föstudagur, mars 10, 2006

Konungurinn í Latabæ

“Þú stendur þig vel og ert klár strákur en mér finnst þú stundum svolítið latur” Þarna stóð ég steinrunninn á bókasafninu í grunnskólanum í Grundarfirði, svona 13-14 ára pjakkur, þegar þáverandi íslenskukennarinn minn og núverandi umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, lét þessi orð falla í minn garð. Ég veit ekki alveg af hverju ég man svona vel eftir þessu en af einhverjum ástæðum situr þetta í mér. Kannski hefur hún hitt naglann á höfuðið, sem hlýtur að vera sorglegt því leti telst ekki beint vera eftirsóttur eiginleiki. Ég vona nú samt að þetta hafi verið eitthvað orðum aukið hjá háttvirtum umhverfisráðherra en þó viðurkenni ég að stundum get ég verið svolítið góður við sjálfan mig.

Stundum vildi ég að ég væri íþróttaálfurinn. Hoppandi og skoppandi allan daginn geðveikt ýkt hress og allt í gangi. Man eftir að hafa séð Magnús Scheving í Innlit-Útlit fyrir einhverjum misserum þar sem hann var að lýsa því þegar hann stóð í framkvæmdum heima hjá sér, var að nostra við fataskápinn hjá sér sem var mjög flottur en þetta var svo fáránleg handavinna að þetta tók hann þvílíkan tíma. Allt á hvolfi heima hjá honum, hann að föndra einhverjar drúsidúllur á fataskápinn heima við á milli þess að þeysast út af einhverjum Latabæjarfundum út um allan bæ. Hvað geri ég? Er að redda einu sérsmíðuðu eldhúsborði og mála eldhúsið og er að bugast yfir þessu “öllu” saman. Kem mér varla að verki og konan lýsir áhyggjum yfir þessu ástandsleysi á kappanum.

Tapparnir sem eiga að fara undir fæturnar á borðstofustólana svo þeir rispi ekki gólfið sem konan keypti fyrir einhverjum dögum gegn því að ég myndi setja þá undir fæturnar eru enn í umbúðunum upp á borðstofuborðinu. Ég veit af þeim og sé þá alltaf útundan mér þegar ég er að vappa í kringum borðstofuborðið en ekkert gerist. Veit að ef ég kem mér í þetta þá tekur þetta bara nokkrar mínútur en samt gerist ekki neitt.

Kannski er þetta bara vítamínskortur. Spurning um að fjárfesta í einu glasi af einhverju. Sá ég ekki Latabæjarvítamín til sölu í einhverri búðinni núna um daginn?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Og koma svo Davíð.... Enga leti það dugir ekki.... Verkin klárast ekki af sjálfu sér... Það er svo gott að vera búin að einhverju sem situr á hakanum.... Frábær tilfinning... þú getur þetta....