Gærdeginum var eytt að mestu leyti á ÍR svæðinu. Lítið 7. flokks mót var sett upp þar og var þetta í fyrsta sinn sem Ísak Máni og félagar spiluðu á sínum heimavelli ef svo má segja. Mættu þrjú önnur lið, FH, HK og Fram. Við vorum mætt á svæðið rétt rúmlega 10 í blíðskaparveðri. Ísak Máni fékk það í gegn að spila í marki í fyrsta leiknum á móti Fram en eitthvað voru Frammararnir þreyttir svona snemma morguns því þeir komust ekki yfir miðju og 4:0 sigur hjá ÍR var staðreynd. Minn maður var ekki alveg sáttur við þetta því hann stóð þarna í markinu og kom ekki við boltann svo mikið sem einu sinni. Næst var spilað við HK og gekk það vel líka, 3:0 sigur og Ísak Máni fékk að spila frammi (kannski vegna þess að mamman var liðstjóri) og setti eitt mark. Í lokaleiknum á móti FH fékk hann að spila hálfan leik í marki, líklega mest vegna þátttökuleysis í fyrsta leiknum. FH höfðu talsverða yfirburði og unnu 5:0 en lítið sem Ísak Máni gat gert við þessum þremur mörkum sem hann fékk á sig.
Grillaðar pylsur runnu svo ljúflega niður í lokin og allir fengu viðurkenningarskjal. Lúlli þjálfari var að kveðja og flytja upp á Skaga og því var annar bragur yfir þessu en ella. Að því loknu var klukkan farin að nálgast tvö og því lítið annað að að gera heldur en að færa sig yfir á aðalvöllinn og fylgjast með ÍR spila við Huginn í meistaraflokk karla. Mér til mikillar skelfingar var búið að hækka inngangseyrinn frá því ég fór á þennan völl síðast úr 700 kr upp í 1000 kr. Rán um hábjartan dag fyrir miðjumoð í 2. deild. Reyndar hafði ÍR 3:2 sigur þannig að menn fóru sáttir af velli. Klukkan orðin rúmlega fjögur þegar við komum heim.
Fljótlega eftir það var haldið upp í Mosó í kvöldmat en þar var betri mæting en oft áður, sérstaklega vegna þess að Baunalandsbúarnir voru á landinu en Erla og börn héldu reyndar af landi brott núna snemma í morgun.
sunnudagur, ágúst 20, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli