laugardagur, desember 28, 2013

Jólin 2013

Allt frekar hefðbundið hérna þessi jól.  Aðfangadagur með öllu sínu gekk svona glimrandi vel, maturinn á borðinu á slaginu og svo var allt ferlið tekið með sömu venjum og hefur verið síðustu ár. 
Þetta voru ansi mikil fatajól en sem betur fer eru drengirnir yfirleitt ánægðir með að fá föt.  Logi Snær fékk reyndar fjarstýrðan bíl sem virðist vera að gera gott mót þessa dagana eftir aðfangadag.  Ísak Máni var svo búinn að undirbúa sig undir þessu fyrstu eftir-fermingu-jól, að pökkunum myndi eitthvað fækka, sem þeir gerðu svo sem en eitthvað slysaðist undir tréð merkt honum.

Úr hrúgunni kom svo einn pakki sem ég sá ekki alveg fyrir.  Eitthvað hafði orðaval mitt á kósý heilgallanum hennar Jóhönnu farið illa í hana og hún las út úr þeim orðunum mínum að ég hefði þróað með mér eitthvað heilgallablæti eftir að hafa séð hana skakklappast í einu svona kvikindi í tíma og ótíma í Æsufellinu.  Allavega, hún virðist hafa fengið Villa með sér í lið til að splæsa í eitt eintak handa undirrituðum.  Ég var alveg grænn og hefði ekki minnstu hugmynd hvað var í vændum þegar ég byrjaði að taka utan af kassanum en varð svo heldur hvumsa þegar heilgalli rataði upp úr kassanum.  Þrátt fyrir talsverðarar tilraunir náðust ekki myndir af heilgallanum í action...

Hvað er þetta eiginlega?

Nei, ertu að djóka?

Hvað er hægt að segja?

Tók svo hundgamlan brandara og framkvæmdi hann loksins.  Hvað var það?  Nú, auðvitað brandarinn að gefa konunni bor/skrúfvél í jólagjöf.  Það var eiginlega ekki annað hægt en að framkvæma þetta þessi jól.  Ljóst er að konan er að fara í talsverða vinnu sem felur í sér að taka í sundur rúm, skápa o.s.frv og svo setja það saman aftur á nýjum stað.  Það er bara þannig.  Það var ekki hægt að bjóða upp á gömlu græjuna í þá vinnu þannig að ég held engu öðru fram en að ég hafi verið að gera gott mót með þessum leik.

Næstu jól verða s.s. á nýjum stað.  Meira um það síðar.

Allir strákarnir voru skóaðir upp...
...og konan fékk borvél

mánudagur, desember 02, 2013

Aðallega Logi Snær

Það verður að segjast að Logi Snær hafi verið maður helgarinnar.  Fyrst var byrjað á fimleikamóti hjá Ármanni á laugardagsmorgninum, mæting kl 07:50 takk fyrir.  Þetta var hans fyrsta formlega fimleikamót en hann var að keppa í 6. þrepi.  Hann hafði reyndar tekið þátt í tveimur fimleikasýningum áður.  Þetta mót var þannig uppbyggt að keppendur þurftu að leysa þetta hefðbundna fimleikastöff, gólfæfingar, bogahest, hringi o.s.frv.  Ekki annað sagt en að þetta hafi gengið framar vonum en strákurinn tók sig til og vann mótið með glæsibrag og fékk gullverðlaun fyrir.

Á bogahestinum
Flottur í hringjunum

Þetta hlýtur að vera sárt

Að taka við gullverðlaununum

Aron, Logi Snær og Andri Ásberg

Eins og það væri ekki nóg dagsverk þá tók við körfuboltamót seinnipart laugardagsins, Jólamót ÍR í Seljaskóla.  Hann var flottur þar líka, spilaði þrjá leik og lauk leik með seinni skipum þá um kvöldið.  Skemmtileg tilviljun svo að Ísak Máni tók sér dómaraflautu í hönd í fyrsta skipti og hver var svo að spila í fyrsta dómaraleiknum hans?  Jú, auðvitað Logi Snær.  Sá yngri fékk nú ekkert gefins þrátt fyrir að tengjast 50% af dómarateyminu blóðböndum en það var kannski bara eins gott.

Fyrsta dómarakastið á ferlinum

Alveg með ´etta