Ég bölvaði stundum gemsum. Ég og betri helmingurinn ákváðum að fjárfesta í einum slíkum í ársbyrjun 1999 að mér minnir, það var alla vega þegar Sigga var komin á seinni helming meðgöngunnar á frumburðinum. Okkur þótti það heilmikið öryggi í því að hún væri með slíkt tæki, sem það að sjálfsögðu var og er. En mér fannst þetta oft þvílíkt ofnotuð tæki að stundum blöskraði mér þvílíkt. Það fór óheyrilega í mig þegar plebbinn sem var á undan mér í röðinni í Bónus gat ekki annað en svarað í gemsann þó að það væri komið að honum að borga, nei allt í lagi lagsi, stoppaðu bara alla helvítis röðin af því að frændi þinn vill fá að vita hvað kappinn ætlar að gera um helgina og þér finnst bara í góðu lagi að ræða það þarna á þessum stað og á þessum tíma. Eða þegar athyglissjúka gellan sem var með mér í umræðutímum í Mannkynssögu IV þótti svo sniðugt að hún skildi gleyma að slökkva á símanum að hún svaraði í hann í miðjum tíma þegar hann hringdi! Ekki að ég sé barnanna bestur á köflum, ég hef oft notað gemsann til að spara mér ótrúlega litla fyrirhöfn. Svo er líka málið að maður verður svo rosalega háður þessu að það er alveg sorglegt. Fór einhverntíma í fótbolta og ákvað að taka ekki símann með enda er ekkert hægt að ná í mig hvort sem er nema rétt á meðan ég er að keyra upp í Fífuna og svo heim aftur. Ég sver það að mér leið bara illa, grínlaust. Þarna var ég staddur einn að keyra einhversstaður í Kópavogi og alveg útilokað að ég gæti haft samband við einhvern eða að einhver gæti haft samband við mig. Auðvitað komst ég klakklaust heim aftur og þegar ég kom heim blasti við mér bláköld staðreynd: Enginn hafði reynt að hringja í mig og ekkert sms hafði ratað í númerið mitt.
Ég fékk aðra sýn á þetta mál um daginn þegar mamma fór að rifja upp svolítið sem ég hafði ekki leitt hugann að. Pabbi var með ónýt nýru og þurfti að fá gjafanýru. Hann var í raun annar Íslendingurinn til að fá gjafanýra og fyrsti Íslendingurinn til að fá gjafanýra frá óskyldum aðila. Við skulum átta okkur á því að ég er að tala um byrjun áttunda áratug síðustu aldar og gemsar gersamlega óþekkt fyrirbæri. Pabbi þurfti að vera viðbúinn allan sólarhringinn ef að kallið kæmi og ef hann fór eitthvað þurfti einhver að vera heima til að svara í símann og sá aðili þurfti að vita hvar væri hægt að ná í karlinn. Ef þau fóru t.d. í leikhús var nauðsynlegt að vita nákvæmlega hvar þau sætu svo hægt væri að finna hann. Einu sinni “stálust” hann og mamma út í gönguferð á meðan enginn var heima og ómögulegt að ná í þau. Þau voru með móral lengi á eftir.
Eftirfarandi frétt kom í Morgunblaðinu þann 5. apríl 1973:
Flugvél frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli flutti í gær íslenskan nýrnasjúkling til Kaupmannahafnar, þar sem hann var fluttur á Ríkisspítalann og í nótt átti að græða í hann nýtt nýra þar ytra. Maður þessi, Hans Wíum, 49 ára Reykvíkingur, hefur undanfarin tvö ár verið algjörlega háður gervinýra því, sem er í Landspítalanum og hefur þurft að koma þangað reglulega tvisvar í viku. Líffæraflutningur þessi fer fram að undirlagi dr. Páls Ásmundssonar, læknis, sem hefur yfirumsjón með gervinýranu í Landsspítalanum. “Við erum aðilar að stofnun sem nefnist Scandia Transplant, en þar eru skráðir allir sjúklingar sem þurfa á nýju nýra að halda og háðir eru gervinýra” sagði Páll í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. “Þegar svo vill til að það fellur til hentugt nýra er það óðar sent til Kaupmannahafnar á ríkisspítalann þar og þar fer líffæraflutningurinn jafnan fram. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem við verðum aðnjótandi þessarar samvinnu,” sagði Páll ennfremur, “en hins vegar í annað sinn sem nýra er grætt í íslenskan mann. Í fyrra tilfellinu var það ung stúlka og þá var það bróðir hennar sem lagði til nýrað. Í dag fengum við hins vegar boð um það að fyrir lagi nýra úr látnum manni, og íslenskum sjúklingi stæði það til boða. Þessi boð komu klukkan 4 í dag og Hans var farinn í loftið með varnarliðsvél kl. 7 í kvöld.” Páll sagði að í tilfellum sem þessum mætti engan tíma missa. “Í dag var ekkert áætlunarflug til Kaupmannahafnar og í fyrramálið var þetta orðið of seint. Þess vegna gerðum við samkomulag við varnarliðið á síðasta ári, að það legði okkur til flugvél til að flytja íslenskan nýrnasjúkling til Kaupmannahafnar, þegar svo bæri undir og illa stæði á ferðum áætlunarflugvéla.” Herflugvélin átti að lenda á Kaupmannahafnarflugvelli um kl. 22 í gærkvöldi, en þar beið sjúkrabifreið eftir sjúklingnum og flutti hann í sjúkrahúsið. Átti líffræraflutningurinn að fara fram strax í nótt. Að sögn Páls eru nú þrír sjúklingar í gervinýranu í Landspítalanum og bíða þess að fá sams konar tækifæri og Hans Wíum fékk nú.
Daginn eftir kom síðan smá viðbótargrein og mynd af karlinum staulast úr flugvélinni. Ástæðan fyrir þessum skrifum er aðallega sú að í dag hefði karlinn orðið 82 ára gamall.
Magnað.
Ég er hættur að bölva gemsum.
miðvikudagur, desember 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ertu hættur að nenna að skrifa frændi? Uss, hættur að mæta í bolta, hættur að skrifa... hvað gerirðu eiginlega???
Skrifa ummæli