laugardagur, ágúst 31, 2013

Daði Steinn - fyrsta æfingin

Laugardagsmorgun, rétt fyrir klukkan 10:00 í fimleikasal Ármanns í Laugardalnum.  Fjölskyldan tók sér bíltúr til að verða vitni af fyrstu skipulögðu íþróttaæfingu hjá Daða, það vildi enginn missa af þessu.  Drengurinn var sem sagt að byrja í fimleikum.  Hann var nokkuð brattur fyrir þetta, en af fenginni reynslu er maður farinn að taka engu gefnu í þessu fyrr en á reynir.  Ég vissi líka ekki hvort þetta yrði eitthvað yfirþyrmandi fyrir drenginn fyrst allir fjölskyldumeðlimirnir væru mættir á hliðarlínuna.  En það verður að segjast að hann stóð sig alveg hreint frábærlega vel, var lítið að spá í þessum viðhengjum sem mættu til að horfa á hann og rúllaði í gegnum þetta án mikilla afskipta þeirra, sem er gríðarlega gott.  Mamman þurfti einu sinni að stökkva á eftir honum þegar hann tók smá "tvist" á æfinguna með því að taka skoðun á dýrari týpuna af trampólíni.  En hey, þetta var græja sem hann horfði Loga Snæ vera á síðasta vetur þannig að menn vildu aðeins reyna sig líka.
Samkvæmt plani verða laugardagsmorgnar skipulagðir undir þetta í vetur, við vonum að þetta verði áframhaldandi gleði.

844-7546

Það er ekkert rosalega langt síðan Frumburðurinn fékk gemsa, rétt tæp tvö ár og honum fannst ferlið við að fá það samþykkt af foreldrunum frekar langt og þungt.  Samkvæmt því plani hefði Miðjan því átt að bíða til ársins 2016, ef eitthvað réttlæti væri í þessu.  En ef þið vissuð það ekki þá er lífið ekki réttlátt og Logi Snær fékk síma í dag.  Til að reyna að réttlæta þetta eitthvað þá fékk hann reyndar ekki nýjan síma, heldur gamlan Nokia samlokusíma sem mamma hans átti á lager en það var farið og splæst í númer handa drengnum.  Mömmunni er farið að kvíða svolítið fyrir skutla-og-sækja-pakkanum núna í vetur en samkvæmt plani á Miðjan að vera í bæði í körfubolta og fimleikum, á nokkrum mismunandi stöðum í borginni.  Það verður að segjast að drengurinn á það til að vera svolítið týndur í því sem tengist tíma og rúmi og þetta á að vera liður í því að einfalda hlutina.  Við sjáum hvað setur. 
En samkvæmt þessari þróun, að hver fái síma þremur árum fyrr en sá á undan, þá mun Daði Steinn fá sitt númer eftir tvö ár, við 6 ára aldurinn.  Ég skal hundur heita ef svo fer, hann hlýtur að verða á svipuðum slóðum og Logi Snær.

mánudagur, ágúst 26, 2013

Menningarhlaup, lítið annað en þó það

Menningarnóttin í Reykjavík afstaðin þetta árið.  Veit ekki hvort það var veðrið sem gerði það að verkum að það eina sem ég gerði var að vappast í kringum Reykjavíkurmaraþonið, án þess að hlaupa sjálfur svona til að hafa það alveg á hreinu.  Ísak Máni og Daði Steinn voru bara að chilla heima.  Sigga tók þátt í hálfmaraþoni og kláraði hún það, reyndar aðeins yfir takmarkinu sem var tveir tímar en niðurstaðan varð víst 02:02:01.  Samt ekki hægt að kvarta yfir því, flottur árangur.  Logi Snær tók svo þátt í 3km skemmtiskokkinu og tók það á einhverju korteri.  Mamman ætlaði að skokka með honum (eftir sitt hlaup) en sá í hvað stemmdi á fyrstu metrunum og hann var alveg sáttur að rúlla þetta einn, enda fékk hann hlaupaúrið hjá mömmu sinni.  Svo mikið er víst að ekki hefði ég haft við honum.  Ég held að Ísak Máni sé að spá í 10 km næsta ár, sjáum hvort hann stendur við stóru orðin.

Eins og fyrr segir var veðrið ekkert spes og það kom aldrei til neinnar umræðu um að taka eitthvað menningarrölt á þetta að sinni.  Ég tók bara tónleikana og flugeldana í imbakassanum, það verður að duga a.m.k. þangað til næst.

Hlaupararnir

sunnudagur, ágúst 25, 2013

Laxveiði - part II

Datt heim eftir laxveiði nr. 2 á ferlinum núna á föstudaginn.  Sami staður og sama tilefni og fyrra skiptið.  Það sem verra var að veiðin hjá undirrituðum var nákvæmlega sú sama og síðast.  Núll.
Í heildina var eitthvað meira að veiðast núna en þegar ég var þarna í Norðuránni fyrir tveimur árum þótt það hafi ekkert ratað á fluguna hjá mér.   Aðstæður hefðu getað verið betri, mikið vatn í ánni enda hafði verið mikil rigning daginn áður en við mættum og svo rigndi aðeins á okkur síðari daginn sem ég var þarna.

Ég hafði gaman af þessu, aðstæður eins og félagsskapurinn og veðrið voru bæði frekar hagstæð, en það veður að segjast að enn bíður maður því eftir fisknum sem bítur á hjá manni og á víst að gera það að verkum að maður froðufellir af unaði, fer og verslar sér græjur eins og það sé enginn morgundagur og þræðir alla læki og sprænur á skerinu fyrir allan peninginn í framhaldinu.

Ég bíð spenntur

laugardagur, ágúst 10, 2013

fimmtudagur, ágúst 08, 2013

Þetta sumarið - í stuttu máli og myndum

Sumarið 2013.  Það er nú ekki alveg búið þótt maður detti alltaf í nettan haustgír eftir verslunarmannahelgi, ég tala nú ekki um þegar fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí er þriðjudagur eftir verslunarmannahelgina.

Rigningarsumarið mikla mundu sumir segja.  Eitthvað til í því, þetta var a.m.k. ekkert í líkingu við sumarið 2007 þar sem ég var í stuttbuxum upp á hvern einasta dag í fríinu og fyrsta rigningin sem ég fékk eftir að ég fór í frí það árið var á bílastæðinu niðri í vinnu morguninn sem ég mætti aftur eftir fríið.  Þetta slapp nú alveg til veðurlega séð hjá okkur þetta árið held ég þó.  Fyrsta vikan fór nú aðallega í það að koma sér í frígírinn, veðrið ekkert spes og "við" (lesist: Sigga) eitthvað að bardúsa með að svissa á strákaherbergjunum með tilheyrandi málningavinnu, skápakaupum o.s.frv.  Nú er m.a. risastór Hulk á veggnum í herberginu hjá Loga og Daða og ýmislegt búið að breyta og bæta.

Annars vorum við að dúlla okkur eitthvað, fengum að nota bústaðinn hjá Ingu og Gunna í Úthlíðinni og gátum því tekið smá túristarúnt, Gullfoss og Geysir og þessháttar.  Slepptum reyndar Geysi í þetta sinn.  Fengum flott veður í Grundarfirði á meðan Á góðri stund var og tókum nokkra aukadag þar.  Fóru í dagstúra m.a. upp á Skaga en Langisandur og strandblak þar í bongóblíðu eru að verða árviss viðburður.  Tókum svo túr líka til Vestmannaeyja, nokkuð sem við ætluðum að gera í fyrra en þá náðist ekki að framkvæma.  Það var algjör snilld og án efa gerum við þetta aftur síðar.
Besta veðrið á heimaslóðum hérna undir lokin og því var eina vitið að taka þá hérna frekar en að hýrast í einhverju tjaldi fyrir norðan í 6-8 gráðum.   En mig langar svolítið að taka smá rúnt fyrir norðan.  Kannski næst.

Í Vestmannaeyjum
Gott í þessum kaðli - það er ljóst

Froðufjör í Grundarfirði

Sjálfdrifið, það verða allir að fá að prufa

Drullan á Langasandi gerir mönnum gott

Heita sturtan var að gera gott mót

Gamli báturinn frá Spáni kom sterkur inn