í þeirri fyrstu, bæði vegna þess að þetta var sú fyrsta og síðan var Kalli Bjarni gamall skólafélagi úr Grundarfirði. Sá eitthvað af blálokunum í síðustu seríu en get varla sagt að ég hafi séð nokkurn skapaðan hlut af þeirri sem er núna í gangi. Ég fór að hugsa um þetta um daginn þegar ég var að fletta Plötutíðindum og rak augun í eitthvað samkurl af einhverjum gömlum Idolþátttakendum sem voru að gefa út plötu. Hvað hefur þetta lið sem hefur tekið þátt í þessum þáttum skilið eftir sig? Þetta er eitthvað bland í poka af einhverjum nokkrum mistækum nýjum lögum og svo einhverjum gömlum slögurum sem er búið að taka svo oft að það er beinlínis sorglegt og eru svo nánast fluttir nákvæmlega eins og frumflutningurinn svo þetta klikki nú örugglega ekki. Þetta eru nú nokkrar plötur sem komið hafa út, Jón “Létt 96,7” Sigurðsson kom með einhverjar tvær cover plötur, aðra á ensku og hina á íslensku held ég og bræddi allar húsmæðurnar í vesturbænum. Kalli Bjarni kom með einhverja bland í poka plötu, Davíð Smári fór nú langt með að eyðileggja Heaven Help ballöðuna með ofurtöffaranum Lenny Kravitz, frekar þunnt eitthvað sem ég heyrði frá honum. Stöllurnar Heiða og Hildur Vala voru svo í svipuðum stíl, held þó að Heiða hafi verið með einhver frumsamin lög í bland við margnauðguð Trúbrotarlög. Steininn tók síðan úr þegar fyrrnefndur flokkur skipaður gömlum Idol hetjum fór út í það að gefa út gamlar “dægurperlur frá sjöunda og áttunda áratugnum í kraftmiklum flutningi”. Voðalega er þetta eitthvað þreytt og fyrirsjáanlegt allt saman, algjörlega steingelt. Af þessum Idol diskum sem ég man eftir get ég ekki nefnt eitt nýtt lag sem hefur skilið eitthvað eftir, en kannski er það bara ég. Ég skil alveg að sem sjónvarpsefni er Idolið algjör snilld, keppni í söng í fjörugum umbúðum en ég held bara að það sé fullt af fólki þarna úti sem getur sungið en sem betur fer er ekki nóg að líta þokkalega út og geta sungið til að meika það í þessum bransa. Það verður að vera eitthvað meira í þetta spunnið og þar held ég að skilji á milli meðalmennskunnar og þeirra sem komast lengra. Þetta er kannski allt í góðu með þá sem “meika” það úr Idolinu, ef það er hægt að mjólka þetta eitthvað með að syngja í brúðkaupum og árshátíðum ásamt því að gefa út coverplötur, þá er það bara flott, ég er alltaf tilbúinn að taka ofan fyrir fólki sem nær að búa til peninga með því sem það er að gera. En tónlistarlega séð ætla ég að biðja um meiri frumleika og meira þor. Kannski er ég bara ósanngjarn og er að biðja um eitthvað sem er ekki hægt að fá hjá þeim Idolum sem komið hafa fram. Ég bíð bara áfram rólegur en býst í raun ekki við miklu.

föstudagur, desember 09, 2005

Grundfirskir ökklasokkar

Ég var að hlusta á aðra hvora rokkstöðina núna í dag og það voru einhverjir snillingar í settinu hjá þeim og menn voru að ræða um skítapleis á Íslandi. Kom þá upp úr kafinu að einn þáttastjórnandanna var frá Ólafsvík og hófust miklar umræður um það. Vildi annar meina að það eina sem almenningur vissi um staðsetninguna á Ólafsvík, þ.e. þegar það væri búið að fatta að það væri ekki verið að tala um Ólafsfjörð, væri að þetta væri í 15 mín. akstursvegalengd frá Grundarfirði og klukkutími frá Akranesi. Ánægður með það ef það er farið að tengja Ólafsvík við Grundarfjörð en ekki öfugt.

Þessu alveg ótengt, alvöru karlmenn klæðast ekki ökklasokkum eða hvað þetta helvíti kallast. Ekki misskilja mig, dömurnar geta verið í þessu og verið sætar og fínar og allt í góðu en þar dreg ég líka mörkin. Jafnvel þó þeir séu í kvartbuxum, sem ganga svo sem alveg upp svona á heitum sumardögum, en ekki ökklasokkarnir, þá eru menn búnir að missa það og geta bara gengið í samtökin eða eitthvað.

sunnudagur, desember 04, 2005

Nýjar stellingar

Helgin að líða undir lok og eitt og annað að gerast. Haraldur og Kristín búin að fjölga mannkyninu, Hafrún Halla kom í heiminn á föstudaginn og allt í gekk vel hjá þeim. Nú verðum við að koma okkur í heimsókn og kíkja á litlu prinsessuna.

Annars er búið að vera brjálað að gera hjá mér og Siggu núna um helgina. Við höfum verið að gera það sem ekki var hægt áður nema alltaf á sama gamla þreytta staðnum og alltaf í sömu stellingum. Núna hins vegar gátum við verið að alla helgina út um alla íbúð, í sófanum, á borðstofuborðinu, í eldhúsinu, og jafnvel uppá þvottavélinni. Í raun hvar sem okkur datt í hug og snúið okkur eins og við vildum. Það var sem sagt verið að alla helgina og ég var bara farinn að hafa áhyggjur að ég fengi bara ógeð á þessu en alltaf var maður til í meira. Algjör lúxus að vera kominn með þetta þráðlausa net, núna er hægt að vera á netinu hvar sem er hérna heima.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Þessi eina sanna?

Það er sumt sem maður reiknar ekki með að lifi í 9 ár. Þegar ég sá hana fyrst þá leist mér vel á hana við fyrstu sýn og við fórum á afvikinn stað og létum reyna á það hvernig við ættum saman. Það gekk vel en ég bjóst samt aldrei við að við yrðum svona lengi saman. Það hafa verið fleiri eftir að ég hitti þessa en enginn hefur enst eins og hún. Stundum hefur gengið á ýmsu, stundum hef ég orðið þreyttur á henni og þá höfum við einfaldlega hvílt samskipti okkar en svo hef ég kannski rekið augun í hana aftur og þá höfum við endurnýjað kynnin okkar og allt var í blóma í einhvern tíma. Stundum hef ég sagt við mig að hún sé einfaldega orðin of gömul og skoðað hana í krók og kima til að finna einhver sjáanleg ellimerki á henni eða eitthvað sem myndi réttlæta það að ég léti hana róa sinn sjó en ekki haft erindi sem erfiði. Á næsta ári hefðum við átt 10 ára afmæli og ég var búinn að gera það upp með mér að þá myndi ég segja þetta gott hvað okkur varðar. Ég veit að ég hef sagt þetta áður en núna ætlaði ég að láta af því verða, 10 ár saman hefðu verið mikið meira en nóg. En hún dugði ekki svo lengi, loks kom að því að hún gat ekki meira. Það var komið gat á annan olnbogann og því gat ég gert það sem ég er búinn að hugsa svo lengi um en aldrei framkvæmt, ég gat hent bláu Levi´s skyrtunni minni sem ég keypti úti í Bandaríkjunum árið 1996. Get ekki neitað að það er smá tregi í gangi, ég held að það komi aldrei önnur eins og hún.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Silfurmaðurinn og gullkálfurinn sonur hans

Jæja, þá er Ísak Máni búinn að slá mér við. Hann er núna búinn að takast það sem karl faðir hans hefur ekki ennþá tekist á sínu frekar dapra knattspyrnuferli, og tekst varla úr þessu, en strákurinn er búinn að vinna sinn fyrsta bikar. Held að undirritaður eigi þrjár silfurmedalíur fyrir Héraðsmótið innanhús back home, sem komu þrjú ár í röð.

Málið er það að á laugardaginn var 7. flokks knattspyrnumót í Reykjaneshöllinni þar sem ÍR sendi inn lið. Í raun sendi ÍR 4 lið, a, b, c og d. Eldri árgangurinn var í a og b liðunum og yngri árgangurinn var í c og d. Ísak Máni var í c liðinu eða spænsku deildinni eins og það var í raun kallað. ÍR áttu Stjörnuna í fyrsta leik og höfðu 4:0 sigur, Njarðvík í næsta leik sem vannst 2:0 og loks voru Keflvíkingar teknir í karphúsið, 6:0. Þetta þýddi einfaldlega að riðilinn vannst með markatöluna 12:0 og guttinn minn í vörn. Þá tóku við undanúrslit á móti Víkingum sem fór 0:0 en þar sem ÍR-ingar höfðu betri árangur í riðlinum sínum fengu þeir úrslitaleikinn við Grindavík. Úrslitaleikurinn var æsispennandi en eftir venjulegan leiktíma var staðan 0:0 og því þurfti að framlengja. Þegar 10 sekúndur voru eftir þá skoruðu ÍR og bikarinn varð því þeirra.



Auðvitað er þetta alltaf spurning hvort það eigi að hafa bikarverðlaun í 7.flokki. Allir þátttakendurnir fengu verðlaunapening en svo fékk sigurliðið í hverri deild þennan bikar. Það var líka broslegt að með hverjum sigurleiknum þá æstust foreldrarnir án þess þó að einhver væri að missa sig þarna. En það var greinilegt að eitthvað var orðið í húfi þegar lítið písl í liðinu vildi fá að reyna sig í marki í undanúrslitaleiknum því þá var það snögglega umlað í hel og málið var dautt, liðið yrði óbreytt. En þeir stóðu sig allir vel og flott hjá þeim að spila í gegnum svona mót á þess að fá á sig mark. Það voru þreyttir en sælir drengir sem yfirgáfu Reykjaneshöllina loksins um kvöldmatarleytið eftir stífan fótboltadag.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Fæðing snjóbrettaferils?

Nú líður senn að jólum og Ísak Máni datt í óskalistagírinn um daginn. Það var svona þetta týpíska: "Þetta dót og hitt dót, fótboltabúningar, DVD o.s.frv. Eitt sem kom svolítið við mig þegar hann var að láta mig skrifa þennan lista fyrir sig ... snjóbretti! Þá vissi ég að nú væri ég nánast kominn út í horn, nú þurfti ég að fara horfast í augu við það sem ég vissi að væri yfirvonandi. Þessi saga á sér forsögu og forsagan á sér forsögu.

Forforsagan er þannig að eina skiptið á ævinni sem ég hef farið á skíði, Bláfjöll þann 31. mars 1988. Fékk lánuð skíðin hjá systir hans Danna Mausara og fór tvær ferðir niður "brekkuna". Þetta var reyndar einhver útidúrsbrekka þarna og hallinn þarna þótti víst ekki merkilegur fyrir hinn almenna skíðamann, en þegar maður er bara 13 ára kjúklingur sem kann ekki að stoppa sig eftir að á ferðina er komið þá var þetta bara talsvert. Fór tvær bunur, sú fyrri endaði í byltu og sú síðari sömuleiðis en með meiri brothljóðum þó, á vinstri fótlegg. Til að gera langa forforsögu stutta þá kostaði þetta karlinn einhverjar 6 vikur í gifsi og fyrirheit um að skíðaferlinum væri lokið, jafnsnögglega og hann byrjaði.

Forsagan er svo sú að þegar ég var að vinna hjá GÁP fyrir einhverjum árum þá var keypti eigandinn Týnda hlekkinn sem þá hét og var á Laugarveginum. Týndi hlekkurinn var aðallega verslun með hjóla- og snjóbretti og þótti nokkuð öflug sem slík. Nóg um það, eitthvað af vörunum frá Hlekknum tókum við yfir í GÁP svona til að hafa upp á þær að bjóða. Þarna var maður farinn að handfjatla snjóbretti, bindingar, brettaskó og brettaföt og á tiltölulega stuttum tíma var ég farinn að sjá þetta í hillingum, mig sjálfan brunandi niður snævi þaktar brekkur, vindinn leikandi um andlitið og ferskt fjallaloftið fyllandi lungun. Það hafði líka sitt að segja að aðaldrengurinn hjá Hlekknum, svaka fínn gaur sem heitir Jói að mig minnir, var stöðugt að æsa mann upp í þetta. Það fór svo á endanum að ég ég skutlaðist til hans í búðina á Laugarveginum einn laugardagsmorgun og hann fann fyrir mig bretti, bindingar og skó, stillti þetta og græjaði allt fyrir mig. Ég fékk þetta fyrir tiltölulega lítinn pening og var bara helvíti sáttur við þetta allt. Svo kom hins vegar að því að finna tækifærið að prófa þessar græjur..humm... Málið var auðvitað það að ég þekkti engan forfallinn brettara og því dó þetta æði fljótlega, ég hætti hjá GÁP og brettið fór alltaf innar og innar í geymslunni, alveg ónotað. Brettahugleiðingarnar grófu sig aftur út úr undirmeðvitundinni þegar Ísak Máni var lítill undir þeim formerkjum að það væri nú gaman að vera fær um að standa nokkra metra á bretti þegar hann færi að komast á brettaaldurinn.

Hjá þessu verður sem sagt ekki komist mikið lengur. Ég var eitthvað að lýsa þessu fyrir Siggu um daginn og þessi elska var nú ekki lengi að finna lausn á þessu vandamáli. Ég ætti bara að fara í stóru brekkuna sem er hérna í hverfinu, við hliðina á skólanum og æfa mig. Nú veit ég ekki hver almenn afstaða við þessari hugmynd er en hvað mig varðar: NO FU#%ING WAY! Að ég ætli að fara í hverfisbrekkuna og hækka meðalaldurinn umtalsvert og lækka getustigið sömuleiðis... næsta hugmynd takk. En það er ljós þarna úti. Ég var nefnilega búinn að stefna að því að láta Ingu systir hennar Siggu kenna mér brettatökin því hún er eitthvað búin að vera fikta við þetta en þá tókst henni að fá þá flugu í höfuðið að það væri kannski sniðugt að búa í Danmörku í einhvern tíma og því hefur sú framkvæmd verið á bið. Hins vegar hefur heyrst að hún ætli að koma heim í janúar og vera í nokkrar vikur. Gefur okkur það að sveinki gefi stráknum bretti, Inga komi til landsins og brettið hennar sé í seilingarfjarlægð, spurning hvort þetta sé allt að smella saman? Það skildi þó aldrei vera að karlinn sé að fara að stunda vetraríþróttir eftir áramót? Maður þyrfti þó að drösla öllu liðinu upp í bíl og eitthvert upp í sveit til æfingar, allt til að losna við hverfisbrekkuna...

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Lasinn

Það er ýmislegt sem fer í taugarnar á mér en það er eitt sem mér finnst sérstaklega ömurlegt. Það er að vera veikur. Að vera veikur er gjörsamlega óþolandi fyrirbæri. Ég er búinn að vera með einhvern skít í mér í ca. 10 daga, þessa hefðbundnu haustflensu sem leggst yfir landann um þetta leyti. Það var svo núna á föstudaginn að ég versnaði til muna, lumpaðist samt í vinnuna en var að drepast í hálsinum. Kom svo heim og lagðist upp í sófa og síðan í framhaldi upp í rúm. Hálsinn var svo bólginn að þegar ég tók verkjartöflur þá hélt ég að þær myndu ekki komast niður. En ef ég hélt að þetta yrði ekki verra þá voru það falsvonir. Ég svaf ömurlega um nóttina og þegar ég fór fram úr um morguninn þá hélt ég að þetta væri mitt síðasta. Ég gat bara ekki talað, svona grínlaust, og það að kyngja munnvatni var meiriháttar átak. Tók þá ákvörðun að fara til læknis og sjá hvað kæmi út úr því. Fór á læknavaktina í Smáratorgi og var kominn rétt áður en stofan opnaði, ásamt nokkrum foreldrum sem voru að koma með sín fyrstu börn sem virtust ekki vera vitund lasinn þegar þau hlupu þarna um allt öskrandi og gargandi fyrir utan einn og einn hósta sem þau stundu upp. Konan í afgreiðslunni átti í erfiðleikum með að skilja mig þegar ég reyndi að rymja út úr mér kennitölunni og varð svo eins og asni þegar hún ýtti á vitlausan takka á lyklaborðinu og ég þurfti að kreista kennitölunni aftur út um bólginn barkann. Doktornum fannst réttast að setja mig á pensilín og gat þess að ég gæti botið pillurnar niður til að eiga auðveldara með að koma þeim niður. Þannig að laugardagurinn fór í sófalegu með Gatorade í annarri og fjarstýringuna í hinni. Muldi svo í mig eina og hálfa pítu í kvöldmatnum sem er sögulegt lágmark. Fannst eitthvað svo hljótt við kvöldverðarborðið og lét þess getið að sökum þessara verkja í hálsinum þá ætti ég í erfiðleikum með að tala. Mér sýndist örla við glotti þega Sigga leit þá á mig og sagði: “Þú verður þá bara að þegja...”

mánudagur, nóvember 14, 2005

Systkinafréttir

Helginni lokið og það fór aldrei að það yrði ekki eitthvað fréttnæmt sem gerðist þessa helgina. Jóhanna og Elli fengu viðurkenningu fyrir gistiheimilið hjá sér, skelltu sér í bæinn og tóku í spaðann á Stullu Bö og allt. Þau eru að gera gott mót.

Svo hringdi Villi bróðir í mig og tjáði mér að hann væri búinn að segja upp hjá Háskólanum í Reykjavík og væri að snúa aftur til starfa hjá fyrrverandi atvinnurekanda sínum. Neibb, ekki var það Egils Ölgerðin eins og back in the 80´s heldur er kappinn að snúa aftur til Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Jebb, karlinn er að fara aftur til Namibíu! Og þetta er bara að bresta á, hann og Tinna Rut fara út núna um áramótin en ætli restin af fjölskyldunni fari ekki út síðan næsta sumar, spurning með Dagmar. Þetta er greinilega allt frekar óljóst og verður greinilega spilað af fingrum fram. Fjölskyldan tók rúntinn í Grundó á laugardeginum til að tilkynna mömmu þetta og meira að segja Dagmar fór með en það gerðist líklega síðast þegar þau tóku rúntinn til að tilkynna um komu Rúnars Atla í heiminn. Þannig að mamma veit núna að þegar öll fjölskyldan kemur ofan af Skaga með Dagmar í för þá er von á sprengju :)

Ég hef aldrei dottið í þennan gír að búa erlendis, en Villi er náttúrulega búinn að vera meira og minna í þessum pakka síðan 1988 eða 1989 og Jóhanna býr á Suðureyri við Súgandafjörð sem er svona eiginlega útlönd. Ef þetta er þangað sem hugurinn stefnir stökktu þá af stað, lífið er of stutt.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Malarvöllurinn vekur upp minningar

Ég heyrði af ungum knattspyrnumanni, ca 14 ára, sem spilar með yngri flokki hjá einum fótboltaklúbbi hér í bæ. Hann lenti í hræðilegu máli núna undir lok sumars með liðinu sínu. Hann þurfti að spila leik á malarvelli! Það var nokkuð sem hann hafði aldrei lent í á sínum ferli og af lýsingunum að dæma var þetta það versta sem hann hafði lent í. Datt í þokkabót og hruflaði á sér hnéð og fékk sand og smásteina í sárið, sem sagt hörmuleg lífsreynsla. Ég sé það líka núna þegar ég fylgist með Ísaki Máni og fótboltaferlinum hans þá eru þessir guttar hjá ÍR að æfa á flottu grasi og gervigrasi og spila svo mót í Reykjanes- eða Egilshöllinni. Sem er hið besta mál allt saman, flott að hægt sé að hafa toppaðstæður fyrir þessa krakka.

Ég tel mig ekki vera gamlan mann (Jóhanna systir myndi segja það vera misskilning) en maður æfði og spilaði stærstan hluta sinn yngri flokka feril á malarvöllum og kom svona nokkuð heill út úr því. Mér þótti sagan af unga, hruflaða knattspyrnumanninum krúttlega brosleg og jafnframt minnti mig á það hvað mikið hefur breyst á ekki lengri tíma.

• Ég man þegar það þótti eðlilegt að 10-11 ára guttar spiluðu í 11 manna liði á knattspyrnuvelli í fullri stærð. Á malarvelli að sjálfsögðu.

• Ég man þegar það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum og allan júlí mánuð.

• Ég man þegar það voru engir gemsar til eða númerabirtar. Þú svaraðir bara í símann og hafðir ekki hugmynd um hver var hinumegin á línunni, spáið í því.

• Ég lærði mína lyklaborðakunnáttu á TA Gabriele 7007L. Nei það er ekki gömul tölva heldur ritvél, já ritvél.

• Ég man þegar það var algengt að í fjölskyldubílunum væru engin bílbelti í aftursætunum.

• Fyrsti bíllinn minn var með gömlu númeraplötunum.

• Ég man þegar geisladiskarnir komu á markaðinn.

• Ég man þegar engum datt í hug að í Tomma og Jenna væri undirkraumandi kattahatur. Málið var bara að kötturinn fékk oftast á baukinn og það var bara einfaldlega fyndið.

• Ég man þegar afgreiðslufólkið á kössunum í matvörubúðunum sló handvirkt inn öll verðin á vörunum sem ég var að kaupa.

• Ég man þegar Norræna húsið stóð eitt og sér nánast úti í sveit.

• Ég man þegar markmenn í fótbolta máttu taka við sendingu frá samherja með höndunum.

• Ég man þegar það var algengt að búðir væru lokaðar um helgar.

• Ég man þegar maður fékk handskrifuð bréf frá ættingjum í útlöndum og handskrifaði svarbréf til baka.

• Ég man þegar maður fór til útlanda þá labbaði maður út úr flugstöðinni, út á flugbrautarsvæðið og upp stiga upp í vélina.

• Ég man þegar allir voru með 8 stafa nafnnúmer.

• Ég man þegar enginn var hetró, metró eða bi.

Veit ekki hvort það sé hægt að segja að maður muni tímanna tvenna en það er svona eitt og annað sem hefur breytst síðan ég komst til vits og ára.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Góðir hlutir

Góður hlutur 1: Mér tókst loksins að reka af mér slyðruorðið með þetta myndaalbúm og náði loksins að setja fleiri myndir inn eftir u.þ.b. mánaðarstíflu. Ég hafði ekki sett inn myndir eftir þessar breytingar sem urðu á albúminu þannig að ég þurfti að digga þetta allt uppá nýtt. Vona að það hafi tekist vel.

Góður hlutur 2: Skápahurðirnar komu loksins í IKEA og eru komnar á sinn stað, tær snilld! Ég er samt ekki á leiðinni í IKEA alveg á næstunni.

föstudagur, október 28, 2005

Fjörusteinar og fiskabúr vs. Nokia 5110

Er búinn að vera frekar slæmur í bakinu síðan í sumar, veit ekki alveg hvort þetta kallast skúringarmeiðsli en allavega var þetta þannig að ég vaknaði frekar slæmur daginn eftir að hafa verið að skúra heima hjá mér. Það má alveg færa rök fyrir því að ég hafi ekki verið í æfingu. Þetta hefur verið þannig að ég vakna alveg ónýtur á morgnanna en verð svo betri þegar ég fer að hreyfa mig. Maður fór svo til læknis sem henti í manni verkjalyf og lét svo fylgja: “Komdu aftur ef þú sérð ekki mun á þér eftir 10 daga - 2 vikur”. Tíminn leið og maður taldi sér trú um það að þessi vika væri betri en sú síðasta o.s.frv. Annars var þetta ekkert að hamla mér í þessu daglega lífi, ég missti ekkert úr vinnu og gat svona stundað minn fótbolta þótt að ég fyndi að ég væri ekki alveg heill. Svo gerðist það í síðustu viku að ég er í fótbolta og finn talsverðan verk í seinni hlutanum á tímanum og daginn eftir... úff. Þegar ég vaknaði daginn eftir þurfti ég næstum því að kalla á Siggu til að klæða mig í sokkana! Ég sá að þetta þýddi ekkert, nú væri kominn tími á aðgerðir. Ég var búinn að fara þessa hefðbundnu læknaleið svo þá var bara að fara í kírópraktorinn a.k.a. hnykkjari. Það er nokkuð sem ég hafði prufað áður með svona ágætisárangri. Sá hafði hins vegar ekki tekið neinar myndir af bakinu á mér eða neitt svoleiðis en núna var ég ákveðinn í að fara til einhvers sem myndi gera það. Tengdó er hjá einum sem ég ákvað að hringja í en vissi reyndar fyrirfram að það yrði erfitt að fá tíma hjá honum. Ég lét reyna á það og komst að því að “erfitt” var eiginlega ekki nógu sterkt lýsingarorð. Ég gæti komist að í febrúar (þó 2006) en þar sem sú sem svaraði í símann var ekki komin með tímaplan fyrir febrúar þá þyrfti ég að hringja aftur í lok þessa mánaðar til að geta fengið tíma í febrúar! Hóf ég þá smá raunarsögu og fór að ýja að því að ég gæti alveg verið á svona stand-by ef það losnaði einhver tími með stuttum fyrirvara. Símadaman lét ekki slá sig út af laginu og hafði greinilega heyrt þetta allt saman áður en gerði mér það ljóst að jú, það væri biðlisti fyrir þá sem að þyrftu lífsins nauðsynlega að komast að, en sá listi væri orðinn svo langur að hún væri eiginlega hætt að taka niður nöfn á hann. Til að rjúfa þögnina sem myndaðist mín megin á línunni þá bauðst hún til að gefa mér nafnið á öðrum hnykkjara sem að tæki myndir ef það væri það sem ég væri að spá í. Ég tók það fegins hendi og fékk tíma hjá honum í dag sem sagt (ég neita að hugsa um það af hverju ég fékk tíma hjá þessum í dag en hefði þurft að bíða fram í febrúar hjá hinum).

Reynsla mín af hnykkjurum er, eins og fram kom áðan, ekki mikil en var fyrir daginn í dag bundin einum manni. Flottur karl með mjög einfalda umgjörð svo ekki sé meira sagt. Engin símadama, sér sjálfur um allar sínar bókanir í gegnum Nokia 5110 símann sinn. Engin kortaviðskipti, komir þú vopnaður einu slíku er þér vinsamlega bent á hraðbankann sem er í sama húsi. Ef húsgögnin gætu talað hefðu þau eflaust frá einu og öðru að segja því þau líta út fyrir að muna tímann tvenna. Svei mér þá ég held að karlinn skúri sjálfur stofuna...
Þegar ég opnaði dyrnar á stofunni hjá nýja hnykkjaranum var það fyrsta sem ég sá, risastórt fiskabúr í horninu á setustofunni og risastór leðurhornsófi. Við móttökuborðið var kona sem bauð mig velkominn og bað mig um að fylla út smá spurningalista. Á gangnum inn á stofuna hjá honum voru veggljós neðarlega á veggnum sem lýstu því vel upp einhverja fjörusteina sem voru meðfram veggnum inn ganginn. Svo kom hnykkjarinn sjálfur, ungur maður eins og klipptur út úr tískublaði. Hann vísaði mér inn á stofuna sem leit mjög vel út, við ræddum aðeins um bök og hryggjarsúlur en að því loknu var mér vísað á annað herbergi þar sem ég fékk slopp og allt var voða “hipp og kúl”. Á þeim tímapunti var mér það ljóst að það hafði verið sterkur leikur hjá mér að fara í hreina sokkar áður en ég kom, mjög sterkur. Niðurstaðan hjá þessum ágæta manni var sú að neðstu hryggjarliðirnir hjá mér eru svolítið framarlega, sem geta valdið bólgum og gera það að verkum að ég er eins og ég er. En hann ætlar að taka mig í stíft prógramm næstu 4-6 vikurnar þar sem ég kem til hans svona 3svar í viku og sjá hvort það er ekki hægt að kippa karlinum í lag.

Niðurstaðan úr þessu er ekki sú að fjörusteinar og fiskabúr sé málið en Nokia 5110 sé úti. Mér fannst bara sniðugt að sjá hvað þessar tvær stofur, sem innihalda sömu starfsemina, eru ólíkar. Alveg eins og dagur og nótt. En eins og alltaf þá snýst þetta ekki um umbúðir heldur innihald, annað ekki.

sunnudagur, október 23, 2005

Megi jólamátturinn vera með þér

Nálgast lok október og ég er kominn í jólagjafapælingar! Skrítið? Kannski ekki þegar litið er á það að ég á nú tvo stráka, 6 ára og 1 1/2 árs, eða mér finnst það alla vega ekki svona þegar ég fer að spá í það. Það er nú ekki svo rosalega langt síðan ég var gutti, rétt að nálgast tvítugt núna, og maður þarf að kynna sér hvað er það heitasta í Star Wars dóti eða hvar maður fær flottustu fótboltabúningana. Spái í það hvernig það væri ef ég ætti stelpu, væri sama stemmingin að kíkja á Bratz-dúkkurnar? ... Held ekki svona ef ég á að vera alveg heiðarlegur, það væri a.m.k. öðruvísi. Þetta er líka ekki sanngjarn samanburður, ég meina maður lék sér sjálfur að Han Solo og félögum og horfði á þetta jafn dáleiddur og Ísak Máni gerir núna. Sem er svolítið ótrúlegt, ég meina gömlu myndirnar eru 25-30 ára gamlar. Það segir okkur að þessar myndir voru algjört snilldarverk á sínum tíma og hafa staðist tímans tönn en það er efni í annan pistil.

miðvikudagur, október 19, 2005

Er ekki kominn tími til að kíkja í IKEA?

Ég er þreyttur...svo þreyttur á IKEA að ég þyrfti líklega að lúlla í heila öld til að vera endurnærður á ný. Málið er að við konan keyptum okkur hillusamstæðu í vor í fyrrnefndri verslun nema það að við ætluðum að hafa glerhurðir á samstæðunni. Þessar glerhurðir voru reyndar ekki til en væntanlegar þótt ekki væri hægt að segja hvenær það yrði. Leið og beið og aldrei komu helv... hurðirnar, þangað til að einhver starfsmaður guppaði því út úr sér að líklega myndi ekkert gerast í þessu máli fyrr en að nýji IKEA bæklingurinn kæmi út í haust því að þessar hurðir væru núna að koma í stykkjatali en höfðu alltaf komið í pörum! Anyway, þetta er búið að kosta fleiri ferðir í IKEA en mig hefur langað í. Hurðir hafa stundum verið væntanlegar eftir 4 vikur, 3 vikur, 2 vikur eða í næstu viku en aldrei koma helvítis hurðirnar. Botninum var svo náð þegar einn af starfsmönnunum í einni ferðinni bauðst til að setja okkur á lista þar sem yrði hringt í okkur þegar hurðirnar væru komnar. Ekki það að það væri í sjálfu sér slæmt heldur það að núna í vikubyrjun var hringt í mig frá IKEA og mér tilkynnt að hurðirnar sem ég væri að bíða eftir væru komnar. Frábært! Meiriháttar! ...eða hvað? Ég brunaði niður í sjoppuna strax eftir vinnu, reyndar með eitthvað drasl í bílnum en mér var alveg sama, ég ætlaði bara að versla þessar hurðir og ekkert kjaftæði, það yrði seinnitímavandamál hvernig ég myndi koma þeim í bílinn. Í minni einfeldni hélt ég í alvöru að sagan endalausa væri í raun að enda ... mín mistök. Í ljós kom að það voru ekki hurðirnar sem ég vildi sem voru komnar heldur sambærilegar hurðir úr einhverju öðru efni og öðruvísi á litinn. Ég held að IKEA samsteypan hefði alveg eins getað lamið mig í hausinn með gegnheilu stálröri til að framkalla þær tilfinningar sem brustu út þegar þetta var ljóst. Þegar starfsmaðurinn sá vonarljósið í augunum á mér slokkna fann hann sig knúinn til að kíkja betur á þetta í tölvunni og vildi fullvissa mig um að hluti af sendingunni sem væri í pöntun kæmi hérna í næstu viku. Ringlaður, svekktur og sár hélt ég út í rigninguna og tókst með naumindum að komast heim. Daginn eftir mundi ég eftir því að í öllum vonbrigðunum deginum áður hefði mér láðst að láta hringja í mig aftur þegar hurðirnar kæmu (eða ekki) svo ég herti mig upp og var mættur aftur til að ganga frá því máli. Sá starfsmaður þurfti því miður að tilkynna mér að þessar hurðir væru sjálfsafgreiðsluvara og það væri eiginlega búið að taka fyrir þessa þjónustu að hringja í fólk þegar þessháttar vörur kæmu. “En þetta er að koma í næstu viku?” stundi ég upp á meðan ég reyndi að stoppa mig í því að rífa pennann sem var á borðinu og reka starfsmanninn á hol. Starfsmaðurinn kíkti betur á þetta í tölvunni og sagði svo: “Það eru a.m.k. 2 vikur í þessar hurðir...”

föstudagur, október 14, 2005

Byrjunin

Jæja, prófum þetta helv... og sjáum hvað gerist. Sannleikurinn er nú reyndar sá að ég græjaði þessa síðu í sumar en gerði svo ekkert meira en það. Svo fékk Sigga sér síðu og bloggar alltaf öðru hvoru þannig að ég ætla að testa þetta. Það verður bara að koma í ljós hvort maður er einhver maður í þetta eða hvort þetta deyr bara út en takmarkið er hins vegar að gera betur en sumir sem urðu á vegi mínum í leit minni að urli. Þessi er ekkert að gera neina sérstaka hluti eða þá þessi hvað þá þessi. Byrjum á að bæta svona "árangur" og sjáum svo til.