miðvikudagur, maí 27, 2009

Happy birthday...

Þegar það var ljóst að úrslitaleikur meistaradeildarinnar yrði á afmælisdeginum mínum og spilaður á Ólympíuvellinum í Róm þá hefði ég klárlega hugsað það af fullri alvöru að fara á leikinn. Ef árið hefði verið 2007 það er. Tala nú ekki um þegar ljóst varð að Manchester United myndi spila úrslitaleikinn.

En þar sem árið var 2009 og kreppa í gangi var víst ekki annað hægt en að sitja heima. Kannski eins gott, 2:0 tap sem var meira en verðskuldað gerði ekkert sérstakt fyrir afmælisstemminguna hérna. En Eiður fékk gullmedalíu, íslendingur með svona verðlaun er væntanlega nokkuð sem gerist ekki í bráð.

Hann hefði nú samt alveg mátt koma inná þótt ekki væri nema bara í nokkrar mínútur bara svona til að lagfæra stemminguna aðeins hérna heima í sófanum.

sunnudagur, maí 24, 2009

Daði Steinn Wíum


Þá er loksins komið nafn á nýjasta drenginn, skjalfest í dag með presti og veislu. Ég veit ekki hvort maður verður afslappaðri (lesist: kærulausari) með árunum en þessi þurfti klárlega að bíða lengst eftir nafninu sínu. Mig minnir að það hafi verið búið að nefna Ísak Mána áður en hann kom heim af spítalanum og Loga Snæ fljótlega eftir heimkomuna. Ég var ekkert búinn að spá í nafni á meðan meðgöngunni stóð og eftir að menn komu í heiminn þá liðu dagarnir einn af öðrum án þess að eitthvað væri að gert af fullri alvöru. Snúlli og Litli bróðir voru bara vel brúkleg.

Það var því sterkasti leikurinn að ákveða skírnardag og setja sig þar með undir pressu. Þegar maður horfði á dagatalið og sá að afmælisdagurinn hans Varða var á næsta leyti og sunnudagur í þokkabót þá var þetta bara sjálfkjörið. Núna var þetta að því leytinu frábrugðið frá hinum tveimur að enginn fékk að vita um nafnið fyrir afhöfnina, gaman að prófa það líka. Annað var hefðbundið með veisluna, hinn þriðji sem skírist heima hjá afa og ömmu í Mosó.

Þegar við vorum að leita að nafni fyrir Ísak Mána þá fór maður á bókasafnið og fékk einhverja mannanafnabók. Nú, 10 árum seinna, er hægt að nálgast þetta á netinu. Gaman að velta sér upp úr þessu, maður hefði getað poppað þetta upp allhressilega og farið nýjar leiðir. Lars Ulrich Wíum hefði t.d. verið löglegt, heilmikið rokk í því. Ríó Ferdinand Wíum hefði víst líka gengið gagnvart mannanafnanefnd. Logi Snær var alveg á því að skýra hann Dreki og maður gat nú ekki annað en hugsað um sögurnar um Benedikt búálf, sem hafa verið lesnar talsvert hérna í gegnum tíðina, en þar kemur Daði dreki talsvert við sögu. Furðulegt en hey, ef Ljótur Drengur er boðlegt samkvæmt þessu skriffinskubatteríi, þá hefði víst margt annað verið vitlausara.

Annars brutum við 4 stafir + 4 stafir regluna með þennan. Hann fékk fleiri stafi en Ísak Máni og Logi Snær en ekki annað hægt en að gera eitthvað extra fyrir þennan, ekki á ég sérherbergi handa honum. Það er svona að mæta seint á svæðið.

fimmtudagur, maí 21, 2009

Byrjendapakkinn

Vitaskuld vilja menn safna fótbolta- og körfuboltamyndum eins og stóru strákarnir. Verst að þetta gerir mjög takmarkað fyrir stemminguna á heimilinu þegar þessi fær þessa mynd og hinn fær hina myndina og skilningurinn á aðgerðinni að býtta er ekki alveg 100% þegar maður er bara fimm ára.

sunnudagur, maí 17, 2009

Nördalegur júróvisíonpistill

Það er ekki hægt að neita þeirri staðreynd að ég hef fylgst með Júróvisíonkeppninni síðan 1986. Misítarlega reyndar. Held ég geti sagt að „áhuginn“ hafi verið mestur þarna fyrstu árin sem Ísland tók þátt og svo hefur þetta verið frekar misjafnt. Danni Mausari átti einhverja sérútgáfu af ICY flokknum á svona lítilli plötu, árituð í þokkabót og það fannst mér flott, árið 1986. Ég var ekki alveg að setja mig inn í þetta þegar Ísland fékk ekki að taka þátt vegna ónógra stiga áranna á undan eða ekki komist í úrslitakvöldið eins og kerfið hefur verið undir það síðasta. Vill enn meina að Botnleðja hafi klárlega átt að fara þegar við sendum hana sykursætu Birgittu.

Ætli punkturinn með þetta allt saman sé ekki sá að þetta er keppni og Ísland er að taka þátt í henni. Veit ekki annars, voða lítið af þessum froðulögum sem hafa kveikt eitthvað í manni öll þessi ár. Fór að velta því fyrir mér hvort þetta hafi alltaf verið svona rosalega mikil froða og hvort maður myndi nú eitthvað eftir lögum fyrri ára. Fyrir svoleiðis vinnu er gott að hafa netið.

Ég verð að viðurkenna að þessi úttekt er alls ekki vísindalega unnin enda ekki sjéns að ég nenni að kynna mér öll lögin í sögu þessara keppni. En þau tvö lög sem ég vil nefna hérna sem mér finnst standa upp úr, voru bæði ítölsk og unnu hvorugt. Þessi klassíska snilld frá 1958 er mjög töff miðað við allt en endaði bara í 3ja sæti. Ég jútúbaði sigurlagið frá þessu ári og get ekki sagt að ég hafi nokkurn tíma heyrt það áður. Síðara dæmið frá 1987 finnst mér líka töff en því tókst ekki að vinna og meira að segja 3ja sætið líka. OK, áttu í höggi við írska sykurpúðann Johnny Logan og lítið við því að segja. En þegar ég fór að forvitnast hvað lag lenti í öðru sæti þetta ár, fyrir ofan Ítalíu þá minnti það mann á hversu mikill horbjóður þessi lög eru að langmestu leyti. Þýskaland árið 1987, þarf að segja eitthvað meira? Þið verðið að tjékka á þessu, ég veit ekki hvort tekur sig verr út, gítarleikarinn með gula hárbandið og buxur í stíl eða standandi trommuleikarinn með 4-faldan skammt af axlarpúðum. Ég er enn að fá martraðir. Annað sæti, þvílíkt grín.

Jóhanna Guðrún með annað sætið í gær, ekkert nema gott um það að segja. Helv... norsara lagið er búið að gera mig alveg geðveikan, glymur allan daginn á öllum miðlum og ég tók næstum því á það ráð að stinga hausnum ofan í klósettið og sturta niður til að athuga hvort ég losnaði við þetta klístur úr hausnum. Óþolandi að fá óþolandi klístur á heilann. Ég gerði þá uppgötvun í morgun í tengslum við þessa keppni að árið sem frumburðurinn fæddist og árið sem sá nýjasti fæddist urðum við í öðru sæti. Ekkert að marka með árið sem Logi Snær fæddist, ekki hægt að ætlast til að viðbjóðurinn Heaven með Jónsa hefði skilað okkur nokkru meira en 19. sætinu sem það lenti í, óbjóðandi lag með öllu.

fimmtudagur, maí 14, 2009

Keila

Sigga var með saumó í gær, danski leshringurinn er víst vinnuheiti þeirra. Þrír elstu karlkyns meðlimir þessarar fjölskyldu mátu stöðuna þannig að best væri að vera einhversstaðar annarsstaðar á meðan. Í Keiluhöllin í Öskjuhlíð var því haldið en ákveðið að bjóða með þeim ættingja sem ég held að geti státað af hvað glæstustum ferli í þessu sporti.


Logi Snær tók rennuna (eða hvað sem þetta tæki heitir) trausta taki og spilaði með þeim stíl allt kvöldið. Með ágætis árangri. Fyrrverandi Íslandsmeistarinn byrjaði frekar stiðlega og benti á þá staðreynd (oftar en einu sinni) að það væru engar keilubrautir í Namibíu og því væri æfingaleysið að hrjá hana. Engar keilubrautir í Namibíu, þarna er viðskiptahugmynd fyrir einhvern.

Allavega, karlinn tók þetta á lokasprettinum og var sá eini sem náði þriggja stiga skori sem er, fyrir þá sem ekki þekkja, GRÍÐARLEGA góður árangur og ekki á allra færi.

miðvikudagur, maí 13, 2009

Hver þykir sinn fugl fagur

Myndlistarsýning í gangi í Mjóddinni sem hófst núna á dögunum. Svona hefðbundin og árviss þar sem krakkarnir á leikskólunum í neðra-Breiðholtinu sýna verkin sín. Ég náði að skjótast þangað og vera við "opnun" sýningarinnar. Mér fannst myndin hans Loga ansi mögnuð og töff. Hlutlaust mat vitaskuld.


Svo var það samtalið um daginn sem átti sér stað í bílnum á leiðinni heim úr leikskólanum og fjallaði um sumarbústaðaeigendur í Afríku:

Logi Snær: Ég veit hver á heima þarna í stóra húsinu (bendir á Æsufellið)
Pabbi hans: Nú, hver?
Logi Snær: Hann Rúnar Atli. Hitt húsið er nefnilega sumarbústaður.
Pabbi hans: Hitt húsið? Hvaða hitt hús?
Logi Snær: Húsið hans í Namibíu.

Jebbs, það er bara þannig.

Allt búið að vera á fullu

Vá hvað tíminn líður, þetta er bara nett rugl. Sem fyrr verður það þannig víst að haustið verður komið áður en maður veit af. En best að missa sig ekki í eitthvað eymd og volæði, frekar bara taka hvern dag og njóta hans í botn og taka sumarið með trompi. Skáldlegur karlinn.

Skólanum lauk í bili 4. maí og boy-o-boy var ég feginn, ég ætlaði ekki að trúa þessu. Ég veit ekki á hvaða lyfjum maður var þegar maður ákvað að vera á fullu í skólanum þegar Þriðji grís átti að mæta á svæðið og mætti á svæðið. Ég var líka alveg að missa það þarna undir lokin þegar skilin á einstaklingsverkefninu og hópverkefninu og síðasta prófið helltist yfir mann eins og sjóðandi álblanda á heitum sumardegi. Skáldlegur karlinn.

Nú er enginn skóli fyrr en 30. september ef ég man rétt þannig að bara chill þangað til. Minnir að ég sé að fara í sumarfrí 15. júní og sé í fríi eitthvað aðeins fram í júlí. Við Ísak Máni á leiðinni til Vestmannaeyja með 6. flokk ÍR í sumar, það verður vonandi bara fjör. Bið bara um þurrt veður takk fyrir. Ekkert skáldlegt við það.

miðvikudagur, maí 06, 2009

Ný reynsla


Er ekki hægt að fá myntkörfulán á hagstæðum vöxtum einhversstaðar?