fimmtudagur, júlí 22, 2010

Opið bréf til æðri máttarvalda

Til þín sem öllu ræður.

Ertu ekki að grínast með þetta? Þú vissir vel að stefnan var sett á Grundarfjörð þessa helgi, við förum ALLTAF til Grundarfjarðar þessa helgi. Ég er meira að segja í fríi á föstudaginn, ég er nánast ALLTAF í fríi á föstudegi þessa helgi.

Það er búið að vera þvílíkt sólarveður hérna síðustu daga að það hálfa hefði verið nóg en svo dettur þér í hug að fara láta þykkna yfir öllu núna og droparnir á veðurspánum hafa lítið sem ekkert breyst alla vikuna en reyndar var þetta aðeins farið að skána í kvöld. Ég er ekki að fara fram á 20°C + en rigning...

Rigning eða sól, það breytir svo sem engu þannig, það er ekki eins og við ætluðum að hætta við að fara.

En rigningarspáin var ekki nógu mikil niðurbrotsstarfsemi. Byrjaðir á þeim yngsta sem fékk bullandi hita og eyrnabólgu takk fyrir. Logi Snær fylgdi svo á eftir með hita. Ísak Máni var ekki líklegur að fá hita en hann þurfti samt að fá einhvern pakka. Og þvílíkur pakki, hvernig er hægt að láta sér þetta detta til hugar? Að 11 ára gamall drengur geti fengið málingarflís á bólakaf, þá meina ég bólakaf, í stóru tánna á sér þegar hann er að renna sér í vatnsrennibraut hlýtur að vera eitthvað met. Eins súrrealískt og þetta hljómar þá er okkur ekki beint hlátur í hug, ég meina mamman var kölluð út og upp á heilsugæslu í Mjódd með drenginn þar sem þurfti að taka nöglina af og núna er hann á annarri löppinni og ber sig aumlega. Þetta er allt að gerast 5 tímum fyrir hina eiginlegu brottför.


Ég segi nú bara eins og Skrámur hérna um árið þegar hann skrifaði Jóla: „Hvað ertu að reyna að gera okkur eiginlega?“

En bara þér að segja, þá ætlum við samt að fara, ekki í kvöld þó eins og ráðgert var, heldur á morgun og ætlum að hafa það fínt, takk fyrir.

Kveðja,
Davíð.

1 ummæli:

Tommi sagði...

Þið fenguð þó amk bongó blíðu :D