sunnudagur, janúar 01, 2012

Gamlárspartý

Þessi áramót komin og farin. Villi, Gulla og co í öðrum verkefnum í Malaví þannig að ekki var kalkúnn ásamt salkjöti og baunum með Æsufellsútsýni þetta árið, eftir síðastliðin fjögur áramót þar. Fyndið hvað hægt er að búa til hefðir, Ísaki Mána og Loga Snæ finnst að fá saltkjöt og baunir orðið hluti af áramótum. En þar sem við höfum aldrei verið heima hjá okkur á áramótunum frá því að við fluttum hérna inn fyrrihluta árs 1999, að undanskyldu áramótunum 2009/2010 þegar Sigga fór snemma heim með Daða Stein lasinn fyrir miðnætti, þá var ekkert annað að gera en að finna nýtt partý og fannst þetta fína fjölskyldupartý upp í Mosó hjá Ingu og Gunna. Halli og Jenný og Guðrún og Jökull einnig á svæðinu. Eðallamb og með því, ís og kaka, snakk og gos, samkvæmisleikir og flugeldar, ekki hægt að biðja um mikið meira.


Við tókum flugeldakaupin yfir á næsta stig, höfum látið þann næst minnsta duga okkur en ég lét vaða í pakkann fyrir ofan, hann Trausta. Note-to-self, sem kostaði 16.400 kr þetta árið en sá sem við höfum alltaf keypt, Troðni, var á 13.100. Við Ísak og Logi fórum út og sprengdum hann með þokkalegum tilþrifum, ekki nema einn flugeldur sem tók stefnuna á næsta hús og sprakk með látum á svölunum á efstu hæðinni, þar sem enginn var heima sem betur fer. Daði Steinn lét sér stjörnuljósin af svölunum duga.


Þessi jól og áramót sem sagt að ljúka, hittist þannig á að þetta voru nú bara í raun tvær helgar, rosalega atvinnurekendavæn eins og einhver sagði. Ég tók mér reyndar tvo daga í frí þarna fyrir gamlársdag, svona til að fá aðeins meira frí út úr þessu. Jól og áramót þessa árs, þ.e. 2012, verða víst meira frívænni. En núna hinsvegar er vinnudagur hjá mér á morgun og svo er það skemmilegasta verkefnið, að pakka niður jólaskrauti einhvern næstu daga.

1 ummæli:

Villi sagði...

Hefðirnar hefjast bara á nýjan leik um næstu áramót. Ekki má rústa þeim.