sunnudagur, júlí 24, 2011

Á góðri stund 2011

Sem fyrr skelltum við okkur til Grundarfjarðar á bæjarhátíðina Á góðri stund. Annað árið í röð var spáin ekkert spes og annað árið í röð slapp þetta alveg. Fimmtudagur og föstudagur alveg flottir og laugardagurinn með sól en full vindasamur. Svo fór að rigna í dag en það var allt í góðu, við vorum á leiðinni heim. Venjulega hef ég bara verið í fríi á föstudegi þessi helgi þannig að við höfum verið að koma á fimmtudagskvöldi í bæinn. Núna komum við upp úr hádegi á fimmtudeginum og það var gaman að sjá hversu fljótt og vel það gekk að skreyta bæinn, greinilega vant fólk þar á ferð. Á örskotsstundu, að mér fannst, var búið að strengja viðeigandi litaborða á milli flestra ljósastaura í bænum. Engir aðrir gestir þetta árið á Smiðjustígnum þannig að mamma fékk „bara“ 5-manna fjölskyldu yfir sig í ár.


Meðal skemmtiatriða á föstudagskvöldinu var knattspyrnuleikur milli Grundarfjarðar og Ísbjarnarins í 3ju deildinni, atburður sem var reyndar ekkert skemmtilegur fyrr en undir lokin þegar heimamenn tryggðu sér sigurinn í leik sem þeir voru að tapa þegar skammt var eftir. Ekki er annað hægt en að hrósa þeim sem standa að liðinu, ég hef aldrei farið á leik svo ég muni eftir þar sem sushi-bitar voru seldir í sjoppunni. Einnig var uppboð í hálfleik á áritaðri Grundarfjarðartreyju sem var slegin á 30.000 kall. Sá eldheiti heiðursmaður skellti sér strax í treyjuna en var orðinn sótsvartur af pirringi þegar ekkert virðist ætla að ganga hjá liðinu. Spígsporaði fram og aftur í brekkunni og lét svo eitt gullkornið flakka: „Af hverju hlaupa þeir ekkert. Helv... maður, ég verð að komast inná. 100 þúsund kall og ég fæ að fara inná, ég er í treyju og allt.“ Það er bara einn Geiri Ragga.


Að flestu leyti var þetta bara hefðbundin hátíð, grillveislan, leiktæki, fimleikasýning, skrúðgöngur og brekkusöngur. Mér fannst reyndar færra fólk en oft áður en fyrir mitt leyti var það ekkert verra, þægilegt að rölta um hátíðarsvæðið í góðum gír án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að stíga á einhverjar tær. Kannski einhverjir aðrir sem sjá þetta með öðrum augum.

Engin ummæli: