föstudagur, desember 09, 2011

Læknabrölt

Þetta eru búnir að vera hálfskrítnir dagar eða vikur. Þvílíkur skítakuldi sem hefur verið í gangi að það hálfa hefur verið yfirdrifið nóg. Ég held að ég hafi sjaldan verið jafnoft í náttbuxum og hettupeysum að kvöldi til, það er eitthvað við þessa froststemmingu sem hefur ýtt undir þessa hegðun hjá mér.

Svo hefur líka verið tóm veikindi hérna, aðallega Logi Snær og Daði Steinn. Logi fékk einhverja veirusýkingu sem fylgdu massaútbrot og greyið búinn að vera í tómu tjóni. Hvorki farið í körfubolta eða fimleika og hefur verið voðalega orkulaus. Þurfti að sleppa körfuboltamóti sem ÍR hélt um síðustu helgi en hann er nú á réttri leið. Hann fer örugglega samt ekkert að sprikla neitt fyrr en eftir áramót. Daði Steinn búinn að vera með einhvern endalausan skít í sér og fór svo í ofanálag í nefkirtlatöku í dag. Það gekk nú víst nokkuð vel bara, ætli þeir vilji svo ekki rífa hálskirtlana úr honum á næsta ári, það kemur allt í ljós.

Ég ákvað að taka þátt í þessum læknisheimsóknum fjölskyldunnar og skellti mér til tannlæknis, aðeins verið að kítta í stellið. Eins og maður hafi ekkert annað að gera við á þriðja tug þúsundir króna og í desember í ofanálag. Næsta heimsókn til hans í september en fyrir þann tíma verð ég að vera búinn að láta rífa út úr mér einhverja endajaxla sem hefur verið á to-do-listanum síðan nítjánhundruðnítíuogeitthvað. Búinn að lofa sjálfum mér því að þetta verði framkvæmt eigi síðar en í janúar, tími kominn að klára þetta helv...

Sigga er ekkert í þessu, mætir bara í ræktina um miðjar nætur til að hressa sig við. Maður ætti kannski að fara að dusta rykið af ræktardressinu.

Engin ummæli: