mánudagur, júlí 16, 2007

Styttist í annan endann

Þá fer sælunni að ljúka þetta sumarið, þ.e. sumarfríinu. Stefnan er sett að stimpla sig inn niðri í vinnu núna á fimmtudaginn og þá hefst harkið aftur. Fórum á fimmtudaginn í bústað til Ingu og Gunna austur í Úthlíð, þau lögðu af stað í tjaldferðalag vestur á firði á föstudeginum en við fengum að slappa af í bústaðnum og vorum fram á sunnudag. Brakandi blíða eins og venjulega og niðurstaðan eftir svona er að heitur pottur er jafnnauðsynlegur bústöðum og nettenging er fyrir tölvu. Það var ekki óvenjulegt að það væru teknar tvær skorpur á dag í pottinum. Sömuleiðis komst ég að því að ég er óheyrilega öflugur í Yatzy, held ég hafi bara tapað tveimur leikjum en það voru teknir nokkrir leikirnir. Við vorum alvöru túristar og fórum á Gullfoss og Geysir, ár og dagar síðan ég hef komið þangað og ég held að drengirnir hafi ekki farið þangað áður, a.m.k. ekki Logi Snær.







Við erum búin að taka Elliðaárdalinn og Nauthólsvíkina eftir að við komum heim, ekki slæmt það. Þetta sumarfrí hlýtur að fara í einhverjar sögubækur hvað veðrið varðar, man eftir að hafa fengið einhverja dropa en það var varla meira en hluti úr einhverjum tveimur dögum eða svo. Ekki nóg með að rigningarleysið hafi verið algjört heldur hefur sólin verið algjör. Hef líka ekki verið svona svartur held ég síðan að maður stundaði ljósabekkinn í kjallaranum hjá Magga og Bíbí í Baugatanganum á fyrstu námsárum mínum í Háskólanum.

Framkvæmdir heima fyrir hafa því legið niðri, ekkert var málað o.s.frv. en mér finnst það bara alveg í lagi. Þetta eru hlutir sem gera má þegar fer að rigna.

Niðurstaða úr sumarfríinu: Sáttur?

Mjög sáttur.

Engin ummæli: