miðvikudagur, júní 27, 2012

Afmælisveisla

Ísak Máni dottinn í 13 árin og því var ákveðið að blása til smáveislu.  Ákváðum að taka annan pól á þetta en áður með því að skeyta saman fjölskylduafmælisveislunni og svo vinaafmælisveislunni.  Ekki býður íbúðin okkar upp á svoleiðis þannig að við ákváðum að hugsa út fyrir kassann.  Fundum bara stað í næsta bæjarfélagi, Guðmundarlund í Kópavogi, þar sem grillaðstaða er til staðar og skemmtilegt útivistarsvæði sem var tilvalið fyrir leiki og þessháttar.  Bongóblíða búin að vera og þokkalegt útlit í kortunum þannig að við ákváðum að henda okkur bara í þetta.  Valkostur nr 1 var þriðjudagurinn, daginn eftir afmælisdaginn sjálfan og hlé á EM í fótbolta.  Ekki gekk það þar sem einhver annar var búinn að bóka staðinn.  Við tókum þá bara daginn í dag í staðinn, þrátt fyrir að Portúgal - Spánn væru að spila í undanúrslitum EM og veðurspáin væri ekki alveg eins góð eins og hafði verið. 

Útsýnið undan þakinu
 Ca 30 manna hópur, að okkur 5 meðtöldum, komst á gestalistann.  Veðrið var hlýtt eins og hafði verið síðustu daga, líka milt eins og hafði verið.  En eitthvað urðu þessir síðdegisskúrir sem minnst var á einhversstaðar heldur ýktari en maður hafði reiknað með og það að grillaðstaðan var yfirbyggð var gulls ígildi.  Ég hefði þegið sólina en það var samt ákveðin stemming yfir þessu.  Vinagestirnir létu rigninguna ekkert á sig fá og léku sér meðal trjánna á meðan aðrir tóku því rólega undir þakinu.  Hamborgarar á grillinu og kaka og kex á eftir.  Sumir orðnir frekar kaldir þarna í lokin og þá var bara farið í að selflytja mannskapinn heim fljótlega eftir matinn.  Ég held það sé spáð fínu veðri á morgun...

Engin ummæli: