miðvikudagur, nóvember 10, 2010

Tannlæknadraumurinn

Ólíkt sem sumir gætu haldið þá er þetta ekki endurskrifuð saga úr Rauðu seríunni heldur raunverulegur draumur sem mig dreymdi og ætti ekkert erindi í Rauðu seríuna. Draumar eru athyglisverðir, að minnsta kosti mínir. Mér finnst reyndar miður þær staðreyndir að mér dreymir frekar sjaldan og svo hitt að ég gleymi þeim nánast alveg um leið og ég opna augun. Ég man nú þennan ekki alveg niður í þaula en svona meginþemað situr í kollinum á mér og mér finnst það vera algjör steypa. Sem er gaman.

Í draumnum fór ég til tannlæknis upp í Mosó. Staðreynd sem kemur kannski ekkert á óvart þar sem gamli tannsinn minn var einmitt staðsettur í því bæjarfélagi. Þegar þangað var komið reyndist tannlæknirinn vera Guðjón Þórðarson, knattspyrnuþjálfari með meiru. Ekki leist honum á ástandið á kjaftinum á mér og tilkynnti mér að þetta yrðu nokkrar heimsóknir sem ég þyrfti að kíkja til hans og í þokkalegustu meðferð. Ég fer heim að þessu loknu og um kvöldið er komin reikningur í heimabankann minn upp á 390.000 kr. Mér líst ekkert á þetta og fer aftur til hans daginn eftir til að fá nánari útlistun á þessari meðferð. Þegar þangað er komið er sonur hans þarna líka, Þórður, sem er einnig þekktur fyrir knattspyrnuiðkun sína og ég varð svo frægur á sjá í Derby-treyju á Old Trafford um árið. Sem er önnur saga. Guðjón tjáir mér að tennurnar mínar þjáist af einhverju sem hann kallar „halla“ og Þórður kíkir upp í mig líka og tekur undir með karlinum. Held að sonurinn hafi nú ekki verið tannlæknamenntaður líka en ástæðan fyrir því að hann þekkti þetta var sú að hann hafi þjáðst af þessum sama tannkvilla á sínum yngri árum. Ég fer eitthvað að forvitnast um þennan kostnað hjá Guðjóni og þá er mér tjáð að þessi 390.000 kr reikningur hafi eingöngu verið fyrsti af nokkrum en heildarkostnaðurinn við að laga svona „tannhalla“ sé 1.400.000 kr. Því miður fer núna að fjara út af góðri sögu því það eina sem ég man af endirnum er að ég er eitthvað að vandræðast við að fá álit annars tannlæknis.

Svona getur maður verið klikkaður.

3 ummæli:

Gunni sagði...

gúglaði þetta og þú ert ljónheppinn, gætir hafa verið með skráp sem er víst mikið verra,
sjá: http://www.heimabeiti.fo/print.asp?menu=170

Ikki skrápur, men tann halli.

Og svo skemmtilega vill til að 5 línum ofar stendur:

Ikki kráka, men Sigga.

Bara svo það sé á hreinu.

Sigríður sagði...

Ég held að þetta hljóti að boða peninga, spurning um að taka þátt í Lottóinu á laugardaginn:-)

Æsufellsdrottningin sagði...

Já lottó á laugardaginn og boðskapur draumsins er að deila vinningum með uppáhalds systur sinni múhahahaha