miðvikudagur, desember 29, 2010

Gjöfin sem týndist

Menn virðast þokkalega sáttir með gjöfina sem týndist. Það er ekki annað hægt en að reyna aðeins að af-Svía drenginn.

sunnudagur, desember 26, 2010

Jólagjafir í notkun


Skítaveður úti og allir að reyna að slaka á svona annan dag jóla. Það var því vel við hæfi að prufa eitthvað af jólagjöfunum. Sjúklingurinn var nokkuð sáttur með þetta, svona á 21. mánaðar afmælinu sínu. Það verða svo pizzur eftir helgina.

laugardagur, desember 25, 2010

Jólin þetta árið

Jóladagur að kveldi kominn. Gærdagurinn, þ.e. aðfangadagur, gekk alveg ágætlega fyrir sig. Daði Steinn er reyndar búinn að vera hálfdruslulegur síðustu daga, vikur reyndar og eitthvað var spennustigið rangt stillt því hann var ófáanlegur til að taka sinn hefðbundna lúr þennan mikla pakkadag. Hann var þó alveg í þokkalegum gír þegar pökkunum var slátrað en fékk að skríða upp í bælið þegar örfáir pakkar voru eftir enda búinn að fá nóg.


Heilt yfir voru allir sáttir bara, Logi Snær var nú eitthvað aðeins að kommenta á hlutfallið á milli fata og leikfanga, fannst eitthvað halla á síðari liðinn en var samt þegar allt er tekið með mjög sáttur með þetta. Ég er hinsvegar kominn með athyglisvert vandamál, hrærivél í fyrra og pizzaofn og vöfflujárn í ár. Maður verður að fara stækka við sig.

Jóladagurinn byrjaði á hefðbundinn hátt, stefnt á hangikjöt í Mosó eins og venjan er. Daði Steinn tók þá upp á því að sýna fullmikil lasleikamerki og mamman tók bíltúr upp á Læknavaktina og í framhaldi svo upp á Barnaspítala. Drengurinn með einhverja vírusdrullu og fékk uppáskrifað púst og stera. Magnaður kokteill. Við hinir mættum í veisluna fyrir hönd fjölskyldunnar en Sigga þurfti því að láta sér hangikjötið nægja upp úr dollunni heima í Breiðholtinu þegar sjúkraskutlinu var lokið. Þó að bragðið hafi verið það sama þá grunar mig að eitthvað hafi vantað upp á stemminguna, ekkert fjölskyldu-mingl hjá henni. En það er ekki spurt að því hvort það séu jólin þegar veikindi eru annars vegar. Drengurinn hlýtur samt að fara að skríða saman.

Jæja, Miami - Lakers að fara byrja...

sunnudagur, desember 19, 2010

Mjúkt verður hart með miklum hausverk

Fimm dagar til jóla og það er verið að cut-a niður to-do-listann. Eitthvað er verið að pakka inn og í dag fóru einhverjir pakkar út úr húsi og aðrir komu inn í staðinn. Svo var það þegar ég var að pakka inn að ég fór að svipast eftir einni gjöf handa litlum frænda. Greip í tómt þegar ég ætlaði að nálgast hana á þeim stað sem ég hélt að hún væri á. Klóraði mér í hausnum og fór í nánari rannsóknarvinnu. Eftir að hafa skimað á líklegum stöðum var ég enn tómhentur og ekki alveg farið að standa á sama. Áhyggjurnar jukust svo til muna þegar konan fór að tengja þetta við nokkra-poka-ferð mína á Sorpu um daginn þar sem ýmislegt fékk að fjúka.

Það var því ekki annað hægt en að fara í þetta af fullum þunga, fór í gegnum alla fataskápa og skúffur á heimilinu, allar hillur í útifataskápnum og þvottahúsinu. Eldhúsið og stofan voru grandskoðuð í kjölfarið en árangurinn varð enginn. Stemmingin var, þegar hér var komið við sögu, í sögulegu lágmarki og ég sá fyrir mér einhvern rekast á þennan ónotaða hlut, með skilamiðanum og öllu, á spottprís í Góða hirðinum eða í þessum Rauða kross-búðum.

Þetta var svo sem ekki spurning um tugi þúsunda en það marga þúsundkalla að maður íhugaði af fullri alvöru hver næstu skref yrðu. Átti maður að hringja í Sorpu eins og geðsjúklingur og fá að fara í gegnum eins og tvo gáma af ruslapokum? Líklega væri best að halda einhverjum hluta af sjálfsvirðingunni og sleppa því símtali. Eitthvað skárra væri að fara og kaupa nýja grip. Reyndar keypti ég þetta í verslun þar sem kunningi minn er að vinna. Ég þyrfti þá að gera upp með mér hvort ég kæmi með einhverja góða sögu, hvers vegna ég þyrfti annan svona grip, eða leggði einfaldlega spilin á borðið og viðurkenndi kjánaskap minn. Draumurinn í þeirri útfærslu væri að ég fyndi frumeintakið sama dag og ég verslaði hið síðara og gæti þá bara farið og skipt öðru eintakinu.

Ætli ég hafi ekki verið að byrja á fjórðu yfirferðinni um íbúðina þegar konan kemur til mín, hálfskömmustuleg, með lítinn pappakassa undir höndum. Kom þá í ljós að fyrir einhverjum dögum síðan þegar þessi gjöf, sem ein og sér yrði mjúkur pakki, var að þvælast á borðstofuborðinu fannst frúnni tilvalið að smella henni ofan í tóman pappakassa sem hún þurftir að losa sér við og umbreyta þessari gjöf í leiðinni í harðan pakka. Kassanum stakk hún svo inn í skáp. Útlit hans tókst að blekkja mig svo rosalega að ég álpaðist ekki til að athuga það, þótt ég hafi íhugað það, líklega í annarrri yfirferðinni.

Rosalega var mér létt.

fimmtudagur, desember 16, 2010

Á eftir áætlun

Engin sérstök jólastemming hérna. Engin sérstök stemming almennt ef út í það er farið. Daði Steinn er búinn að vera berjast við einhverja pest og hefur því verið í stofufangelsi það sem af er vikunni og klárar hana bara heima úr þessu.

Annars er ég að uppgötva að jólin eru alveg að detta á og ég hef hvergi nærri lokið störfum í undirbúningsvinnu. Samt byrjaði ég snemma að huga að hinum ýmsu málum en ég virðist hafa dottið í þá gryfju að halda að það væri nóg að byrja á verkefninu, restin hlyti að koma af sjálfu sér. Svo er ekki raunin.

Kannski vantar bara snjó.

laugardagur, desember 11, 2010

Punktur til viðskiptabanka míns

Þið eruð nú meiru pappakassarnir. Þegar ég lít til baka yfir síðustu ár er kannski helst eitt atriði sem þið hafið gert til að gleðja mitt litla, einfalda barnshjarta. Það varð meira að segja efni í pistil hérna um árið, svo glaður var ég. Hálfsorglegur kannski en eins og fyrr segir frekar einfaldur.

Allt í rugli í kerfinu, skuldaafskriftir hægri vinstri hjá gömlu útrásarplebbunum en við hin sem áttum kannski skitinn 200 þúsund kall á einhverjum prumpreikning fengum bara lækkun verðbóta upp í ósmurðan afturendann.

Ég, þessi einfaldi, hélt hinsvegar áfram að brosa enda með ÍR-kortið mitt og fannst það bara æðislegt. A.m.k. þann hluta mánaðarins þegar ég átti eitthvað inná því. Maður fékk svona allskonar komment frá allskonar afgreiðslufólki þegar maður dró gripinn fram, þetta var svolítið gaman bara.

En ekki lengur. Neibb. Fékk eitthvað þurrt, staðlað bréf þar sem mér var tilkynnt að þessi þjónusta væri ekki lengur í boði. Og í kjölfarið fékk ég eitthvað steingelt, hrútleiðinlegt og staðlað kort. Sem ég fékk svo ofan á allt 1000 kr rukkun í heimabankann þegar heim var komið án þess að nokkur minntist á það í ferlinu, framleiðslukostnaður sko. Eru menn ekki í bisness hérna? Þið hefðu örugglega geta selt mér, þessum einfalda, ÍR-kort fyrir eitthvað hærri upphæð.

Takk annars fyrir allt.

sunnudagur, desember 05, 2010

Ein ástæða þess að við eigum ekki bústað

Helgin hvarf eins snögglega og hún birtist. ÍR hélt körfuboltamót fyrir yngstu flokkana og Ísak Máni var að keppa á sunnudeginum. Ég tók hins vegar að mér að taka myndir af öllum liðunum við verðlaunaafhendinguna og þurfti því að verða mættur upp í íþróttahúsið í Seljaskóla á laugardeginum um hádegisbil og var með viðveru þar til klukkan 17. Áður var Ísak Máni að spila á jólatónleikum upp í Seljakirkju sem byrjuðu klukkan 10, við náðum því að vera öll þar. Hann var svo að spila æfingaleik í fótbolta við KR eftir hádegið en þurfti að sjá um það sjálfur því ég var í fyrrgreindu verkefni og mamma hans var með tvo yngri heima enda varla forsvaranlegt að spóka um með lítil börn í -7 gráðum ef hægt er að komast hjá því.


Á sunnudeginum hélt ég áfram verkefni mínu, aðeins skemmtilegra því nú átti maður a.m.k. grísling á svæðinu og að auki var sunnudagurinn aðeins minni í sniðum miðað við laugardaginn. Konan kíkti með tvo yngstu og náði fyrsta leiknum hjá Ísaki en svo þurfti hún að bruna upp í Fífuna í Kópavogi en þar átti Logi Snær að spila fótbolta. Einhversstaðar í þessu ferli öllu þurfti Daði Steinn svo lúrinn sinn. Við Ísak Máni brunuðum svo úr Seljaskóla niður í Fífuna strax eftir körfuboltamótið en þegar við komum á staðinn var Logi Snær búinn að ljúka leik. Skemmtilegt til þess að hugsa að þetta var þriðja helgin í röð sem við eigum erindi í Fífuna sökum íþróttaiðkun drengjanna og þær verða a.m.k. fjórar þar sem Logi Snær á að keppa aftur þá.

Maður kvartar þó ekki yfir verkefnaleysi á meðan.