miðvikudagur, október 19, 2005

Er ekki kominn tími til að kíkja í IKEA?

Ég er þreyttur...svo þreyttur á IKEA að ég þyrfti líklega að lúlla í heila öld til að vera endurnærður á ný. Málið er að við konan keyptum okkur hillusamstæðu í vor í fyrrnefndri verslun nema það að við ætluðum að hafa glerhurðir á samstæðunni. Þessar glerhurðir voru reyndar ekki til en væntanlegar þótt ekki væri hægt að segja hvenær það yrði. Leið og beið og aldrei komu helv... hurðirnar, þangað til að einhver starfsmaður guppaði því út úr sér að líklega myndi ekkert gerast í þessu máli fyrr en að nýji IKEA bæklingurinn kæmi út í haust því að þessar hurðir væru núna að koma í stykkjatali en höfðu alltaf komið í pörum! Anyway, þetta er búið að kosta fleiri ferðir í IKEA en mig hefur langað í. Hurðir hafa stundum verið væntanlegar eftir 4 vikur, 3 vikur, 2 vikur eða í næstu viku en aldrei koma helvítis hurðirnar. Botninum var svo náð þegar einn af starfsmönnunum í einni ferðinni bauðst til að setja okkur á lista þar sem yrði hringt í okkur þegar hurðirnar væru komnar. Ekki það að það væri í sjálfu sér slæmt heldur það að núna í vikubyrjun var hringt í mig frá IKEA og mér tilkynnt að hurðirnar sem ég væri að bíða eftir væru komnar. Frábært! Meiriháttar! ...eða hvað? Ég brunaði niður í sjoppuna strax eftir vinnu, reyndar með eitthvað drasl í bílnum en mér var alveg sama, ég ætlaði bara að versla þessar hurðir og ekkert kjaftæði, það yrði seinnitímavandamál hvernig ég myndi koma þeim í bílinn. Í minni einfeldni hélt ég í alvöru að sagan endalausa væri í raun að enda ... mín mistök. Í ljós kom að það voru ekki hurðirnar sem ég vildi sem voru komnar heldur sambærilegar hurðir úr einhverju öðru efni og öðruvísi á litinn. Ég held að IKEA samsteypan hefði alveg eins getað lamið mig í hausinn með gegnheilu stálröri til að framkalla þær tilfinningar sem brustu út þegar þetta var ljóst. Þegar starfsmaðurinn sá vonarljósið í augunum á mér slokkna fann hann sig knúinn til að kíkja betur á þetta í tölvunni og vildi fullvissa mig um að hluti af sendingunni sem væri í pöntun kæmi hérna í næstu viku. Ringlaður, svekktur og sár hélt ég út í rigninguna og tókst með naumindum að komast heim. Daginn eftir mundi ég eftir því að í öllum vonbrigðunum deginum áður hefði mér láðst að láta hringja í mig aftur þegar hurðirnar kæmu (eða ekki) svo ég herti mig upp og var mættur aftur til að ganga frá því máli. Sá starfsmaður þurfti því miður að tilkynna mér að þessar hurðir væru sjálfsafgreiðsluvara og það væri eiginlega búið að taka fyrir þessa þjónustu að hringja í fólk þegar þessháttar vörur kæmu. “En þetta er að koma í næstu viku?” stundi ég upp á meðan ég reyndi að stoppa mig í því að rífa pennann sem var á borðinu og reka starfsmanninn á hol. Starfsmaðurinn kíkti betur á þetta í tölvunni og sagði svo: “Það eru a.m.k. 2 vikur í þessar hurðir...”

Engin ummæli: