laugardagur, apríl 30, 2011

KFC mótið 2011

Ég hefði getað sagt mér það að það væri ekki nóg að stilla vekjaraklukkuna á 07:00 í morgun í ljósi þess að klukkan 07:40 þurfti ég að vera mættur með tvo drengi, annan 7 ára og hinn 2ja ára á Víkingsvöllinn. Mér fannst bara glæpsamlegt að stilla vekjaraklukkuna á 06:eitthvað á laugardagsmorgni svo ég lét 07:00 duga. Ég verð svo að viðurkenna að ég dró andann djúpt inn þegar ég kíkti út um gluggann kl. 07:02, til að sjá hvort rigningarspáin frá því í gær væri að standast, en sá bara hvítt. Það var ekki að annað en að rífa liðið á lappir, reyndi samt að fara fínt í það svo menn yrðu ekki grömpí fram eftir morgni. Aftur fékk ég staðfestingu á því að 07:00 var alveg í síðasta lagi þegar ég leit á klukkuna kl. 07:36 og enginn kominn í útifötin. Þá var bara sett í fimmta gír og innan skekkjumarka náðist þetta.


Málið var að Logi Snær var að keppa á KFC móti Víkings og þar sem mamman og Ísak Máni fóru í sveitasæluna þessa helgina þá þurftum við hinir að mynda teymi sem færi á Víkingsvöllinn. Þessi ókristilega tímasetning var einvörðungu vegna þess að fyrsti leikur hjá drengnum hófst kl 08:00. Ég hefði alveg getað sé þetta fyrir mér að maður væri þarna chillandi á sumarjakkanum með sólgleraugu og Daði Steinn, álíka léttklæddur, skoppandi þarna í kring í sumarfíling. En það var víst eitthvað annað. Léttvæg snjókoma allan tímann sem varð stundum að hálfgerðri slyddu, allir kappklæddir í hlífarföt og stemmingin svona la-la. Logi Snær byrjaði mótið af miklum krafti en þegar tærnar fóru að kólna kárnaði gamanið. Fór það svo að það þurfti að mixa nýja sokka því þótt kit-búnaðurinn sem tekin var með á völlinn innihélt m.a. bleyjur, bossatuskur, snuddu, myndavél, banana, vínber, abt-mjólk, skyr, kókómjólk og hin ýmsu aukaútiföt þá gleymdust aukafótboltasokkar þegar sett var í fimmta gírinn þarna um morguninn. Hann spilaði því síðasta leikinn í ullarsokkum af Daða og sokkum af pabba sínum sem hafði farið í tvö pör. Menn voru því þokkalegir þegar einum KFC bita var slátrað ásamt nokkrum frönskum með medalíuna um hálsinn. En mikið var gott að skríða inn um dyrnar heima hjá sér þarna skömmu fyrir hádegi.


Spilalega gekk þetta fínt, tveir sigrar og tvö jafntefli og eitt mark hjá Loga Snæ. Hann var meira á sínum eigin vallarhelming því samkvæmt honum þá var þjálfarinn svo ánægður með hann í vörninni í fyrsta leiknum að hann var látinn spila megnið af mótinu þar.

Engin ummæli: