mánudagur, febrúar 27, 2006

Ferðasagan

Þá er maður kominn heim eftir þessa ferð.

London

Fórum frá Bristol til London á föstudeginum, lögðum snemma af stað og vorum komnir um hádegisbilið. Á leiðinni í morgunmat þá sá ég Gordon Banks, gömlu markvarðarhetju Englendinga vera að tjékka sig út, fór svona að spá í því eftir á hvort ég hefði átt að fá karlinn til að kvitta á einhverja servíettu. Datt það ekki í hug þegar ég hafði tækifæri til þess þannig að líklega var þetta ekki nógu merkileg upplifun. Þegar við komum til London skiluðum við af okkur bílaleigubílnum og komum okkur á hótelið, St. Giles. Algjör kústaskápaherbergi en snilldarstaðsetning, rétt hjá Oxford Street. Tókum það sem eftir lifði föstudagsins í rólegheit, búðarrölt (bæði matvöru og ekki). Fórum svo út að borða um kvöldið á þvílíku snilldina. Asískur staður sem heitir Hakkasan og það var greinilegt að þetta var eitthvað hipp og kúl dæmi, þotuliðastaður. Áttum pantað borð klukkan 21:45 og sátum þar í góðum fíling en þegar við röltum út á miðnætti þá var enn eitthvað fólk að koma sem átti pantað borð. Hver fer út að borða á miðnætti? Það var ekki hægt að komast inn bara til að fara á barinn nema að þú ættir pantað ... á barinn. Þvílíkt góður matur að ég átti ekki til orð, allskonar rækjur, endur, lambakjöt og ég veit ekki hvað og hvað. En eitthvað hefur pakkinn kostað því yfirmaðurinn leit á reikninginn, brosti út í annað og sagði: "Strákar, það er McDonalds á morgun". En ég mæli með þessu ef þið eigið ferð til London, þó að þið þurfið að lifa á vatni og brauði í einhvern tíma á eftir.

Römbuðum svo inn á eitthvað spilavíti, helfullt af kínverjum og indverjum, allir spilandi upp á eitthvað bölvað klink. Ég rambaði út alveg 15 pundum fátækari og útlærður í Black Jack. Reyndar voru önnur borð þarna þar sem var verið að spila uppá talsvert hærri tölur.

Leikurinn

Svo var það Chelsea – Portsmouth á laugardeginu. Náði að skrötla út í bítið á laugardeginum, svona rétt til að redda einhverju smáræði handa fjölskyldumeðlimunum en við fóru svo um hádegisbilið út á Stamford Bridge. Fengum okkur hálfsjoppulega langloku þarna á stað í Chelsea Village en þar var svona fjölskyldustemming. Gaman að fara þarna með reyndari mönnum en annar Chelsea maðurinn í ferðinni var að fara í 20. skipti. Okkur grænjöxlunum var tjáð að við yrðu að fara á annan bar þarna við völlinn sem heitir So bar. Sem við gerðum. Jesús Kristur. Ef ég hefði verið með Manchester United barmmerki á mér þá hefði ég líklega étið það með nælunni og öllu. Að koma þarna inn var eins og góðum rokktónleikum á Íslandi, alveg upp við sviðið. Tróðst inn og elti strákana sem á einhvern óskiljanlegan hátt komust upp að barnum og gátu reddað bjór. Maður þurfti að halda á glasinu upp fyrir haus, annað var ekki hægt sökum troðnings. Upp á einu borðinu stóðu nokkrir drengir, krúnurakaðir með öl í annarri og sígarettu í hinni. Þeir stjórnuðu hópsöng með miklum tilþrifum. Flestir, ef ekki allir, söngvarnir snérust annars vegar um eigið ágæti, þ.e. Chelsea og hins vegar um eymd annarra liða. Það var auðvitað ekki hægt annað en að rekast á Íslendinga þarna sem og annarsstaðar. Willum Þór, þjálfari Vals í fótbolta var þarna og hann var málkunnunur einhverjum úr hópnum okkar. Ég gerðist svo djarfur að ýja að því að fá Eið Smára aftur að Hlíðarenda, hugmynd sem Willum leist alls ekki illa á, þetta væri bara frekar spurning um framkvæmdarútfærslu.

Leikurinn sjálfur var svo sem ekkert sérstakur, fyrri hálfleikurinn steindauður en rættist aðeins í síðari hálfleik, tala nú ekki um þegar Eiður kom inná og breytti leiknum. Minnir að fyrirsögnin í The Daily Mail daginn eftir leikinn hafi verið eitthvað á þessa leið: Ice-cool Eidur lifts Jose blues. Auðvitað vildi maður sjá hérna 4:4 og Chelsea aðeins misstíga sig en maður sat þarna fyrst og fremst raunsær. Varð reyndar helv… fúll því myndavélin klikkaði á meðan leiknum stóð, rétt búinn að taka nokkrar myndir í ferðinni og vélin harðneitaði að gera nokkuð meira. Fúlt maður.

Fórum svo á Chelsea hótelið eftir leikinn, rak augun í Petr Cech, en hef víst lítið til að bakka það vegna fyrrnefnds myndavélamála. Fúlt maður. Vorum svo á efri hæðinni að sötra bjór þegar einn úr hópnum mætti á svæðið en hann hafði verið að rölta á neðri hæðinni. Hann tekur upp símann sinn (myndavélasími) og við okkur blasir mynd af honum og Frank Lampard, sem hann rakst á þarna niðri. Magnað maður.

Fórum svo út að éta um kvöldið á stað sem heitir Gaucho Grill sem sérhæfir sig í argentískum steikum, það var mjög gott.

Heim

Þreyta var málið á sunnudeginum, heimfarardeginum. Hafði lítið sofið á þessu hóteli í London, hart rúmið, of kalt inni í herberginu og of bjart. Það var alla vega eitthvað ekki að virka. Áttum flug kl. 13:00 sem var ágætt, maður þurfti ekki að rífa sig of snemma upp og var kominn inn um dyrnar heima hjá mér um sex leytið.
Þreyttur en sáttur.

5 atriði sem sitja eftir svona ferð:


Óskiljanleg staðreynd að stór borg eins og Bristol eigi ekki eitt þokkalegt fótboltalið, aðeins tvö léleg.

Sætar stelpur eru ekki eins sætar í Chelsea búning.

Krúttleg börn eru ekki eins krúttleg í Chelsea búning.

Bjór fyrir morgunmat er ekki að virka, sá dæmi um það.

Ég er búinn að sjá Portsmouth spila jafnoft og Manchester United.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Bloggad fra Bristol

Sit herna a netkaffihusi i Bristol i godum gir. Ferdin buin ad vera fin, thad sem er buid a.m.k. Logdum af stad i gaermorgun og gaerdagurinn for ad mestu leyti i ferdalag. Lendir i London um hadegisbilid og tha turftum vid ad finna bilaleigubilinn og koma okkur til Bristol en thar er okkar kontaktmadur hja Unilever. Thad voru rumir 2 timar og madur var helviti threyttur thegar vid tjekkudum okkur inn a Mariott Royal hotelid sidla dags. Eg helt ad vid vaerum ad tala um einhvern pakka hvad hotelherbergin vardadi, hver atti ad vera med hverjum i herbergi o.s.frv. Ekki aldeilis, vid erum allir 5 i serherbergjum med allt til alls! Nathan ser um sina. Hvildum okkur adeins en sidan forum vid og fundum pobb thar sem Chelsea leikurinn var syndur en tveir ferdalangarnir herna eru forfallnir Chelsea menn. Fengum okkur ad eta thar en eitthvad foru urslitin illa i menn, suma a.m.k., eg gret ekkert serstaklega. Menn voru ansi lunir svo thad var bara kikt aftur upp a hotel og farid snemma i bolid.

Klukkan hringdi 7:30 i morgun og undirritadur skellti ser i sturtu og svo i morgunmat thvi vid attum ad vera maettir kl 9. Thetta er allt svo thaegilegt herna i Bristol, skrifstofur Unilever voru bara i gongufaeri fra hotelinu thannig ad vid vorum helv... godir. Fyrirlestur um Unilever og allar nyjungar og slikt stod alveg til klukkan ad verda 13. Tha tok vid runtur um helstu verslanir herna i nagreninu, Sainsbury, ASDA, Tesco, Morrison o.s.frv. Svo er ut ad borda a einhverjum kinverskum stad a eftir med okkar manni fra Unilever. Forum aftur til London a morgun, bara snemma held eg og getum tha vonandi skodad okkur eitthvad um i hofudborginni.

Laet thetta duga i bili.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

London í fyrramálið

Jæja góðir hálsar. Þá er komið að því, vinnuferðin til London hefst í bítið. Við förum í loftið kl 9:00 þannig að maður þarf ekkert að rífa sig upp um miðja nótt, þetta er bara svona spinning-vöknunartími. Þetta er búið að vera smá hausverkur, ég var eins og eitt spurningarmerki þegar ég stóð fyrir framan fataskápinn minn og skimaði eftir "snyrtilegum klæðnaði vegna fundarhalda í Bretlandi." Óttalegur grænjaxl í þessu. Held að þetta reddist nú allt saman.

Lítið við þetta að bæta í bili, á ekki von á miklum bloggfærslum í ferðinni, maður veit ekki alveg hvað maður er að fara út í. Í versta falli kemur ferðasagan hérna fljótlega eftir helgi.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Logi Snær 2ja ára í dag



Yngri demanturinn er tveggja ára í dag. Rosalega er þetta fljótt að líða, mér finnst stutt síðan maður var staddur á fæðingardeildinni en það eru sem sagt tvö ár síðan. Var ansi skrautlegt því ljósmóðirin fullyrti á vissum tímapunkti að ég ætti bara að kíkja í næstu sjoppu og fá mér eitthvað að borða því þetta væri nú ekki alveg að fara að gerast. Karlinn röltir út og er á leiðinni í næstu byggingu þegar gemsinn hringir, ljósmóðirin í símanum og tjáir mér að nú sé allt að fara að gerast. Maður snérist náttúrulega bara á punktinum og tók sprettinn til baka. Ekki löngu seinna var lítill Logi mættur í heiminn. Þakka fyrir að ég var ekki að kjamsa á baunasalatsamloku einhversstaðar út í bæ á meðan.

Skilaboð dagsins eru einfaldlega: Njótið þess á meðan blessuð börnin eru svona lítil og sæt, því þessi tími verður farinn áður en við vitum af.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Hápunktur ferilsins

Spilaði æfingarleik á þriðjudaginn. Nei, ekki með mínum ástkæru Vatnsberum heldur FC Fame. Fékk símatal frá einum liðsmanni þeirra sem vinnur með Tomma þar sem kom fram að sökum manneklu vantaði þeim einhvern til að standa á milli stanganna í æfingarleik. Ég lét til leiðast, var reyndar á sama tíma og æfingar Vatnsberanna fara fram þannig að það var smá Júdas fílingur í þessu. En það var ágætt að fá smátest á stórum velli, hef ekki stundað það síðan sl. sumar. Fyrir þá sem ekki vita er FC Fame utandeildarlið en telst víst eitthvað merkilegri pappír en Vatnsberarnir, geta víst bent á betri árangur í gegnum tíðina. Þrátt fyrir 2-1 tap hjá "okkur" þá held ég að undirritaður hafa komist alveg skammlaust frá þessu, það var oft meira fjör í vítateignum hjá mér með Vatnsberunum sl. sumar.

Veit ekki hvort maður á að fyllast lotningu að hafa fengið að spila með svona stórklúbb (eins og sumir vildu meina þarna á þriðjudeginum) en ætli þetta fari ekki í ferilskránna. Veit ekki af hverju en ég fór allt í einu að hugsa um leikina sem maður hefur spilað í gegnum tíðina og gerði mér þá grein fyrir að það vantar stórlega stórleiki undir beltið. Held svei mér að stærsti leikurinn á ferlinum (n.b. hingað til) hafi verið með liði Fjölbrautarskóla Vesturlands, Akranesi þegar þeir spiluðu við Menntaskólanum við Sund á einhverju framhaldsskólamóti. Hversu sorglegt er það? Þetta hefur verið sennilega 1994 eða 1995 og var spilað á gamla Þróttaravellinum, held að það hafi verið malarvöllur. Lið FVA hafði spilað einn leik áður í mótinu en þar hafði markmaðurinn gert sig seka um einhver mistök þannig að ég fékk það í gegn hjá Ragga Vals, sem sá um þetta, að ég fengi að spreyta mig. Fékk byrjunarliðssæti og við unnum leikinn 3:1. Leikurinn fer í sögubækurnar hjá mér aðallega vegna þess að þarna var maður að spila með hinum ýmsu Skagahetjum sem reyndar komust mislangt með ferilinn. Helsta skyldi líklega telja þá Bjarna Guðjónsson og Jóhannes Harðarson. Minnir meira að segja að Fjalar Þorgeirsson markvörður Þróttar til einhverra ára hafi dæmt leikinn en það gæti verið misminni. Eins og það voru góð úrslit þá voru vonbrigðin talsverð þegar Iðnskólinn í Hafnarfirði mætti ekki þegar þeir áttu að spila við okkur nokkrum dögum seinna og sökum slæmra úrslita í fyrsta leiknum þá komust við ekki upp úr riðlinum og Skagaferlinum lauk jafn snögglega og hann hófst.

Maður hefur nú smátíma til að toppa þetta, ég horfi til úrslitaleiks bikarkeppni utandeildarinnar, næsta sumar jafnvel. Sé þetta alveg fyrir mér, fer í vítaspyrnukeppni og allt. Ég er meira að segja búinn að sjá út hvar fyrstu þrír spyrnumenn andstæðinganna ætla að setja hann.

Málið dautt.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Framkvæmdir ofan á framkvæmdir


Þetta er hausverkur og er búinn að vera það í talsverðan tíma. Þetta er líka algjör viðbjóður og er búinn að vera það í talsverðan tíma. Þetta er kraninn á klósettinu í íbúðinni minni.

Þegar við fluttum inn árið 1999 þá var baðherbergið efst á listanum yfir þá hluti sem þyrfti að taka í gegn. Ekkert svakalega slæmt en svona næst á dagskrá. Við fórum með þetta í milljón hringi. Áttum við að hreinsa allt út úr því eða bara skipta um einhverjar höldur og hanka, mála upp á nýtt og kannski mála innréttinguna? Fyrst ætluðum við að taka það allt í gegn en ákváðum síðan bara fiffa eitthvað upp á það fyrir lítinn pening. Breyttum aftur um skoðun og ákváðum að moka öllu út, en skiptum síðan enn um skoðun og vildum gera einhverjar rólegar breytingar. Það fór svo að við slettum málingu á veggina og skiptum út handklæða- og klósettrúllustönginni og eitthvað af því dóti, ætli sé ekki komið eitthvað á annað ár síðan.

Við erum svo komin á það að nú þurfi að taka eitthvað róttækt í gegn þarna. Við erum að tala um að taka allt draslið og henda því út, klósettið, baðkarið, flísarnar, skápana, út með það allt. Karlinn stormaði niður í Office 1 fyrir einhverjum mánuðum og gekk út með Living etc., Ideal Home og október blaðið af Hús og híbýli þar sem tekin voru fyrir 25 íslensk baðherbergi. Þetta er auðvitað bilun að fara að standa í þessu og hrikalega óspennandi tilhugsun en eitthvað sem þarf að gera, því kamaraherbergið er orðið frekar dapurt.

Það mætti halda að ég væri eitthvað rosalega spenntur fyrir iðnaðarmönnum þessa dagana. Fyrst var verið að skipta um hurðir á íbúðunum hérna í stigagangnum og þar sem þetta pikkar er víst titlaður gjaldkeri stigagangsins þá lenti þetta á honum. Fyrst þurfti að fá einhvern til að smíða hurðirnar og svo þurfti að redda einhverjum öðrum til að setja þær í. Þetta var pakki sem tók einhverjar vikur með tilheyrandi nöldursímtölum. En karlinn var ekki hættur eins og æstir lesendur þessarar síðu hafa tekið eftir. Þá var næsti iðnaðarmaður kallaður til og rafmagnið tekið í gegn. Það gekk reyndar furðugreiðlega fyrir sig, miðað við þetta bullandi góðæri sem virðist vera í gangi með tilheyrandi iðnaðarmannaþörf landsmanna. Ég er reyndar að gæla við þá hugmynd um að þurfa ekki að kalla til löglærðan iðnaðarmann þegar ég tek þá ákvörðun um að ganga skrefið til fulls í baðherbergismálum. Ætla að treysta á hjálp nánustu fjölskyldumeðlima ásamt því að konan virðist alltaf æsast svo um munar þegar naglbítar, kíttispaðar, járnsagir og fleira í þeim dúr nálgast hana.

En þar sem ég hef ekki enn hafið framleiðslu á peningum þá er lítið annað að gera en að bíða spenntur eftir reikningnum frá Gúnda rafvirkja og fara svo að reikna út hvernig hægt sé að leysa þetta klósettmál, kostnaðarlega séð.

Þangað til... góðar stundir.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

London calling

Þá er konan komin heim frá útlöndum en nú er víst komið að öðrum aðila á heimilinu. Hérna var ég einu sinni að ýja að einhverju sem væri framundan í mars, án þess að fara nánar út í það. Féll það í grýttan jarðveg hjá háværum minnihluta, nefni engin nöfn en... æi, jú það var Jóhanna systir. Hvað um það, ástæðan fyrir því að ég var ekkert að tala of mikið um þetta var einfaldlega vegna þess að þetta var ekki ákveðið. En nú er þetta sem sagt ákveðið. Ég er að fara í vinnuferð til London. Þetta átti að verða í mars en breyttist aðeins og því er það miðvikudagurinn 22. febrúar sem ég fer út og kem svo heim á sunnudeginum 26. febrúar. Við erum að fara 5 manna hópur að heimsækja höfuðstöðvar Unilever í Bretlandi, fyrirtæki sem tengist m.a. vörumerkjum eins og Dove, Lux, Pot Noodle, Slim-Fast, Cif og Bertolli svo einhver séu nefnd. Ég er ekki búinn að fá neina endanlega lýsingu á ferðalaginu en mér skilst að við séum að fara út seinnipartinn á miðvikudegi, fundarhöld á fimmtudeginum, búðarráp á föstudeginum (þ.e. helstu matvælabúðir), chill á laugardeginum og heim á sunnudeginum. Maður er nokkuð spenntur yfir þessu, það verður gaman að heyra og sjá hvað þessir kappar þarna úti hafa að segja okkur.

Loksins getur maður ráfað inni í matvörubúðum í útlöndum án þess að skammast sín eitthvað. Konan heldur stundum að ég sé orðinn klikkaður þegar ég ráfa um hillurekkana í matvörubúðum þegar við erum erlendis, skoðandi hin og þessi vörumerki, hún hefur ekki þolinmæði í svoleiðis. Nú er sem sagt hægt að taka það með trompi. Gaman að sjá þessar vörur sem við erum að vinna með alla daga í öðru umhverfi.

Þetta chill sem ég nefndi á laugardeginum verður aðallega heimsókn á Stamford Bridge, heimavöll Chelsea. Þeir eiga að spila við Portsmouth þennan dag og við erum komnir með miða á leikinn. Samkvæmt mínum upplýsingum erum við í West Stand og útsýnið ætti að vera eitthvað svona:



Flott að nýta tækifærið fyrst maður er í London og komast á leik, það verður gaman að sjá Brúnna, ég hef bara komið á Old Trafford, en ég reikna með að verða rólegur í Chelsea búðinni. Synirnir fá a.m.k. ekkert þaðan, það er á hreinu. Ekki konan heldur.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Stórir strákar fá raflost og síðan sennilega feitan reikning

Fjórir einstæðingsdagar komnir. So far so good eins og einhver hefði sagt. Geðheilsa allra íbúanna er stöðug. Sem er gott.

Þrír rafmagnsframkvæmdardagar komnir. Þreytt maður. En búið sem betur fer. Þessir rúmlega tveir dagar fyrir einn mann urðu að tæplega þremur dögum þar sem þeir voru meginhluta tímans tveir að störfum. Ég held ég sitji þegar ég kíki á upphæðina á reikningnum, kannski spurning um að liggja bara. Þetta verður eitthvað fyrir allan peninginn. En hey, núna er ég kominn með straumvarnarþjöppu í töfluna hjá mér, eða hvað sem þetta hét og nýja rofa í kofanum og allt jarðtengt. Gúndi blaðraði út í eitt og ég reyndi að gera mitt til að sýna smá áhuga á öllu nýja stöffinu sem tengdist rafmagni, innstungum og millistykkjum. Var reyndar farið að líða illa þegar karlinn var farinn að grafa upp einhverja bandara. Veit núna að ADSL stendur fyrir aðeins dýrari símalína og ISDN þýðir It still does nothing...

Þá er bara að þrífa eftir þessi ósköp, þvílíkt ryk og viðbjóður sem þessu fylgdi. Ég næ þessu bara ekki, það er ekki eins og ég hafi verið að brjóta niður vegg í íbúðinni en það mætti halda það á köflum. Svo verður einhver spaslvinna á eftir í kringum eitthvað af dósunum. Hinkrum með það, sjáum hvað betri helmingurinn segir, það þarf örugglega hvort sem er að mála eitthvað og svona. Ég verð bara þreyttur af tilhugsununni.

Drengirnir mínir hafa verði ótrúlega duglegir í gegnum þetta, matartíminn hefur iðulega riðlast eitthvað þessa daga sökum framkvæmda og svo hefur verið misjafnt hversu mikið hægt hefur verið að nota rafmagnstæki.

Geisp, fótboltamót á morgun upp í Mosó, nenni því varla. Guðrún ætlar að koma og passa fyrir mig, spurning um að dobbla hana til að færa restina af húsgögnunum á sinn stað og þrífa aðeins... varla.

Jæja, best að fara að gera eitthvað í málunum, skápurinn í stofunni færir sig víst ekki sjálfur.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Fyrirmyndafaðirinn?

Dagur tvö að kveldi kominn. Dagur tvö? Já, dagur tvö sem einstæður faðir með tvo drengi í Breiðholtinu. Konan fór í vinnuferð til Svíþjóðar í gærmorgun og er ekki væntanleg fyrr en síðdegis á sunnudaginn. Get ekki neitað því að þetta er smá púsl. Tengdó er reyndar búin að hjálpa mér með drengina eftir skóla og leikskóla enda ekki annað hægt þar sem það á nú að heita að ég sé í fullri vinnu út í bæ. Það eru í raun ótrúleg forréttindi að Sigga sé að vinna í skólanum sem Ísak Máni er í og það að skólinn sé við hliðina á leikskólanum sem Logi Snær er í. Ég hef stundum spáð í það hvernig það væri ef Sigga ynni í verslun á Laugaveginum eða á skrifstofu í vesturbænum. Held að það væri ekki hægt, ekki sjéns.

Ég tel mig vera búinn að leggja mig allan fram svo ég klúðri nú ekki neinu, passa að gleyma ekki nestinu hans Ísaks Mána, muna eftir aukavettlingunum hans Loga o.s.frv. Ég var nú líka búinn að undirbúa mig aðeins fyrir þetta. Ég sá ekki fram á að nenna að dröslast í Bónus með bæði börnin þannig að ég fyllti ísskápinn áður en Sigga fór út af tilbúnum kjötbollum, lambanöggum o.s.frv. Nennti ekki að missa þetta í eitthvað pizzu- eða KFC rugl á fyrsta degi. Enda slógu kjötbollurnar í brúnni rjómasósu bara í gegn í gær, svo vel að það var hægt að borða afgangana af því í kvöld. Snilld.

Þetta er nú samt ekki nema hálf sagan. Það var tekin eindregin ákvörðun hérna á heimilinu að taka rafmagnið í gegn, eða láta einhvern taka það í gegn öllu heldur. Þetta hefur verið í frekar slæmum málum svo það var ekkert annað að gera en að jarðtengja allt dótið og skipta um rofa og þessháttar. Ég fékk einhvern rafvirkja til að kíkja á þetta og hann féllst á að gera þetta, en hvenær hann kæmist í þetta gat hann ekki sagt til um. Svo í morgun, klukkan 8:28, þegar karlinn var rétt sestur niður með kaffið í vinnunni hringir gemsinn. Það er rafvirkinn, sem ég ætla að kalla Gúnda: “Blessaður, ég er að leggja af stað, verð kominn eftir svona 20 mínútur”. Í einfeldni minni hafði ég búist við að fá kannski svona sólarhringsfyrirvara, hálfan kannski, en ekki bara 20 mínútur. Ekki misskilja mig, frábært að hann gat komið sér í þetta en kommon. Ég gat lítið annað gert en að skellt restinni af kaffinu í andlitið á mér og drullað mér heim. Mér skilst að miðað við iðnaðarmannaástandið núna þá segir þú ekki við iðnaðarmenn: “Nei, ég er svolítið upptekinn, geturðu komið á morgun”. Ég bruna heim og hleypi Gúnda inn. Hann ætlar að græja þetta á tveimur dögum.

Konan sleppur við þetta allt, þegar ég kom heim eftir vinnu þá var íbúðin í rúst, eldhúsborðið eins og vinnuborð á raftækjaverkstæði, afklipptir vírastubbar út um alla íbúð og öll húsgögnin á öðrum stöðum en venjulega. Það er vonandi að Sigga verði ánægð með þetta, þetta ætti að koma henni á óvart. Nema ferðalangarnir séu að chilla á sænskum netkaffihúsum.