fimmtudagur, október 01, 2009

Dagbók fótboltabullunnar - Sumarið 2009

Ég ákvað það í vor að halda lista yfir fjölda skipta sem ég færi á völlinn í sumar. Klikkað? Já, en ég er klikkaður. Þetta eru þeir meistaraflokksleikir sem haldir voru á vegum KSÍ, þ.e. inn í þessu eru ekki utandeildarleikir sem ég tók þátt í eða var á hliðarlínunni og ekki þeir leikir/mót sem Ísak Máni tók þátt í.

Svona lítur þetta út:

11. maí Kórinn 1. deild karla
HK - ÍR 3:1
- Fyrsti leikur sumarsins og við Ísak Máni skelltum okkur í Kórinn. Slagveðursrigningin gerði það að verkum að maður var guðs lifandi feginn að leikurinn var færður inn í Kórinn sökum leikjaálags á Kópavogsvelli. Erfiður leikur fyrir okkar menn og greinilegt hvort liðið spilaði í efstu deild og hvort í þeirri annari árinu á undan.

15. maí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Selfoss 2:5
- Fyrsti heimaleikurinn og að sjálfsögðu lét maður sig ekki vanta, ný sæti komin í stúkuna í Breiðholtinu. Villtur varnarleikur og Ingó úr Idolinu meðal markaskorara hjá sveitaliðinu.

29. maí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Leiknir 2:1
- Baráttan um Breiðholt part I. Þrátt fyrir að lenda undir komu mínir menn sterkir til baka og kláruðu Breiðholtsslaginn.

6. júní Laugardalsvöllur Undankeppni HM
Ísland - Holland 1:2
- Keypti 3 miða fyrir mig, Ísak Mána og mögulega Loga Snæ. Sá fram á það að Logi hefði lítið að gera þarna svo við tókum Kjartan, vin hans Ísaks með. Sátum á móti steikjandi sól allan tímann svo derhúfurnar og sólgleraugun komu sér mjög vel. Ísland átti aldrei möguleika í léttleikandi lið Hollands og 1:2 gáfu ekki rétta mynd af gangi mála.

11. júní ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Afturelding 2:1
- Vinnufélagi að spila á kantinum með Mosó þannig að það dró ekki úr manni að mæta. Sá spilaði vinstra megin í fyrri hálfleik en færði sig yfir á þann hægri í síðari og var alltaf fjær okkur úr vinnunni sem mættum á pallana. Kannski of mikil pressa að vera með vinnufélagana alveg ofan í sér? Fékk eitthvað fyrir allan peninginn, ÍR komst í 2:0 og Mosómaður með rautt fyrir tveggja fóta tæklingu alveg fyrir framan okkur. Átti að vera þægilegt en ÍR-ingar hafa verið lítið fyrir það síðust ár. Afturelding fékk víti en skutu yfir áður en þeir minnkuðu muninn einum færri og nagandi lokamínútur fóru í hönd.

14. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Víkingur R. 2:4
- Sigga og strákarnir í Baulumýri og ég rölti og kíkti á þetta. Nóg af mörkum en að öðru leyti dapurt.

17. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - HK 3:1
- Sigga og co enn í Baulumýri og ekkert annað að gera en að taka þetta út. Elías Ingi Árnason, markakóngur klúbbsins frá því í fyrra sem hafði farið til úrvalsdeildarliðs ÍBV og fengið að spila þar heilar 55 mínútur í allt sumar kom aftur „heim“ en byrjaði á bekknum. Ekkert varð af endurkomu Gunnleifs Gunnleifssonar landsliðsmarkvarðar í lið HK fyrir þennan leik eins og hafði stefnt í á tímabili. Miklu betri leikur hjá breiðholtsbúum heldur en fyrri leikur liðanna og þrátt fyrir að lenda 0:1 eftir einhverjar 5 mínútur komu þeir sterkir til baka og kláruðu leikinn. Elías lék síðustu 6-8 mínúturnar og fékk tvö góð færi, líklega tveimur fleiri en allan ferilinn hjá ÍBV.
Ekki nóg með að leikurinn væri hin besta skemmtun heldur gat ég nú ekki annað en skemmt mér konunglega með umræðurnar hjá unglingsstúlkunum sem sátu í næstu sætum við mig. Ein var mikið að pæla í hversu rosalega einn leikmaður HK væri líkur frænda sínum þangað til hún álpaðist til að kíkja í leikskránna og fattaði að þetta var frændi hennar, með tilheyrandi píkuskrækjum. Svo var allskonar umræða um hvort Gunna væri kominn með kæró, hvort kona gæti átt tvíbura með tveimur mönnum, hvort áðurnefndur Gunnleifur eða Hannes markvörður Fram væri betri (sem þær kölluðu Helga í nokkrar mínútur áður en þær kveiktu) o.s.frv.
Sem sagt: Menn fengu eitthvað fyrir allan peninginn í þessum leik.

23. júlí ÍR völlur (gervigras) 3. deild karla
Léttir - Afríka 0:1
- Var á fundi niðri í ÍR-heimili út af móti sem Ísak Máni var að fara á. Ísak Máni fór með og fylgdist með þessu leik, m.a. vegna þess að Dóri þjálfarinn hans var að spila með Léttismönnum. Fundinum var lokið í hálfleik og ég tók fyrstu 20-25 mínúturnar í seinni hálfleiknum. ÍR-ingar höfðu fengið þetta Léttisnafn lánað fyrir sumarið og sendu inn B-lið í 3ju deildina. Það sem ég sá var ekki merkilegt.

28. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Þór 1:0
- Kíkti með Loga Snæ og Ísak Mána á völlinn og við tókum Svein Brynjar með okkur. Létt rigning allan tímann en þokkalega hlýtt, pollagallar á línuna var eina vitið. Fyrsti leikur sumarsins sem ÍR hélt hreinu í deildinni, sem var ansi ótrúlegt enda sóknarþungi norðanmanna ansi hreint hressilegur. En það hafðist.

2. ágúst Hlíðarendi VISA-bikar karla
Valur - KR 1:3
- Lágmark að taka alla vega einn leik með Val á hverju sumri. Fannst tilvalið að skella mér þegar brotið var blað í knattspyrnusögunni á Íslandi þegar spilað var um verslunarmannahelgi. Við Ísak Máni fórum í þessari rjómablíðu og létum grilla á okkur nefið. Valsarar yfir í hálfleik en hlutirnir fóru að gerast í seinni hálfleik. Sitt hvort rauða spjaldið á lið og víti fyrir KR, hlutirnir ekki að detta með þeim rauðklæddu og KR fór í undanúrslitin.

14. ágúst ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Fjarðarbyggð 0:1
- Fór í grillveislu á vegum vinnunnar með fjölskylduna og komst því ekki á völlinn fyrr en eitthvað var liðið á síðari hálfleikinn. Kom þó nógu snemma til að sjá mark Fjarðarbyggðarmanna en annað var ekki boðlegt. Spjallaði við aðra vallargesti á leiðinni af vellinum sem fullyrtu að fyrri hálfleikurinn hefði verið verri en sá síðari. Það var kannski eins gott að maður var bara rólegur í steikinni og náði að tyggja vel áður en maður lét sjá sig. Fjórða neðsta sætið staðreynd og orðið óþægilega stutt í fallsæti.

17. ágúst Valbjarnarvöllur Pepsi-deild karla
Þróttur - Valur 0:1
- Kíkti með vinnufélaga, sem er Köttari, í Laugardalinn. Tvö lið sem hafa ekki sýnt mikið í sumar og gerðu það ekki í þessum leik. Fyrsti sigur Valsara í talsverðan tíma en í fimm leikjum liðsins á undan hafði aðeins komið eitt stig í hús. Bjarki Gunnlaugsson kom inná í fyrsta sinn fyrir Val. Þótt leikurinn væri ekki merkilegur þá var gaman að Kötturunum, alltaf nett gleði þar á bæ þrátt fyrir að sæti í 1. deildinni hafi orðið ansi raunverulegt með þessu tapi.

18. ágúst Varmárvöllur 1. deild karla
Afturelding - ÍR 3:3
- Stórfurðulegur leikur sem við Ísak Máni urðum vitni af. ÍR fékk tvö færi á fyrstu mínútunum en lögðust svo í dvala í 70 mínútur eða svo. Voru 3:0 undir í hálfleik en náðu að laga stöðuna þegar korter var eftir. Afturelding fékk víti í stöðunni 3:1 en það var varið. Svo á síðustu þremur mínútunum settu gestirnir tvö kvikindi og náðu jafntefli á einhvern lygilegan hátt.

21. ágúst ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Haukar 3:0
- Flottur leikur gegn toppbaráttuliðinu úr Hafnarfirði og 6 stig í hús gegn þeim í sumar. 3:0 í hálfleik en minnugur síðasta leiks þá tók maður engu gefnu. Seinni hálfleikurinn leið þó nokkuð þægilega í gegn án þess að mikið gerðist, hægt að færa rök fyrir því að það væri hið besta mál.

22. ágúst Fylkisvöllur Pepsi-deild karla
Fylkir - Fjölnir 2:2
- Sá nú reyndar ekki nema tæplega síðasta hálftímann í þessum leik. Ísak Máni fékk að fara með sjúkraþjálfaranum sínum og fékk að vera fluga á vegg í búningsklefa Fylkismanna klukkutíma fyrir leik. Ætlaði svo að koma heim en honum var boðið að vera boltastrákur í leiknum sem hann þáði. Ég kíkti sem sagt aðeins á þetta, fannst þetta ekki nógu spennandi leikur til að taka hann frá fyrstu mínútu. Sá svo helminginn af mörkunum þannig að ég var bara góður.

4. september ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - KA 2:0
- Fór með Ísaki Mána og Loga Snæ. Hrútleiðinlegur fyrri hálfleikur og sá síðari ekki mikið skárri fyrir utan mörkin tvo. Toppurinn var að fá Pepsideildarmyndirnar drengjanna af Elías Inga í ÍBV-búningi áritaðar í lok leiksins.

12. september ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Víkingur Ólafsvík 4:3
- Uppskeruhátíð knattspyrnudeildar ÍR var haldin fyrir þennan leik. Víkingarnir voru fallnir fyrir þennan leik en ÍR-ingar öruggir með 1. deildarsæti sitt að ári. Sigga og Daði Steinn höfðu farið í Baulumýri m.a. til að taka upp kartöflur en aðrir fjölskyldumeðlimir fóru á uppskeruhátíðina. Eftir hana var þessi leikur en veðrið var ekkert sérstakt, gekk á með rigningarsudda og eftir bragðdaufan fyrri hálfleik þar sem ÍR var 2:0 yfir var ákveðið að halda heim í hálfleik enda menn (sérstaklega Logi Snær) orðnir frekar drullugir og blautir. Það var því alveg týpískt að seinni hálfleikurinn var hádramantískur spennutryllir. Víkingar komu víst sterkir í seinni hálfleikinn og settu þrjú kvikindi áður en ÍR-ingar náðu að skora tvisvar, á 86. og 93. mín. Mér var nær að setja menn ekki strax í pollafötin sem voru by-the-way út í bíl.


Svona til að súmma þetta upp, 17 leikir en þar af voru 8 sigurleikir hjá mínum liðum, 2 jafntefli og 7 töp. Náði 12 leikjum af 22 hjá ÍR í deildinni, það er bara nokkuð gott held ég. Gaman að þessu, að vera svona klikkaður.

2 ummæli:

prinsessa norðan heiða sagði...

já þú ert KLIKKAÐUR.... þakka góða merkingu á færslunni þvi ég hefði ekki áhuga að lesa þetta

Nafnlaus sagði...

Ég hefði nú haldið að þú hefðir ekki svona mikinn frían tíma á þínum höndum til að standa í svona klikki :-)

kv,
Gulla