Foreldaraviðtalsdagur í Breiðholtsskóla í dag og því enginn skóli hjá Ísaki Mána í dag. Ég smellti út einum sumarfrísdegi og við vorum bara að chilla í dag. Ekki að það hafi verið eitthvað hangs í gangi, ekki hægt að bjóða bara upp á Playstation í heilan dag. Ég skrölti með Loga Snæ á leikskólann því eitthvað af dagskrá dagsins var ekki alveg að hans smekk. Við Ísak Máni höfðum fengið það verkefni að koma nagladekkjunum undir heimilisbílinn, á kostnað sumardekkjanna. Þetta verður að teljast með leiðinlegri verkefnum sem ég fer í en af einhverjum ástæðum gekk þetta bara nokkuð fljótt fyrir sig. Kannski vegna þess að guttinn var ágætlega áhugasamur um þetta og lét sig hafa það að drösla hluta af dekkjunum úr geymslunni og út í bíl.
Að því loknu var tekin ákvörðun um að fara á Þjóðminjasafnið. Ég hafði ekki stigið fæti þarna inn eftir að það var opnað eftir breytingar, samt eru komin einhver tvö ár síðan það var opnað eftir 6 ára lokun svo ljóst er að það eru örugglega einhver 10+ ár síðan ég álpaðist inn á þessa menningarstofnun. Þetta er náttúrulega ekki sama safnið og hérna í den, það er alveg ljóst. Fyrir mitt leyti finnst mér þetta hið flottasta safn og gaman að koma þarna. Ísak Máni var líka nokkuð spenntur fyrir þessu en hann hafði farið þarna áður. Maður var samt svolítið eins og álfur út úr hól þarna, staddir þarna um hádegisbil á miðvikudegi innan um hóp miðaldra þýska túrista og einhverra annarra þjóða kvikindi.
miðvikudagur, nóvember 15, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli