föstudagur, ágúst 24, 2007

Það sem hefur verið að gerast

Úff, held að þessi bloggframmistaða í ágúst sé með þeim daprari eftir að skriftir hófust. Af einhverjum ástæðum hefur andleysið verið algjört enda nóg annað um að hugsa, úff.

Ísak Máni er búinn að taka þátt í tveimur fótboltamótum sl helgar, fyrst fórum við til Fjölnis og tókum þátt í einhverju verst skipulagða móti sem maður hefur lent á. Til að mynda lenti Ísak Máni og félagar í því að þurfa að spila á stór mörk, eitthvað sem þeir hafa aldrei gert áður og m.a. var Ísak Máni í marki í einum leik á þvílík mörk. Fékk vitaskuld eitthvað af mörkum á sig og var ekki sáttur en ekkert sem ekki var hægt að lækna, „það voru bara svona stór mörk þegar pabbi þinn var lítill“.

Ísak Máni í markinu stóra

Logi var vitaskuld á svæðinu en fannst mikið til lukkudýrs þeirra Fjölnismanna og elti hann á röndum og fékk svo langþráð knús.

Logi Snær, þessi vinstra megin

Svo var haldið á heimavöllinn næstu helgina á eftir, þ.e. síðustu helgi, þegar við héldum okkar vinamót með þátttöku HK, Vals, Aftureldingar og ÍR vitaskuld. Það mót var hins vegar alveg tilfyrirmyndar og skipulagning eins og best verður á kosið, hlutlaust mat. Nú styttist í að eldri drengurinn færist upp í 6. flokk, stundum líður þetta fullhratt allt saman.

Svo hefur maður verið á fullu í „hinni vinnunni“, á vegum húsfélagsins, þetta er ekkert svakalega skemmtilegt þegar stefnir í framkvæmdir og manni verður fljótlega ljóst að þú gerir aldrei alla íbúa 48 íbúða sátta. Svo þegar maður ætti að vera leggja nokkra þúsund kalla til hliðar til að eiga þegar framkvæmdarkostnaður kemur í hausinn á manni þá er maður bara í húsgagnakaupum eins og maður skíti seðlum. Horfi á í þessum pikkuðu orðum á gömul húsgögn sem búið er að tæta niður í öreindir hérna inni á stofugólfinu og bíða þess að enda sitt líf á Sorpu. Sem er eitt verkefni helgarinnar, gott að það er komin helgi.

Að lokum þurfti maður að eyða klukkutíma í dag að skrifa undir allskonar pappíra fyrir íbúðakaup hjá Villa og Gullu. Það er búin að vera ein allsherjar sápan, loksins að menn drulluðust til að ganga frá þessum pappírum enda bara vika í að þau eigi að fá íbúðina afhenta. Skrifaði nafnið mitt örugglega 17 sinnum og var orðinn alveg ónæmur fyrir millifærslu á 4 milljónum sem fór yfir á þennan reikning, 5 millur sem fóru eitthvað annað, 6 millur í næstu viku, stimpilgjald, þjónustu- og umsýslugjald...

Já, meðan ég man Villi, þú ert orðinn stoltur eigandi 15 ára gamallar uppþvottavélar með biluðu sápuloki sem virkar að öðru leyti nokkuð vel. Þetta hefur þú upp úr því að senda alvöru menn að samningaborði fyrir þig.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert greinilega rétti maðurinn í húsakaupadót...